Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 117/2014

Mál nr. 117/2014

Fimmtudaginn 22. desember 2016

A

gegn

umboðsmanni skuldara

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Sigríður Ingvarsdóttir formaður, Eggert Óskarsson og Þórhildur Líndal.

Þann 3. desember 2014 barst kærunefnd greiðsluaðlögunarmála kæra A. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 21. nóvember 2014 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda voru felldar niður.

Með bréfi 15. desember 2014 óskaði kærunefnd greiðsluaðlögunarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 6. janúar 2015.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi 13. janúar 2015 og henni gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Athugasemdir kæranda bárust 16. janúar 2015 og með bréfi 30. janúar 2015 óskaði kærunefndin eftir afstöðu umboðsmanns skuldara til athugasemda kæranda. Engar frekari athugasemdir bárust.

I. Málsatvik

Kærandi er fædd 1969 og er einhleyp. Hún býr í eigin fasteign sem er 267 fermetra raðhús að B ásamt móður sinni og X börnum, en eitt barnanna er uppkomið. Kærandi starfar á [...].

Heildarskuldir kæranda, samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara frá 18. febrúar 2013, eru 52.854.904 krónur. Kærandi stofnaði til helstu skuldbindinga árið 2007.

Kærandi rekur fjárhagserfiðleika sína til fasteignakaupa, hærri afborgana af húsnæðislánum og lágra tekna vegna fæðingarorlofs.

Kærandi sótti um greiðsluaðlögun 28. ágúst 2012. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 18. febrúar 2013 var kæranda veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar og umsjónarmaður skipaður með greiðsluaðlögunarumleitunum hennar.

Með bréfi umsjónarmanns til umboðsmanns skuldara 27. október 2014 tilkynnti umsjónarmaður að hún teldi að kærandi hefði brugðist skyldum sínum samkvæmt 12. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.) og því ætti að fella greiðsluaðlögunarumleitanir hennar niður á grundvelli 1. mgr. 15. gr. lge. Að mati umsjónarmanns hefði kærandi brotið gegn skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. með því að leggja ekki til hliðar fjármuni á því tímabili sem frestun greiðslna, svokallað greiðsluskjól, hefði staðið yfir. Í bréfi umsjónarmanns kemur fram að miðað við heildartekjur kæranda ætti hún að hafa getað lagt fyrir 2.955.000 krónur á tímabili greiðsluskjóls en hún hafi ekkert lagt til hliðar.

Umboðsmaður skuldara sendi kæranda bréf 30. október 2014 þar sem henni var kynnt framkomin tillaga umsjónarmanns um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir hennar á grundvelli a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. Þá var kæranda jafnframt gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tiltekins frests og leggja fram frekari gögn áður en tekin yrði ákvörðun um hvort fella skyldi niður heimild hennar til greiðsluaðlögunar-umleitana, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Svör kæranda bárust með tölvupósti 29. október 2014.

Með ákvörðun 21. nóvember 2014 felldi umboðsmaður skuldara í framhaldinu niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda með vísan til 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

II. Sjónarmið kæranda

Kærandi kærir ákvörðun umboðsmanns skuldara og óskar eftir því að heimild til að leita greiðsluaðlögunar verði veitt. Til vara óskar kærandi eftir því að heimild til greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna verði veitt.

Kærandi kveðst vera í [nám] og sjái fram á að hækka í launum að því loknu. Þá hafi fasteignaveðlán hennar hækkað mikið og sé það nú 25.000.000 krónum hærra en þegar það hafi upphaflega verið tekið. Kærandi kveður einnig ýmsan kostnað hafa fallið til vegna viðgerða á húsnæði, til að mynda kostnað vegna lekavandamála og bilunar í hitunarkerfi.

Í athugasemdum kæranda kemur fram að hún hafi engar kvittanir vegna viðgerðarkostnaðar á tímabili greiðsluskjóls undir höndum þar sem meirihluti þeirra viðgerða hafi verið unninn gegn greiða til að fá lægra verð. Þá kveðst kærandi einnig hafa greitt mikinn tannlæknakostnað og kostnað vegna skólagöngu á tímabilinu, bæði fyrir hana sjálfa og börn hennar.

Kærandi gerir enn fremur athugasemdir við útreikning launa í hinni kærðu ákvörðun og kveður útborguð laun sín vera 210.000 til 220.000 krónur á mánuði. Auk þess fái hún lífeyrisgreiðslur að fjárhæð 68.000 krónur á mánuði og barnabætur að fjárhæð 35.000 krónur á mánuði.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Af hálfu umboðsmanns skuldara er vísað til þess að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að hindri að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge., skuli umsjónarmaður tilkynna um það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun.

Í 12. gr. lge. sé fjallað um skyldur skuldara á meðan hann nýtur greiðsluskjóls. Í a-lið 1. mgr. 12. gr. segi að skuldari skuli leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða.

Greiðsluskjól kæranda hafi staðið yfir frá 18. febrúar 2013 eða í 19 mánuði sé miðað við tímabilið 1. mars 2013 til 30. september 2014. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum hafi fjárhagur kæranda verið eftirfarandi á neðangreindu tímabili í krónum:

Launatekjur 1. mars 2013 til 30. september 2014 6.245.020
Barnabætur, vaxtabætur og barnalífeyrir 2.325.553
Meðlagsgreiðslur 497.325
Tekjur alls á tímabilinu 9.067.898
Mánaðarlegar meðaltekjur á tímabili greiðsluskjóls 477.258
Framfærslukostnaður á mánuði* 295.518
Greiðslugeta að meðaltali á mánuði 181.740
Samtals greiðslugeta á tímabilinu 3.453.044

*Framfærslukostnaður miðar við útgjöld einstaklings með X börn samkvæmt framfærsluviðmiðum umboðsmanns skuldara í október 2014, auk þess sem byggt var á upplýsingum frá kæranda um annan kostnað.

Kærandi hafi lagt fram skjal úr töflureikniforriti þar sem hún sýni fram á útgjöld að fjárhæð 1.636.609 krónur. Sé tekið tillit til þeirra sé það þó aðeins 50% af þeirri fjárhæð sem kærandi hefði átt að geta lagt til hliðar á tímabili greiðsluskjóls. Auk þess falli hluti þeirra útgjalda sem fram komi í skjalinu innan framfærsluviðmiða embættisins og sé því þegar gert ráð fyrir þeim í áætluðum framfærslukostnaði hennar.

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. skuli umsjónarmaður notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setji. Umsjónarmanni sé almennt óheimilt að miða við annan framfærslukostnað en þann sem reiknaður hafi verið fyrir skuldara með tilliti til fjölskylduaðstæðna. Framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara byggist á hlutlægum viðmiðum um almenna framfærslu með tilliti til fjölskyldustærðar og taki mið af vísitölu. Að auki skuli lagt til grundvallar við mat á því hvort skuldarar hafi sinnt skyldum sínum í greiðsluskjóli að þeim sé jafnan játað nokkurt svigrúm til að mæta óvæntum útgjöldum í mánuði hverjum. Þá sé almennt tekið tillit til annarra útgjaldaliða sem fella megi undir venjulegan heimilisrekstur, sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Að mati umboðsmanns skuldara hafi kærandi ekki veitt umboðsmanni skuldara fullnægjandi skýringar á því hvers vegna hún hafi ekki lagt fé til hliðar á tímabili greiðsluskjóls. Að framangreindu virtu og með hliðsjón af gögnum málsins hafi heimild kæranda til greiðsluaðlögunar verið felld niður samkvæmt 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun verði staðfest með vísan til þeirra forsendna sem fram komi í henni.

V. Niðurstaða

Kærandi óskar eftir því í kæru að henni verði veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar og til vara að henni verði veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna. Með hinni kærðu ákvörðun felldi umboðsmaður skuldara niður greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda samkvæmt 15. gr. lge., en kæruheimild er í sömu lagagrein. Tímabil greiðsluaðlögunarumleitana stendur samkvæmt lagagreininni þar til niðurstaða kærunefndarinnar liggur fyrir. Af þessu leiðir að verði hin kærða ákvörðun felld úr gildi halda greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda áfram. Greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda falla hins vegar niður verði ákvörðun umboðsmanns skuldara staðfest. Því kemur aðeins til þess að greiðsluaðlögunar-umleitanir haldi áfram verði kærunefndin við kröfum kæranda um að fella hina kærðu ákvörðun úr gildi. Kröfu kæranda um að henni verði veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar ber að túlka í samræmi við þetta og kemur sú krafa því ekki frekar til álita við úrlausn málsins. Hvað varakröfu kæranda snertir bendir kærunefndin á að hægt er að leita tímabundinnar greiðsluaðlögunar fasteignaveðkrafna samkvæmt lögum nr. 50/2009.

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge. þar sem fjallað er um skyldur skuldara á meðan leitað er greiðsluaðlögunar.

Á meðan leitað er greiðsluaðlögunar skal skuldari samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Í 2. mgr. 12. gr. kemur fram að telji umsjónarmaður að skuldari hafi brugðist skyldum sínum skuli hann óska þess við umboðsmann skuldara að greiðsluaðlögunarumleitanir verði felldar niður samkvæmt 15. gr. lge.

Greiðsluskjól kæranda hefur staðið yfir í 20 mánuði sé miðað við tímabilið 1. mars 2013 til 31. október 2014. Samkvæmt fyrirliggjandi skattframtölum og launaupplýsingum Ríkisskattstjóra, sem eru meðal gagna málsins, var fjárhagur kæranda eftirfarandi á tímabili greiðsluskjóls í krónum:

Tímabilið 1. mars 2013 til 31. desember 2013: Tíu mánuðir
Nettótekjur kæranda 3.322.266
Nettó mánaðartekjur kæranda að meðaltali 332.227
Tímabilið 1. janúar 2014 til 31. október 2014: Tíu mánuðir
Nettótekjur kæranda 3.246.026
Nettó mánaðartekjur kæranda að meðaltali 324.603

Sé miðað við framfærslukostnað samkvæmt ákvörðun umboðsmanns skuldara og upplýsingar um tekjur kæranda úr skattframtölum var fjárhagur hennar þessi í greiðsluskjóli í krónum:

Tímabilið 1. mars 2013 til 31. október 2014: 20 mánuðir
Nettólaunatekjur alls í greiðsluskjóli 6.568.292
Barnabætur 598.396
Vaxtabætur 1.000.000
Meðlagsgreiðslur 512.560
Barnalífeyrir 512.560
Alls til ráðstöfunar í greiðsluskjóli 9.191.808
Mánaðarlegar ráðstöfunartekjur að meðaltali í greiðsluskjóli 459.590
Mánaðarleg útgjöld samkvæmt ákvörðun umboðsmanns* 295.518
Greiðslugeta kæranda á mánuði 164.072
Alls sparnaður í 20 mánuði í greiðsluskjóli x 164.072 3.281.448

*Framfærslukostnaður miðar við útgjöld einstaklings með X börn samkvæmt framfærsluviðmiðum umboðsmanns skuldara í október 2014, auk þess sem byggt var á upplýsingum frá kæranda um annan kostnað.

Við mat á því hvaða fjárhæð skuldarar eiga að leggja til hliðar af launum sínum í greiðsluskjóli ber samkvæmt 4. mgr. 16. gr. lge. að notast við framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setur. Þegar metið er hvort skuldari hafi sinnt skyldum sínum meðan á frestun greiðslna hefur staðið er gert ráð fyrir svigrúmi til að mæta óvæntum útgjöldum.

Samkvæmt hinni kærðu ákvörðun kveðst kærandi hafa þurft að leggja út fyrir óvæntum útgjöldum á tímabili greiðsluskjóls sem samtals nemi 1.636.609 krónum. Í gögnum málsins er að finna yfirlit bankareiknings úr töflureikni sem kærandi lagði fram, en engar kvittanir er þar að finna vegna hinna óvæntu útgjalda kæranda á tímabilinu. Kærunefndin telur því ekki fært að taka tillit til þeirra við útreikning á því hve mikið kærandi hafi átt að geta lagt til hliðar á tímabili greiðsluskjóls.

Að þessu virtu og í ljósi framangreindra útreikninga hefði kærandi átt að geta lagt fyrir 3.281.448 krónur á tímabili greiðsluskjóls en hún hefur ekki lagt neitt til hliðar. Það er mat kærunefndarinnar að kæranda hafi mátt vera það ljóst, með vísan til skriflegra leiðbeininga umboðsmanns skuldara og þeirrar greiðsluáætlunar sem hún fékk í hendur, að henni hafi borið skylda til að leggja fé til hliðar af tekjum sínum á tímabili greiðsluskjóls. Samkvæmt þessu hefur kærandi ekki sinnt skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Í ljósi þess er að framan greinir telur kærunefndin að umboðsmanni skuldara hafi borið að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kæranda niður samkvæmt 1. mgr. 15. gr., sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Hin kærða ákvörðun er með vísan til þess staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A er staðfest.

Sigríður Ingvarsdóttir

Eggert Óskarsson

Þórhildur Líndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum