Hoppa yfir valmynd

Matsnefnd eignarnámsbóta, úrskurður 16. mars 1984

Ár 1984, föstudaginn 16. mars var í Matsnefnd eignarnámsbóta skv. lögum nr. 11/1973 tekið fyrir matsmálið:

               Vegagerð ríkisins
                  gegn
               Jóni Árnasyni og
               Ara B. Hilmarssyni
               Þverá, Öngulsstaðahreppi,
               Eyjafjarðarsýslu
                  og
               Vörubílstjórafélaginu Val
                  og
               Grétari Ólafssyni f.h.
               Barðs s.f., Akureyri

og í því kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r :

I.

Með bréfi dags. 3. febr. 1984 hefur Vegagerð ríkisins, með vísan til 10. kafla vegalaga nr. 6/1977 og laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms, farið þess á leit við Matsnefnd eignarnámsbóta, að metnar verði eignarnámsbætur vegna fyrirhugaðrar efnistöku Vegagerðar ríkisins úr Þveráreyrum í Eyjafirði, sem tilheyrir jörðinni Þverá, Öngulsstaðahreppi, Eyjafjarðarsýslu. Eigendur jarðarinnar séu Ari B. Hilmarsson, Þverá og Jón Árnason, Þverá.

Í matsbeiðni segir á þessa leið:

"Jafnframt er þess krafist, með vísan til 3. gr. laga nr. 11/1973, að felld verði niður meint réttindi Vörubílstjórafélagsins Vals á Akureyri samkvæmt samningi, dags. 19. ágúst 1981, og meint réttindi Barðs s.f., Akureyri, samkvæmt samningi dags. 21. okt. 1982, að því er varðar efnistöku Vegagerðar ríkisins eða verktaka á hennar vegum.

Fyrirhugað er á næstu dögum að bjóða út framkvæmdir við hluta af svonefndum Leiruvegi við Akrureyri, og er áætluð malarefnisþörf nú 25000 m3. Ekki er fyrir hendi annað efni nærtakara í nefndan veg en úr Þveráreyrum. Ekki hefur náðst samkomulag um efnistökuna og er því til þessa matsmáls stofnað.

Til þess getur komið, að gerður verði verksamningur við verktaka um nefnt verk síðari hluta febrúarmánaðar n.k. Er nauðsynlegt, að sá verktaki, sem við verður samið, hafi þá frjálsan og ótakmarkaðan aðgang að völdum efnistökustöðum úr Þveráreyrum. Þess er því farið á leit, að Matsnefnd eignarnámsbóta heimili Vegagerð ríkisins eða verktaka á hennar vegum, með vísan til 14. gr. l. nr. 11/1973, að taka 25000 m3 af jarðefni úr Þveráreyrum og afnemi jafnframt öll takmörkuð réttindi, sbr. 3. gr. sömu laga, þ.e. heimili Vegagerð ríkisins eða verktaka á hennar vegum, frjálsan ámokstur og flutning á nefndu efnismagni."

Mál þetta var tekið fyrir á fundi Matsnefndar eignarnámsbóta, sem haldinn var á jörðinni Þverá í Öngulsstaðahreppi mánudaginn 12. mars 1984. F.h. eignarnema var mættur á fundi þessum Gunnar Gunnarsson, hdl. og með honum Guðmundur Svavarsson, umdæmisverkfræðingur og Sigurður Oddsson, umdæmistæknifræðingur. Einnig voru mættir á fundinum jarðeigendurnir Ari B. Hilmarsson og Jón Árnason og með þeim Jón Kr. Sólnes, hrl. og Gunnar Sólnes, hrl. F.h. Vörubílstjórafélagsins Vals var mættur Björn Jósef Arnviðarson, hdl. og með honum Stefán Árnason, framkvæmdastjóri Vals. F.h. Grétars Ólafssonar vegna Barðs s.f. mætti Björn Jósef Arnviðarson, hdl.

Var nú gengið á vettvang, að viðstöddum öllum ofangreindum aðilum, og landið og allar aðstæður á staðnum skoðaðar.

Klukkan 15:30 sama dag var fundinum haldið áfram á skrifstofu Vegagerðar ríkisins á Akureyri. F.h. landeigenda mætti þá Jón Kr. Sólnes, hrl. og lagði fram nr. 8 - 9 reikning og samning. Björn Jósef Arnviðarson, hdl. mætti fyrir sömu aðila og áður og með honum Stefán Árnason, framkvæmdastjóri og Jón Grétarsson einn af eigendum Barðs s.f. Björn Jósef lagði fram nr. 10 - 11 afrit af bréfi sínu til eignarnema ásamt útreiknuðum áætluðum tímafjölda við að aka 25 þús. rúmm. af möl úr námu á Þveráreyrum í 1. áfanga Leiruvegar.

Fór nú fram munnlegur málflutningur um kröfur eignarnema í málinu og tók fyrstur til máls Jón kr. Sólnes, hrl. og sagði kröfur umbjóðenda sinna í málinu vera þær, að fá fullar bætur fyrir það efni, sem tekið yrði úr Þveráreyrum og væru það að þeirra áliti kr. 12.31 pr. rúmm., og vísaði lögmaður um það efni m.a. til mskj. nr. 8 og 9.

Björn Jósef Arnviðarson, hdl. kvað kröfur bílstjórafélagsins Vals vera þær, að fá fullar bætur fyrir þau takmörkuðu eignarréttindi sem þeir ættu þarna, en beint tap þeirra næmi hverri klukkustund, sem þeir misstu við flutning á efni frá þessum stað.

Björn Jósef kvað beint tap Barðs s.f. vera kr. 9.00 pr. rúmm., en áætlaðan kostnað við að koma hverjum rúmmetra á bíl kvað hann vera kr. 20.00.

Björn Jósef kvaðst véfangja heimild vegalaga til að afnema réttindi Bílstjórafélagsins Vals og Barðs s.f., þau sem um ræðir í málinu, þar sem vegalögin heimili aðeins eignarnáms á landi og efni og því skorti lagaheimild til þess að taka réttindi þessi eignarnámi, ef ekki nái fram að ganga eignarnám á efninu sjálfu.

Lögmaður eignarnema mótmælti fjárkröfum þeim, sem fram hefðu komið í málinu. hann ítrekaði kröfur eignarnema um full umráð á efnistöku og flutningi efnisins af staðnum, skv. heimild í 14. gr. og 3. gr. laga nr. 11/1973 og vísaði að öðru leyti til matsbeiðni sinnar um þessi atriði.

Leitað var um sættir í málinu en árangurslaust.

Í sambandi við sáttaumleitun í málinu töldu lögmenn eignarnámsþolanna, að ekki hefði fyrir þetta eignarnám nægilega verið kannað og reynt, hvort ekki gæti náðst samkomulag án eignarnáms.

Að beiðni Matsnefndarinnar skýrðu þeir Guðmundur Svavarsson, umdæmisverkfræðingur og Stefán Árnason, framkvstj. frá þeim viðræðum, sem fram hefðu farið milli þeirra um hugsanlega samninga í málinu. Telur Matsnefndin að það hafi komið nægilega fram í frásögn þeirra, að svo mikið hafi borið á milli aðilanna, að ekkert útlit hafi verið fyrir, að þeir næðu sáttum.

Aðilar lögðu síðan atriðið í úrskurð og var það tekið til úrskurðar varðandi umráða eignarnema skv. 14. gr. laga nr. 11/1973.

II.

Hinn 19. desember 1983 sendu bændurnir Ari B. Hilmarsson og Jón Árnason Vegagerðinni svofellt bréf:

"Málefni: Réttindi til aksturs og malarmoksturs úr malarnámum í landi Þverár.

Vegna frétta af fyrirhuguðu útboði á uppfyllingu vegna Leiruvegar, sjá undirritaðir sér ekki annað fært en að vekja athygli yðar á eftirfarandi.

1.   Í gildi er samningur milli undirritaðra og Vörubílstjórafélagsins Vals, Akureyri um einkarétt þess félags á malarflutningum úr námum í landi Þverár.

   Samningur þessi tók gildi 19.08.1981 og gildir til 19.08.1989.

2.   Í gildi er samningur milli undirritaðra og Barðs sf., Akureyri, um einkarétt þess félags á öllum malarmokstri í námum í landi Þverár.

   Samningur þessi tók gildi 21.10.82 og gildir til 19.08.89."

Í samningi dags. 19. ágúst 1981, segir m.a. á þessa leið:
"Ég undirritaður Ari B. Hilmarsson, sem sótt hef um inngöngu í Vörubílstjórafélagið Val á Akureyri, skuldbind mig hér með til þess, með þeim takmörkunum er síðar greinir, að láta félaginu eftir allan akstur á malarefni af Þveráreyrum þ.e. úr landi Þverár í Öngulsstaðahreppi, Eyjafirði."
.........................................................................................................................................
"Ef malarefni er fyrir hendi, skulu jarðeigendur selja Vörubílstjórafélaginu Val, (Bifreiðastöðin Stefnir) það malarefni sem félagið sem heild þarf á að halda vegna tilboðsverka og/eða annarra samningsverka. Félagið skal semja við jarðeigendur um efnistökuna í hverju tilviki fyrir sig og greiða fyrir það gangverð sem jarðeigendur selja efnið á, á hverjum tíma. Félagið skal taka efnið í samráði við og undir stjórn jarðeigenda, þar á svæðinu sem jarðeigendur ákveða. Jarðeigendur áskilja sér allan rétt til að neita þeim aðilum um efnissölu, öðrum en félaginu, sem þeim þykir ástæða til. Jarðeigendur undanskilja sig ábyrgð á breytingum þessarar greinar ef jarðanefnd eða náttúruverndarráð láta stöðva efnistöku af einhverjum ástæðum".
...................................................................................................................................................................
Í samningi dags. 21. október 1982 segir á þessa leið:
"Barð sf. skal hafa forgangsrétt að öllum malarmokstri í malarnámum landeigenda, og skal réttur þessi gilda frá undirskrift samnings þessa til 19. ágúst 1989."
........................................................................................................................................
"Samningur þessi takmarkast af ákvæðum samnings milli landeigenda og Vörubílstjórafélagsins Vals, Akureyri dags. 18. ágúst 1981."
.........................................................................................................................................

III.

Mál þetta var tekið fyrir í Matsnefnd eignarnámsbóta 12. mars 1984. Var þá gengið á vettvang og landið og allar aðstæður skoðaðar. Leitað var um sættir með aðilum en árangurslaust, enda eignarnemi ekki fús til að greiða það verð fyrir efnið, sem eignarnámsþolar fara fram á og ekki fús til að hlíta ákvæðum framangreindra samninga við Val og Barð s.f.

Sama dag fór fram munnlegur málflutningur um ágreiningsefnið, sem á þessu stigi er, að fyrst verði úrskurðað um kröfu eignarnema skv. 14. gr. laga nr. 11/1973, og var það atriði lagt í úrskurð og tekið til úrskurðar hjá Matsnefndinni.

Eignarnámsheimildina er að finna í 59. gr. vegalaga nr. 6/1977, en þar segir, að hver landeigandi sé skyldur til að láta af hendi land það, er þurfi undir vegi eða til breikkunar eða breytingar eða viðhalds vegum, svo og að leyfa að efni til vegar sé tekið í landi hans hvort heldur sé grjót, möl eða önnur jarðefni, enda komi fullar bætur fyrir. Bætur fyrir jarðrask og eignarnám á óyrktu landi skuli því aðeins greiddar, að þeirra sé krafist og álitið verði að landeigandi hafi beðið skaða við það.

Skv. þessu eru eigendum jarðarinnar Þverár í Öngulsstaðahreppi skylt að láta af hendi við eignarnema það efnismagn, sem hann hefur krafist eignarnáms á í þessu máli. Eignarnemi hefur gert þá kröfu, með vísan til 14. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms að fá nú þegar umráð efnis þess sem um ræðir í máli þessu þótt mati sé ekki lokið, svo og að ráðast í þær framkvæmdir sem séu tilefni eignarnámsins sem og flutning efnisins af staðnum.

Matsnefndin telur að það muni ekki á neinn hátt torvelda framgang efnismats á malarefni því sem um ræðir né spilla sönnunargögnum fyrir landeigendum, þótt eignarnema verði nú þegar veitt leyfi til þess að fá umráð þeirra 25000 rúmm., sem eignarnemi gerir kröfu um.

Að svo vöxnu máli samþykkir nefndin með samhljóða atkvæðum, og með vísan til 14. gr. laga nr. 11/1973, að leyfa eignarnema nú þegar óskert afnot og umráð yfir þeim 25000 rúmm., sem hann gerir kröfu um í málinu, svo og umferðarrétt að og frá svæðinu, vinnslu efnisins og geymslu þess á svæðinu meðan á framkvæmdum þessum stendur.

Fram er komið í máli þessu að landeigendur hafa samið um það við Vörubílstjórafélagið Val svo og Barð s.f., að þessir aðilar skuli hafa einkarétt á malarflutningum úr námum í landi Þverár, svo og einkarétt á öllum malarmokstri í námum þessum.

Eignarnemi hefur krafist þess í málinu, að meint réttindi Vörubílstjórafélagsins Vals og meint réttindi Barðs s.f. verði felld niður og vísar hann til 3. gr. laga nr. 11/1973 um það efni. Í 3. gr. laganna segir, að ef eigi leiði annað af heimildarlögum megi með eignarnámi afla eignarréttar að landi og mannvirkjum ásamt því sem þeim fylgir, skerða um ákveðinn tíma eða fyrir fullt og allt eignarrétt eða takmörkuð eignarréttindi yfir fasteign og stofna eða fella niður afnotaréttindi, ítaksréttindi og önnur takmörkuð eignarréttindi yfir fasteignum. Þegar aflað sé eignarréttar með eignarnámi skuli öll takmörkuð eignarréttindi jafnframt afnumin nema annað sé sérstaklega ákveðið.

Matsnefndin lítur svo á, að þegar eignarréttar sé aflað með eignarnámi, eins og í máli því sem hér um ræðir, þar sem byggt sé á lögmætri eignarnámsheimild, þá nái eignar- og umráðaréttur landeigenda ekki lengur til þess efnis, sem þannig sé tekið eignarnámi. Samkvæmt því hafa landeigendur í þessu máli ekki umráðarétt yfir því efni, sem tekið hefur verið eignarnámi samkvæmt lögmætri eignarnámsheimild og fellir Matsnefndin því miður, með vísan til 3. gr. laga nr. 11/1973 þau takmörkuðu eignarréttindi sem Vörubílstjórafélagið Valur og Barð s.f. hafa aflað sér með áðurgreindum samningum.

Samkvæmt þessu heimilar Matsnefndin eignarnema eða verktaka á hans vegum frjálsan ámokstur, vinnslu og flutning á því efnismagni 25000 rúmm., úr Þveráreyrum, sem um ræðir í þessu máli.

Við efnismat á malarefninu síðar verður úrskurðað um málskostnað eignarnámsþolum til handa af öllu málinu.

Úrskurð þenna hafa kveðið upp þeir Egill Sigurgeirsson, hrl. formaður nefndarinnar, Báður Daníelsson, verkfræðingur og Björn Bjarnarson, ráðunautur, sem formaður hefur kvatt til meðferðar þessa máls skv. 2. gr. laga nr. 11/1973.

Þ v í ú r s k u r ð a s t :

Eignarnema, Vegagerð ríkisins, eða verktaka á hans vegum, er heimilt að taka nú þegar umráð þeirra 25000 rúmmetra jarðefnis úr Þveráreyrum, sem um ræðir í máli þessu, svo og að vinna efnismagn þetta á svæðinu og geyma það þar meðan á framkvæmdum stendur svo og ámokstur og flutning efnisins af svæðinu. Er eignarnema heimill umferðarréttur um námusvæðið til fullnægingar þessum framkvæmdum.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum