Hoppa yfir valmynd
Félagsdómur

Mál nr. 12/2016: Dómur frá 17. janúar 2017

Stéttarfélag lögfræðinga gegn íslenska ríkinu vegna Tollstjóra.

Ár 2017, þriðjudaginn 17. janúar, er í Félagsdómi í málinu nr. 12/2016.

                                                          

Mál nr. 12/2016:

Stéttarfélag lögfræðinga

(Jón Sigurðsson hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

vegna Tollstjóra

(Guðrún Sesselja Arnardóttir hrl.)

 

kveðinn upp svofelldur

 

d ó m u r:

Mál þetta var dómtekið 11. janúar sl.

Málið dæma Arnfríður Einarsdóttir, Ásmundur Helgason, Guðni Á. Haraldsson, Elín Blöndal og Inga Björg Hjaltadóttir.

 

Stefnandi er Stéttarfélag lögfræðinga, Borgartúni 6 í Reykjavík.

Stefndi er íslenska ríkið, Arnarhvoli við Lindargötu, vegna Tollstjóra, Tryggvagötu 19 í Reykjavík.

           

Dómkröfur stefnanda

Stefnandi krefst þess að viðurkennt verði að stefndi, Tollstjóri, hafi brotið í bága við 3. og 4. gr. stofnanasamnings Tollstjórans í Reykjavík og Bandalags háskólamanna, dags. 19. júní 2006, sbr. samkomulag um breytingu á stofnanasamningi milli stefnanda og stefnda með gildistíma frá 1. nóvember 2014, með því að hafa ekki grunnraðað Stefaníu Huldu Marteinsdóttur, kt. 141184-2459, sem sérfræðingi B, í launaflokk 9, frá 1. janúar 2013 til 1. nóvember 2014 en frá þeim degi og fram til 1. mars 2015 sem sérfræðingi B, í launaflokk 11. Þá krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu samkvæmt mati dómsins að viðbættum virðisaukaskatti.

 

Dómkröfur stefnda

Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og að honum verði gert að greiða stefnda málskostnað að mati dómsins.

      

Málavextir

Tollstjórinn í Reykjavík og Bandalag háskólamanna gerðu 19. júní 2006 með sér stofnanasamning. Í aðfararorðum hans kemur fram að samningurinn sé gerður samkvæmt ákvæðum gildandi kjarasamnings Bandalags háskólamanna og fjármálaráðherra 28. febrúar 2005 um starfaröðun, mannauðsmál og stefnu í málefnum starfsmanna hjá embætti Tollstjórans í Reykjavík. Í 1. gr. stofnanasamningsins segir að samkomulagið nái til allra félagsmanna í Bandalagi háskólamanna, þar á meðal til félagsmanna í stefnanda, Stéttarfélagi lögfræðinga, sem séu í starfi hjá embættinu hverju sinni. Sérstaklega var tekið fram að samkomulagið væri hluti kjarasamnings félagsins og fjármálaráðherra frá 28. febrúar 2005.

Í grein 3 í stofnanasamningnum er fjallað um röðun starfa í launaflokka. Þar er í grein 3.1 lýst almennum forsendum slíkrar röðunar. Í þeirri segir m.a. að ákvörðun um röðun starfa í launaflokka taki „mið af þeim verkefnum og skyldum sem í starfinu felast, menntun, ábyrgð, þjálfun, starfsreynslu og færni (kunnáttustig/sérhæfing) sem þurfi til að gegna starfinu“. Þá segir þar að röðun skuli miðast við „grunnverksvið í viðkomandi starfi og samþykktar starfslýsingar starfsmanna“. Að lokum kemur þar fram að ákvörðun um þá þætti sem áhrif hafi „á laun og með hvaða hætti“ sé „vísiregla gagnvart öðrum starfsmönnum svo tryggt verði að þeir njóti jafnræðis“.

Í grein 3.2 er því næst fjallað um einstaka starfaflokka, sem eru fimm, þ.e. sérfræðingar, verkefnastjórar, deildarstjórar, forstöðumenn og aðstoðartollstjóri. Þar segir síðan að til grundvallar röðun skuli „liggja fyrir starfslýsing viðkomandi starfsmanns“. Um sérfræðinga er í grein 3.3 í fyrstu fjallað um svonefnd almenn störf en því næst er lýst starfi sérfræðings A annars vegar og hins vegar starfi sérfræðings B. Almennum störfum sérfræðinga er þar lýst með eftirfarandi hætti: „Starfið felst fyrst og fremst í því að nota vísindalega þekkingu og hugtök til að leysa vandamál, veita upplýsingar og/eða leiðbeiningar.“ Um sérfræðing A segir síðan í samningnum: „Starfið getur falist í almennum störfum sem eru unnin undir ábyrgð/umsjón annars/annarra starfsmanna.“ Um starf sérfræðinga B segir hins vegar eftirfarandi: „Starfið felst í að vinna sjálfstætt að ákveðnum verkefnum undir stjórn deildarstjóra.“

Grein 4 í framangreindum stofnanasamningi fjallar um röðun starfaflokka í launaflokka. Þar kemur fram að röðun starfs í launaflokk sé lágmarksröðun. Sérfræðingum A er þar raðað í launaflokk 5 og sérfræðingum B í launaflokk 7. Í grein 5 í stofnanasamningnum kemur fram að nánar tilgreindir persónu- og tímabundnir þættir skuli síðan metnir sem álag á launaflokka (lárétt röðun). Meðal þeirra þátta sem fellur þar undir er formleg viðbótarmenntun umfram tilskilda menntun sem nýtist í starfi.

Samkvæmt því sem fram hefur komið fyrir dómi hefur framangreindur stofnanasamningur frá 2006 verið lagður til grundvallar við ákvörðun launagreiðslna félagsmanna í þeim stéttarfélögum sem hann tekur til. Þó er ágreiningslaust að á gildistíma samningsins varð sú breyting á grunnröðun viðkomandi starfsmanna að sérfræðingi A var raðað í launflokk 7 og sérfræðingi B í launaflokk 9, án þess að formlega væri gengið frá breytingu á stofnanasamningnum. Skriflegt samkomulag milli Tollstjóra og þriggja stéttarfélaga, þar á meðal stefnanda, um breytingu á stofnanasamningnum tók síðan gildi frá og með 1. nóvember 2014. Þar var m.a. kveðið á um að sérfræðingi A skyldi grunnraðað í launaflokk 9 og sérfræðingi B í launaflokk 11.

Stefanía Hulda Marteinsdóttir er félagsmaður í stefnanda. Hún og Tollstjóri gerðu með sér ráðningarsamning, dags. 18. mars 2013, þar sem Stefanía Hulda var ráðin í starf sérfræðings frá og með 1. janúar 2013. Fram kemur í ráðningarsamningnum að hún sé ráðin til að sinna lögfræðistörfum. Launaflokkur samkvæmt samningnum var 687-072, sem upplýst hefur verið að þýði að henni hafi verið grunnraðað í launaflokk 7. Fyrir liggur að á þessum tíma hafði óformlega samkomulagið sem áður er getið, um hækkun á grunnröðun sérfræðinga, verið í gildi og því ljóst að út frá því var gengið við röðun hennar í launaflokk að hún gegndi starfi sérfræðings A. Jafnframt liggur fyrir að Stefanía Hulda hafði við upphaf ráðningar í framangreint starf lokið 180 eininga BS-gráðu í viðskiptalögfræði frá Háskólanum á Bifröst, sbr. framlagt útskriftarskírteini frá 5. febrúar 2011, og 90 eininga MA-gráðu í skattarétti frá sama háskóla, sbr. framlagt útskriftarskírteini frá 2. júní 2012. Þegar fyrrgreint samkomulag um breytingu á stofnanasamningi tók gildi 1. nóvember 2014 mun grunnröðun Stefaníu Huldu hafa hækkað í launaflokk 9.

Hinn 6. maí 2015 leitaði stefnandi til Tollstjóra og gerði athugasemd við að grunnröðun Stefaníu Huldu hefði ekki hækkað í launaflokk 11 við breytinguna sem tók gildi 1. nóvember 2014. Af hálfu Tollstjóra var svarað um hæl og vísað til þess að rétt starfsheiti hennar hefði verið sérfræðingur A og hafi henni því verið raðað í launaflokk 7 við ráðningu og í launaflokk 9 eftir 1. nóvember 2014. Hins vegar hafi láðst að fella hana undir starfsheitið sérfræðing B eftir að hún hafi „loks lokið“ 5 ára háskólanámi. Fram kemur í svari Tollstjóra að grunnröðun hennar hafi þá átt að hækka í launaflokk 11 og yrði það leiðrétt afturvirkt til 1. mars 2015. Fyrir liggur að Stefanía mun þá hafa lokið námi til ML-gráðu í lögfræði frá Háskólanum á Bifröst, en útskrifast úr því námi þá um sumarið, sbr. framlagt útskriftarskírteini, dags. 13. júní 2015.

Í tölvupóstum sem fóru milli aðila í kjölfarið var því haldið fram af hálfu stefnanda að Stefanía Hulda hafi allt frá upphafi ráðningar gegnt starfi sem falli undir skilgreiningu á starfi sérfræðings B en ekki A. Því var hafnað af hálfu Tollstjóra. Fram kemur í stefnu að fjallað hafi verið um málið í samstarfsnefnd aðila kjarasamningsins, án þess að ágreiningur aðila hafi verið leystur. Með bréfi, dags. 5. janúar 2016, var þess krafist af hálfu lögmanns stefnanda að Tollstjóri leiðrétti launaröðun Stefaníu Huldu. Með bréfi Tollstjóra 29. janúar 2016 var kröfunni hafnað. Lögmaður stefnanda tilkynnti Tollstjóra um fyrirhugaða málshöfðun með bréfi 21. júní 2016. Með tölvuskeyti sama dag var afstaða Tollstjóra ítrekuð.

 

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi reisir stefnukröfur sínar á því að stefndi hafi brotið gegn 3. og 4. gr. stofnanasamnings Tollstjóra og Bandalag háskólamanna, sem stefnandi sé hluti af, dags. 19. júní 2006, sbr. einnig samkomulag um breytingu á stofnanasamningi sem hafi gilt frá 1. nóvember 2014, með því að stefndi hafi ekki grunnraðað Stefaníu Huldu Marteinsdóttur lögfræðingi í launaflokk 9 frá 1. janúar 2013 sem sérfræðingi B, þ.e. frá ráðningu í janúar 2013 og fram til 1. nóvember 2014, en frá þeim tíma til 1. mars 2015 í launaflokk 11. Stefnandi vísar til þess að stofnanasamningur sæki stoð í kjarasamning milli stefnanda og stefnda, fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs, sbr. 11. kafla kjarasamnings. Stefnandi kveður Stefaníu Huldu hafa átt samningabundna og lögvarða kröfu á því að vera raðað í umrædda launaflokka samkvæmt stofnanasamningi og fá greidd laun frá stefnda samkvæmt því. Í því sambandi vísar stefnandi sérstaklega til þess að í 4. gr. stofnanasamnings komi fram að tilgreind röðun, sem dómkröfur byggi á, sé lágmarksröðun. Til hliðsjónar sé einnig vísað til ákvæðis 1. gr. laga nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda.

Stefnandi kveðst byggja á því að Stefaníu Huldu hafi ranglega verið raðað í launaflokk sem sérfræðingi A, í stað þess að vera raðað sem sérfræðingi B, sbr. grein 3 í stofnanasamningnum. Samkvæmt  grein 4 skyldi grunnröðun sérfræðings B frá 1. maí 2007 vera launaflokkur 7, en þó hafi framkvæmdin hjá Tollstjóra óumdeilanlega verið sú, þegar ráðningarsamningur var gerður við Stefaníu Huldu 2013, að grunnröðun sérfræðings A var launaflokkur 7 og sérfræðings B var launaflokkur 9. Raunveruleg grunnröðun hafi því verið orðin nokkuð umfram grunnröðun samkvæmt stofnanasamningi, sem hafi þá verið kominn nokkuð til ára sinna. Af þeirri ástæðu kveðst stefnandi byggja á því að borið hafi að raða Stefaníu Huldu í launaflokk 9 frá 1. janúar 2013 og fram til 1. nóvember 2014 en samkvæmt breyttum stofnanasamningi í launaflokk 11 frá 1. nóvember 2014 og fram til 1. mars 2015. Stefnandi tekur fram að þann dag hafi tekið gildi ný starfslýsing, þar sem Stefanía Hulda hafi verið færð í starfaflokkinn sérfræðingur B og í launaflokk 11.

Stefnandi leggur áherslu á að í grein 3.1 í stofnanasamningi aðila komi fram að röðun í launaflokka skuli miðast við samþykktar starfslýsingar starfsmanna. Í grein 3.2 sé vísað til eftirfarandi starfaflokka í ákvæðinu en til grundvallar röðun skuli liggja fyrir starfslýsing viðkomandi starfsmanna. Í grein 3.3 í stofnanasamningi komi fram að starf sérfræðings B felist í því að vinna sjálfstætt að ákveðnum verkefnum undir stjórn deildarstjóra, en sérfræðingur A vinni almenn störf undir ábyrgð/umsjón annars/annarra samstarfsmanna. Stefnandi segir engum vafa undirorpið, þegar litið sé til starfslýsinga sem gilt hafi um starf Stefaníu Huldu 2013 og 2014, að þær lýsingar á starfssviði samræmist fyllilega umræddri skilgreiningu á sérfræðingi B í stofnanasamningi, þ.e. varðandi sjálfstæða vinnu að ákveðnum verkefnum og undir stjórn deildarstjóra.

Þessu til stuðnings bendir stefnandi á að í starfslýsingu fyrir starf Stefaníu Huldu hafi m.a. komið fram að starfsmaðurinn skyldi undirbúa fyrirtökur og senda fyrirmæli til sýslumanna utan höfuðborgarsvæðisins, hafa umsjón með lokunarmálum í samstarfi við deildarstjóra, annast mót hjá sýslumanninum í Reykjavík, annast mót fyrir hönd sýslumanna úti á landi, senda fyrirmæli varðandi aðgerðir Tollstjóra, undirbúa framhaldssölur fasteigna og annast mót vegna þeirra, undirbúa og annast mætingu á lausafjáruppboð og sinna frágangi vegna þeirra og annast þau störf sem honum kunni að vera falin af yfirmanni. Þá vekur stefnandi athygli á því að yfirmaður Stefaníu Huldu sé samkvæmt starfslýsingunni deildarstjóri en ekki „samstarfsmaður“ eins og áskilið sé í skilgreiningu á sérfræðingi A í grein 3.3 í stofnanasamningi. Þetta sýni allar starfslýsingar Stefaníu Huldu á árunum 2013 til 2015.

Stefnandi kveðst líta svo á að það samræmist ekki stofnanasamningi að Stefaníu Huldu hafi verið grunnraðað sem sérfræðingi A eða neðar frá 2013 og fram til mars 2015, í stað þess að vera raðað sem sérfræðingi B. Stefnandi vísar til þess að engar breytingar hafi orðið á starfssviði Stefaníu Huldu samfara breytingu á launaröðun árið 2015, þegar Stefaníu hafi verið raðað sem sérfræðingi B. Út frá starfslýsingu og 3. gr. stofnanasamnings verði því ekki annað ráðið en að það hafi borið að raða Stefaníu Huldu sem sérfræðingi B.

Stefnandi kveðst byggja á því að sú ákvörðun stefnda að færa Stefaníu Huldu frá 1. mars 2015 í starf sérfræðings B samkvæmt stofnanasamningi, hafi í raun falið í sér viðurkenningu stefnda á kröfum og sjónarmiðum Stefaníu Huldu og stefnanda í málinu. Líkt og áður greini hafi engar breytingar orðið á starfssviði Stefaníu Huldu samfara þessari breytingu á launaröðun. Engin réttlætingarrök standi að baki því að hafa raðað Stefaníu Huldu sem sérfræðingi A fram að þessum tíma í stað þess að raða henni sem sérfræðingi B. Öll skilyrði fyrir röðun sem sérfræðingur B hafi verið uppfyllt löngu fyrir það.

Af hálfu stefnanda er jafnframt bent á að starfsfélögum Stefaníu Huldu, sem hafi gegnt eins eða sambærilegu starfi og hún hjá Tollstjóra og unnið við hlið hennar í viðkomandi deild, hafi verið grunnraðað tveimur launaflokkum hærra en henni á umræddu tímabili, þ.e. árin 2013 til 2015. Ekkert réttlæti þann mismun sem þar hafi verið gerður, enda hafi allir þessir starfsmenn unnið eins eða a.m.k. mjög sambærileg störf og Stefanía gegndi. Stefnandi kveðst gefa lítið fyrir þær fullyrðingar sem komið hafi fram í svörum Tollstjóra, að Stefanía hafi þurft meiri aðstoð við sín störf en aðrir og unnið einfaldari verkefni. Stefnandi kveðst hafna þeim fullyrðingum, sem séu haldlausar með vísan til stofnanasamnings, sbr. framangreint. Stefnandi vísar til þess enn fremur að þessi mismunun við launaákvörðun milli samstarfsmanna brjóti í bága við jafnræðisreglur sem stefndi sé skuldbundinn að fylgja, m.a. jafnræðisreglu í grein 3.1 í stofnanasamningi og 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Stefnandi mótmælir því einnig, sem haldið hafi verið fram af hálfu stefnda, að Stefanía hafi verið ráðin á grundvelli auglýsingar um starfið, þar sem grunnháskólamenntunar hafi verið krafist. Hið rétta sé að Stefaníu, sem hafði starfað hjá Tollstjóra á öðrum vettvangi, hafi verið boðið það starf sem hún hafi tekið við árið 2013 án þess að það starf hafi verið auglýst.

Stefnandi kveðst byggja kröfur sínar á kjarasamningi aðila, sbr. kjarasamning með gildistíma 1. febrúar 2005 til 30. apríl 2008, með síðari breytingum, þ.m.t. samkomulagi 1. maí 2011 til 31. mars 2014, sbr. einnig samkomulag um breytingar og framlengingu á kjarasamningi, dags. 28. maí 2014. Einnig sé byggt á stofnanasamningi Tollstjóra og Bandalags háskólamanna, dags. 19. júní 2006, sbr. síðari breytingar, þ.m.t. samkomulagi um breytingu á stofnanasamningi (samkomulag milli Tollstjóra og stefnanda o.fl.) sem hafi gilt frá 1. nóvember 2014, en stofnanasamningur sé gerður á grundvelli 11. kafla kjarasamnings aðila. Stefnandi vísar einnig til almennra reglna um skuldbindingargildi samninga og meginreglna vinnuréttar og kröfuréttar, sem og til laga nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda. Einnig sé vísað til  stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá sé vísað til laga nr. nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, þ.m.t. 3. töluliðar 1. mgr. 26. gr., sbr. einnig IV. kafla, þ.m.t. 44. gr., laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur. Kröfu sína um málskostnað styður stefnandi við XXI. kafla laga nr. 91/1991, aðallega við 129. og 130. gr. þeirra laga. Krafa um virðisaukaskatt af málskostnaði sé reist á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, en stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur og til að tryggja skaðleysi sitt sé honum nauðsynlegt að fá skattinn dæmdan úr hendi stefnda.

 

Málsástæður og lagarök stefnda

Af hálfu stefnda er því alfarið hafnað að félagsmanni stefnanda, Stefaníu Huldu Marteinsdóttur, hafi verið ranglega raðað í launaflokk sem sérfræðingi A. Stefndi áréttar í þessu sambandi að áður en Stefanía Hulda hóf störf sem sérfræðingur í lögfræðideild Tollstjóra hafi almennt verið gerð krafa um að lögfræðingar þar hefðu lokið embættisprófi í lögfræði. Hafi það m.a. komið fram á starfslýsingum þeirra sem ráðnir hafi verið til starfa við deildina fyrir þann tíma. Eftir endurmat forstöðumanns innheimtusviðs Tollstjóra hafi menntunarkröfum hins vegar verið breytt á þá leið að ekki hafi lengur verið gerð krafa um embættispróf eða jafngilt meistarapróf, heldur hafi BA próf í lögfræði dugað, svo sem komi fram á forsíðu starfslýsingar Stefaníu Huldu frá 1. júní 2013.

Stefndi kveður það rétt að á árinu 2014 hafi Stefanía Hulda gert athugasemdir við launakjör sín í starfsmannasamtali við deildarstjóra lögfræðideildar innheimtusviðs. Í kjölfarið hafi deildarstjóri skýrt henni frá þeirri afstöðu embættisins að 90 eininga MA gráða í skattalögfræði jafngilti ekki embættisprófi eða jafngildu meistaraprófi í lögfræði og því væri henni réttilega raðað í launaflokk á þeim forsendum að hún gegndi starfi sérfræðings A. Jafnframt hafi deildarstjórinn leiðrétt þá formlegu starfslýsingu sem hafi legið fyrir, dags. 1. júní 2013, með því að handskrifa á hana rétta lýsingu á menntunarkröfu og breytt orðalaginu í „BA lögfræði“, en fyrir mistök hafi enn þá verið tilgreind í meginmáli starfslýsingarinnar sú menntunarkrafa sem áður hafi verið gerð til starfsins.  Með leiðréttingu starfslýsingarinnar að þessu leyti hafi orðalagið verið fært til samræmis við það hvernig starfsheiti Stefaníu Huldu hafi verið tilgreint á forsíðu starfslýsingarinnar og hafi leiðréttingin verið gerð að Stefaníu Huldu viðstaddri. Stefndi tekur fram að forstöðumenn stofnana hafi, í ljósi stjórnunarréttar, ávallt svigrúm til þess að meta og fara yfir þær kröfur sem gerðar séu til þeirra starfa sem unnin séu hjá viðkomandi stofnun. Telji forstöðumaður að viðkomandi starf krefjist ekki ákveðinnar þekkingar, eða annars konar þekkingar, þá rúmist það innan stjórnunarréttar forstöðumanns að ákveða slíkt.

Af hálfu stefnda er byggt á því að Stefaníu Huldu hafi verið réttilega raðað í launaflokk miðað við það að hún væri sérfræðingur A frá 1. janúar 2013 til 1. mars 2015. Í stefnu sé því haldið fram að starfslýsingar Stefaníu Huldu árin 2013 og 2014 lýsi starfssviði sem sé í samræmi við skilgreiningu á starfi sérfræðings B í grein 3.3 í stofnanasamningi en þar segi að starfið felist í því að vinna sjálfstætt að ákveðnum verkefnum undir stjórn deildarstjóra. Þessari málsástæðu stefnanda er alfarið hafnað af hálfu stefnda.

Til stuðnings mótmælum stefnda er af hans hálfu vísað til greinar 3.1 í stofnanasamningi, þar sem lýst sé almennum forsendum röðunar á starfi. Samkvæmt þeim eigi að taka mið af þeim verkefnum og skyldum sem í starfinu felast, menntun, ábyrgð, þjálfun, starfsreynslu og færni (kunnáttustig/sérhæfing) sem þurfi til að gegna starfinu. Enn fremur að röðun skuli miðast við grunnverksvið í viðkomandi starfi og samþykktar starfslýsingar. Þá vísar stefndi til þess sem segi í grein 3.2 í stofnanasamningnum að til grundvallar röðun skuli liggja fyrir starfslýsing viðkomandi starfsmanns. Stefndi leggur áherslu á að ekki beri að vanmeta mikilvægi starfslýsinga. Aftur á móti verði að geta þess að þær séu að jafnaði í því formi að þær geti að efni til ekki verið með mjög ítarlegar eða nákvæmar lýsingar á viðkomandi störfum. Þar sé iðulega látið duga að geta meginatriða um viðkomandi starf án þess að það sé nákvæmlega útfært, enda væri það nær ómögulegt í mörgum tilvikum. Því hljóti starfslýsingar jafnan að vera nokkuð almennt orðaðar og ekki tæmandi.

Stefndi telur lýsingu á starfi Stefaníu Huldu í umræddum starfslýsingum samrýmast lýsingu stofnanasamnings á starfi sérfræðings A. Í stofnanasamningnum komi fram að starf sérfræðings A geti falist í almennum störfum, þ.e. í því að nota vísindalega þekkingu og hugtök til að leysa vandamál, veita upplýsingar og/eða leiðbeiningar, sbr. 1. mgr. greinar 3.3, og að þessi almennu störf séu unnin undir ábyrgð/umsjón annars/annarra starfsmanna. Starfi sérfræðings B sé hins vegar lýst í sama ákvæði á þann veg að það felist í því að vinna sjálfstætt að ákveðnum verkefnum undir stjórn deildarstjóra. Sérfræðingur A í lögfræðideild innheimtusviðs Tollstjóra geti unnið í margvíslegu samstarfi við aðra starfsmenn deildarinnar og raunar alls innheimtusviðsins, þ.m.t. við aðra lögfræðinga og yfirmenn, sem séu deildarstjóri lögfræðideildar og forstöðumaður innheimtusviðs. Orðalag skilgreiningar á sérfræðingi A útiloki ekki að með því að störf séu unnin undir ábyrgð/umsjón annars/annarra starfsmanna, sé hvoru tveggja átt við starfsmenn í viðkomandi skipulagseiningu og jafnframt yfirmenn skipulagseiningarinnar, allt eftir atvikum hverju sinni. Reyndin sé sú að þann tíma sem Stefanía Hulda hafi starfað sem sérfræðingur A í lögfræðideild innheimtusviðsins, þá hafi hún unnið við einfaldari lögfræðileg verkefni, undir stjórn annarra starfsmanna, hvort heldur sem það voru sérfræðingar B eða deildarstjóri lögfræðideildarinnar. Þó telur stefndi rétt að árétta að sum verkefni sérfræðinga A og B séu sameiginleg, þ.e. að þau geti verið unnin ýmist af sérfræðingi A eða B. Það eigi t.d. við um mót við fyrirtöku fjárnámsmála og undirbúning framhaldsuppboða o.fl., en þau verkefni falli hins vegar undir verkefnaskilgreiningu sérfræðings A. Þessi verkefni eigi það sameiginlegt að til séu verklagsreglur og viðmið um það hvernig eigi að leysa þau af hendi og að þau krefjist beitingar almennrar sérfræðiþekkingar við úrlausn mála, en ekki sjálfstæðrar ákvarðanatöku utan þess ramma sem sé settur fram með skriflegum hætti í verklagsreglum. Stefndi telur rétt að árétta að þann tíma sem Stefanía Hulda hafi gengt starfi sérfræðings A í lögfræðideild innheimtusviðs, þá hafi aðrir lögfræðingar ekki verið í slíku starfi. Kveður stefndi aðra lögfræðinga, sem hafi starfað í deildinni eða í sérverkefnum á innheimtusviði á þeim tíma, hafa haft embættispróf (cand.jur.) eða jafngilt meistarapróf í lögfræði, og því verið sérfræðingar B, sbr. framlagðar starfslýsingar annarra starfsmanna.

Stefndi byggir á því að fullnaðarpróf í lögfræði felist í því að nemandi hafi lokið 300 ECT einingum í lögfræði sem sé samtala úr grunnnámi og meistaranámi. Námið skiptist þannig að ljúka skuli BA-námi í lögfræði sem jafngildir 180 ECT-einingum og framhaldsnámi til meistaraprófs í lögfræði sem jafngildi 120 ECT-einingum. Sá sem hafi lokið slíku námi teljist hafa lokið meistaranámi í lögfræði sem sé jafngilt embættisprófi. MA-gráða stefnanda hafi gert kröfu um 90 eininga nám en ML-gráða jafngildi 120 einingum. Samkvæmt því telur stefndi að ekki sé hægt að jafna MA-gráðu Stefaníu Huldu við fullnaðarpróf/embættispróf í lögfræði og hafi launasetning hennar tekið mið af þessu. Það að samstarfsmenn Stefaníu Huldu hafi verið raðað í hærri launaflokk sem sérfræðingar B á umdeildu tímabili, helgist af því að Stefanía Hulda hafi ekki lokið fullnaðarprófi í lögfræði, eins og krafist hafi verið af þeim sem gegndu starfi sérfræðings B. Að mati stefnda sé ekki hægt að líkja færni og þjálfun starfsmanna með BA-próf og MA-próf saman við þá sem hafi lokið fullnaðarprófi í lögfræði. Þeir sem ekki hafa lokið slíku fullnaðarprófi, hafi að mati stefnda ekki öðlast sömu þjálfun, þekkingu og færni og þeir sem lokið hafa slíku prófi.

Með hliðsjón af framansögðu telur stefndi að Stefaníu Huldu hafi verið réttilega raðað í launaflokk sem sérfræðingur A frá því að hún var ráðin í lögfræðideild 1. janúar 2013 og allt til 1. mars 2015. Stefanía Hulda hafi í mars 2015 í raun lokið námi til ML-gráðu í lögfræði, þótt hún hafi ekki útskrifast fyrr en 13. júní sama ár. Að mati stefnda hafi það verið í samræmi við meðalhóf og jafnræðisreglu að breyta launaröðun Stefaníu Huldu 1. mars 2015 úr stöðu sérfræðings A í stöðu sérfræðings B.

Stefndi mótmælir því alfarið að með framangreindri breytingu hafi stefndi viðurkennt röksemdir stefnanda um að Stefaníu Huldu hafi verið ranglega raðað í starf sérfræðings A. Þá mótmælir stefndi því sem röngu að starf Stefaníu Huldu hafi ekki breyst 2015 þegar hún hafi verið gerð að sérfræðingi B með tilheyrandi launasetningu. Hið rétta sé að starf hennar hafi þá breyst talsvert, eins og komi fram á minnisblaði deildarstjóra lögfræðideildar innheimtusviðs, dags. 13. september 2016. Þá hafi henni verið falin flóknari verkefni til úrlausnar, auk þerra verkefna sem hún hafi áður sinnt. Þessi flóknari verkefni hafi m.a. falist í að afgreiða kröfur skiptastjóra um riftun á greiðslu samkvæmt gjaldþrotalögum, hvort ábyrgjast ætti aukinn skiptakostnað skiptastjóra í gjaldþrotamálum til endurheimtu verðmæta og fleiri verkefni sem séu þess eðlis að ekki sé hægt að reiða sig á fyrirmyndir í málunum og úrlausn þeirra krefjist meiri sérfræðiþekkingar til að meta málsatvik, sönnunarstöðu og túlkun lagareglna. Í minnisblaðinu komi fram að kjarninn í breytingu á starfi Stefaníu Huldu hafi verið að hún hafi fengið flóknari verkefni þar sem ekki hafi verið hægt að styðjast við fyrirmyndir úr öðrum málum eða stöðluð svör. Slík mál, sem leysa þurfi úr með sjálfstæðum hætti, hafi Stefanía Hulda ekki fengið áður, meðan hún gegndi starfi sem sérfræðingur A. Telur stefndi að upplýsingar í framangreindu minnisblaði sýni að breyting hafi orðið á störfum Stefaníu Huldu 1. mars 2015. Því sé fráleitt að með breytingunni á launaröðun í mars 2015 hafi stefndi viðurkennt kröfur og sjónarmið stefnanda.

Með vísan til þess sem rakið hafi verið telur stefndi að Stefaníu Huldu hafi hvorki verið mismunað við launaákvörðun með tilliti til annarra starfsmanna Tollstjóra, né hafi stefndi brotið jafnræðisreglur 11. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og greinar 3.1 í stofnanasamningi.  Stefanía Hulda hafi einfaldlega sinnt einfaldari störfum sem sérfræðingur A en þeir sem gegnt hafi starfi sérfræðings B, þótt þeir hafi vissulega einnig sinnt einfaldari störfum sem falli undir skilgreiningu á starfi sérfræðings A. Eftir að Stefanía Hulda hafi verið færð yfir í starf sérfræðings B hafi henni verið falin flóknari verkefni, sem hún hafi sinnt ásamt hinum einfaldari eftir atvikum, svo sem verið hafi um alla þá sem gegnt hafi starfi sem sérfræðingur B.  Það sem skilji á milli sé ML-gráðan sem stefnandi hafi ekki lokið fyrr en í mars 2015. Því hafi ekki verið um neina mismunun að ræða milli starfsmanna, heldur hafi það verið menntun og færni sem að jafnaði fylgi henni sem hafi ráðið niðurröðun í launaflokka.

Stefndi mótmælir því sem haldið sé fram í stefnu að Stefanía Hulda hafi ekki verið ráðin á grundvelli auglýsingar um starfið, þar sem grunnmenntunar hafi verið krafist. Auglýst hafi verið eftir háskólamenntuðu fólki til að verða sérfræðingar í tollamálum. Í auglýsingunni hafi verið gerð krafa um háskólamenntun sem nýttist í starfi, en ekki um embættispróf í lögfræði eða sambærilega menntun. Grunnnám í háskóla hafi því dugað. Á grundvelli þessarar auglýsingar hafi Stefanía Hulda verið ráðin til starfa við lögfræðideildina, þótt vissulega hafi hún áður verið þar við almenn skrifstofustörf og jafnframt verið hvött til þess að sækja um samkvæmt auglýsingunni. Stefndi kveður það vera rangt að hún hafi verið ráðin án auglýsingar.

Samkvæmt framansögðu er á því byggt af hálfu stefnda að réttilega hafi verið staðið að launaröðun félagsmanns stefnanda, Stefaníu Huldu, á tímabilinu 1. janúar 2013 til 1. mars 2015. Því hafi stefndi ekki brotið gegn 3. og 4. gr. stofnanasamnings Tollstjórans í Reykjavík og Bandalags háskólamanna frá 19. júní 2006, sbr. samkomulag um breytingu, dags. 1. nóvember 2014.  Því sé krafist sýknu af öllum kröfum stefnanda og málatilbúnaði félagsins að öðru leyti mótmælt.

Til stuðnings kröfum stefnda um málskostnað vísar hann í öllum tilvikum til XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

 

Niðurstaða

Mál þetta heyrir undir Félagsdóm með vísan til 3. töluliðar 1. mgr. 26. gr. laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna.

Í máli þessu greinir aðila á um hvort félagsmanni í stefnanda, Stefaníu Huldu Marteinsdóttur, hafi verið réttilega raðað í starfa- og launaflokk samkvæmt stofnanasamningi aðila allt frá því að hún var ráðin í starf lögfræðings hjá Tollstjóra í janúar 2013 til 1. mars 2015 er henni var raðað í launaflokk 11 samkvæmt samningnum. Í kafla II er gerð grein fyrir röðun hennar í launaflokk með tilliti til þess starfaflokks sem vinnuveitandi hennar, Tollstjóri, taldi að hún tilheyrði á þessum tíma, sem var starf sérfræðings A. Stefnandi telur að Stefaníu Huldu hafi verið ranglega raðað í þennan starfaflokk, enda hafi hún gegnt starfi sérfræðings B. Það hvílir á stefnanda að færa viðhlítandi sönnur á að ákvörðun stefnda um röðun starfsmannsins feli í sér brot á umræddum stofnanasamningi.

Lýsing á framangreindum tveimur starfaflokkum í grein 3.3 í framlögðum stofnanasamningi er ólík að því leyti að sérfræðingur A vinnur undir ábyrgð eða umsjón annars eða annarra starfsmanna, meðan sérfræðingur B vinnur „sjálfstætt að ákveðnum verkefnum undir stjórn deildarstjóra“. Að öðru leyti virðist sérfræðingum í báðum þessum flokkum almennt ætlað að leysa „vandamál“ og veita upplýsingar eða leiðbeiningar með því að „nota vísindalega þekkingu og hugtök“. Álitaefni um röðun sérfræðings í annan hvorn flokkinn lýtur því einkum að því hvort hann vinni sjálfstætt að ákveðnum verkefnum undir stjórn deildarstjóra eður ei. Að öðru leyti verður að ætla að verkefni sérfræðinga A og B, eins og þeim er lýst í stofnanasamningi, geti skarast og þeir unnið að meira eða minna leyti við sömu viðfangsefnin. Þá telur dómurinn að orðalagið „undir ábyrgð eða umsjón annars eða annarra starfsmanna“ í lýsingu á starfi sérfræðings A útiloki ekki að starfsmaðurinn vinni að verkefnum undir stjórn deildarstjóra. Málsástæðum stefnanda er byggja á öðrum skilningi er hafnað.

Við úrlausn Félagsdóms á dómkröfu stefnanda verður að taka tillit til þess að það er almennt hlutverk vinnuveitanda í ráðningarsambandi að ákveða skipulag starfsins og þá meðal annars hvaða starfsmenn eigi að sinna einstökum viðfangsefnum að því gefnu að það samrýmist lögum og gildandi kjarasamningi. Í því efni getur hann ákveðið að starfsmaður verði að hafa lokið tilteknu námi áður en honum eru falin verkefni sem kalla á aukið sjálfstæði í vinnubrögðum. Þótt stofnanasamningur geri ekki kröfu um að sérfræðingur B þurfi að hafa lokið tilteknu prófi, kann röðun vinnuveitanda í starfaflokk, og þar með í launaflokk, því óbeint að byggjast á tilteknum menntunarkröfum vinnuveitanda. Slíkt verklag, sem reist er á stjórnunarrétti yfirboðara, fer að mati dómsins ekki í bága við grein 3.3 í stofnanasamningi aðila.

Stefnandi byggir á því að þegar í upphafi ráðningar hafi Stefanía Hulda unnið sjálfstætt að nánar tilgreindum verkefnum undir stjórn deildarstjóra. Engin breyting hafi orðið á því í mars 2015 þegar hún hafi loks verið færð í starf sérfræðings B. Þessu til stuðnings vísar stefnandi til framlagðra starfslýsinga. Þessu mótmælir stefndi eins og rakið hefur verið. Byggir stefndi á því að Stefanía Hulda hafi í fyrstu unnið að einfaldari verkefnum þar sem hún hafi getað stuðst við fyrirmyndir og verklagsreglur. Það hafi breyst í mars 2015 eftir að hún lauk námi til ML-gráðu í lögfræði.

Í ráðningarsamningi var ekki kveðið á um hvort Stefaníu Huldu skyldi raðað í starf sérfræðings A eða sérfræðings B. Framlagðar starfslýsingar, dags. 1. júní 2013, 1. febrúar 2014 og 1. mars 2015, tilgreina heldur ekki hvernig starfinu skyldi raðað samkvæmt stofnanasamningi. Í öllum þessum starfslýsingum er næsti yfirmaður sagður vera deildarstjóri lögfræðideildar. Samhljóða lýsing er á starfinu í starfslýsingunum 1. júní 2013 og 1. febrúar 2014, en þar segir orðrétt: „Hefur umsjón með lokunarmálum. Sér um mætingar hjá Sýslumanni í Reykjavík vegna aðfarargerðar Tollstjóra og Innheimtumiðstöðvar sekta og sakarkostnaðar. Undirbýr fyrirtökur og sendir fyrirmæli til sýslumanna utan höfuðborgarsvæðisins. Undirbýr framhaldssölur fasteigna. Undirbýr lausafjáruppboð og sinnir frágangi vegna þeirra.“ Í lýsingu á starfssviði koma fram sömu upplýsingar. Þar er þó bætt við að starfsmanni sé ætlað að annast „önnur þau störf sem honum kunna að vera falin af yfirmanni“. Starfslýsing 1. mars 2015 er að mestu leyti samhljóða eldri starfslýsingum Stefaníu Huldu nema að því leyti að í lýsingu á starfinu hefur verið bætt við að starfsmaður annist meðferð og afgreiðslu „stjórnsýsluerinda með stjórnvaldsákvörðun“. Þessi breyting gefur til kynna að viðfangsefni Stefaníu Huldu hafi að þessu leyti orðið fjölbreyttari eftir að nám hennar til ML-gráðu í lögfræði var metið og hún færð í starf sérfræðings B.

Dómurinn telur að framangreindar starfslýsingar veiti ekki skýra vísbendingu um að hvaða marki ætlast var til þess að Stefanía Hulda væri sjálfstæð í störfum sínum á lögfræðideild Tollstjóra. Hefur stefnandi ekki hnekkt því, sem vinnuveitandi hennar hefur haldið fram, að í kjölfar ráðningar hennar hafi hún einkum fengist við einfaldari lögfræðistörf þar sem unnt hafi verið að styðjast við verklagsreglur og fyrirmyndir. Miðað við það sem fram hefur komið fyrir dómi verður jafnframt að leggja til grundvallar að breyting hafi orðið á starfi Stefaníu Huldu í kjölfar þess að hún varð sérfræðingur B 1. mars 2015 á þann veg að verkefni hennar urðu í senn fjölbreyttar og meira krefjandi. Með hliðsjón af því sem hér hefur verið rakið verður ekki á það fallist að nægar sönnur hafi verið færðar fyrir því að stefndi hafi brotið gegn greinum 3 og 4 í umræddum stofnanasamningi með því að grunnraða henni í launaflokk 7 á tímabilinu frá 1. janúar 2013 til 1. nóvember 2014, en frá þeim degi til 1. mars 2015 í launaflokk 9. Með vísan til sömu sjónarmiða ber að hafna málsástæðu stefnanda er lýtur að því að stefndi hafi brotið gegn jafnræðisreglu greinar 3.1 í stofnanasamningnum eða 1. gr. laga nr. 55/1980 með því að haga grunnröðun starfsmannsins með framangreindum hætti. Því verður stefndi sýknaður af kröfum stefnanda.

Samkvæmt 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, verður stefnanda gert að greiða stefnda málskostnað. Þykir sá kostnaður hæfilega ákveðinn 400.000 krónur.

Málið var endurupptekið 11. janúar 2017. Að loknum endurflutningi málsins var það dómtekið að nýju.

 

D ó m s o r ð:

Stefndi, íslenska ríkið vegna Tollstjóra, er sýkn af kröfum stefnanda, Stéttarfélags lögfræðinga.

Stefnandi greiði stefnda 400.000 krónur í málskostnað.

 

Arnfríður Einarsdóttir

Ásmundur Helgason

Guðni Á. Haraldsson

Elín Blöndal

Inga Björg Hjaltadóttir 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Þessi síða notar vafrakökur Lesa meira