Hoppa yfir valmynd

Matsnefnd eignarnámsbóta, úrskurður 25. nóvember 1983

Ár 1983, föstudaginn 25. nóvember var í Matsnefnd eignarnámsbóta skv. lögum nr. 11/1973 tekið fyrir matsmálið:

                  Ísafjarðarbær
                  gegn
                  Stakkanesi h/f
                  Ísafirði

og í því kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r :

I.

Málavextir eru þeir, að með bréfi 5. maí 1983 hefur Árni Guðjónsson, hrl. f.h. Ísafjarðarbæjar farið þess á leit við Matsnefnd eignarnámsbóta, að metnar verði hæfilegar bætur fyrir eignarlóð á Stakkanesi, Ísafirði, ásamt vöruskemmu (fiskverkunarhúsi).

Lóðin er sögð 1982,8 m² að stærð samkvæmt mæliblaði og afstöðumynd, sem fram er lögð í málinu, en þar er lóðin afmörkuð með rauðum útlínum.

Eigandi þessarar eignar er þinglesinn Steiniðjan h/f, Ísafirði, en við þeirri eign og málinu hefur tekið Stakkanes h/f, Ísafirði, sem núverandi eigandi eignarinnar, og í fyrirsvari fyrir það félag Jón Þórðarson, Álfhólsvegi 38, Kópavogi.

Ísafjarðarbær telur sér nauðsyn á því að taka land þetta eignarnámi vegna skipulags og framkvæmda á þessu svæði, þ.á m. vegarlagningar þvert yfir landið, frárennslislagna o.fl.

Eignarnemi segir að viðræðufundir hafi átt sér stað við eiganda og forsvarsmann, Jón Þórðarson, um bætur fyrir landið og geymsluskúrinn, sem á því standi, en þær viðræður hafi ekki borið árangur.

Um heimild sína til eignarnámsins vísar eignarnemi til 28. gr. skipulagslaga nr. 19/1964, en umrædd lóðarspilda (í daglegu tali kölluð Torgínóllóð) sé á staðfestu skipulagi Ísafjarðar og hamli nú framkvæmdum á því svæði.

Eignarnemi gerir þá kröfu skv. heimild í 14. gr. laga nr. 11/1973, að honum verði þótt mati sé ekki lokið heimilað að taka umráð þess er eignarnámið varðar, til þess að geta ráðist í þær framkvæmdir sem séu tilefni eignarnámsins.

Mál þetta var fyrst tekið fyrir á Ísafirði 29. júní 1983 og var þá gerð svofelld bókun: "Gengið var á vettvang og lóðin skoðuð svo og hús það sem stendur á lóðinni. Var húsið vandlega skoðað og mælt.

Leitað var um sættir með aðilum.
Eignarnemi gerir kröfu um að fá nú þegar umráð lóðar þeirrar, sem um ræðir og húss þess sem stendur á lóðinni.

Lögmaður eignarnámsþola mótmælir því að eignarnemi fái nú þegar umráð þessara eigna.

Matsnefndin var sammála um það, að það myndi ekki torvelda mat á eignum þessum síðar, né spilla sönnunargögnum fyrir eignarnámsþola, þótt eignarnema yrði afhent umráð þessara eigna nú, eftir þá rækilegu skoðun sem nú hefur farið fram á eignunum.

Matsnefndin var því sammála um, með vísan til 14. gr. laga nr. 11/1973, að leyfa eignarnema að taka umráð þeirra eigna, sem ræðir um í máli þessu frá 1. júlí 1983 og var brýnt fyrir eignarnema, að hann yrði að gæta ábyrgðar sinnar á timbri því og öðrum munum, sem í húsinu væru og að húsið sjálft væri hættulegt umhverfi sínu svo farið, sem það nú er."

F.h. eignarnema hefur flutt mál þetta Árni Guðjónsson, hrl. Í greinargerð sinni bendir hann fyrst á aðild málsins, en í veðmálabókum Ísafjarðar sé eigandi eignarinnar skráður Steiniðjan h/f, Ísafirði. Komi þetta fram á veðbókarvottorði frá bæjarfógetanum á Ísafirði dags. 30. júní 1983.

Hins vegar séu í Lögbirtingarblaðinu nr. 81, 74. árgangi, miðvikudaginn 16. september 1981 tilkynningar frá ýmsum fjölskylduhlutafélögum Jóns Þórðarsonar um samruna þeirra og nafnabreytingar og muni hann nú telja að eigandi eignanna sé Stakkanes h/f. Hins vegar hafi engar breytingar á eignaraðild Steiniðjunnar h/f verið færðar inn í veðmálabækur Ísafjarðarkaupstaðar. Hins vegar hafi engar kröfur varðandi þetta atriði verið hafðar uppi þegar málið var tekið fyrir á Ísafirði hinn 29. júní 1983 og þurfi Matsnefndin því að taka afstöðu til þessa atriðis, en eignarnemi hafi ekki uppi nein andmæli gagnvart aðild Stakkanessins h/f í málinu, ef öruggt sé að þar sé um sama eiganda að ræða.

Eignarnemi heldur fast við það að stærð landspildu þeirrar, sem um ræðir sé 1982,8 m², enda komi sú landstærð heim og saman við stærð þá er Jón Þórðarson tilgreini á mskj. nr. 7, afsali dags. 7. okt. 1967.

Í öðrum afsölum hafi lóðin verið talin ýmist um 70 m. x 30 m., eða 2320 m², eins og ranglega hafi slæðst inn í fasteignamat.

Engu landaukaafsali hafi verið þinglýst frá því lóðin hafi verið talin 1982,8 m², og verði því að miða við þá lóðarstærð.

Eignarnemi bendir á að í fasteignamati 1.12.1982 sé lóðin metin á kr. 221 þús., eða um kr. 111.50 pr. m².

Segir eignarnemi að við eftirgrennslan hjá fasteignamati ríkisins hafi ekkert komið í ljós til rökstuðnings þessu mati. Gamalt fasteignamat hafi verið framreiknað ár frá ári með almennum verðstuðli hækkunar á fasteignum. Raunvirði lóðarinnar, þ.e. til sölu á almennum markaði á Ísafirði sé því miklum mun lægra en fasteignamatið segi til um.

Eignarnemi segir að í fasteignamati séu geymslukofar þeir sem á lóðinni standa metnir hinn 1.12.1982 á kr. 147.000.00. Þetta mat hafi nú verið fellt niður, enda sé algjörlega fráleitt að það sé eða hafi verið í nokkru samræmi við raunverulegt söluverðmæti skúranna á almennum markaði.

Brunabótamat skúranna hafi hinn 15. október 1982 verið kr. 78.000.00, en framreiknað til 20. júlí 1983 kr. 122.000.00, og sé þetta gjörsamlega óraunhæft.

Þá vísar eignarnemi til vettvangsgöngu og skoðunar Matsnefndarinnar á eigninni hinn 29. júní s.l., en Matsnefndin hafi þá mælt upp skúr þann sem um sé að ræða.

Lögmaður eignarnema leggur áherslu á það, að röng skráning á fasteignamati skapi ekki eignarrétt á neinu landi.

Viðurkennt er að staðið hafi til lengi að taka eign þessa eignarnámi. Hafi eigandi ekkert viðhald gert á eigninni síðan, en skúrinn hafi að nokkru leyti fokið og því fasteignamat á honum verið fellt niður og hann talinn ónýtur. Verði það að koma eignarnámsþola í koll, að hafa ekki kostað upp á viðhald eignarinnar, því viðhald hennar hefði átt að skila sér í hærri eignarnámsbótum.

Varðandi verðmæti lóðar þessarar og skúrbyggingar þeirrar, sem á lóðinni standi vísar lögmaður eignarnema til þeirra upplýsinga, sem fram komi á mskj. nr. 7, þar sem fram komi verð það sem eignir þessar hafi verið seldar á allt frá árinu 1928.

Lögmaður eignarnema mótmælir því, að eignarnámsþoli eigi þarna nokkur fjöru- eða sjávarréttindi og vísar um það atriði til jarðabókar Árna Magnússonar, en um hjáleiguna Stekkjanes segi þar á þessa leið: "Kostir og ókostir sem áður segir um heimastaðinn kvað sem landinu viðvíkur, en af ítökum eður sjávarhlunnindum hafi hjáleigan ekkert, og ágang líður hjáleigan með heimastaðnum af búfé nágranna á tvær hendur."

II.

F.h. eignarnámsþola hefur flutt málið Stefán Pálsson, hrl. Í máli þessu gerir eignarnámsþoli eftirfarandi kröfur:

1.   Að mat á sjávarlóð að Stakkanesi á Ísafirði að stærð 2320 m² verði miðað við markaðsverð byggingalóða á Ísafirði.

2.   Að metin verði fjöru- og sjávarréttindi ofangreindrar lóðar miðað við 70 m. strandlengju.

3.   Að við mat á vöruskemmum verði miðað við fullkomið ástand samsvarandi húsa, þ.e. eins og ástand húsanna var á árunum 1974-1978, er eignarnámstilraunir hófust í raun.

4.   Að Matsnefnd ákveði eignarnámsþola endurgjald skv. 11. gr. in fine laga nr. 11/1973.

Bendir lögmaður eignarnámsþola á að lóð sú, sem taka eigi eignarnámi eigi sér all langa sögu eins og sjáist á sjö afsölum, sem lögð hafa verið fram í málinu.

Skv. fyrsta afsalinu afsali útibú Landsbankans á Ísafirði Ingvari Péturssyni lóð, sem sé ca. 70 m. strandlengis og ca. 30 m. að dýpt. Telur lögmaðurinn ljóst, að þarna sé verið að selja sjávarlóð, enda hafi lóðin verið nýtt til fiskverkunar. Erfingjar Ingvars Péturssonar afsali síðan lóð þessari til Elí Ingvarssonar og Þórarins Ingvarssonar 10. maí 1955. Þar sé eigninni einungis lýst sem fiskverkunarstöðinni á Stakkanesi. Næst afsali þessir kaupendur lóðinni til Jóns Þórðarsonar 26. ágúst 1963. Þar sé hinu afsalaða lýst sem fiskverkunarstöð neðan Seljalandsvegar á Ísafirði (svokölluðu Stakkanesi) ásamt þar á standandi húsum og mannvirkjum og öðru sem fylgir og fylgja beri, sem og tilheyrandi eignarlóð og öðrum lóðarréttindum. Jón Þórðarson afsali síðan lóðinni til Torgínól h/f með afsali dags. 7. október 1967. Lýsing hins afsalaða sé þá þannig: "Fiskverkunarhús mitt á Stakkanesi Ísafirði neðan Seljalandsvegar með öllu sem fylgir og fylgja ber ásamt eignarlóð 1982,8 m² að stærð."

Framkvæmdasjóður kaupi síðan eign þessa á uppboði 17. maí 1968 og skv. uppboðsafsali, sbr. mskj. nr. 7, sé eigninni lýst, sem "fiskverkunarhús við Seljalandsveg, ásamt lóðarréttindum og hverskonar vélum og tækjum."

Framkvæmdasjóður afsali síðan eigninni til Jóns Þórðarsonar 22. febr. 1973 og sé þá eigninni lýst þannig: "Lóðarréttindum á Stakkanesi, Ísafirði, ásamt mannvirkjum á lóðinni. Eignin er nefnd Fiskverkunarstöð neðan Seljalandsvegar á veðbókarvottorði og er ca. 30 x 70 m. að stærð."

Með afsali 29. des. 1978 afsali Jón Þórðarson eigninni í hendur Steiniðjunnar h/f Ísafirði og sé þá eigninni lýst þannig: "Sjávarlóð minni á Stakkanesi Ísafirði ásamt vöruskemmum (fiskverkunarhúsum) þeim sem á lóðinni eru. Strandlengja lóðarinnar er um 70 metrar og dýpt hennar um 30 m. Í fasteignamati er lóðin talin 2320 m²." Bendir lögmaðurinn á að samkvæmt mskj. nr. 10, sem sé ljósrit úr Lögbirtingarblaði, hafi nafni Steiniðjunnar h/f verið breytt í Stakkanes h/f á aðalfundi Steiniðjunnar h/f þann 28. júlí 1981 og sé því Stakkanes h/f eignarnámsþoli.

Þótt stærðarlýsing á lóð þessari hafi verið nokkuð á reiki gerir eignarnámsþoli þá kröfu, að sá fermetrafjöldi sem lagður verði til grundvallar sé 2320 m², eins og greint sé í fasteignamati, enda telur hann ekki fjarri lagi að álykta að fyrr á árum hafi lóðin verið mæld af hálfu bæjaryfirvalda og að áðurnefndir 30 x 70 m. hafi reynst of lág og ónákvæm tala og lóðin hafi í raun verið 2320 m². Eignarnemi verði að bera hallan af sönnunarskorti um þetta atriði, þar sem hann hafi heimilað á sínum tíma vegalagningu yfir hluta lóðarinnar án samráðs við eiganda lóðarinnar.
Eignarnámsþoli gerir kröfu til þess, að lóð þessi verði metin sem byggingarlóð, enda hafi eigendur lóðarinnar ávallt litið á hana sem slíka og sem framtíðareign fyrir atvinnustarfsemi eða íbúðarhúsnæði. Bendir hann á að Jón Þórðarson, sem hafi verið eigandi lóðarinnar að mestu frá 1963, annaðhvort persónulega eða sem aðaleigandi Steiniðjunnar h/f og Stakkaness h/f hafi ávallt verið í góðri trú um að um framtíðarlóð væri að ræða. Bendir lögmaður eignarnámsþola á að skv. mskj. nr. 15, sem sé tillaga að aðalskipulagi á Stakkanesi, sem gerð hafi verið í apríl 1964 hafi engar hugmyndir verið komnar fram um þjóðveg yfir lóðina og komi sú hugmynd ekki fram fyrr en á árunum 1974-78 og ekki hafi það skipulag fengið staðfestingu fyrr en á árinu 1982.

Varðandi verðmæti eignarinnar, bendir lögmaður matsþola á, að skv. afsali 29. des. 1978 hafi matsþoli keypt eignina á gkr. 18 milljónir. Byggingarvísitala hafi í desember 1978 verið 4767 stig, en sé nú 43942 stig og hafi því hækkað um 821,8%. Umrætt kaupverð sem samsvari nýkr. 180 þús. hækkað upp í sömu hlutföllum sé því nýkr. 1.659.240.00. Ekki sé gott að gera sér grein fyrir því, hver hafi verið hlutföll á milli kaupverðs lóðar annars vegar og hússins hins vegar, en til viðmiðunar megi þó fara eftir fasteignamati sem í gildi var á árinu 1978 en þar komi fram að af heildarfasteignaverði, sem hafi verið kr. 4.211.000.00 hafi mat mannvirkja verið kr. 1.507.000.00 eða 35.79% og verðmæti landsins því kr. 2.704.000.00, eða 64,21%. Samkvæmt þessum hlutföllum ætti því uppreiknað verðlag lóðarinnar að vera í dag kr. 1.065.398.00 eða kr. 459.22 pr. m² miðað við 2320 m². Telur lögmaður eignarnámsþola að þetta sé síst of hátt fermetraverð í dag miðað við það sem gangi og gerist í fasteignakaupum, en ekki er þetta stutt neinum dæmum.

Varðandi kröfuliðinn um bætur fyrir fjöru- og sjávarréttindi lóðarinnar miðað við 70 m. strandlengju bendir lögmaður matsþola á, að skv. afsölum þeim sem fyrir liggja komi ekki annað fram, en að um sjávarlóð hafi verið að ræða frá upphafi og skv. fornum lögum og venju eigi bakkaeigandinn 60 faðma í sjó út frá stórstraumsfjörumáli og telur hann að taka eigi tillit til þess við ákvörðun eignarnámsbóta.

Varðandi kröfuliðinn um að mat á vöruskemmu verði miðað við fullkomið ástand samsvarandi húsa, þ.e. eins og ástand húsanna hafi verið á árunum 1974-´78 segir lögmaðurinn, að húsin hafi verið á þeim árum í prýðisgóðu standi, en þegar ljóst hafi verið á árinu 1978 að til hafi staðið að leggja hraðbraut þétt við húsið og að þau yrðu að víkja, þá hafi eignarnámsþoli hætt að halda þeim við, enda hafi það verið tilgangslaust. Segir hann að strax í ársbyrjun 1978 hafi verið byrjað á samningaviðræðum við Ísafjarðarkaupstað um framtíð lóðarinnar og sé því allur dráttur sem orðið hafi á þessu máli ekki sök eignarnámsþola, eða fyrrverandi eiganda eignarinnar.

III.

Matsnefndin hefur farið á vettvang, eins og áður segir ásamt umboðsmönnum aðila. Skoðuð var lóð sú sem um ræðir í málinu svo og var hús það og viðfestur skúr er á lóðinni stendur skoðað og mælt.
Sátt hefur verið reynd í máli þessu en árangurslaust.

Munnlegur málflutningur fór fram í máli þessu 31. okt. 1983 og var málið þá tekið til úrskurðar. Eignarnámsheimild eignarnema er að finna í 28. gr. skipulagslaga nr. 19/1964 og er það ágreiningslaust í málinu.

Húsið er 12.7 x 11.9 = 151 m² að stærð. Vegghæð er 2.5 m. og hæð upp á ris 3.7 m. Norðurhlið er úr steyptum steinum. Hún er að hluta til einangruð með frauðplasti. Tveir gluggar eru á hliðinni, en án glers. Vesturgafl er úr timbri, múrhúðaður að innanverðu. Suðurhlið er úr timbri, með lélegri bílskúrshurð, en engum gluggum. Við austurhlið er skúr 6.4 x 12.7 = 81 m². Skilrúm á milli skúrs og húss er úr einföldu timbri. Gólf er steypt, en nánast ónýtt. Þak er að mestu fallið. Skúrinn verður að telja algjörlega ónýtan. Langveggur 10 m. langur er í húsinu. Grind er úr timbri og á hana klætt öðrum megin með timbri, en hinum megin með mjög lélegum krossviði. Í norðvesturhorni er herbergi 3 x 5 m., afmarkað með hlöðnum veggjum, múrhúðuðum. Gólf er steypt. Á þaki er bárujárn, nánast ónýtt. Engin tæki til upphitunar eru í húsinu. Raflögn er ónýt.

Með verulegum tilkostnaði væri hægt að gera hús þetta hæft sem geymsluhúsnæði.

Talsvert miklar upplýsingar hafa komið fram í máli þessu um sölur og kaup á eign þeirri sem hér um ræðir.

Varðandi stærð lóðarinnar heldur lögmaður eignarnema fast við það, að lóðin verði í mati þessu talin 1982,8 m², sem sé sú stærð, sem aðaleigandi eignanna Jón Þórðarson hafi sjálfur talið fram í afsalinu 7. okt. 1967.

Lögmaður eignarnámsþola heldur fast við það, að lóðin verði talin 2320 m², eins og tilgreint sé í fasteignamati eignarinnar.

Samkvæmt því sem tilgreint er í afsali útibús Landsbankans á Ísafirði dags. 30. des. 1928 er lóð þessi talin ca 70 m. strandlengis og ca 30 m. á dýpt. Í afsali Framkvæmdasjóðs Íslands dags. 22. febr. 1973 við sölu á eign þessari til Jóns Þórðarsonar, Pólgötu 3, Ísafirði, er eignin sögð nefnd fiskverkunarstöð neðan Seljalandsvegar á veðbókarvottorði, og sé ca. 30 x 70 m. að stærð og mun þar átt við lóðarréttindi. Í afsali Jóns Þórðarsonar Norðurvegi 31, Ísafirði, dags. 24. des. 1978, þar sem eignin er afsöluð í hendur Steiniðjunnar h/f, Ísafirði, er strandlengja lóðarinnar talin um 70 m. og dýpt hennar um 30 m., en tekið fram að í fasteignamati sé lóðin talin 2320 m².

Engar upplýsingar liggja fyrir í máli þessu hvernig stærðartala sú, sem tilgreind er í fasteignamati sé tilkomin.

Hvað varðar stærð landsins, þá bendir talan 1982.8 m² vissulega til þess, að einhvern tímann hafi verið framkvæmd nákvæm mæling á landinu.

Hins vegar er ekkert upplýst um það, hvenær þessi mæling hafi verið gerð, hver hafi framkvæmt hana, eða hvernig talan er fengin. Þá hefur lóðin iðulega í kaupsamningum verið beint tiltekin ca. 70 x 30 m. t.d. í samningi útibús Landsbankans 30. des. 1928 og í afsali Framkvæmdasjóðs Íslands dags. 22. febrúar 1973 til Jóns Þórðarsonar, sem talinn er aðaleigandi Steiniðjunnar h/f og Stakkaness h/f, og með hliðsjón af því m.a. telur Matsnefndin næst sanni í málinu að miða stærð landsins við það og telja lóðina því vera 2100 m² að stærð.

Í Jarðabók Árna Magnússonar er Stekkjanes talin hjáleiga af heimastaðnum og byggð í úthögum. Landskuld eftir bóluna eru tvær vættir í kaupstað, áður hálf önnur. Leigukúgildi 1 og svo hefur verið síðan byggt var. Leigan betalast í smjöri heim til staðarins. Búpeningur á hjáleigunni er talinn kvikfé 1 kýr, 13 ær, 1 sauður þrevetur, 4 tvævetrir, 7 veturgamlir, 13 lömb. Fóðrast kann 1 kýr.

Á árinu 1908 fluttist Sigurður Kristjánsson fyrrverandi alþingismaður til Ísafjarðar, sem starfsmaður Búnaðarsambands Vestfjarða. Hafði Búnaðarsambandinu þá verið afhent landsvæði undir gróðrarstöð á svonefndu Stakkanesi. Meðan Sigurður Kristjánsson átti landið kveðst hann hafa nytjað það lítilsháttar til heyskapar.

Þótt land þetta hafi áður fyrr verið nytjað til búskapar sjást lítil eða engin merki þess nú. Er landið yfirleitt yfir að líta sem gróðursnauður melur með einstaka grastoppum. Telur nefndin alla ræktun á landi þessu nú einskis virði.

Land þetta er skipulagsskylt og á árinu 1982 var staðfest aðalskipulag á þessu svæði. Deiliskipulag er einnig til af landinu, og gerir það ráð fyrir 4 keðjuhúsum. Umrædd landspilda liggur á milli Seljalandsvegar og nýrrar hraðbrautar, sem gerð hefur verið sjávarmegin við landið, aðallega með uppfyllingu. Mestur hluti landsins er flatlendi, sem er lítið eitt hærra en sjávarmál.

Samkvæmt deiliskipulaginu og legu landsins þykir rétt að miða við það, að framtíðarnýting lands þessa verði sú, að á landinu verði reist hús, svo sem haldið er fram af hálfu eignarnámsþola.

Telur nefndin með vísan til almennra reglna um ákvörðun eignarnámsbóta og með hliðsjón af meginreglum 29. gr. skipulagslaga nr. 19/1964, að leggja eigi þessa nýtingu landsins til grundvallar matsbótum.

Með hliðsjón af stærð spildunnar, legu hennar og skipulagningu telur Matsnefndin ekki efni til þess að taka tillit til ákvæða 30. gr. skipulagslaga nr. 19/1964.

Eignarnámsþoli gerir kröfu til þess að metin verði fjöru- og sjávarréttindi þessarar lóðar miðað við 70 m. strandlengju.

Eins og að framan segir er tekið fram í Jarðabók Árna Magnússonar, að af ítökum eða sjávarhlunnindum hafi hjáleiga þessi ekkert, og hvergi í afsölum þeim, sem fram hafa komið er á það minnst, að landi þessu fylgi eitthvert sjávargagn, fjöruréttindi eða annað þess háttar, og ekki kemur fram að neitt slíkt hafi verið nytjað frá þessu landi. Í bréfi Jóns Þórðarsonar dags. í febr. 1978 til Bæjarstjórnar Ísafjarðar, er hins vegar tekið fram, að samkvæmt aðalskipulagi fyrir Ísafjörð sé fyrirhugað að leggja hraðbraut meðfram sjónum, sem skerða muni lóðina verulega bæði með tilliti til stærðar og eins með útilokun á fjöruréttindum og skerðingu á nýtingarmöguleikum lóðarinnar ofan vegar. Hvergi annars staðar hefur verið minnst á fjöruréttindi, og hvergi hefur verið tilgreint, hver þau réttindi væru og hvernig þau hefðu verið nytjuð. Hraðbraut sú, sem lögð hefur verið meðfram sjónum mun standa að mestu eða öllu leyti á uppfyllingu. Þá má benda á það, sem áður segir, að land þetta hefir í kaupsamningum verið talið afmarkað svæði ca. 70 x 30 m. að stærð.

Með vísan til þess sem rakið hefur verið telur Matsnefndin ekki ástæðu til að meta nein fjöru- eða sjávarhlunnindi sérstaklega í þessu máli, en tekið verður tillit til þess við mat á landinu að það var sjávarlóð.

Upplýst er í máli þessu, að landið hefur ekki verið nýtt að undanförnu en húsið mun hafa verið notað sem geymsluhúsnæði.

Land þetta liggur vel við samgöngum, enda milli tveggja gatna.

Matsnefndin hefur talsvert miklar upplýsingar um fasteignasölur á Ísafirði á undanförnum árum, svo og ástand fasteignamarkaðar þar í dag. Hefur Matsnefndin framreiknað áætlað verð fasteigna þeirra, sem henni er kunnugt um, miðað við það verðlagsástand sem nú er, svo og miðað við verðrýrnun peninga á undanförnum tíma. Hefur Matsnefndin haft í huga þá verðþróun, sem orðið hefur á undanförnum árum og tekið tillit til sveiflukennds ástands í verðþróun síðustu ára.

Hefur komið fram að miklar verðsveiflur hafa verið á undanförnum árum á fasteignum á Ísafirði, og greinilegt að verð á þessum hlutum hefur ekki alfarið verið í takt við verðþróun almennt.

Með hliðsjón af því sem rakið hefur verið að framan, svo og annars þess sem Matsnefndin telur skipta máli, telur Matsnefndin hæfilegt að meta hvern m² í lóð þeirri, sem hér um ræðir á kr. 200.00.

Hús það sem á lóðinni stendur og lýst hefur verið hér að framan telur Matsnefndin hæfilegt að meta á kr. 75.000.00.

Samkvæmt þessu ber eignarnema að greiða eignarnámsþola fyrir

   Land 2100 m² á kr. 200.00 ......................................   kr.   420.000.00
   Hús ..............................................................................   "   75.000.00
      Samtals   kr.   495.000.00

og er þá miðað við staðgreiðslu.

Rétt þykir samkvæmt 11. gr. laga nr. 11/1973 að eignarnemi greiði eignarnámsþola kr. 15000.00 í málskostnað.

Þá er rétt að eignarnemi greiði til ríkissjóðs með vísan til 11. gr. sömu laga kostnað af starfi Matsnefndarinnar kr. 35.000.00.

Úrskurð þenna hafa kveðið upp þeir Egill Sigurgeirsson hrl. formaður nefndarinnar og matsmennirnir Bárður Daníelsson, verkfræðingur og Guðmundur Gunnarsson, verkfræðingur, sem formaður hefur kvatt til meðferðar þessa máls skv. 2. gr. laga nr. 11/1973.

M a t s o r ð :

Eignarnemi, Ísafjarðarbær, greiði eignarnámsþola Stakkanesi h/f, kr. 495.000.00 og kr. 15.000.00 í málskostnað.

Eignarnemi greiði til ríkissjóðs kostnað af starfi Matsnefndarinnar kr. 35.000.00.


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum