Hoppa yfir valmynd

Matsnefnd eignarnámsbóta, úrskurður 21. desember 1983

Ár 1983, fimmtudaginn 21. desember var í Matsnefnd eignarnámsbóta samkvæmt lögum nr. 11/1973 tekið fyrir matsmálið:

                  Vegagerð ríkisins
                  gegn
                  Grími Ögmundssyni
                  Syðri-Reykjum I
                  Biskupstungum

og í því kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r :

I.

Með bréfi dags. 8. ágúst 1983 hefur Vegagerð ríkisins með vísan til 10. kafla vegalaga nr. 6/1977 og laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms, farið þess á leit við Matsnefnd eignarnámsbóta, að metnar verði lögboðnar bætur vegna efnistöku Vegagerðar ríkisins úr landi jarðarinnar Syðri-Reykja I, Biskupstungnahreppi, Árnessýslu.

Viðræður hafi farið fram við eiganda jarðarinnar, Grím Ögmundsson bónda þar, en ekki hafi náðst samkomulag um bætur fyrir efnistökuna.

Eignarnemi skýrir svo frá, að efnismagn það sem tekið hafi verið úr landi Syðri-Reykja I, Biskupstungnahreppi haustið 1983 hafi numið samtals 5395 rúmm. Eignarnemi bendir á, að í greinargerð Hreins Haraldssonar jarðfræðings og Rannsóknarstofnunar byggingariðnaðarins komi fram, að mjög sé vafasamt að efnið í námu þessari sé hæft sem steypuefni.

Með vísan til þess gerir eignarnemi þá kröfu, að efnið verði ekki metið hærra verði en kr. 0.80 pr. rúmm., en eignarnemi kveðst hafa greitt um síðastliðin áramót kr. 0.55 pr. rúmm. fyrir fyllingar- og burðarlagsefni í Árnessýslu.

Í greinargerð Hreins Haraldssonar jarðfræðings segir, að samkvæmt niðurstöðum rannsókna á sýnishornunum úr Reykjanámu í Biskupstungum hafi eftirfarandi komið fram:

1.   Efnið uppfyllir öll skilyrði sem fyllingarefni til uppbyggingar vega.

2.   Efnið standist ekki kröfur sem steinefni í bundin slitlög, þar eð viðloðun þess við olíu er aðeins 80% (krafa sé um 90%).

3.   Mjög sé vafasamt að efnið sé hæft sem fylliefni í steinsteypu vegna lítilla gæða bergsins. Helstu atriði í því sambandi séu hið mikla magn af ummynduðu bergi og að ekkert sé af góðu (1. flokks) efni og að í efninu sé töluvert af móbergi, sem þyki "eitur í steinsteypu".
Segir jarðfræðingurinn þetta álit vera styrkt af sérfræðingum Rannsóknarstofnunar byggingariðnaðarins.

Í skýrslum þeim sem fram eru lagðar um ofangreinda rannsókn er sagt, að rannsóknin sé gerð að beiðni Ólafs Gíslasonar verkstjóra f.h. Vegagerðar ríkisins og að sýnin séu aðsend.

Í rannsóknarskýrslunum koma fram upplýsingar um kornastærð, gæðaflokkun, lögun og tæknileg atriði, þ.á m. hreinleika og styrk korna. Í athugasemd segir að móberg vaxi með minnkandi kornastærð.

Berggerðin er að mestu leyti basalt en nokkuð af móbergi, basaltsleir og líparíti. Gæðaflokkun er sett fram í tvennu lagi sem hér segir:

   " v/bundins slitlags   v/steinsteypu

1. flokkur   0.0   0.0
2. flokkur   87.7   91.1
3. flokkur   12.3   8.9
--------------------------------------------------------------------------------------------------------
   v/bundins slitlags   v/steinsteypu

1. flokkur   0.0   0.0
2. flokkur   91.0   94.3
3. flokkur   9.0   5.7   "
--------------------------------------------------------------------------------------------------------

Viðloðun bergefnis er talin 80%.

Kúbisk korn og fínefna súrkorn eru sögð í meirihluta.

II.

Mál þetta var tekið fyrir á Syðri-Reykjum I í Biskupstungum föstudaginn 12. ágúst 1983. Voru þar mættir f.h. eignarnema Gunnar Gunnarsson hdl., Steingrímur Ingvarsson, umdæmisverkfræðingur og Ólafur Gíslason, verkstjóri.

Eignarnámsþoli Grímur Ögmundsson var sjálfur mættur.

Var gengið á vettvang og landið og umræddar malargryfjur voru skoðaðar.

Leitað var um sættir með aðilum og var samkomulag um það, að Vegagerð ríkisins mætti halda áfram töku efnis á þessum stað, þótt mati á efninu yrði ekki lokið fyrr en síðar. Ekki varð sátt um verðið á efninu.

Þá er fært til bókar eftir eignarnámsþola:

"Eignarnámsþoli segir að hvergi sé um töku á öðru malarefni að ræða nema langt í burtu. Hann segir að hér sé um steypuefni að ræða og hafi efnið verið notað sem slíkt í byggingar bæði í Skálholti og í Aratungu.

Eignarnámsþoli segir að eignarnemi hafi boðið sér kr. 0.55 pr. rúmm., en hann kveðst telja hæfilegt og sanngjarnt að greitt verði kr. 5.00 pr. rúmm."

Mál þetta var tekið til úrskurðar hjá Matsnefndinni 16. desember 1983.

Eignarnámsheimildina er að finna í 59. gr. vegalaga nr. 6/1977. Ber að meta til fébóta efnistöku þá, sem eignarnemi lét fara fram haustið 1983 úr svokallaðri Reykjanámu í landi Syðri-Reykja I, svo og landspjöll og jarðrask vegna þess, ef um þau er að ræða.

í 59. gr. vegalaga segir, að hver landeigandi sé skyldur til að láta af hendi land það, er þurfi undir vegi eða til breytingar eða breikkunar eða viðhalds vegum, svo og að leyfa að efni til vega sé tekið í landi hans, hvort heldur sé grjót möl eða önnur jarðefni, enda komi fullar bætur fyrir. Bætur fyrir jarðrask og eignarnám á óyrktu landi skuli því aðeins greiddar að þeirra sé krafist og að álitið verði að landeigandi hafi beðið skaða við það.

Ekki er ágreiningur um það í málinu að landeigandi eigi rétt á endurgjaldi fyrir það efni sem tekið var úr landi hans.

Ljóst er að efnið uppfyllir öll skilyrði, sem fyllingarefni til uppbyggingar vegna enda kornastærðir við hæfi. Ekki er talið að efnið standist kröfur sem steinefni í bundin slitlög, þar eð viðloðun þess við olíu sé aðeins 80%. Þá bendir eignarnemi á það, að mjög sé vafasamt að efnið sé hæft sem fylliefni í steinsteypu vegna lítilla gæða bergsins, og styður hann það við álit Hreins Haraldssonar jarðfræðings og rannsókn þá, sem gerð var af sérfræðingum Rannsóknarstofnunar byggingariðnaðarins.

Af hálfu eignarnámsþola hefur verið bent á það, að ekki sé um annað efni að ræða þarna nema þá lengra í burtu. Hafi eignarnemi hagræði af því að aksturskostnaður hans sé lítill. Þá bendir eignarnámsþoli á það, að efni úr þessari námu hafi verið notað sem steypuefni í Skálholtskirkju og í byggingar í Aratungu. Hefur Matsnefndin kynnt sér það, að efni úr þessari námu hafi verið notað sem steypuefni á framangreindum stöðum.

Eins og fram hefur komið uppfyllir efnið úr námunni öll skilyrði sem fyllingarefni til uppbyggingar vega og ljóst er að í námu þessari hefur verið efni, sem hæft hefur verið talið í steinsteypu.

Matsnefnd eignarnámsbóta hefur undir höndum miklar upplýsingar um sölur og möt á vegagerðarefni víðsvegar um landið. Að því athuguðu og með hliðsjón af því, sem fram hefur komið í málinu og öðru því, sem matsmenn álíta rétt að taka tillit til, telja matsmenn hæfilegt að meta efni þetta á kr. 2.75 pr. rúmm. Er þá m.a. haft í huga, að vegagerðarefni þetta er ekki í nágrenni við þéttbýli og því eftirspurn eftir efni á þessum stað lítil, en verð efnis ræðst mikið af nálægð við þéttbýli og eftirspurn þaðan. Efni þetta er tekið úr gamalli námu, með gisnum þurrlendisgróðri á óhreyfðu landi. Þau afnot sem tapast af þessu landi eru því mjög óveruleg. Sýnast ekki efni til að meta landeiganda bætur sérstaklega vegna landspjalla þar sem tjón hans vegna þeirra er hverfandi lítið, enda bætur metnar vegna efnistökunnar.

Samkvæmt þessu telur Matsnefndin hæfilegt að eignarnemi greiði eignarnámsþola kr. 2.75 pr. rúmm. fyrir 5395 rúmm., eða kr. 14.836.00 og er þá miðað við staðgreiðslu.

Rétt þykir samkvæmt 11. gr. laga nr. 11/1973 að eignarnemi greiði til ríkissjóðs kostnað af starfi Matsnefndarinnar kr. 10.500.-.

Úrskurð þenna hafa kveðið upp þeir Egill Sigurgeirsson hrl. formaður nefndarinnar og matsmennirnir Bárður Daníelsson verkfræðingur og Björn Bjarnarson ráðunautur, sem formaður hefur kvatt til meðferðar þessa máls samkvæmt 2. gr. laga nr. 11/1973.

M a t s o r ð :

Eignarnemi, Vegagerð ríkisins, greiði eignarnámsþola Grími Ögmundssyni, Syðri-Reykjum I, kr. 14.836.00.

Eignarnemi greiði til ríkissjóðs kostnað af starfi Matsnefndarinnar kr. 10.500.00.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum