Hoppa yfir valmynd

Valgeirsson ehf., kærir ákvörðun Fiskistofu, dags. 6. júlí 2012, um að hafna umsókn kæranda um að bátnum Rán ÍS-261, skipaskrárnúmer 7118 verði úthlutað af byggðakvóta Flateyrar í Ísafjarðarbæ fyrir fiskveiðiárið 2011/2012.

Stjórnsýslukæra

    Ráðuneytið vísar til stjórnsýslukæru Eyþórs Fannars Valgeirssonar f.h. Valgeirsson ehf., Fjarðargötu 49, Þingeyri, dags. 24. júlí 2012, sem barst ráðuneytinu með tölvubréfi sama dag, þar sem kærð er til ráðuneytisins ákvörðun Fiskistofu, dags. 6. júlí 2012, um að hafna umsókn kæranda um að bátnum Rán ÍS-261, skipaskrárnúmer 7118 verði úthlutað af byggðakvóta Flateyrar í Ísafjarðarbæ fyrir fiskveiðiárið 2011/2012.
    Kæruheimild er í 8. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.


Kröfur kæranda

    Kærandi krefst þess að felld verði úr gildi hin kærða ákvörðun Fiskistofu, dags. 6. júlí 2012, um að hafna umsókn kæranda, Eyþórs Fannars Valgeirssonar f.h. Valgeirsson ehf., um að bátnum Rán ÍS-261 (7118) verði úthlutað af byggðakvóta Flateyrar í Ísafjarðarbæ fyrir fiskveiðiárið 2011/2012.


Málsatvik

    Málsatvik eru þau að með auglýsingu, dags. 21. júní 2012, sem birt var í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu 22. sama mánaðar, auglýsti Fiskistofa eftir umsóknum um úthlutun byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2011/2012 í byggðarlögum Ísafjarðarbæjar, m.a. á Flateyri í Ísafjarðarbæ en auglýsingin var byggð á 8. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, sbr. og 5. gr. reglugerðar nr. 1182/2011, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2011/2012. Einnig var framangreind auglýsing birt á vefsíðu Fiskistofu og tölvupóstur með auglýsingunni sendur til viðkomandi sveitarfélaga þar sem þau voru beðin um að setja frétt um auglýsinguna inn á sínar heimasíður. Umsóknarfrestur var til og með 5. júlí 2012. Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið hafði þá úthlutað 530 þorskígildistonnum af byggðakvóta til Ísafjarðarbæjar sem skiptust á byggðarlögin Hnífsdal, 19 þorskígildistonn, Þingeyri, 85 þorskígildistonn, Flateyri, 300 þorskígildistonn, Suðureyri, 60 þorskígildistonn og Ísafjörð, 66 þorskígildistonn. Úthlutunin var tilkynnt Ísafjarðarbæ með bréfi, dags. 21. desember 2011.
    Kærandi sótti um byggðakvóta fyrir bátinn Rán ÍS-261 (7118) með umsókn til Fiskistofu, dags. 3. mars 2012.
    Hinn 6. júlí 2012 tilkynnti Fiskistofa eigendum og útgerðaraðilum báta á Flateyri í Ísafjarðarbæ ákvarðanir sínar um úthlutun byggðakvóta til einstakra fiskiskipa eða höfnun umsókna um úthlutun. Ákvarðanir Fiskistofu voru byggðar á 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, ákvæðum reglugerðar nr. 1182/2011, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2011/2012 og auglýsingu (VI) nr. 534/2012, um staðfestingu reglna sveitarfélaga um úthlutun byggðakvóta. Samkvæmt hinni kærðu ákvörðun Fiskistofu í máli þessu, dags. 6. júlí 2012, var hafnað umsókn kæranda um að bátnum Rán ÍS-261 (7118) yrði úthlutað byggðakvóta fyrir fiskveiðiárið 2011/2012. Í ákvörðuninni kom fram að samkvæmt staflið a 1. gr. reglugerðar nr. 1182/2011 verði fiskiskip að hafa gilt leyfi til veiða í atvinnuskyni við lok umsóknarfrests til að koma til greina við úthlutun. Skipið Rán ÍS-261 (7118) hafi ekki haft almennt leyfi til fiskveiða síðan 14. október 2009. Af framangreindu leiði að ekki komi til úthlutunar byggðakvóta til skipsins.
    Þá kom fram í hinni kærðu ákvörðun Fiskistofu að hún væri kæranleg til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins og að kærufrestur væri tvær vikur frá framangreindri tilkynningu Fiskistofu um höfnun umsóknar um úthlutun.


Málsástæður í stjórnsýslukæru o.fl.

    Með stjórnsýslukæru, dags. 24. júlí 2012, sem barst ráðuneytinu með tölvubréfi sama dag, kærði Eyþór Fannar Valgeirsson f.h. Valgeirsson ehf. framangreinda ákvörðun Fiskistofu til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins.
    Í stjórnsýslukærunni gerir kærandi grein fyrir starfsemi kæranda við veiðar og fiskverkun á Flateyri í Ísafjarðarbæ frá árinu 2009, er kærandi hafi keypt bátinn Rán ÍS-261 (7118). Þar sem báturinn hafi verið með haffærisskírteini og strandveiðileyfi hafi kærandi talið að báturinn væri með gild leyfi til veiða og ef kæmi til úthlutunar byggðakvóta þá myndi kærandi koma til með að sitja við sama borð og aðrir bátar í byggðarlaginu sem höfðu landað við sömu bryggju.
    Með bréfi, dags. 9. ágúst 2012, óskaði ráðuneytið eftir umsögn Fiskistofu um stjórnsýslukæruna, staðfestu afriti af hinni kærðu ákvörðun auk annarra gagna sem Fiskistofa kynni að hafa um málið.
    Í umsögn Fiskistofu, dags. 27. september 2012, sem barst ráðuneytinu sama dag, segir m.a. að eins og komi fram í ákvörðun Fiskistofu, dags. 6. júlí 2012, og staðfest sé í stjórnsýslukærunni til ráðuneytisins þá hafi umræddur bátur ekki haft leyfi til veiða í atvinnuskyni en slíkt sé skilyrði fyrir úthlutun byggðakvóta, sbr. staflið a 1. gr. reglugerðar nr. 1182/2011, um úthlutun byggðakvóta til fiskiskipa á fiskveiðiárinu 2011/2012.
    Eftirtalin gögn fylgdu umsögn Fiskistofu til ráðuneytisins: 1) staðfest afrit af hinni kærðu ákvörðun Fiskistofu, dags. 6. júlí 2012 og 2) ljósrit af umókn kæranda um úthlutun byggðakvóta fyrir bátinn Rán ÍS-261 (7118), dags. 3. mars 2012.


Rökstuðningur

I.    Með tölvubréfi frá 24. júlí 2012, sem barst ráðuneytinu sama dag, var stjórnsýslukæra í máli þessu móttekin af sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu, sem fór með málefni samkvæmt lögum nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum. Með forsetaúrskurði nr. 99/2012, um skiptingu Stjórnarráðs Íslands í ráðuneyti, voru sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti, iðnaðarráðuneyti og efnahags- og viðskiptaráðuneyti sameinuð í nýtt ráðuneyti, atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti, sbr. og forsetaúrskurður nr. 100/2012, um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, og tóku úrskurðirnir gildi 1. september 2012. Úrskurður í máli þessu er því kveðinn upp af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti sem nú fer með málefni samkvæmt lögum nr. 116/2006 og tók við eldri málum sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins samkvæmt þeim lögum.

II.    Kæra í máli þessu er byggð á 8. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, en samkvæmt ákvæðinu er kærufrestur í málinu tvær vikur. Kæran barst ráðuneytinu með tölvubréfi þann 24. júlí 2012, eða fjórum dögum eftir að kærufrestur vegna hinnar kærðu ákvörðunar Fiskistofu, dags. 6. júlí 2012, rann út samkvæmt framangreindu ákvæði .
    Það er mat ráðuneytisins að ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1993, gildi einnig um meðferð þessa máls að því leyti sem ekki eru sérstök ákvæði um það í framangreindum lögum nr. 116/2006. Í 28. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 eru m.a. ákvæði um hvernig eigi að fara með þegar kæra berst að liðnum kærufresti. Þar segir að hafi kæra borist að liðnum kærufresti skuli vísa henni frá, nema: 1) afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða 2) veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar. Kæru skal þó ekki sinnt ef meira en ár er liðið frá því að ákvörðun var tilkynnt aðila.
    Ákvörðun Fiskistofu í máli þessu var tilkynnt kæranda með bréfi, dags. 6. júlí 2012. Stjórnsýslukæra í máli þessu barst ráðuneytinu hins vegar með tölvubréfi þann 24. júlí 2012, eða fjórum dögum eftir að kærufrestur rann út samkvæmt 8. mgr. 10. gr. laga nr. 116/2006. Ekki hafa komið fram skýringar af hálfu kæranda um ástæður þess að kæran barst ekki innan kærufrests samkvæmt framangreindu ákvæði.
    Með vísan til framanritaðs er það niðurstaða ráðuneytisins að vísa beri frá stjórnsýslukæru í máli þessu.
    Beðist er velvirðingar á þeim töfum sem hafa orðið á uppkvaðningu þessa úrskurðar en þær er að rekja til mikilla anna í ráðuneytinu.


Úrskurður

    Stjórnsýslukæru Valgeirsson ehf. í máli þessu er vísað frá.

Fyrir hönd ráðherra
Ingvi Már Pálsson.

Sigríður Norðmann.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum