Hoppa yfir valmynd

718/2018. Úrskurður frá 3. janúar 2018

Úrskurður

Hinn 3. janúar 2018 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 718/2018 í máli ÚNU 17100001.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 5. október 2017, kærði A afgreiðslu Seðlabanka Íslands og fjármála- og efnahagsráðuneytisins á beiðni hans um gögn.

Í kæru kemur fram að Seðlabanki Íslands og fjármála- og efnahagsráðuneytið hafi synjað kæranda um gögn er snúa að upplýsingum um hvaða einstaklingar og lögaðilar nýttu sér hina svokölluðu fjárfestingaleið Seðlabanka Íslands á þeim tíma sem hún stóð til boða. Seðlabankinn synjaði beiðni kæranda með vísan til þagnarskylduákvæðis 35. gr. laga um Seðlabanka Íslands nr. 36/2001 með bréfi, dags. 13. janúar 2017.

Málsmeðferð

Með bréfi, dags. 9. október 2017, var fjármála- og efnahagsráðuneytinu kynnt kæran og veittur kostur á að koma á framfæri umsögn um hana og frekari rökstuðningi fyrir ákvörðuninni. Þess var jafnframt óskað að úrskurðarnefndinni yrði látið í té afrit af umbeðnum gögnum í trúnaði. Í umsögn fjármála- og efnahagsráðuneytisins, dags. 11. október 2017, kemur fram að erindi úrskurðarnefndarinnar virðist byggja á þeim skilningi að ráðuneytið hafi synjað kæranda um aðgang að gögnum. Hið rétta sé að í svari til kæranda komi fram að ráðuneytið búi ekki yfir umbeðnum upplýsingum. Þar sem ekki liggi fyrir synjun ráðuneytisins á beiðni um afhendingu gagna í skilningi 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 telji ráðuneytið málið ekki heyra undir valdsvið nefndarinnar.

Niðurstaða
1.

Mál þetta lýtur annars vegar að afgreiðslu Seðlabanka Íslands á beiðni kæranda um aðgang að upplýsingum og hins vegar að afgreiðslu fjármála- og efnahagsráðuneytisins á beiðni um aðgang að sömu upplýsingum.

2.

Réttur til aðgangs að gögnum samkvæmt upplýsingalögum tekur til fyrirliggjandi gagna, sbr. 1. mgr. 5. gr. og 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Samkvæmt 20. gr. laganna er heimilt að kæra til úrskurðarnefndar um upplýsingamál synjun stjórnvalds um að veita aðgang að slíkum gögnum. Sama gildir um synjun stjórnvalds á beiðni um að afhenda gögn á því formi sem óskað er. Í umsögn fjármála- og efnahagsráðuneytisins, dags. 11. október 2017, kemur fram að ráðuneytið hafi ekki undir höndum umbeðnar upplýsingar. Úrskurðarnefnd um upplýsingamál hefur ekki ástæðu til að draga þá staðhæfingu í efa. Þar sem þau gögn sem kærandi óskaði eftir eru ekki fyrirliggjandi hjá ráðuneytinu liggur ekki fyrir synjun á afhendingu gagna í skilningi 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012. Þessum hluta kærunnar er því vísað frá úrskurðanefnd um upplýsingamál.

3.

Samkvæmt 1. mgr. 22. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 skal mál skv. 20. gr. borið skriflega undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál innan 30 daga frá því að þeim sem fór fram á aðgang að gögnunum var tilkynnt um ákvörðun stjórnvaldsins. Seðlabanki Íslands synjaði beiðni kæranda með bréfi dags. 13. janúar 2017 en kæra er dagsett 5. október 2017. Kæran barst því tæplega níu mánuðum eftir að kærufrestur skv. 1. mgr. 22. gr. upplýsingalaga rann út. Í svari Seðlabanka Íslands til kæranda var honum þó hvorki leiðbeint um kæruheimild þá sem kveðið er á um í 1. mgr. 20. gr. upplýsingalaga né kærufrest samkvæmt 1. mgr. 22. gr. svo sem er áskilið er í 1. mgr. 19. gr. laganna.

Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. stjórnsýslulaga nr.  37/1993 skal vísa kæru frá ef hún berst að liðnum kærufresti, nema afsakanlegt verði talið að kæran hafi ekki borist fyrr eða veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar. Eins og hér stendur á telur úrskurðarnefndin skilyrði ákvæðisins ekki uppfyllt, enda þótt Seðlabanki Íslands hafi ekki leiðbeint kæranda um kærurétt og kærufrest. Í þessu sambandi athugast að almennur kærufrestur fyrir stjórnsýslukærur er þrír mánuðir, sbr. 1. mgr. 27. gr. stjórnsýslulaga, en kæran barst tæplega hálfu ári eftir það tímamark. Að mati úrskurðarnefndarinnar verður því hvorki talið afsakanlegt að kæra hafi ekki borist fyrr, né að veigamiklar ástæður mæli með því að kæran verði tekin til meðferðar í skilningi 28. gr. laganna. Verður því ekki hjá því komist að vísa þessum hluta kærunnar einnig frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál. Úrskurðarnefndin tekur fram að kæranda er fært að leita aftur til bankans og leggja að nýju fram beiðni um umbeðin gögn.

Úrskurðarorð:

Kæru A, dags. 5. október 2017, á hendur Seðlabanka Íslands og fjármála- og efnahagsráðuneytinu er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

 

Hafsteinn Þór Hauksson

formaður

 

 

Sigurveig Jónsdóttir                                                                                     Friðgeir Björnsson

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum