Hoppa yfir valmynd
F%C3%A9lagsd%C3%B3mur

Mál nr. 3/2005: Dómur frá 15. apríl 2005

Ár 2005, föstudaginn 15. apríl, var í Félagsdómi í málinu nr. 3/2005:

Vélstjórafélag Íslands

(Friðrik Á. Hermannsson hdl.)

gegn

Útgerðarfélaginu Sólbaki ehf.

(Magnús Helgi Árnason hdl.)

kveðinn upp svofelldur

 

D Ó M U R :

 

Mál þetta var dómtekið að loknum munnlegum málflutningi 29. mars sl.

Málið dæma Eggert Óskarsson, Gylfi Knudsen, Kristjana Jónsdóttir, Gunnar Sæmundsson og Valgeir Pálsson.

 

Stefnandi er Vélstjórafélag Íslands, kt. 690269-3419, Borgartúni 18, Reykjavík.

 

Stefndi er Útgerðarfélagið Sólbakur ehf., kt. 640904-2080, Fiskitanga, Akureyri.

 

Dómkröfur stefnanda 

Að viðurkennt verði að Útgerðarfélagið Sólbakur ehf. hafi brotið gegn ákvæði 3. mgr. greinar 5.12. í kjarasamningi milli Landssambands íslenskra útvegsmanna og Vélstjórafélags Íslands, með því að tryggja ekki vélstjórunum Kristjáni Júlíusi Erlingssyni, kt. 080655-4369 og Guðmundi Helga Steingrímssyni, kt. 211068-5239, að lágmarki 30 klukkustunda hafnarfrí eftir komu fiskiskipsins Sólbaks EA-7, skipaskrárnúmer 2262, til Eskifjarðar, að aflokinni veiðiferð, miðvikudaginn 29. september 2004.

Að Útgerðarfélagið Sólbakur ehf. verði dæmt til að greiða stefnanda málskostnað að skaðlausu.

 

Dómkröfur stefnda 

Að stefndi verði sýknaður af dómkröfum stefnanda.

Að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað.

 

Málavextir

Með samningi dags. 20. september 2004, leigði Brim hf., stefnda, fiskiskipið Sólbak EA-7, án allra veiðiheimilda.  Í framhaldi af því var gengið frá ráðningarsamningum við skipverja Sólbaks EA-7 sem stefnandi telur að fari í verulegum atriðum í bága við ákvæði kjarasamninga sjómanna og útvegsmanna.  Samningurinn var birtur á heimasíðu Brims hf., en í samningnum segir meðal annars orðrétt um töku hafnarfría:

Hafnarfrí er því almennt ein veiðiferð af hverjum þremur veiðiferðum, almennt er hver veiðiferð 5 til 7 sólarhringar.”

Þá segir orðrétt í samningnum: 

Útgerðarfélagið Sólbakur ehf. er utan við heildarsamtök útvegsmanna og ofangreindur sjómaður staðfestir með undirskrift sinni að vera utan stéttarfélags sjómanna.”

Strax í kjölfar leigu Sólbaks EA-7 frá Brimi hf. til stefnda og undirritun framangreinds samnings milli fyrirsvarsmanna stefnda og áhafnarinnar á Sólbaki EA-7 bárust skrifstofu stefnanda beiðnir vélstjóranna tveggja á Sólbaki EA um úrsögn úr félaginu. Úrsagnarbeiðni vélstjórans Guðmundar Helga Steingrímssonar barst félaginu 27. september 2004 en úrsagnarbeiðni vélstjórans Kristjáns Júlíusar Erlingssonar, barst félaginu ekki fyrr en 8. október 2004.

Kristján Júlíus Erlingsson var lögskráður í stöðu yfirvélstjóra á Sólbaki EA-7 þann 24. september 2004 og sama dag var Guðmundur Helgi Steingrímsson lögskráður í stöðu 1. vélstjóra.  Sólbaki EA-7 var síðan haldið til veiða frá Akureyrarhöfn föstudaginn 24. september kl. 17:00 og var komið til hafnar í Eskifirði kl. 13:00 miðvikudaginn 29. september 2004.  Skipinu var haldið aftur til veiða kl. 17:00 þann sama dag.

Stefnandi höfðaði mál á hendur Brimi hf. með þingfestingu stefnu fyrir Félagsdómi 12. október 2004 enda taldi stefnandi sýnt að Brim hf. hefði brotið gegn ákvæði 3. mgr. greinar 5.12. í kjarasamningi milli Landssambands íslenskra útvegsmanna og Vélstjórafélags Íslands með því að stöðva Sólbak EA-7 einungis í 4 klukkustundir í Eskifjarðarhöfn í stað 30, eins og framangreint kjarasamningsákvæði kveður á um, eftir að skipið kom til Eskifjarðarhafnar, að aflokinni veiðiferð, miðvikudaginn 29. september 2004.  Stefnandi taldi leigusamninginn um Sólbak EA-7 milli Brims hf. og stefnda gerðan til málamynda og væri hann af þeim sökum ógildur.  Hinn raunverulegi útgerðaraðili skipsins væri Brim hf.  Með dómi Félagsdóms í máli nr. F-14/2004, sem kveðinn var upp 24. febrúar 2005, var Brim hf. sýknað af kröfum stefnanda.  Taldi Félagsdómur stefnda útgerðaraðila Sólbaks EA-7 en ekki Brim hf.  Af þeim sökum sé málshöfðun þessi á hendur Útgerðarfélaginu Sólbaki ehf. nauðsynleg.

 

Málsástæður stefnanda og lagarök

Stefnandi kveðst byggja mál sitt á eftirfarandi málsástæðum:

Byggt er á því að stefndi hafi brotið gegn ákvæði 3. mgr. greinar 5.12. í kjarasamningi milli Landssambands íslenskra útvegsmanna og Vélstjórafélags Íslands, með því að tryggja ekki vélstjórunum Kristjáni Júlíusi Erlingssyni, kt. 080655-4369 og Guðmundi Helga Steingrímssyni, kt. 211068-5239, að lágmarki 30 klukkustunda hafnarfrí eftir löndun úr fiskiskipinu Sólbaki EA-7, skipaskrárnúmer 2262, á Eskifirði, miðvikudaginn 29. september 2004. 

Í 2. mgr. greinar 5.12. í kjarasamningnum segir orðrétt: Hafnarfrí skal vera 1 klst. fyrir hverja 6 ½ klst. af útivistartíma skipsins.”  Síðan segir í 3. mgr. greinar 5.12.: Hafnarfrí skal þó aldrei vera skemmri tími en 30 klst. að lokinni útivist hverju sinni.” Útivist skips sé skilgreind svo í ákvæði 4. mgr. greinar 5.12. í kjarasamningnum: “ Útivist skipsins skal reiknast frá því að lagt er af stað með skipið úr höfn í veiðiferð til þess tíma sem skip kemur til hafnar og hafnarfrí hefst.”

Ákvæði greinar 5.12. í kjarasamningnum sé að finna í V. kafla samningsins en í kaflanum sé að finna sérákvæði um kaup og kjör vélstjóra sem starfa á skipum þar sem stundaðar eru veiðar með botnvörpu.  Ákvæði greinar 5.12. fjalli sérstaklega um löndunar- og hafnarfrí vélstjóra á togurum þar sem veiðar séu stundaðar með botnvörpu.  Sólbakur EA-7 sé skuttogari og í veiðiferð sem lauk miðvikudaginn 29. september 2004, voru á togaranum stundaðar veiðar með botnvörpu.  Um löndunar- og hafnarfrí vélstjóranna tveggja á Sólbaki EA-7 hafi því gilt í umrætt sinn framangreint ákvæði greinar 5.12. í kjarasamningi milli Landssambands íslenskra útvegsmanna og Vélstjórafélags Íslands.

Ákvæði 3. mgr. greinar 5.12. í kjarasamningi milli Landssambands íslenskra útvegsmanna og Vélstjórafélags Íslands kveði á um skyldu stefnda til að tryggja vélstjórum Sólbaks EA-7 að minnsta kosti 30 klukkustunda hafnarfrí að aflokinni hverri veiðiferð skipsins.  Sólbaki EA-7 var haldið til veiða föstudaginn 24. september 2004 kl. 17:00 og kom skipið til hafnar á Eskifirði að aflokinni veiðiferð miðvikudaginn 29. september 2004 kl. 13:00.  Veiðiferð skipsins tók því samtals 116 klukkustundir og samkvæmt ákvæði 2. mgr. greinar 5.12. í kjarasamningi aðila átti hafnarfrí vélstjóranna því að nema tæpum 18 klukkustundum.  Stefndi veitti vélstjórunum hins vegar aðeins 4 klukkustunda hafnarfrí, en skipinu var haldið aftur til veiða kl. 17:00 miðvikudaginn 29. september 2004 eftir einungis fjögurra klukkustunda viðkomu.  Fyrirsvarsmenn stefnda hafi því í umrætt sinn brotið hvort tveggja gegn ákvæðum 2. og 3. mgr. greinar 5.12. í kjarasamningi milli Landssambands íslenskra útvegsmanna og Vélstjórafélags Íslands. 

Samkvæmt f-lið 2. gr. laga Vélstjórafélags Íslands sé tilgangur félagsins meðal annars sá að sjá til þess að kjarasamningum félagsins sé fylgt.  Ákvæði 3. mgr. greinar 5.12. í kjarasamningi milli Landssambands íslenskra útvegsmanna og Vélstjórafélags Íslands hafi verið brotið miðvikudaginn 29. september 2004, þegar lágmarks 30 klukkustunda hafnarfrí var ekki virt að aflokinni 116 klukkustunda veiðiferð Sólbaks EA-7.  Reglur um lágmarkshafnarfrí yfirvélstjóra skipsins, Kristjáns Júlíusar Erlingssonar og 1. vélstjóra þess, Guðmundar Helga Steingrímssonar, voru því brotnar.  Báðir vélstjórarnir voru félagsmenn Vélstjórafélags Íslands þegar núgildandi kjarasamningur milli Landssambands íslenskra útvegsmanna og Vélstjórafélags Íslands var samþykktur í atkvæðagreiðslu félagsmanna Vélstjórafélags Íslands vorið 2001.  Breyti því engu þótt vélstjórarnir hafi nú báðir sagt sig úr Vélstjórafélagi Íslands, Guðmundur Helgi 23. september 2004 (6 dögum áður en ákvæði kjarasamningsins var brotið) og Kristján Júlíus 8. október 2004 (9 dögum eftir að brotið átti sér stað).

Þeir Guðmundur Helgi Steingrímsson og Kristján Júlíus Erlingsson þurfi að sæta því að vera bundnir við ákvæði kjarasamningsins milli Landssambands íslenskra útvegsmanna og Vélstjórafélags Íslands til 31. desember 2005, þrátt fyrir úrsögn sína úr Vélstjórafélagi Íslands.  Sú niðurstaða byggir á 2. mgr. 3. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur, en þar segir orðrétt:

Meðlimur stéttarfélags hættir að vera bundinn af samþykktum félags síns og sambands þess, þegar hann samkvæmt reglum félagsins er farinn úr því, en samningar þeir, sem hann hefur orðið bundinn af, á meðan hann var félagsmaður, eru skuldbindandi fyrir hann, meðan hann vinnur þau störf, sem samningurinn er um, þar til þeir fyrst gætu fallið úr gildi samkvæmt uppsögn.”

Samkvæmt framangreindu er gerð krafa um að viðurkennt verði að stefndi hafi brotið gegn ákvæði 3. mgr. greinar 5.12. í kjarasamningi milli Landssambands íslenskra útvegsmanna og Vélstjórafélags Íslands, með því að tryggja ekki vélstjórunum Kristjáni Júlíusi Erlingssyni, kt. 080655-4369 og Guðmundi Helga Steingrímssyni, kt. 211068-5239, að lágmarki 30 klukkustunda hafnarfrí eftir komu fiskiskipsins Sólbaks EA-7, skipaskrárnúmer 2262, til Eskifjarðar, að aflokinni veiðiferð, miðvikudaginn 29. september 2004.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, sbr. 5. gr. laga nr. 69/1993, skulu laun og önnur starfskjör sem aðildarsamtök vinnumarkaðarins semja um, vera lágmarkskjör fyrir alla launamenn í viðkomandi starfsgrein á svæði því er samningurinn tekur til, óháð kyni, þjóðerni eða ráðningartíma.  Samningar einstakra launamanna og atvinnurekanda um lakari kjör en hinir almennu kjarasamningar ákveða skulu ógildir.

Hinn almenni kjarasamningur vélstjóra á fiskiskipum sem gerð séu út frá Norðurlandi, sé kjarasamningurinn milli Landssambands íslenskra útvegsmanna og Vélstjórafélags Íslands. Samningurinn feli því í sér lágmarkskjör vélstjóranna á Sólbaki EA-7, þar með talin ákvæðin um töku hafnarfría á skuttogurum en á þeim séu stundaðar veiðar með botnvörpu. Breytir þar engu um þótt bæði stefndi og vélstjórarnir tveir standi utan hagsmunasamtaka útvegsmanna annars vegar og sjómanna hins vegar.  Þar fyrir utan er á því byggt að vélstjórarnir séu hvort eð er bundnir við þau kjör sem kveðið sé á um í kjarasamningnum milli Landssambands íslenskra útvegsmanna og Vélstjórafélags Íslands út gildistíma hans, þ.e. til 31. desember 2005, sbr. ákvæði 2. mgr. 3. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur, enda voru þeir félagsmenn Vélstjórafélags Íslands þegar kjarasamningurinn var undirritaður 9. maí 2001.

Framangreindum málsástæðum til frekari stuðnings er vísað til dóms Félagsdóms í máli nr. F-7/1998, Vélstjórafélag Íslands gegn Nesbrú ehf., sem kveðinn var upp 17. september 1998. Orðrétt segir meðal annars í forsendum og niðurstöðum Félagsdóms:

Stefndi er bundinn af kjarasamningi þeim sem stefnandi byggir kröfur sínar á og skiptir ekki máli í því sambandi að stefndi er ekki aðili að ofangreindum kjarasamningi, sbr. 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda.”

Stefnandi kveðst byggja á ákvæðum greinar 5.12. í kjarasamningi milli Landssambands íslenskra útvegsmanna og Vélstjórafélags Íslands og 1. gr. laga um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda nr. 55/1980, sbr. 5. gr. laga nr. 69/1993 og 1. mgr. 130. gr. einkamálalaga nr. 91/1991.

 

Málsástæður stefnda og lagarök

Af hálfu stefnda er gerð grein fyrir aðdraganda ráðningarsamningsins sem gerður var 20. september 2004.  Tekið er fram að skipverjar sem áhuga höfðu á að ráða sig í áhöfn Sólbaks EA-7 og þáverandi útgerð skipsins, Brim h.f, hafi reynt að beita sér fyrir breytingu á ákvæðum kjarasamnings um hafnarfrí skipverja. Vegna fyrirhugaðra breytinga hafi verið rætt við félag atvinnurekanda og fulltrúa stéttarfélaga. Breyting sem útgerð og áhöfn beittu sér fyrir gerði ráð fyrir því að hver veiðiferð skipsins Sóbaks EA-7 væri almennt 5 til 7 sólarhringa og ráðnar yrðu þrjár áhafnir á skipið, samtals 18 menn, en 12 menn yrðu í áhöfn í hverri veiðiferð og 6 menn í fríi. Markmið útgerðar og áhafnar hafi verið að bæta hag væntanlegrar áhafnar með lengri frítíma í klukkustundum og samfelldum frítíma, hagur útgerðar fælist í betri nýtingu skipsins Sólbaks EA-7.

Stéttarfélög, þar á meðal stefnandi, hafi ekki viljað breyta ákvæðum í kjarasamningi þess efnis að skipinu bæri að liggja í höfn í 30 klukkustundir að lokinni hverri veiðiferð.

Þegar ákvörðun stéttarfélaga skipverja, þar á meðal stefnanda var ljós, hafi  eigandi Sólbaks EA-7 ákveðið að stofna sérstakt félag sem annaðist útgerð skipsins og að það félag væri utan félags atvinnurekanda.  Félag var stofnað, Útgerðarfélagið Sólbakur ehf., stefndi í máli þessu, og ráðningarsamningur var gerður við hvern sjómann sem ráðinn var til skipsins, var það gert 20. september 2004.

Stefndi byggir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á aðildarskorti, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 69. gr. laga nr. 80/1938. Óumdeilt sé að stefndi sé hvorki aðili að Samtökum atvinnulífsins né Landssambandi íslenskra útvegsmanna, enda sé hann ekki skyldur til að vera aðili þessara samtaka. Þá sé stefndi ekki aðili að kjarasamningi milli Landssambands íslenskra útvegsmanna og Vélstjórafélags Íslands sem stefnandi vísar til í stefnu.

Stefndi vísar til dóms Hæstaréttar í máli nr. 114/2004, Íslensk erfðagreining ehf. gegn Rafiðnaðarsambandi Íslands, sem kveðinn var upp 21. október 2004. Í niðurstöðu dómsins komi fram túlkun á 1. gr. laga nr. 55/1980:

„Ágreiningslaust er að Samtök atvinnulífsins og Samtök atvinnurekenda í raf- og tölvuiðnaði séu sambönd atvinnurekenda og að áfrýjandi eigi ekki aðild að þeim. Stefndi Rafiðnaðarsamband Íslands er samband launþegafélaga í rafiðnaði. Þessir aðilar gerðu með sér kjarasamning 24. mars 2000, þar sem kveðið er á um eftirmenntunargjald sem vinnuveitendur greiða. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 55/1980 skulu laun og önnur starfskjör, sem aðildarsamtök vinnumarkaðarins semja  um, vera lágmarkskjör fyrir alla launamenn í viðkomandi starfsgrein. Samningar einstakra launamanna og atvinnurekenda um lakari kjör en hinir almennu kjarasamningar ákveði skuli ógildir. Þessi lagagrein veitir launamönnum rétt samkvæmt efni hennar og þá kröfu eiga þeir á vinnuveitanda. Í 1. mgr. 6. gr. laganna er kveðið á um skyldur allra atvinnurekenda að greiða í sjúkrasjóði og orlofssjóði viðkomandi stéttarfélaga iðgjöld sem samið sé um hverju sinni í kjarasamningum. Kröfur samkvæmt þessari lagagrein eiga stéttarfélögin á hendur öllum atvinnurekendum vegna þessara tvenns konar sjóða og er það tæmandi talning. Verða kröfur þeirra vegna annarra sjóða en þar eru tilgreindir ekki reistar á þessu lagaákvæði. Greiðsla í eftirmenntunarsjóð er þar ekki nefnd og brestur stefnda heimild til þess að krefja áfrýjanda um gjöldin. Verður áfrýjandi því sýknaður af kröfu stefnda.”

Það sé ágreiningslaust að Samtök atvinnulífsins og Landssamband íslenskra útvegsmanna séu sambönd atvinnurekenda og að stefndi eigi ekki aðild að þeim samtökum. Samkvæmt framangreindum dómi Hæstaréttar veiti 1. gr. laga nr. 55/1980 launamönnum rétt samkvæmt efni greinarinnar og þann rétt eigi þeir á vinnuveitanda, í tilviki því sem fjallað sé um í greindum dómi eigi stéttarfélag rafiðnaðarmanna ekki rétt á hendur vinnuveitanda sem ekki sé aðili að sambandi atvinnurekanda og þar með ekki aðili að kjarasamningi. Sama tilvik sé upp í máli þessu, stéttarfélag stefnanda eigi ekki aðild að máli gegn stefnda, Útgerðarfélaginu Sólbaki ehf., sem er utan sambanda atvinnurekanda.

Stefndi andmælir því að stefnandi geti byggt á 2. mgr. 3. gr. laga 80/1938 til stuðnings dómkröfu sinni.  Það lagaákvæði hafi á tímum verkfalla komið í veg fyrir það að meðlimur stéttarfélags gangi úr félagi til þess eins að vera undanþeginn verkfalli við sömu störf hjá öðrum vinnuveitanda sem verkfall tekur ekki til. Ákvæði 2. mgr. 3. gr. laga 80/1938 beri að skýra með hliðsjón af 74. gr. stjórnarskrár Íslands, 11. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, 1. gr. laga 55/1980 og dómaframkvæmd. Vísar stefndi sérstaklega til dóms Félagsdóms í máli nr. 2/2004 í því sambandi. Ákvæðið verði ekki skilið svo að félagsmenn stéttarfélaga þurfi að sætta sig við lakari kjör þegar hægt sé að semja um betri kjör en kjarasamningur kveður á um með ráðningarsamningi við aðila, sem ekki eigi aðild að þeim kjarasamningi. Í þessu máli sé ekki sú staða uppi, vegna yfirvofandi verkfalls eða vegna starfslegra hagsmuna, að réttlætt geti að félagsmenn stefnanda þurfi gegn vilja sínum að sæta því að vera bundnir við ákvæði kjarasamnings stefnanda, sem felur í sér lakari hafnarfrí en gildur ráðningarsamningur geri ráð fyrir.

Þá vísar stefndi til dóms Hæstaréttar frá 9. október 2003 í máli nr. 46/2003. Í niðurstöðu komi eftirfarandi fram:

„Samningsumboð stéttarfélaga, sem um ræðir í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur, er leitt frá þeim launþegum, sem félögin koma fram fyrir. Verður þetta ákvæði því ekki skilið svo að það girði fyrir að launþegar geti eftir lögmætri skipan samið sjálfir um atriði varðandi kjör sín, sem snúa að einstaklingsbundnum hagsmunum á vinnustað þeirra.”

Í nýgerðum samningi milli Sjómannafélags Eyjafjarðar og Félags Skipstjórnarmanna við Samherja hf. sé samið um breytingu á fyrirkomulagi hafnarfría ísfiskiskipa Samherja hf. í sama anda og sé að finna í ráðningarsamningi skipverja á Sólbaki EA-7 og stefnda.

Á skipinu Sólbak sé skiptimannakerfi. Skipverjar séu í fríi þriðju hverja veiðiferð. Almennt starfi enginn skipverji um borð í skipinu í fleiri sólarhringa en 22 á hverju 30 sólarhringa tímabili. Hafnarfrí sé því ein veiðiferð af hverjum þremur veiðiferðum, almennt sé hver veiðiferð 5 til 7 sólarhringar. Hafnarfrí skipverja Sólbaks EA-7 sé 144 klukkustundir miðað við þrjár 6 sólarhringa veiðiferðir. Skipverji vinni tvær veiðiferðir eða 288 klukkustundir en eigi hafnarfrí þriðju veiðiferð 144 klukkustundir. Útivist skipsins skuli reiknast frá því að skipið leggi af stað úr höfn í veiðiferð til þess tíma sem skip komi til hafnar og frí hefjist.

Samkvæmt grein 5.12 í kjarasamningi stefnanda sé hafnarfrí 1 klukkustund fyrir hverja 6 ½ klukkustund af útivistartíma. Samkvæmt ráðningarsamningi stefnda og skipverja Sólbaks EA-7 sé hafnarfrí 1 klukkustund fyrir hverjar 2 klukkustundir af útivistartíma. Ákvæði ráðningarsamnings skipverja og stefnda um hafnarfrí sé mjög hagfellt skipverjum og útgerð, og hafi skipverjar lýst ánægju sinni með fyrirkomulag hafnarfría meðal annars í framlagðri yfirlýsingu skipverja sem skipverjar sendu fjölmiðlum. Ákvæði kjarasamnings stefnanda um hafnarfrí sé löngu úrelt að mati stefnda, ákvæðið hafi verið eðlilegt þegar skip sambærileg Sólbaki EA-7 voru 12 til 15 sólarhringa að veiðum.

Stefndi byggir kröfu um sýknu á ákvæðum laga nr. 80/1938, lögum nr. 91/1991 um aðild, auk laga nr. 55/1980. Þá byggir stefndi á ákvæði 74. gr. stjórnarskrár Íslands um félagafrelsi, ákvæðum laga um lögræði nr. 71/1997 og lögum nr. 7/1936 um samningsgerð o.fl. Krafa um málskostnað er studd við 130 gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

 

Niðurstaða

Mál þetta á undir Félagsdóm samkvæmt 2. tölul. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur.

Dómkrafa stefnanda í málinu er að viðurkennt verði að stefndi hafi brotið gegn ákvæði 3. mgr. greinar 5.12 í kjarasamningi, sem undirritaður var 9. maí 2001 milli Landssambands íslenskra útvegsmanna annars vegar og stefnanda hins vegar,  með því að tryggja ekki tilgreindum tveimur vélstjórum, þeim Kristjáni Júlíusi Erlingssyni og Guðmundi Helga Steingrímssyni, fyrrum félagsmönnum í stefnanda, lágmarks hafnarfrí eftir komu fiskiskipsins Sólbaks EA-7 til Eskifjarðar, að aflokinni veiðiferð, miðvikudaginn 29. september 2004. Umræddir vélstjórar sögðu sig úr Vélstjórafélagi Íslands með bréfum sem bárust stéttarfélaginu 27. september og 8. október 2004. Þá höfðu þeir ásamt öðrum skipverjum á greindu skipi gert ráðningarsamning við hið stefnda útgerðarfélag um kaup og kjör skipverja á fiskiskipinu Sólbaki EA-7. Í þeim ráðningarsamningi er meðal annars samið um hafnarfrí. Stefnandi vísar til þess að samkvæmt 1. gr. laga nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, með áorðnum breytingum, sbr. lög nr. 69/1993, skuli laun og önnur starfskjör, sem heildarsamtök vinnumarkaðarins semji um, vera lágmarkskjör fyrir alla launamenn í viðkomandi starfsgrein á því svæði sem samningurinn taki til, óháð kyni, þjóðerni eða ráðningartíma. Samningar einstakra launamanna og atvinnurekanda um lakari kjör en hinir almennu kjarasamningar ákveði skuli ógildir. Greindur kjarasamningur feli í sér lágmarkskjör, þar á meðal varðandi töku hafnarfría, og sé um ófrávíkjanlegt og skyldubundið ákvæði að tefla. Engu breyti þótt bæði hið stefnda útgerðarfélag og greindir vélstjórar standi utan hagsmunasamtaka útvegsmanna annars vegar og sjómanna hins vegar, auk þess sem vélstjórarnir séu samkvæmt 2. mgr. 3. gr. laga nr. 80/1938 bundnir við ákvæði kjarasamningsins út gildistíma hans, þ.e. til 31. desember 2005. Verður að skilja málatilbúnað stefnanda svo að ekki skipti máli hvort umræddur ráðningarsamningur feli í sér betri eða lakari kjör varðandi hafnarfrí en greindur kjarasamningur mælir fyrir um.

Stefndi byggir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á aðildarskorti, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, sbr. 69. gr. laga nr. 80/1938, sem rökstutt er með því að stefndi sé hvorki aðili að Samtökum atvinnulífsins, Landssambandi íslenskra útvegsmanna né umræddum kjarasamningi. Vísar stefndi til dóms Hæstaréttar Íslands frá 21. október 2004 í málinu nr. 114/2004 varðandi túlkun á 1. gr. laga nr. 55/1980.  Í öðru lagi byggir stefndi sýknukröfu sína á því að ráðningarsamningur skipverja feli í sér betri kjör um hafnarfrí en kjarasamningurinn kveði á um, sbr. nánari rökstuðning stefnda, meðal annars varðandi túlkun á 2. mgr. 3. gr. laga nr. 80/1938.

Vegna viðbáru stefnda um aðildarskort skal tekið fram að enda þótt stefndi sé hvorki aðili að greindum kjarasamningi né hinum tilgreindu samtökum atvinnurekenda ber honum vegna ákvæða 1. gr. laga nr. 55/1980 að virða lágmarkskjör samkvæmt kjarasamningnum og er hann með þeim hætti bundinn af honum, sbr. m.a. Fd. XI:308. Verður sýknukrafa stefnda því ekki tekin til greina á grundvelli aðildarskorts. Tilvísun stefnda til greinds dóms Hæstaréttar Íslands frá 21. október 2004 verður að skilja svo að það sé ekki stefnanda heldur greindra vélstjóra að reka réttar síns samkvæmt 1. gr. laga nr. 55/1980. Samkvæmt 1. mgr. 45. gr. laga nr. 80/1938 reka sambönd verkalýðsfélaga og atvinnurekendafélaga fyrir hönd meðlima sinna mál fyrir Félagsdómi. Félög, sem ekki eru meðlimir sambandanna, reka sjálf mál sín og meðlima sinna. Ófélagsbundnir aðilar reka mál sín sjálfir. Þegar meint brot stefnda á ákvæði kjarasamningsins varðandi hafnarfrí var framið hafði annar vélstjóranna ekki sagt sig úr stéttarfélaginu og hinn var, þrátt fyrir úrsögn sína, bundinn kjarasamningnum samkvæmt 2. mgr. 3. gr. laga nr. 80/1938. Þegar þetta er virt og jafnframt horft til þess að sakarefnið varðar meint brot á umræddum gildandi kjarasamningi, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 80/1938, verður sýknukrafa stefnda ekki tekin til greina á þeim grundvelli að það sé ekki á valdi stefnanda að sækja þann rétt til hafnarfría samkvæmt kjarasamningnum sem um ræðir í máli þessu, enda verður ekki talið að túlka beri greindan dóm Hæstaréttar Íslands með þeim hætti sem stefndi heldur fram, meðal annars með tilliti til ólíkra málsatvika í því máli. Samkvæmt þessu verður að telja að úrlausn málsins velti á því hvort stefndi hafi brotið gegn ákvæði 5.12 um hafnarfrí í kjarasamningnum með því að gæta ekki ákvæðisins í umræddu tilfelli. Í því sambandi kemur til athugunar hvort ákvæði ráðningarsamningsins um hafnarfrí hafi þýðingu sem betri eða lakari kjör.

Í grein 5.12 í greindum kjarasamningi er meðal annars mælt svo fyrir að hafnarfrí skuli vera ein klst. fyrir hverja 6 1/2 klst. af útivistartíma skips. Hafnarfrí skuli þó aldrei vera skemmri tími en 30 klst. að lokinni útivist hverju sinni. Þá eru ákvæði um það hvernig ákvarða beri útivistartíma skips. Í umræddum ráðningarsamningi um kaup og kjör skipverja á fiskiskipinu Sólbak EA-7, sem mun hafa verið gerður 20. september 2004, er mælt svo fyrir að almennt starfi enginn skipverji um borð í skipinu í fleiri sólarhringa en 22 á hverju 30 sólarhringa tímabili. Hafnarfrí sé því almennt ein veiðiferð af hverjum þremur veiðiferðum, almennt sé hver veiðiferð 5 til 7 sólarhringar. Af hálfu stefnda er leitast við að bera greind ákvæði um hafnarfrí saman og bent á að samkvæmt kjarasamningnum sé hafnarfrí ein klst. fyrir hverja 6 1/2 klst. af útivistartíma, en samkvæmt ráðningarsamningi stefnda og skipverja Sólbaks EA-7 sé hafnarfrí ein klst. fyrir hverjar tvær klst. af útivistartíma. Séu ákvæði ráðningarsamningsins um hafnarfrí mjög hagfelld skipverjum, enda hafi þeir lýst yfir ánægju sinni með þau.

Með ákvæðum ráðningarsamningsins um hafnarfrí er ljóst að ákvæðum kjarasamningsins um sama efni hefur í grundvallaratriðum verið kollvarpað. Að því athuguðu og þegar litið er til eðlis þeirra starfskjara, sem felast í hafnarfríum, þykja naumast efni til samanburðar á ákvæðum kjarasamningsins annars vegar og ráðningarsamningsins hins vegar að þessu leyti með tilliti til áskilnaðar 1. gr. laga nr. 55/1980. Þá hefur stefndi ekki með viðhlítandi hætti lagt fram heildstæðan og markvissan samanburð, heldur nánast varpað því fram með almennum hætti að ákvæði um hafnarfrí samkvæmt ráðningarsamningnum séu hagstæðari. Verður sýknukrafa stefnda því ekki tekin til greina á þeim grundvelli að ráðningarsamningurinn feli í sér betri kjör um hafnarfrí en umræddur kjarasamningur.

Samkvæmt framansögðu verður krafa stefnanda í máli þessu tekin til greina.

Eftir þessum málsúrslitum ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda málskostnað sem ákveðst 250.000 krónur.

 

D Ó M S O R Ð :

Viðurkennt er að stefndi, Útgerðarfélagið Sólbakur ehf., hafi brotið gegn ákvæði 3. mgr. greinar 5.12 í kjarasamningi milli Landssambands íslenskra útvegsmanna og Vélstjórafélags Íslands með því að tryggja ekki vélstjórunum Kristjáni Júlíusi Erlingssyni, kt. 080655-4369, og Guðmundi Helga Steingrímssyni, kt. 211068-5239, að lágmarki 30 klukkustunda hafnarfrí eftir komu fiskiskipsins Sólbaks EA-7, skipaskrárnúmer 2262, til Eskifjarðar, að aflokinni veiðiferð, miðvikudaginn 29. september 2004.

Stefndi greiði stefnanda, Vélstjórafélagi Íslands, 250.000 krónur í málskostnað.

 

Eggert Óskarsson

Gylfi Knudsen

Kristjana Jónsdóttir

Gunnar Sæmundsson

  

Sératkvæði

Valgeirs Pálssonar

Ég er sammála niðurstöðu meiri hluta dómenda að stefndi verði ekki sýknaður á grundvelli aðildarskorts.

Stefndi er utan heildarsamtaka útgerðarmanna og á því ekki aðild að þeim kjarasamningi sem stefnandi kveður hann hafa brotið.  Honum verður því ekki gert að hlíta kjarasamningnum samkvæmt orðanna hljóðan svo fremi þess sé gætt að í ráðningarkjörum skipverja séu virt ákvæði um lágmarkskjör, sbr. 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda.  Undir rekstri málsins hefur verið upplýst að í kjarasamningi milli Sjómannasambands Íslands fyrir hönd tilgreindra aðildarfélaga sinna annars vegar og Landssambands íslenskra útvegsmanna og Samtaka atvinnulífsins hins vegar frá 30. október 2004 var samið um sérstaka heimild til að víkja frá samhljóða ákvæði um hafnarfrí og deilt er um í máli þessu varðandi skuttogara.  Felst í fráviki þessu skylda stéttarfélaga til að láta fara fram sameiginlega atkvæðagreiðslu meðal skipverja, sem ráðnir eru á skip, hafi komið fram ósk frá skipverjum um að hafnarfrí verði tekin í frítúrum þannig að á milli veiðiferða stoppi skipið aðeins þann tíma sem tekur að landa úr því.  Í ákvæði þessu felst því í reynd að skipverjar, sem eru í stéttarfélögum sjómanna sem aðild eiga að Sjómannasambandi Íslands, geta með atbeina stéttarfélaga sinna samið um sams konar fyrirkomulag á töku hafnarfría og greinir í ráðningarsamningi stefnda við skipverja Sólbaks EA-7.

Kröfu stefnanda ber að skilja svo að viðurkennt verði að stefndi hafi brotið ákvæði nefnds kjarasamnings um hafnarfrí á þann hátt að í því hafi falist brot gegn 1. gr. laga nr. 55/1980.  Lýtur krafan að fjögurra klukkustunda löngu hafnarfríi í eitt skipti þann 29. september 2004.  Að öðru leyti liggur ekkert fyrir í gögnum málsins um fyrirkomulag hafnarfría hjá þeim tveimur vélstjórum sem stefnandi kveður að brotið hafi verið á.  Samkvæmt þessu, og þegar horft er til hins nýja ákvæðis í kjarasamningi sjómanna, verður að telja að stefnandi hafi ekki sýnt fram á að með téðu hafnarfríi einu og sér hafi falist brot á ákvæði 3. mgr. greinar 5.12 í kjarasamningi milli hans og Landssambands íslenskra útvegsmanna þannig að stefndi hafi ekki tryggt skipverjum Sólbaks EA-7 lágmarkskjör samkvæmt 1. gr. laga nr. 55/1980.

Atkvæði mitt verður því að sýkna beri stefnda af öllum kröfum stefnanda, en eftir atvikum sé rétt að málskostnaður falli niður.

 

Valgeir Pálsson.

 

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum