Hoppa yfir valmynd

ÁLITSGERÐ nefndar skv. 27. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins í máli nr. 2/2002.

A.

1. Aðilar máls

Aðilar máls þessa eru ríkislögreglustjóri, kt. 530697-2079, Skúlagötu 21, Reykjavík og A, kt. [ ], [ ], [ ]. Helgi Magnús Gunnarsson lögfræðingur rak málið f.h. ríkislögreglustjóra en Gylfi Thorlacius hrl. og Kristján Thorlacius hdl. ráku málið f.h. A.

Við meðferð málsins skipuðu nefndina Dögg Pálsdóttir hrl., formaður, Gestur Jónsson hrl., tilnefndur af samtökum ríkisstarfsmanna og Arnar Guðmundsson skólastjóri, tilnefndur af dómsmálaráðuneyti.

Mál þetta barst nefndinni með bréfi ríkislögreglustjóra dags. 25. febrúar 2002. Nefndin var fullskipuð með bréfi fjármálaráðuneytis dags. 18. mars 2002 og hélt hún fyrsta fund vegna meðferðar málsins 10. apríl sl.

2. Málavextir
Með bréfi lögreglustjórans í Reykjavík dags. 11. febrúar 2002 tilkynnti hann ríkislögreglustjóra að [ ] í [ ] hefði, sem settur [ ] í [ ], gefið út ákæru dags. 12. desember 2001 á hendur A, [ ] við embættið. Athygli ríkislögreglustjóra var vakin á þessu með vísan til 26. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996 (hér nefnd starfsmannalög).

Ákæran í máli A er dags. 12. desember 2001. Í ákæru segir að ákveðið hafi verið að höfða opinbert mál á hendur A:

"...fyrir líkamsárás með því að hafa aðfararnótt laugardagsins 18. september 1999, veist að X í andyri húss nr. [ ] við [ ] í [ ], slegið hana í andlit, kastað henni á vegg, sparkað í hana og síðan slegið aftur í andlit hennar, með þeim afleiðingum að hún hlaut mar og yfirborðsáverka á andliti, mar á neðanverðu baki, hægri síðu og mjaðmagrind, og rifbeinsbrot.

Telst þetta varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. lög nr. 20, 1981.
Með vísan til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50, 1993 gerir Y hrl., f.h. X, þá kröfu í málinu að ákærði verði dæmdur til að greiða henni miskabætur að fjárhæð kr. 350.000, auk dráttarvaxta frá 27. desember 2001 til greiðsludags, samkvæmt ákvæðum vaxtalaga nr. 25, 1987, auk kostnaðar af því að halda fram bótakröfu, sbr. 4. mgr. 172. gr. laga nr. 19, 1991, um meðferð opinberra mála.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar. "

Að athuguðum gögnum málsins og ákæru í málinu þótti ríkislögreglustjóra meint brot A það gróf að ekki yrði hjá því komist að veita honum lausn frá störfum með vísan til 2. málsl. 3. mgr. 26. gr. starfsmannalaga enda væru brot hans svo alvarleg að þau hefðu í för með sér sviptingu réttinda samkvæmt 68. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940 (hér nefnd alm.hgl.). Í samræmi við þetta var A veitt lausn um stundarsakir frá störfum samkvæmt bréfi dags. 14. febrúar 2002 þar sem honum var gerð grein fyrir ákvörðuninni og að hún tæki þá þegar gildi. Í bréfinu var A bent á að hann gæti kært ákvörðunina til dómsmálaráðherra, sbr. 5. mgr. 26. gr. starfsmannalaga.

Upphaf málsins er að fyrrum sambýliskona A snéri sér til lögreglunnar í [ ] 23. september 1999 og lagði fram kæru á hendur A vegna grófra líkamsmeiðinga sem hún kvað A hafa beitt hana í og við heimili hans laugardaginn 18. september 1999. Lögreglan yfirheyrði kæranda vegna málsins 11. október s.á. en hinn 8. nóvember s.á. snéri kærandi sér til lögreglu og óskaði eftir að draga kæru sína til baka. [ ] í [ ] tilkynnti kæranda með bréfi dags. 15. nóvember 1999 að í ljósi afturköllunar á kæru hefði rannsókn málsins verið hætt. Næsta árið gerðist ekkert í málinu en 15. desember 2000 snéri kærandi sér aftur til lögreglunnar í [ ] og óskaði eftir að taka upp kæru sína aftur. Með bréfi dags. 27. mars 2001 setti dómsmálaráðherra [ ] í [ ] sem [ ] í [ ] í þessu tiltekna máli. Var það gert að ósk [ ] sem taldi sig vanhæfan í málinu. Eftir að rannsókn setts [ ] hófst leitaði verjandi A til Héraðsdóms [ ] og krafðist þess að ógilt yrði sú ákvörðun setts [ ] að hefja rannsókn á málinu enda skorti lagaskilyrði til þess þar sem rannsókn málsins hefði verið hætt með vísan til 76. gr. laga nr. 19/1991. Héraðsdómur féllst á kröfu verjanda með úrskurði dags. 18. október 2001. Hæstiréttur komst að gagnstæðri niðurstöðu með dómi 26. október s.á. Rannsókn málsins lauk skömmu síðar með útgáfu ákæru dags. 12. desember 2001. Voru brot A talin varða við 1. mgr. 218. gr. alm.hgl.

Hinn 20. mars 2002 gekk dómur í máli A. Í niðurstöðu dómsins kemur fram að A hafi viðurkennt að hafa slegið kæranda einu sinni í andlitið með flötum lófa og tali um kinnhest í því sambandi. Að öðru leyti telji hann sig ekki hafa lagt hendur á kæranda. Framburður kæranda fyrir dómi hafi að mestu verið í samræmi við ákæru. Framburður kæranda sé studdur framburði vitnis sem beri að hún hafi séð úr glugga íbúðar sinnar að ákærði ýtti kæranda sem hafi fallið við og í kjölfarið hafi ákærði sparkað í hana þar sem hún lá. Af ópum að dæma hafi hún meitt sig talsvert. A dró í efa að vitnið hafi getað séð atburði frá íbúð sinni. Dómurinn taldi hins vegar að unnt hefði verið að sjá atburðina frá glugganum. Auk þess hafi framburður vitnisins verið skýr og trúverðugur og í samræmi við framburð kæranda um atburðarásina. Því verði að leggja hann til grundvallar þannig að sannað teljist að A hafi sparkað í kæranda. Hins vegar taldi dómurinn slíkan vafa vera kominn fram um að A hefði valdið rifbeinsbroti kæranda að telja yrði það ósannað. Dómurinn taldi því að brot A yrðu ekki felld undir 1. mgr. 218. gr. alm.hgl. heldur undir 1. mgr. 217. gr. sömu laga. A var dæmdur til að greiða 60 þús. kr. sekt en sæta ella 14 daga fangelsi til vara. Jafnframt var honum gert að greiða kæranda 50 þús. kr. í miskabætur. A áfrýjaði ekki dómnum. Í málavaxtalýsingu A fyrir nefndinni kemur fram að hann hefur ýmsar athugasemdir við niðurstöðu dómsins og þá sérstaklega atriði sem varða framburð vitna sem báru um samskipti hans og fyrrverandi sambýliskonu hans í september 1999. Hann hafi hins vegar ákveðið að una dóminum, þrátt fyrir annmarka á honum.

3. Sjónarmið málsaðila
Ríkislögreglustjóri krefst þess að nefnd skv. 27. gr. starfsmannalaga rannsaki mál A og upplýsi um og leggi mat á hvort honum skuli veitt lausn frá starfi að fullu eða hvort hann skuli taka við embætti sínu aftur. Ríkislögreglustjóri krefst þess einnig að nefndin staðfesti að honum hafi verið rétt að veita A lausn um stundarsakir frá störfum hans sem [ ] við embætti [ ] í [ ].

Ríkislögreglustjóri telur sig bæran til að veita A lausn frá störfum tímabundið eða endanlega, sbr. 1. mgr. 26. gr. og 1. mgr. 31. gr. starfsmannalaga. Því til rökstuðnings bendir hann á að hann fari með málefni lögreglunnar í umboði dómsmálaráðherra, sbr. 4. gr. lögreglulaga, nr. 90/1996 og skipi aðra lögreglumenn en yfirlögregluþjóna og aðstoðaryfirlögregluþjóna samkvæmt 3. mgr. 28. gr. laganna, sbr. 5. gr. laga nr. 29/1998.

Í greinargerð ríkislögreglustjóra kemur fram að tímabundin lausn A byggist á 2. málslið 3. mgr. 26. gr. starfsmannalaga en þar kemur fram, með vísan til 1. málsliðar sömu málsgreinar að veita megi embættismanni lausn um stundarsakir ef hann er grunaður um háttsemi sem hefði í för með sér sviptingu réttinda skv. 68. gr. alm.hgl. Ríkislögreglustjóri telur úrræði 2. málsliðar 3. mgr. 26. gr. hliðsett því úrræði að krefjast í ákæru réttindasviptingar á grundvelli 68. gr. alm.hgl. og 2. mgr. 1. gr., sbr. dlið 1. mgr. 116. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála. Á það er bent að krafa um sviptingu réttinda hafi ekki verið gerð í opinbera málinu.

Ríkislögreglustjóri telur að með því að beita úrræði 2. málsliðar 3. mgr. 26. gr. starfsmannalaga opnist leið til að fyrirbyggja að opinber starfsmaður sem sætir ákæru geti gegnt starfi sínu á meðan, enda kunni slíkt að þykja óviðunandi. Málið fái meðferð fyrir nefndinni sem fari með það til enda óháð hugsanlegri opinberri rannsókn, sbr. orðalag 1. mgr. i.f. 27. gr. starfsmannalaga. Samkvæmt ákvæðinu er unnt að vísa máli til opinberrar rannsóknar samhliða meðferð nefndarinnar. Sambærilegt ákvæði sé í 19. gr. starfsreglna nefndarinnar sem segir að nefndin skuli halda áfram meðferð máls og ljúka því með álitsgerð þótt gefin hafi verið út ákæra og krafist hafi verið sviptingar rétti til að gegna embætti í henni. Ef maður sé sviptur í endanlegum dómi rétti til að gegna embætti skuli hins vegar fella málið niður fyrir nefndinni.

Ríkislögreglustjóri bendir á að samkvæmt 68. gr. alm.hgl. megi, ef opinber starfsmaður fremur refsiverðan verknað, svipta hann í opinberu máli á hendur honum, réttinum til að gegna starfans. Í ákvæðinu sé ekki gerður greinarmunur á því hvort umrædd hegðun sé framin í starfi eða utan heldur velti mat á því hvort viðkomandi teljist hæfur eða verður til að gegna starfinu eftir dóminn.

Ríkislögreglustjóri byggir á því í málinu að með brotum sínum hafi A misst traust og virðingu og skert svo siðferðilegan orðstír sinn, sem sé nauðsynlegur í starfi hans sem lögreglumaður, að hann geti ekki talist verður þess að gegna starfi lögreglumanns. Ríkislögreglustjóri vísar í því sambandi til mats í dómi Hæstaréttar frá 22. mars 2001 í máli nr. 368/2000. Til þess sé að líta að A þurfi í starfi sínu að hafa afskipti af ofbeldisbrotum sem séu sömu brot og hann sjálfur hafi nú hlotið dóm fyrir. Það sé að áliti ríkislögreglustjóra óviðunandi að lögreglumaður sem taki við kærum og hafi afskipti af fórnarlömbum líkamsmeiðinga hafi sjálfur hlotið dóm fyrir sömu hegðun. Lögreglan í heild missi traust sem stofnun ef þess er ekki gætt að þar starfi eingöngu menn sem njóti trausts almennings. Almenningur þurfi að bera fullt traust til lögreglumanna, eins og fram komi í áðurnefndum dómi Hæstaréttar.

Ríkislögreglustjóri telur að A hafi og misst hæfi til að gegna lögreglustarfi því til þess að fá inngöngu í Lögregluskóla ríkisins megi viðkomandi ekki hafa verið dæmdur fyrir refsiverðan verknað samkvæmt almennum hegningarlögum, sbr. alið 2. mgr. 38. gr. lögreglulaga nr. 90/1996. A hafi samkvæmt þessu ekki hæfi til að fá inngöngu í Lögregluskólann, en próf úr skólanum sé skilyrði þess að hann geti gegnt því starfi sem hann hafi.

Þá telur ríkislögreglustjóri að beita megi almennum mælikvarða gagnvart hæfi A til að vera lögreglumaður. Sá mælikvarði byggist á siðferðilegum mælikvörðum og viðhorfi almennings til mismunandi brota. Þrátt fyrir að slíkur mælikvarði sé um margt óljós þá verði ekki fram hjá því litið að á síðari árum hafi þjóðfélagsumræða um líkamlegt ofbeldi og einkum ofbeldi á heimilum gegn konum og börnum verið öll á þann veg að barátta gegn slíkum brotum skuli efld. Sú hegðun sem A hafi verið sakfelldur fyrir, þ.e. að slá, hrinda og sparka í liggjandi konu, sé af almenningi talin siðferðilega ámælisverðari og frekar til þess fallin að ganga nærri siðferðilegum orðstír manns en ýmis önnur brot. Í því sambandi er og vísað til rits Jónatans Þórmundssonar prófessors, Afbrot og refsiábyrgð, bls. 18, þar sem segir að brot samkvæmt almennum hegningarlögum séu yfirleitt því marki brennd að þau brjóti gegn trúar og siðferðisreglum og gegn almennri siðgæðisvitund.

Að öllu þessu virtu telji ríkislögreglustjóri að hegðun A sé svo alvarleg og að hann hafi skert siðferðilega orðstír sinn svo mikið að hann verði ekki talinn verður þess að gegna starfi lögreglumanns skv. 68. gr. alm.hgl.

Ríkislögreglustjóri bendir á að A hafi ekki verið gefinn kostur á að tjá sig um málið áður en ákvörðun um að veita honum lausn frá störfum um stundarsakir var tekin. Sá framgangsmáti sé í samræmi við 3. málslið 4. mgr. 26. gr. starfsmannalaga sem staðfestur hafi verið í margnefndum hæstaréttardómi.

Af hálfu A er þess aðallega krafist að málinu verði vísað frá nefndinni. Til vara er þess krafist að hafnað verði kröfum ríkislögreglustjóra um að honum verði veitt lausn að fullu frá embætti lögreglumanns við embætti [ ] í [ ]. Jafnframt er þess krafist að hafnað verði kröfu ríkislögreglustjóra um staðfestingu á ákvörðun hans um lausn A frá störfum um stundarsakir.

Aðalkröfu sína byggir A á því að nefndin hafi ekki heimild lögum samkvæmt til að fjalla um málið. Af orðalagi 27. gr. starfsmannalaga sé skýrt að nefndinni sé einungis ætlað að fjalla um mál þar sem embættismenn hafi verið leystir frá embætti fyrir brot í starfi. Brot A varði ekki brot í starfi heldur hafi atvik átt sér stað í frítíma hans. Jafnframt hafi ríkislögreglustjóri brotið rétt á A með því að gefa honum ekki kost á að neyta andmælaréttar áður en ákvörðun um að leysa hann frá embætti um stundarsakir var tekin. Andmælaréttur A sé þó ótvíræður samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga. Þá hafi reglur stjórnsýsluréttar um meðalhóf og jafnræði ekki verið í heiðri hafðar af hálfu ríkislögreglustjóra. Ákvörðun hafi verið tekin áður en til þess hafi verið nægilegur grundvöllur. A hafi verið valdið óþarfa tjóni þar sem hann hafi verið leystur frá embætti í febrúar 2002 áður en dómur gekk í málinu. Gangi það gegn meginreglu stjórnsýsluréttar um meðalhóf. Óskiljanlegt sé af hverju svo skyndilega hafi verið ráðist í þessar aðgerðir á þessum tíma þegar fyrir liggur að ákæra var gefin út í desember 2001, tveimur mánuðum áður en varnaraðili var leystur frá embætti um stundarsakir.

Þar sem ákvörðun um að leysa A frá um stundarsakir hafi verið ólögmæt geti nefndin ekki staðfest þá ákvörðun. Þar sem nefndinni sé þannig ómögulegt að staðfesta hina ólögmætu ákvörðun ríkislögreglustjóra sé henni samkvæmt 2. mgr. 29. gr. starfsmannalaga einnig ómögulegt að taka ákvörðun um að rétt sé að víkja A frá að fullu.

Varakröfu um að hafnað verði kröfum ríkislögreglustjóra um fullnaðarlausn frá embætti byggir A að öðru leyti á því að ekki sé lagalegur grundvöllur til þess að verða við kröfunni. Samkvæmt 1. mgr. 29. gr. starfsmannalaga skuli víkja embættismanni úr embætti að fullu hafi hann verið sviptur með fullnaðardómi rétti til að gegna embættinu. A hafi ekki verið sviptur rétti til að gegna embætti lögreglumanns með dómi og af hálfu ákæruvaldsins hafi ekki verið gerð krafa um embættismissi. Það bendi eindregið til þess að settur [ ] hafi metið það svo að ekki væri ástæða til að A missti embættisgengi sitt vegna þeirra brota sem hann var ákærður fyrir. Sú staðreynd sé sterk vísbending um að hafna beri öllum kröfum ríkislögreglustjóra í málinu.

A bendir á að af hálfu ríkislögreglustjóra sé ítrekað vísað til 68. gr. alm.hgl. og mats á því hvort háttsemi sú sem honum sé gefin að sök hafi í för með sér sviptingu réttinda samkvæmt ákvæðinu. A bendir á að 68. gr. eigi ekki við í málinu þar sem 3. mgr. 29. gr. starfsmannalaga eigi samkvæmt orðalagi sínu aðeins við þegar embættismanni sé vikið úr embætti að fullu án fyrirvara. Sú hafi ekki verið raunin í máli A og því geti nefndin ekki byggt á 68. gr. við meðferð málsins.

Telji nefndin að málið eigi að taka til efnismeðferðar þá gerir A athugasemdir við röksemdir ríkislögreglustjóra um virkni og gildissvið 68. gr. alm.hgl. Vísun til hæstaréttarmáls nr. 368/2000 eigi ekki við í málinu þar sem um bótamál hafi verið að ræða. A telur sig ekki hafa gerst sekan um það athæfi sem honum var gefið að sök í ákæru. Hann játi að hafa gefið fyrrverandi sambýliskonu sinni kinnhest og hann hafi einungis verið sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. alm.hgl. Ekki séu því til staðar skilyrði þau sem 68. gr. alm.hgl. setur til að heimilt sé að svipta mann embætti sínu. Leit í dómasöfnum leiði í ljós að 1. mgr. 68. gr. alm.hgl. hafi aldrei verið beitt af Hæstarétti frá því að ákvæðið var lögfest með lögum nr. 31/1961. Mælikvarði sá sem leitað sé að í málinu liggi því ekki fyrir í dómafordæmum. Það segi allt sem segja þurfi um þær miklu kröfur sem gerðar séu til þess að brot embættismanns varði við 68. gr. alm.hgl. Kröfurnar um að brot sé stórfellt og alvarlegt séu svo miklar að aldrei hafi á 40 árum reynt á beitingu ákvæðisins fyrir Hæstarétti þótt ljóst sé að brot embættismanna í starfi hafi verið fjölmörg á þessum tíma.

A mótmælir því að brot þau sem hann hafi verið sakfelldur fyrir séu þess eðlis að þau falli undir ákvæði 68. gr. alm.hgl. þar sem ljóst sé af orðalagi ákvæðisins að brot þurfi að vera stórfellt og mjög alvarlegt til að ákvæðinu sé beitt. A hafi einvörðungu verið sakfelldur fyrir minniháttar líkamsárás og hafi viðurkennt að hafa gefið konunni kinnhest, sem geti alls ekki talist grundvöllur embættismissis. Embættismissir sé sérstaklega alvarleg og viðamikil ákvörðun sem hafi stórfelldar og varanlegar afleiðingar. Verði það niðurstaða nefndarinnar að svipta beri A embætti sé hann þar með sviptur ævistarfi sínu og lífsviðurværi því sem hann hefur menntun til að gegna.

Þá er af hálfu A á það bent að verði hann leystur frá embætti að fullu feli sú athöfn í sér brot gegn jafnræðisreglu stjórnsýslulaga, sbr. 11. gr. laga nr. 37/1993. Fyrir liggi að fjölmargir opinberir starfsmenn hafi verið sakfelldir fyrir brot gegn almennum hegningarlögum án þess að hafa verið sviptir starfi sínu. A vísar í því sambandi til dóms Hæstaréttar frá árinu 1989, bls. 512 og héraðsdómsmálanna S-1347/1999 (Reykjanes) og S-998/1996 (Reykjavík). Af dómunum megi draga þá ályktun að verði A leystur frá embætti geti það falið í sér brot á jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar og jafnframt bakað íslenska ríkinu bótaskyldu vegna ólögmætrar uppsagnar.

Þá vekur A athygli nefndarinnar á framlögðu meðmælabréfi frá [ ] í [ ] í [ ], sem sé yfirmaður hans. Í bréfi [ ] komi fram að A sé traustur og árvökull lögreglumaður, lipur, samviskusamur og áreiðanlegur í starfi og að hann hafi m.a. leyst [ ] af með góðum árangri. Sérstaklega er á það bent að hluti þeirra afleysinga hafi verið eftir atburðinn sem A hafi verið dæmdur fyrir. A hafi því ótvírætt traust sinna nánustu yfirmanna og sé að þeirra mati góður og áreiðanlegur lögreglumaður. Þá vekur A athygli á að langt sé liðið frá umræddu atviki og teljist það í meira lagi óeðlilegt ef það eigi að hafa áhrif á atvinnu hans og embættisgengi svo löngu síðar. Slíkt verði að telja í andstöðu við reglur stjórnsýsluréttar um skjóta og hraðvirka málsmeðferð.

4. Niðurstaða nefndar og rökstuðningur
Aðalkrafa A er sú að málinu verði vísað frá nefndinni.

Samkvæmt 27. gr. starfsmannalaga skal nefndin rannsaka mál þegar embættismanni hefur verið veitt lausn um stundarsakir fyrir meintar misfellur í starfi. Í 26. gr. sömu laga eru skýrt tilgreind þau tilvik sem gefa stjórnvaldi heimild til að veita lausn frá embætti um stundarsakir. Þar eru bæði nefnd tilvik í starfi og utan þess. Þótt orðalag 27. gr. starfsmannalaga sé ónákvæmt að þessu leyti verður eigi hjá því komist að túlka það með þeim hætti að nefndinni sé ætlað að rannsaka öll mál þar sem embættismanni hefur verið veitt lausn um stundarsakir á grundvelli 26. gr. laganna. Styðst sú niðurstaða einnig við dóm Hæstaréttar í málinu nr. 368/2000.

Aðalkröfu A um að máli hans verði vísað frá nefndinni er því hafnað.

Aðalkrafa ríkislögreglustjóra er sú að nefndin rannsaki mál A og upplýsi um og leggi mat á hvort honum skuli veitt lausn frá starfi að fullu eða hvort hann skuli taka við embætti sínu aftur.

Nefndinni er ætlað ákveðið rannsóknarhlutverk, eins og fram kemur í 1. mgr. 27. gr. starfsmannalaga sem kveður á um að þegar embættismanni hefur verið veitt lausn um stundarsakir skuli mál hans þá þegar rannsakað af nefnd sérfróðra manna svo upplýst verði hvort veita beri honum lausn að fullu eða láta hann taka aftur við embætti sínu. Hins vegar er vert að árétta, eins og fram hefur komið í fyrri álitsgerðum nefndarinnar, að rannsóknarhlutverk hennar takmarkast við það markmið starfa hennar sem fram kemur í niðurlagi 2. mgr. 27. gr. laganna, að láta í ljós rökstutt álit á því hvort rétt hafi verið að víkja embættismanni frá um stundarsakir.

Með vísan til þessa miðast rannsókn nefndarinnar við að leggja mat á það, hvort skilyrðin hafi verið fyrir hendi þegar ákvörðun um veitingu lausnar um stundarsakir var tekin. Þannig er lagt mat á það hvort form ákvörðunar svo og aðdragandi og efnisleg skilyrði veitingar lausnar um stundarsakir hafi verið svo sem lög áskilja. Athugun nefndarinnar takmarkast því við að meta hvort þær sakir sem bornar höfðu verið á A, þegar ríkislögreglustjóri tók ákvörðun um að veita honum lausn frá embætti um stundarsakir, voru fullnægjandi grundvöllur þeirrar ákvörðunar og hvort rétt hafi verið staðið að framkvæmd þeirrar stjórnvaldsákvörðunar.

Ákvörðun nefndarinnar um að rétt hafi verið að víkja manni úr embætti um stundarsakir getur orðið grundvöllur undir síðari ákvörðun viðkomandi stjórnvalds um það hvort víkja eigi embættismanni að fullu eða ekki. Sá grundvöllur er ekki bindandi eins og fram kemur í 2. mgr. 29. gr. starfsmannalaga. Reynist ávirðingar sem embættismanni eru gefnar að sök, ekki vera fyrir hendi, skal stjórnvaldið ekki víkja manni að fullu, þótt nefndin hafi talið rétt að víkja honum um stundarsakir. Þótt stjórnvald hafi fengið niðurstöðu nefndarinnar um að rétt hafi verið að víkja embættismanni frá störfum um stundarsakir þarf stjórnvaldið að taka sjálfstæða ákvörðun um endanlega lausn úr embætti.

Með vísan til þessa mun nefndin einungis leggja mat á réttmæti ákvörðunar ríkislögreglustjóra þann 14. febrúar 2002, um að veita A lausn frá embætti um stundarsakir.

Samkvæmt lokamálslið 3. mgr. 26. gr. starfsmannalaga má veita embættismanni lausn um stundarsakir ef hann er grunaður um háttsemi sem hefði í för með sér sviptingu réttinda skv. 68. gr. alm.hgl. Viðmið í umræddri 68. gr. er að hinn refsiverði verknaður sé slíkur að starfsmaðurinn teljist ekki lengur verður eða hæfur til að rækja starfann.

Með ákæru frá 12. desember 2001 var A ákærður fyrir brot gegn 1. mgr. 218. gr. alm.hgl. A var þannig ákærður fyrir að hafa með vísvitandi líkamsárás valdið fyrrverandi sambýliskonu sinni tjóni á líkama eða heilbrigði. Það er mat nefndarinnar, að brot þau sem A var ákærður fyrir séu ósamboðin lögreglumanni og til þess fallin, ef sönn reyndust, að gera það að verkum að lögreglumaðurinn teldist ekki lengur verður eða hæfur til að vera lögreglumaður, sbr. 68. gr. alm.hgl. Skiptir í þessu sambandi ekki máli þótt í ákæru hafi ekki verið krafist sviptingar embættis.

Samkvæmt 4. mgr. 26. gr. starfsmannalaga er ekki skylt að veita embættismanni kost á að tjá sig um ástæður lausnar, áður en hún tekur gildi, ef ástæður hennar eru aðrar en þær sem 2. mgr. 26. gr. tilgreinir. Fyrir liggur að ákvörðun um lausn A frá embætti um stundarsakir var byggð á ákvæðum 3. mgr. 26. gr. starfsmannalaga. Þegar af þeirri ástæðu var ríkislögreglustjóra ekki skylt að gefa A kost á að tjá sig fyrirfram um ástæður ákvörðunarinnar.

Það er því niðurstaða nefndarinnar að ríkislögreglustjóra hafi verið rétt samkvæmt lokamálslið 3. mgr. 26. gr. starfsmannalaga að veita A lausn um stundarsakir eins og gert var með bréfi dags. 14. febrúar 2002, eftir að honum barst tilkynning [ ] í [ ] um að búið væri að gefa út ákæru á hendur A. Sú tilkynning barst honum með bréfi dags. 11. febrúar 2002. Nefndin telur að óhæfilegur dráttur hafi orðið á því að [ ] í [ ] tilkynnti ríkislögreglustjóra um ákæruna.

Meðal skjala þessa máls er endurrit dóms Héraðsdóms [ ] í máli ákæruvaldsins gegn A frá 20. mars sl. Þar kemur fram að A var sakfelldur og dæmdur til refsingar. Sakfellingin var þó ekki fyrir jafnalvarlegt brot og hann var ákærður fyrir. Ber stjórnvaldinu m.a. að líta til þessara nýju gagna þegar það tekur ákvörðun um hvort A verði veitt endanlega lausn frá embætti eða ekki, sbr. 2. mgr. 29. gr. starfsmannalaga.


ÁLIT

Nefnd skv. 27. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins telur að ríkislögreglustjóra hafi verið rétt að veita A [ ] hjá [ ] í [ ] lausn frá störfum um stundarsakir með bréfi dagsettu 14. febrúar 2002.

Reykjavík, 20. júní 2002.

Dögg Pálsdóttir (sign.)
Gestur Jónsson (sign.)
Arnar Guðmundsson (sign.)


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum