Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 2/2000

Álit kærunefndar jafnréttismála

í máli nr. 2/2000:

 

A

gegn

Skagstrendingi hf.

 

--------------------------------------------------

 

Á fundi kærunefndar jafnréttismála þann 17. nóvember 2000 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu:

 

I.

Inngangur

Með bréfi, dags. 10. febrúar 2000, óskaði kærandi, A, eftir því við kærunefnd jafnréttismála að hún kannaði og tæki afstöðu til þess hvort lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 28/1991, hefðu verið brotin við ráðningar í afleysingarstörf á togarann Arnar HU-1 sumarið 1999.

 

Bréf kæranda var kynnt Skagstrendingi hf. með bréfi, dags. 28. febrúar 2000.  Var þar m.a. með vísan til 2. mgr. 19. gr. laga nr. 28/1991 óskað upplýsinga um fjölda og kyn þeirra sem voru tímabundið til afleysinga á Arnari HU-1 sumarið 1999, menntun og starfsreynslu þeirra og aðra sérstaka hæfileika þeirra sem ráðnir voru, hvað ráðið hafi vali milli umsækjenda auk annarra upplýsinga.

 

Með bréfi Samtaka atvinnulífsins, dags. 3. mars 2000, var tilkynnt að Skagstrendingur hf. hefði falið Samtökum atvinnulífsins að fara með málið fyrir sína hönd.  Með bréfi Samtaka atvinnulífsins, dags. 26. apríl 2000, komu fram svör við framangreindum fyrirspurnum ásamt athugasemdum við erindi kæranda.

 

Með bréfi, dags. 2. maí 2000, var kæranda kynnt umsögn Samtaka atvinnulífsins en ekki voru gerðar frekari athugasemdir af hálfu kæranda.

 

Þykja sjónarmið málsaðila hafa komið nægjanleg fram í skriflegum athugasemdum og greinargerðum til kærunefndar og var ekki talin ástæða til að kalla málsaðila fyrir nefndina.

 

Með lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 96/2000, sem tóku gildi 22. maí 2000, féll umboð þáverandi kærunefndar jafnréttismála niður, sbr. ákvæði til bráðabirgða, en nefndin hafði þá ekki lokið umfjöllum um mál þetta.  Ný kærunefnd jafnréttismála var skipuð hinn 25. júlí 2000 og tók hún þá við meðferð máls þessa.  Álit þetta er veitt á grundvelli laga nr. 28/1991 sem í gildi voru á þeim tíma þegar ráðningar afleysingamanna á togarann Arnar HU-1 áttu sér stað.

 

II.

Málavextir

Um veturinn 1998-1999 sóttist kærandi, A, eftir skipsplássi á togaranum Arnari HU-1 sem er í eigu Skagstrendings hf.  Útgerðarstjórinn benti henni á að tala við skipstjórann, B,  sem og hún gerði.  B sagðist engu geta lofað um pláss en hann skildi hafa hana í huga.  Í maí 1999 kom fram að lítið yrði um aukafrí hjá áhöfninni, en að mögulegt væri að kærandi gæti komist í júlítúrinn þar sem þá væri líklegt að menn tækju sér aukafrí. Í júlí varð ljóst að kærandi fengi ekki skipsplássið.  Fimm afleysingamenn voru ráðnir um sumarið í tvær veiðiferðir.  Þrír þeirra voru fastráðnir starfsmenn hjá Skagstrendingi hf. við önnur störf, fjórði var nemi í Vélskóla Íslands og sá fimmti var nemi í Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra.

 

III.

Sjónarmið kæranda

Af hálfu kæranda er á því byggt að Skagstrendingur hf. hafi brotið gegn lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 28/1991, við ráðningu afleysingamanna á togarann Arnar HU-1 sumarið 1999. Kærandi vísar m.a. til þess að sumir þeirra sem ráðnir voru til afleysinga þetta sumar höfðu minni reynslu af sjómannsstörfum en hún.

 

Í máli kæranda kemur fram að hún hafi unnið frá sumri 1993 til loka árs 1995 hjá Skagstrendingi hf. við sjómannsstörf á tveimur skipum, togaranum Arnari HU-1 (eldri) og rækjuveiðiskipinu Helgu Björgu HU-7.  Kærandi útskrifaðist frá Fiskvinnusluskólanum í Hafnarfirði sem fiskiðnaðarmaður árið 1998.  Á sumrin með skólanum vann hún á Helgu Björgu HU-7.  Haustið 1998 hóf hún nám í sjávarútvegsfræði við Háskólann á Akureyri til enn frekari menntunar í greininni. 

 

Þá er litið svo á af hálfu kæranda að henni hafi verið hafnað um afleysingavinnu á togaranum Arnari HU-1 á grundvelli kyns hennar.  Um veturinn 1998-1999 hafði hún óskað eftir skipsplássi sem sumarafleysingamaður.  Þegar hún hafði samband við skipstjórann, B, sagðist hann engu getað lofað um starf en sagðist ætla að hafa hana í huga.  Þegar líða tók að sumri gekk kærandi meira á eftir því hvort hún kæmist um borð en skipstjórinn kvaðst ekki geta sagt til um það þar sem hann héldi að mannskapurinn um borð myndi halda sig við sína túra og lítið sem ekkert yrði um að menn myndu taka sér aukafrí.  Í maí sagði hann þó að möguleiki væri með júlítúrinn sem síðar varð ekkert úr.

 

Fram kemur hjá kæranda að henni hefði verið tjáð að ástæða þess að hún hefði ekki fengið plássið væri sú að enginn af fastráðnu mönnunum tóku sér aukafrí þannig að þeir fóru alltaf á sjó.  Síðar fréttir hún að "teknir hefðu verið strákar um borð (17 ára eða þar um bil) sem aldrei hefðu farið á sjó og aldrei unnið í sambærilegum störfum líkt og þeim sem unnin eru á sjó eins og snyrting og pökkun". Hún hefði hins vegar hvort tveggja mikla reynslu af sjómannsstörfum og menntun í greininni.

 

IV.

Sjónarmið kærða

Samtök atvinnulífsins hafa komið fram fyrir hönd kærða í málinu. Með bréfi, dags. 26. apríl 2000, koma fram þau sjónarmið sem á er byggt af hálfu Skagstrendings hf. í tilefni af erindi kæranda til kærunefndar jafnréttismála.  Þar kemur m.a. fram að stefna fyrirtækisins sé að skipta þeim afleysingaplássum sem losna yfir sumarið milli ungmenna sem eru í sumarleyfi frá skóla ef unnt er.  Með afleysingamanni sé átt við aðila sem ráðinn er í aðeins eina veiðiferð og ekki gert ráð fyrir að fari aftur, fyrst og fremst skólafólk.  Mjög mikil eftirspurn sé eftir því að komast um borð á togarann Arnar HU-1 hjá skólafólki enda tekjumöguleikar miklir.  Hins vegar kemst einungis lítill hluti þeirra sem sækja um afleysingar um borð vegna þess að á skipið er ráðin ein og hálf áhöfn þannig að skipverjar fara tvær veiðiferðir og eru í fríi þá þriðju.

 

Í svari Samtaka atvinnulífsins, f.h. Skagstrendings hf., um hvað hafi ráðið vali umsækjenda segir að reglan sé að umsækjendur hafi samband við skipstjóra til að óska eftir plássi.  Telji skipstjóri að umsækjandi sé hæfur segi hann viðkomandi að hann muni hafa hann í huga og hafa samband við hann ef pláss losnar. Skipstjórinn heldur skrá yfir hverjir hafi óskað eftir starfi en þegar pláss losnar hefur hann venjulega samband við þann sem fyrstur sótti um. Jafnframt kemur fram að óski starfsmaður sem er í fastri vinnu hjá Skagstrendingi hf. eftir að færa sig um set milli starfa sé jafnan reynt að verða við slíkri beiðni.  Fimm afleysingamenn voru ráðnir um sumarið. Þrír þeirra voru fastráðnir starfsmenn Skagstrendings hf., annars vegar í rækjuvinnslu og hins vegar á öðrum skipum og er einn þeirra enn um borð á Arnari HU-1.

 

Þegar kærandi hafði samband við skipstjórann höfðu a.m.k. fjórir umsækjendur haft samband við hann á undan henni en hann taldi engu að síður vera möguleika með júlítúrinn.  Þegar þetta var hafði ekki verið ákveðið hvort skipið yrði í landi um verslunarmannahelgi.  Þá er haldin Kántrýhátíð á Skagaströnd en nokkrir úr áhöfninni höfðu óskað eftir aukafríi ef skipið yrði þá úti á sjó.  Á þessum forsendum tók skipstjóri jákvætt í erindi kæranda.  Mál þróuðust síðan þannig að skipið var í landi um verslunarmannahelgi.  Hefði þessi vafi með aukafrí skipshafnar ekki verið til staðar hefði skipstjórinn sagt kæranda það þegar að ekki væru líkur á að hún kæmist um borð því of margir væru búnir að biðja um pláss á undan henni.  Þar á meðal væru þeir tveir sem ráðnir voru og eru ekki fastráðnir hjá félaginu en jafnframt var annar umsækjandi á undan henni í röðinni.

 

Þá er tekið fram að ekki sé venja að auglýsa eftir afleysingafólki enda ekki þörf á því.  Um er að ræða almenn sjómannsstörf og er starfslýsing ekki fyrir hendi. Skagstrendingur hf. hefur litið á það jákvæðum augum að fá konur um borð en nokkrar konur hafa verið um borð á skipum félagsins.  Þá hefur ekki verið gerð krafa um reynslu eða sérstaka þekkingu við ráðningu.  Þar hefur frekar ráðið að fyrirtækið hafi viljað gefa sem flestu skólafólki kost á starfi og nokkurri reynslu af sjómannsstörfum. Í því sambandi sé rétt að hafa í huga að flestir sjómenn fyrirtækisins komu fyrst ungir og óreyndir um borð.

  

V.

Niðurstaða

Það er álit kærunefndar jafnréttismála að tilgangur laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 28/1991, hafi verið að koma á jafnrétti og jafnri stöðu kvenna og karla.  Í því skyni skyldi sérstaklega bæta stöðu kvenna.  Val atvinnurekenda á starfsmönnum hefur mikla þýðingu við jöfnun á stöðu kynjanna og voru þeim því lagðar skyldur á herðar að þessu leyti. Samkvæmt 5. gr. laganna skyldu atvinnurekendur sérstaklega vinna að því að jafna stöðu kynjanna innan fyrirtækis síns eða stofnunar og stuðla að því að störf flokkuðust ekki í sérstök kvenna- og karlastörf.

 

Samkvæmt 6. gr. laganna var óheimilt að mismuna starfsfólki eftir kynferði og gilti það m.a. um ráðningu, setningu og skipun í starf og um stöðubreytingar.  Atvinnurekandi skyldi, ef mál var vísað til kærunefndar, sýna nefndinni fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans.  Í 7. gr. var kveðið á um að öll laus störf skyldu standa opin jafnt konum sem körlum.

 

Í 8. gr. laganna var að finna mikilvægar leiðbeiningar um hvaða þætti bæri að leggja til grundvallar mati á hæfni umsækjenda um starf en þar var tilgreind menntun, starfsreynsla og aðrir sérstakir hæfileikar.

 

Samkvæmt 3. mgr. 6. gr. sjómannalaga, nr. 35/1985, getur skipstjóri, í umboði útgerðarmanns, ráðið skipverja á skip sitt.  Svo virðist sem málum sé þannig háttað hjá Skagstrendingi hf. að skipstjóri annist mannaráðningar, a.m.k. þegar um afleysingarstörf er að ræða. 

 

Samkvæmt því sem fram hefur komið er ekki sérstaklega auglýst eftir afleysingafólki á skipið Arnar HU-1 enda hvorki talin þörf á því né það skylt samkvæmt lögum eða kjarasamningi. Fram hefur komið af hálfu kæranda að reglan sé hins vegar sú að umsækjendur hafi samband við skipstjóra er þeir óska eftir plássi. Skipstjóri haldi skrá yfir þá umsækjendur sem hann telji hæfa til starfans og segi þeim að hann muni hafa þá í huga við ráðningar.  Ef pláss losnar byrji hann venjulega á að tala við þann sem fyrstur sótti um.

 

Það er álit kærunefndar jafnréttismála að ekki hafi verið litið á skrá skipstjóra yfir hæfa umsækjendur sem bindandi gagnvart umsækjendum um að þeir fengju vinnu, enda er fram komið að skipstjórinn segi viðkomandi aðeins að hann muni hafa hann í huga við ráðningar. Einnig er fram komið að skráin tryggir ekki að sá er fyrstur sækir um starf, t.d. að hausti, njóti forgangs við ráðningar. Verður því ekki fallist á þau sjónarmið Skagstrendings hf., að við ráðningu afleysingastarfsmanna á skipið Arnar HU-1, gildi reglan "fyrstur kemur fyrstur fær".  Skýringar kærða á því hvað ráðið hafi vali umsækjenda, annarra en þeirra sem voru fastir starfsmenn Skagstrendings hf., þykja því ekki fullnægjandi þegar hafðar eru í huga skyldur atvinnurekenda við ráðningu starfsmanna samkvæmt lögum nr. 28/1991.

 

Kærandi starfaði um borð á skipum Skagstrendings hf. frá sumri 1993 til júlímánaðar 1996 og verður því að teljast hafa nokkra reynslu af starfinu.  Jafnframt hafði hún lokið námi við Fiskvinnsluskólann í Hafnarfirði og útskrifast þaðan sem fiskiðnaðarmaður auk þess sem hún stundar nú nám í sjávarútvegsfræðum við Háskólann á Akureyri. Meðal afleysingamanna í veiðiferð þeirri sem hófst 29. júní og lauk 31. júlí 1999 voru tveir menn sem ekki voru þá starfsmenn fyrirtækisins. Annar þeirra var nemi í Vélskóla Íslands og hafði hann verið "viðloðandi sjómennsku" síðustu ár, fæddur 1980. Hinn var nemi í Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra, fæddur 1981. Með vísan til starfsreynslu kæranda og menntunar hennar á þessu sviði verður að telja óyggjandi að hún hafi verið a.m.k. jafnhæf eða hæfari en framangreindir afleysingamenn.

 

Óumdeilt er að eingöngu karlmenn störfuðu um borð í Arnari HU-1 þetta sumar. Enda þótt ekki væri auglýst eftir afleysingafólki, skyldi engu að síður litið til þess við ráðningu afleysingamanna þá um sumarið að jafna stöðu kynjanna um borð, sbr. 2. málsl. 5. gr. laganna.  Bar því skipstjóra á Arnari HU-1, að velja konu, enda teldist hún a.m.k. jafn hæf og þeir karlar er sóttust eftir sömu stöðu fyrir utan þá sem voru fastir starfsmenn hjá Skagstrendingi hf.

 

Það er því álit kærunefndar, að skipstjórinn á Arnari HU-1 hafi með ráðningu tveggja afleysingamanna á skipið í veiðiferð frá 29. júní til 31. júlí 1999 brotið gegn 2. tl. 1. mgr. 6. gr. laga um jafnan rétt og jafna stöðu kvenna og karla, nr. 28/1991, sbr. nú 24. gr. laga nr. 96/2000.

 

Þeim tilmælum er beint til Skagstrendings hf. að fundin verði lausn sem kærandi getur sætt sig við.

  

 

Andri Árnason

Ragnheiður Thorlacius

Stefán Ólafsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum