Hoppa yfir valmynd
K%C3%A6runefnd%20%C3%BAtbo%C3%B0sm%C3%A1la

Mál nr. 23/2019. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 15. ágúst 2019
í máli nr. 23/2019:
Hópferðabílar Reynis Jóhannssonar ehf. og
Sigurður Sverrir Jónsson
gegn
Ríkiskaupum
Hvalfjarðarsveit og
Skagaverki ehf.

Með kæru móttekinni hjá kærunefnd útboðsmála 22. júlí 2019 kæra Hópferðabílar Reynis Jóhannssonar ehf. og Sigurður Sverrir Jónsson útboð Ríkiskaupa fyrir hönd Hvalfjarðarsveitar (hér eftir vísað til sem varnaraðila) nr. 20912 „Skólaakstur fyrir Hvalfjarðarsveit“. Kærendur krefjast þess að kærunefnd útboðsmála ógildi útboðið og geri varnaraðilum að auglýsa það að nýju. Þá er þess krafist að kærunefnd útboðsmála láti uppi álit sitt á skaðabótaskyldu varnaraðila gagnvart kærendum. Jafnframt er krafist málskostnaðar. Í þessum hluta málsins tekur kærunefnd útboðsmála afstöðu til þess hvort rétt sé að verða við kröfu varnaraðila um að aflétta sjálfkrafa stöðvun hins kærða innkaupaferlis sem komst á með kæru í máli þessu.

Í maí 2019 auglýstu varnaraðilar hið kærða útboð þar sem leitað var tilboða í skólaakstur á fimm ökuleiðum í Hvalfjarðarsveit. Í grein 1.4.1 í útboðslýsingu kom fram að fjárhagslega hagkvæmasta tilboðið yrði valið á grundvelli lægsta verðs vegna hverrar leiðar fyrir sig. Í grein.7 í útboðsgögnum var að finna eftirfarandi skilmála: „Skólastjóra er heimilt að semja við foreldra/aðstandendur nemenda að aka börnum sínum á móts við skólabíl ef það þykir henta og styttist þá akstursleið skólabíls sem því nemur.“ Opnun tilboða fór fram 21. júní 2019 en ekki var haldinn sérstakur opnunarfundur þar sem útboðið fór fram með rafrænum hætti. Í svonefndri opnunarskýrslu sem send var bjóðendum sama dag og tilboð voru opnuð kom fram að tilboð hefðu borist frá þremur bjóðendum, þ.e. frá kærendum og Skagaverki ehf. Ekki var upplýst um fjárhæð tilboða eða önnur atriði þeirra. Hinn 24. júní 2019 birtist opnunarskýrslan á vef varnaraðila Ríkiskaupa og í þeirri útgáfu skýrslunnar komu fjárhæðir tilboðanna fram. Samkvæmt þeirri skýrslu átti Skagaverk ehf. lægstu tilboð í allar akstursleiðirnar. Hinn 12. júlí 2019 tilkynntu varnaraðilar að ákveðið hefði verið að taka tilboði Skagaverks ehf. í allar leiðirnar.

Kærendur byggja á því að varnaraðilar hafi brotið gegn jafnræði bjóðenda enda hafi þeim verið meinað að vera viðstaddir opnun tilboða og bjóðendum ekki verið gefnar fullnægjandi upplýsingar eftir opnun tilboða. Einnig telja kærendur að fyrrnefndur skilmáli í grein 1.4.1 í útboðsgögnum hafi verið ólögmætur. Varnaraðilar vísa til þess að ekki hafi verið skylt að halda opnunarfund þar sem útboðið fór fram með rafrænum hætti og hafi allar upplýsingar verið veittar í samræmi við 65. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup. Opnunarskýrsla með öllum áskildum upplýsingum hafi verið birt einum vinnudegi eftir opnun tilboða, en lögin geri ekki þá kröfu að upplýsingarnar skuli vera aðgengilegar sama dag og opnun fer fram. Skagaverk ehf. hafi átt lægsta tilboð í allar leiðir og önnur tilboð hafi verið yfir þeirri fjárhæð sem varnaraðilar hafi áskilið sem hámarkstilboðsfjárhæð. Þá séu röksemdir sem byggi á ólögmæti greinar 1.4.1 í útboðsgögnum of seint fram komnar.

Niðurstaða

Skilja verður málatilbúnað kæranda með þeim hætti að hann byggi kröfur sínar annars vegar á því að skilmáli í grein 1.4.1 í útboðsgögnum hafi verið ólögmætur og hins vegar á því að bjóðendum hafi ekki verið veittar fullnægjandi upplýsingar í tengslum við opnun tilboða.

Ráðið verður af gögnum málsins að tilboð hafi verið opnuð kl. 15:00 föstudaginn 21. júní 2019 og að bjóðendur hafi samdægurs verið upplýstir um frá hverjum tilboð hafi borist, en fyrir mistök hafi ekki verið veittar upplýsingar um fjárhæð tilboða. Þá liggur fyrir að starfsmaður varnaraðila sendi upplýsingar um tilboðin, þar með talið fjárhæð þeirra, til birtingar með tölvubréfi til vefstjóra kl. 15:30 hinn 21. júní 2019. Vefstjórinn upplýsti með tölvubréfi sem sent var kl. 10:11 hinn 24. sama mánaðar að birting hefði farið fram. Samkvæmt þessu voru upplýsingar um fjárhæð tilboða ekki birtar á vef Ríkiskaupa fyrr en mánudaginn 24. júní 2019. Eins og málið liggur nú fyrir telur kærunefnd útboðsmála þennan drátt sem varð á birtingu upplýsinga um fjárhæðir tilboða vart vera í samræmi við 1. mgr. 65. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup þar sem fram kemur að þegar tilboð eru lögð fram með rafrænum aðferðum skuli tilkynna bjóðendum eftir lok tilboðsfrests um nafn bjóðanda, heildartilboðsupphæð og hvort tilboð sé sett fram sem frávikstilboð.

Röksemdir kæranda sem varða grein 1.4.1 í útboðsgögnum eru allt of seint fram komnar, sbr. 1. mgr. 106. gr. laga um opinber innkaup og geta því ekki haft þýðingu fyrir ákvörðun þessa.

Að teknu tilliti til framangreinds og fyrirliggjandi gagna, sem og þess að ekki verður annað séð en að val á tilboðum hafi verið í samræmi við forsendur útboðsgagna, telur nefndin, eins og mál þetta liggur fyrir nú, ekki hafa verið leiddar verulegar líkur að broti gegn lögunum sem leitt geti til ógildingar ákvörðunar eða annarra athafna varnaraðila, sbr. 1. mgr. 110. gr. laga um opinber innkaup. Samkvæmt þessu verður fallist á kröfu varnaraðila um að sjálfkrafa stöðvun samningsgerðar verði aflétt, sbr. 2. mgr. 107. gr. laganna.

Ákvörðunarorð:

Aflétt er stöðvun samningsgerðar milli varnaraðila, Hvalfjarðarsveitar og Ríkiskaupa, og Skagaverks ehf. í kjölfar útboðs nr. 20912 „Skólaakstur fyrir Hvalfjarðarsveit“.


Reykjavík, 15. ágúst 2019

Ásgerður Ragnarsdóttir

Auður Finnbogadóttir

Eiríkur Jónsson



Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum