Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 11/1999

Álit kærunefndar jafnréttismála
í málinu nr. 11/1999:

A
gegn
utanríkisráðherra.
-----------------------------------------------
Á fundi kærunefndar jafnréttismála föstudaginn 7. janúar 2000 var samþykkt svohljóðandi niðurstaða í máli þessu.

I

Með bréfi, dags. 3. júní 1999, óskaði A, lögfræðingur, eftir því við kærunefnd jafnréttismála að hún kannaði og tæki afstöðu til þess hvort skipun í stöðu embættis Sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli bryti gegn ákvæðum laga nr. 28/1991 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, jafnréttislaga.

Erindið var kynnt utanríkisráðherra með bréfi, dags. 14. júní 1999, og óskað eftirfarandi upplýsinga:
1. Hvar og hvenær embætti Sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli var auglýst laust til umsóknar.
2. Fjölda og kyn þeirra sem sóttu um starfið.
3. Hvernig staðið var að skipun í starfið.
4. Menntun, starfsreynslu og aðra sérstaka hæfileika þess sem ráðinn var. Óskað var eftir afriti af umsókn hans.
5. Hvað ráðið hafi valinu.
6. Hlutfall kynja í sambærilegum störfum á vegum utanríkisráðuneytisins.
7. Hlutfall kynja í sýslumannstöðum á landinu.
8. Afstöðu ráðuneytisins til erindis kæranda.
9. Annað það sem ráðuneytið vildi koma á framfæri og teldi til upplýsinga fyrir málið.

Eftirtalin gögn liggja frammi í málinu:
1. Erindi kæranda, dags. 3. júní 1999, ásamt fylgigögnum.
2. Svarbréf utanríkisráðuneytisins, dags. 2. júlí 1999, ásamt fylgigögnum.
3. Bréf kæranda, dags. 13. ágúst 1999, ásamt fylgigögnum.
4. Bréf utanríkisráðuneytisins, dags. 16. september 1999, ásamt fylgigagni.
5. Starfslýsing fyrir verkefnisstjóra rannsóknar hjá Lögreglustjóranum í Reykjavík.
6. Svarbréf dóms- og kirkjumálaráðuneytisins, dags. 23. nóvember 1999.
7. Bréf utanríkisráðuneytisins, dags. 26. nóvember 1999.

Kærandi og sendiráðsritari í utanríkisráðuneytinu mættu á fund nefndarinnar 15. nóvember 1999 og gerðu grein fyrir helstu rökum málsaðila.

II
Málavextir

Embætti sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli var auglýst laust til umsóknar í Lögbirtingablaðinu 17. febrúar 1999. Fram kom í auglýsingu að umsóknarfrestur væri til 2. mars og að utanríkisráðherra skipaði í embættið til fimm ára frá og með 1. apríl 1999. Tilgreint var að umsækjendur skyldu vera lögfræðingar og uppfylla skilyrði 2. mgr. 12. gr. laga nr. 15/1998, sbr. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 92/1989. Gerð var krafa um fullkomið vald á ensku auk kunnáttu í Norðurlandamálum. Í auglýsingunni var starfinu lýst svo:
Sýslumaðurinn á Keflavíkurflugvelli sinnir öllum almennum störfum sýslumanns, en aðalmillilandaflugvöllur landsins er í umdæminu og eru því toll- og lögreglustjórn og persónueftirlit með flugfarþegum umfangsmest verkefna sýslumannsins. Schengen-samstarfið mun á næstu árum hafa í för með sér breytingar á persónueftirliti á flugvellinum. Ennfremur er umdæmi sýslumannsins hluti varnarsvæða skv. varnarsamningnum milli Íslands og Bandaríkjanna frá 1951, sbr. lög nr. 110/1951. Sýslumaðurinn fer með margs konar samskipti við yfirstjórn varnarliðsins og kemur fram fyrir hönd íslenska ríkisins gagnvart lögregluyfirvöldum þess.

Umsækjendur um starfið voru sjö, sex karlar og ein kona. Varnarmálaskrifstofa ráðuneytisins yfirfór umsóknirnar m. t. t. starfsgengis umsækjenda. Enginn umsækjenda var kallaður í viðtal. Allir umsækjendur voru taldir uppfylla starfsgengisskilyrði og var málið lagt fyrir utanríkisráðherra til ákvörðunar. Utanríkisráðherra skipaði B, í embættið 19. mars 1999.

Fyrir liggja upplýsingar um menntun og starfsreynslu kæranda og þess sem starfið fékk.

Kærandi lauk prófi frá lagadeild Háskóla Íslands vorið 1990 með I. einkunn. Hún stundaði framhaldsnám við Kaupmannahafnarháskóla veturinn 1996 til 1997 og lauk þaðan prófi í afbrotafræðum, alþjóðlegum mannréttindum, alþjóðlegum refsirétti og Evrópurétti. Að loknu embættisprófi hefur hún starfað sem fulltrúi borgarfógetans í Reykjavík í þinglýsingadeild frá maí 1990 til júní 1992. Frá júlí 1992 til júní 1993 var hún dómarafulltrúi við Héraðsdóm Reykjavíkur og vann m.a. að málum vegna skipta á þrota- og dánarbúum. Hún rak lögmannsstofu frá ágúst 1993 til ágúst 1995, starfaði sem lögfræðingur Alþýðusambands Íslands frá september 1995 til mars 1996 og var fulltrúi rannsóknarlögreglustjóra ríkisins frá þeim tíma og fram í ágúst 1996. Í júlí 1997 hóf hún störf hjá lögreglustjóranum í Reykjavík sem lögfræðingur fíkniefnadeildar og hefur starfað þar síðan. Á námsárum sínum var hún í námsvist við sakadóm Reykjavíkur og sýslumannsembættið á Selfossi. Hún starfaði sumurin 1988 og 1989 sem tollvörður á Keflavíkurflugvelli. Kærandi fékk leyfi til málflutnings fyrir héraðsdómi árið 1993.

B lauk prófi frá lagadeild Háskóla Íslands árið 1987 með II. einkunn. Að námi loknu hóf hann störf hjá Húsamiðjunni hf. og sá þar m.a. um innheimtu- og samningagerð vegna útlána. Á miðju ári 1988 hóf hann störf í utanríkisráðuneytinu og starfaði þar til 1. apríl sl. er hann var skipaður sýslumaður á Keflavíkurflugvelli. Hjá utanríkisráðuneytinu starfaði B fyrst á almennu skrifstofu ráðuneytisins en frá miðju ári 1989 á viðskiptaskrifstofu. Helstu verkefni hans þar tengdust EES-samningaviðræðunum. Árið 1991 fór hann til starfa hjá sendiráði Íslands í París sem jafnframt er fastanefnd hjá Mennta- og menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) og hjá Efnahags- og framfarastofnuninni (OECD). Þá heyrðu verkefni Evrópuráðsins undir sendiráðið. Árið 1994 fluttist hann til starfa í sendiráð Íslands í Bruxelles og starfaði þar við EES-málefni. B fékk leyfi til málflutnings fyrir héraðsdómi árið 1994.

Ekki liggur fyrir starfslýsing fyrir embætti Sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli. Um störf sýslumanna er fjallað í lögum nr. 92/1989 um framkvæmdarvald ríkisins í héraði, sbr. dómstólalög nr. 15/1998. Verkefni sýslumanna eru að fara með stjórnsýslu ríkisins, hver í sínu umdæmi, eftir því sem lög og reglugerðir mæla fyrir um. Tilgreint er í lögunum að á verksviði þeirra sé að fara með lögreglustjórn, tollstjórn og innheimtu opinberra gjalda. Um starfsgengisskilyrði er fjallað í 2. mgr. 5. gr. laganna, sbr. 2. mgr. 12. gr. dómstólalaga.

Sjö stofnanir og fyrirtæki heyra undir utanríkisráðuneytið og eru karlar forstöðumenn þeirra allra. Embætti sýslumanna heyra undir dómsmálaráðuneytið ef frá er skilið embætti sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli. Embættin eru alls 27 og gegna konur tveimur þeirra.

Með bréfi, dags. 23. mars 1999, óskaði kærandi eftir rökstuðningi utanríkisráðherra, sbr. 21. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Í rökstuðningi ráðherra, sem dagsettur er 19. apríl 1999, eru helstu verkefni sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli sögð vera lögreglu- og tollstjórn. Eins og fram hafi komið í auglýsingu um starfið muni Schengen-samstarfið hafa miklar breytingar í för með sér á persónueftirliti á flugvellinum. Þá sé umdæmi Sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli hluti varnarsvæða skv. varnarsamningi Íslands og Bandaríkjanna frá 1951 og komi sýslumaður fram fyrir hönd íslenska ríkisins gagnvart lögregluyfirvöldum þeirra. Við meðferð umsókna um embætti sýslumanns hafi verið lögð áhersla á að nýr sýslumaður hefði reynslu af og þekkingu á Schengen-samstarfinu sem yrði stór hluti af starfi hans á næstu árum. Schengen-samstarfið lúti að persónueftirliti á landamærum og auknu samstarfi lögreglu og tollgæslu í aðildarríkjunum, ekki síst við eftirlit með fíkniefnabrotum. Horft hafi verið til reynslu umsækjenda af starfi við lögregluembætti, góðrar tungumálakunnáttu og reynslu af samskiptum við stjórnvöld annarra ríkja. Allir umsækjendur hafi uppfyllt lögbundin skilyrði til að fá skipun í starfið. Yfirburðaþekking B á Schengen-samstarfinu hafi hins vegar ráðið úrslitum. Starfsreynsla hans í 10 ár innan utanríkisþjónustunnar hafi þótt æskilegur grunnur fyrir starfið sem einkennist m.a. af samskiptum við varnarliðið á Keflavíkurflugvelli. Þá hafi B starfað við lögreglustörf og lögfræðiinnheimtu og þekki því til starfsemi sýslumanns- og lögregluembættis.

III
Rök kæranda

Kærandi rökstyður erindi sitt með því að hún sé að minnsta kosti jafnt að embættinu komin og B að því er varði menntun og annað sem máli skipti fyrir stöðuna. Bæði Hæstiréttur og kærunefnd jafnréttismála hafi skýrt ákvæði jafnréttislaga svo að atvinnurekanda beri að ráða þann umsækjanda sem sé af því kyni sem halli á í viðkomandi starfsgrein svo fremi sem umsækjendur teljist jafn hæfir til að gegna umræddu starfi. Á landinu starfi 27 sýslumenn, þar af sé einungis ein kona skipuð í embætti. Ekkert hafi verið gert af hálfu ráðuneytisins til staðreyna kunnáttu hennar og ýmislegt bendi til þess að ákvörðun um ráðningu hafi legið fyrir áður en auglýst var.

Í 8. gr. jafnréttislaga sé að finna leiðbeiningar um hvaða þætti beri að leggja til grundvallar mati á hæfni umsækjenda um starf en þar sé tilgreind menntun, starfsreynsla og aðrir sérstakir hæfileikar þess sem ráðinn er. Þá sé í lögum nr. 92/1989 um framkvæmdavald ríkisins í héraði fjallað um starfssvið sýslumanna.

Kærandi telur sig standa ótvírætt framar B að því er menntun varði. Hún hafi lokið lagaprófi vorið 1990 með I. einkunn. Hún hafi stundað framhaldsnám við Kaupmannahafnarháskóla og lokið þaðan prófi í afbrotafræði, alþjóðlegum mannréttindum, alþjóðlegum refsirétti og Evrópurétti. B hafi lokið lagaprófi vorið 1987 með II. einkunn. Hann hafi ekki lagt stund á framhaldsnám.

Frá því hún lauk námi, hafi hún bæði starfað hjá hinu opinbera, á einkamarkaði og verið sjálfstætt starfandi lögmaður. Hún hafi m.a. starfað við þinglýsingar og í skiptarétti en starfi nú sem lögfræðingur fíkniefnadeildar hjá embætti Lögreglustjórans í Reykjavík. Hún hafi í því starfi öðlast allnokkra reynslu af störfum og stjórn mála í deildinni en samkvæmt 2. mgr. 3. gr. rgj. nr. 396/1997, um stjórn lögreglurannsókna og samvinnu lögreglustjóra við rannsókn opinberra mála, skuli Lögreglustjórinn í Reykjavík að jafnaði annast rannsókn mála vegna ólögmæts innflutnings ávana- og fíkniefna um Keflavíkurflugvöll. Hún hafi starfað tvö sumur sem tollvörður á Keflavíkurflugvelli og þekki því til starfsumhverfis sýslumanns. Þá hafi hún starfað hjá sýslumanninum á Selfossi á meðan hún var við laganám og í Sakadómi Reykjavíkur. B hafi enga reynslu af tollgæslustörfum og einungis reynslu af lögreglustörfum sem sumarafleysingarmaður tvö sumur hjá Lögreglustjóranum í Reykjavík á námsárum sínum. B hafi enga reynslu af yfirstjórn lögreglu. Þá hafi umtalsverðar breytingar verið gerðar á skipulagi og störfum lögreglunnar síðan B starfaði við löggæslu en ný lögreglulög hafi tekið gildi árið 1996. Þá hafi ný lög um meðferð opinberra mála tekið gildi árið 1992 .

Varðandi þá röksemd utanríkisráðherra að við meðferð umsókna hafi verið lögð áhersla á að nýr sýslumaður hefði reynslu og þekkingu af Schengen-samstarfinu, bendir kærandi á að vissulega muni Schengen-samstarfið hafa áhrif á störf sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli. Embættið muni hins vegar einungis framfylgja afmörkuðum þætti þess samnings, þ.e. persónueftirliti með farþegum sem fari um flugvöllinn. Komi upp einhver vafamál um rétt aðila til dvalar í landinu sé það í verkahring Útlendingaeftirlitsins og eftir atvikum annarra stjórnvalda að skera úr um þann ágreining. Þótt persónueftirlitinu fylgi mikil ábyrgð, eins og tollgæslu- og lögreglustörfum almennt, verði ekki séð að framkvæmd þessa þáttar Schengen-samningsins krefjist þeirrar yfirburðarþekkingar sem utanríkisráðherra haldi fram. Samningurinn hafi t.d. engin áhrif á framkvæmd tollgæslu á svæðinu. Þá beri á það að líta að hann taki ekki gildi fyrr en í lok ársins 2000 og gefist nýjum sýslumanni nægur tími til að kynna sér skuldbindingar hans.

Undirbúningur að framkvæmd samningsins hafi fyrst og fremst hvílt á sendifulltrúum sem staddir séu erlendis. Engar upplýsingar séu um að sýslumaðurinn á Keflavíkurflugvelli hafi komið að því starfi þau þrjú ár sem liðin eru síðan Íslendingar hófu þátttöku í Schengen-samstarfinu. Þá bendir kærandi á að undir yfirstjórn dómsmálaráðuneytis starfi sérstök nefnd tengiliða vegna framkvæmdar samningsins. Tengiliðirnir komi frá ráðuneytum og stofnunum sem helst þurfi að koma að undirbúningi en sýslumaðurinn á Keflavíkurflugvelli hafi ekki verið þar á meðal. Ef fallast ætti á þau rök ráðuneytisins að þekking og reynsla á Schengen-samstarfinu hafi úrslitaþýðingu við ráðningu í embættið, fæli það í sér að allir sýslumenn á landinu væru útilokaðir frá því að færa sig til í starfi. Hvorki í starfsauglýsingu né í lögum sé sú krafa gerð til sýslumanna að þeir hafi þekkingu á Schengen-samningnum. Ekki sé því heimilt samkvæmt lögum að gera þekkingu á samningnum að hæfnisskilyrði. Þá bendir kærandi á að hún hafi allgóða þekkingu á efni Schengen-samningsins og þeim skuldbindingum sem aðildarríki hans þurfi að uppfylla. Í framhaldsnámi sínu hafi hún lokið prófi í alþjóðlegum refsirétti þar sem Schengen-samningurinn hafi verið stór hluti af námsefninu. Hún hafi einnig lokið prófi í Evrópurétti og hafi því góða þekkingu á því hvernig samningurinn tengist Evrópusambandinu. Að lokum telur kærandi þekkingu sína og reynslu af starfi í fíkniefnadeild lögreglunnar í Reykjavík sem og rekstri fíkniefnamála fyrir dómstólum koma að góðum notum en í bréfi utanríkisráðuneytisins dags. 19. apríl 1999 sé tekið fram að "Schengen-samstarfið lúti að persónueftirliti á landamærum og auknu samstarfi lögreglu og tollgæslu í aðildarríkjunum, ekki síst við eftirlit með fíkniefnabrotum."

Í auglýsingu um starfið hafi verið gerð krafa um fullkomið vald á ensku auk kunnáttu í Norðurlandamálum. Kærandi telur sig uppfylla ofangreind skilyrði. Hún hafi verið skiptinemi í Bandaríkjunum í eitt ár og í framhaldsnámi sínu við Kaupmannahafnarháskóla hafi hún tekið munnleg próf á ensku og dönsku. Ritgerð sína hafi hún skrifað á ensku. Kærandi bendir á að henni sé ekki kunnugt um að utanríkisráðuneytið hafi á nokkurn hátt reynt að staðreyna tungumálakunnáttu umsækjenda. Ekkert liggi því fyrir um að tungumálakunnátta B sé betri en annarra umsækjenda. Þá gildi um þetta sjónarmið hið sama og um kröfuna um þekkingu á Schengen-samningnum. Ekki séu lagaskilyrði fyrir því að gera tungumálakunnáttu að sérstöku hæfnisskilyrði við val á umsækjendum um embættið.

Í bréfi utanríkisráðuneytisins frá 19. apríl sl. sé tekið fram að reynsla af samskiptum við stjórnvöld annarra ríkja hafi verið veigamikill þáttur við mat á umsækjendum. Starfsreynsla B innan utanríkisþjónustunnar hafi þótt æskilegur grunnur fyrir starfið. Telur kærandi að ráðuneytið ofmeti verulega þau erlendu samskipti sem sýslumanninum séu falin. Í auglýsingu um starfið komi fram að sýslumanninum sé ætlað að koma fram fyrir hönd íslenska ríkisins gagnvart lögregluyfirvöldum á varnarsvæðinu. Samkvæmt lögum fari varnarmálaskrifstofa utanríkisráðuneytisins með önnur samskipti við varnarliðið. Þannig fari sýslumaðurinn t.d. ekki á nokkurn hátt með samningagerð við erlend yfirvöld. Ekki verður séð af gögnum málsins að utanríkisráðuneytinu hafi tekist að sýna fram á nauðsyn þekkingar á alþjóðlegum samskiptum enda því ekki haldið fram af hálfu ráðuneytisins að hlutverk sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli sé lögum samkvæmt annað en annarra sýslumanna.

Að lokum bendir kærandi á að í 6. gr. laga nr. 92/1989 sé kveðið á um að sýslumenn hafi yfirumsjón og beri ábyrgð á rekstri embætta sinna. Því verði að ætla að reynsla umsækjenda af rekstri skipti máli. Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum verði ekki séð að B hafi reynslu af rekstri. Hún hafi aftur á móti ágæta reynslu á því sviði m.a. af rekstri lögmannsstofu en á þeim vettvangi hafi hún haft með höndum skiptastjórn og umsjón með nauðasamningsumleitan fjölmargra aðila í rekstri. Í starfi sínu sem lögfræðingur Alþýðusambands Íslands hafi hún veitt aðildarfélögum ráðgjöf, einkum á sviði vinnuréttar, sem telja verði að komi henni vel við starfsmannastjórnun en við embættið starfi yfir 60 manns.

Að öllu þessu virtu verði að telja að hún hafi að minnsta kosti verið jafnt að því komin og B að gegna embætti Sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli. Skipan B í embættið brjóti því í bága við ákvæði 2. tl. 1. mgr. 6. gr. jafnréttislaga.

IV
Rök kærða

Kærði mótmælir þeim fullyrðingum kæranda að þau sjónarmið, sem ráðuneytið hafi lagt til grundvallar við mat á hæfni umsækjenda, feli í sér að sett hafi verið sérstök hæfnisskilyrði fyrir sýslumanninn á Keflavíkurflugvelli umfram það sem kveðið sé á um í lögum. Ráðuneytið líti ekki svo á að það geti sett slík sérstök skilyrði. Það sem fram komi í auglýsingu og kærandi virðist líta á sem sérstök hæfnisskilyrði, sé ekki annað en stutt lýsing á starfsemi embættisins. Sérstaða þess sé mjög mikil þar sem umdæmi þess sé varnarsvæði. Ráðuneytið hafi því talið nauðsynlegt að horfa sérstaklega til þess hvernig menntun, reynsla og aðrir eiginleikar umsækjenda ættu við þau verkefni sem koma til með að einkenna starfsemi sýslumannsembættisins næstu árin og hafi þá m.a. verið horft til næstu fimm ára sem er skipunartími sýslumanna skv. lögum nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Af hálfu ráðuneytisins hafi ekki verið gerðar kröfur um viðbótarmenntun í auglýsingu. B hafi haft fullnægjandi menntun til að hljóta skipun í embættið og svo hafi verið um alla umsækjendur.

Kærandi standi B ekki framar varðandi starfsreynslu. Hann hafi starfað eitt ár hjá Húsasmiðjunni hf. að laganámi loknu og haft þar umsjón með samningagerð fyrir fyrirtækið, útlánum og innheimtu. Í innheimtustörfum felist m.a. að setja fram beiðnir um aðfarargerðir og nauðungarsölur til sýslumanna. B þekki því ágætlega til starfsemi sýslumannsembætta. Hann hafi starfað sem lögreglumaður í Reykjavík í sumarafleysingum og þekki því mæta vel til þess starfs. Sú starfsreynsla muni gagnast honum vel við stjórn á lögregluliði. Kærandi tiltaki sérstaklega að B hafi enga reynslu af yfirstjórn lögreglu. Slíka reynslu hafi kærandi ekki heldur. Starf hennar falli undir rannsóknar- og ákærusvið og sé saksóknari embættisins yfirmaður þess. Æðstu yfirmenn allra sviða séu lögreglustjóri og varalögreglustjóri. Reynsla kæranda af stjórnun innan lögreglunnar sé því takmörkuð við störf hennar á rannsóknar- og ákærusviði. B hafi ráðist til starfa hjá utanríkisráðuneytinu árið 1988. Hann hafi starfað bæði innan ráðuneytisins og í sendiráðum Íslands í París og Bruxelles. Helstu verkefni hans í utanríkisþjónustunni hafi lotið að EES-samningnum, almennum viðskiptahindrunum, frjálsri för fólks, fastanefndum UNESCO og OECD, Evrópuráðinu, fastanefnd EFTA og samskiptum EFTA við þriðju ríki. Kærði bendir á að embættið á Keflavíkurflugvelli hafi mikla sérstöðu gagnvart öðrum sýslumannsembættum vegna þess að umdæmi þess er varnarsvæði. Íslendingar séu almennt ekki búsettir innan umdæmisins og því reyni lítið á skipti dánarbúa, nauðungarsölur, aðfarargerðir og þinglýsingar. Sifjamál séu hins vegar nokkuð algeng. Stærstu verkefni sýslumanns séu hins vegar tollstjórn, lögreglustjórn og persónueftirlit á Keflavíkurflugvelli. Það hafi verið mat ráðuneytisins að menntun B og starfsreynsla væri í samræmi við þær kröfur sem almennt væru gerðar til sýslumanna og félli vel að starfi þessa embættis.

Það hafi hins vegar verið aðrir þættir sem þyngst hafi vegið við val á umsækjendum. Sýslumaðurinn á Keflavíkurflugvelli komi til með að fara með framkvæmd Schengen-samningsins í umdæmi sínu við gildistöku hans. Það sé rangt sem fram komi hjá kæranda að embættið muni aðeins framfylgja persónueftirliti á flugvellinum eftir gildistöku samningsins. Samningurinn komi til með að hafa víðtæk áhrif og það á sviðum sem samningurinn sjálfur fjalli ekki um. Það sé rétt hjá kæranda að samningurinn taki ekki til tollgæslu. Hann muni hins vegar hafa mikil áhrif á tollgæsluna í landinu, ekki síst á Keflavíkurflugvelli, en gert sé ráð fyrir auknu samstarfi lögreglu- og tollayfirvalda í aðildarlöndunum á sviði fíkniefnamála. B hafi starfað að Schengen-samningaviðræðunum í eitt ár og verið aðstoðarmaður aðalsamningamanns Íslands í þeim viðræðum, auk þess sem hann hafi sótt ýmsa sérfræðingafundi hjá Schengen. Hann hafi því sökum starfsreynslu sinnar öðlast geysilega mikla þekkingu á Schengen- samningnum og hafi að þessu leyti haft algera yfirburði miðað við aðra umsækjendur.

Að því er varði þá afstöðu kæranda að nægur tími muni gefast fyrir sýslumanninn að kynna sér skuldbindingar Íslands vegna Schengen-samstarfsins þar sem samningurinn taki ekki gildi gagnvart Íslendingum fyrr en í lok ársins 2000, tekur kærði fram að margvíslegur undirbúningur fyrir gildistökuna standi nú yfir og taki sýslumaður þátt í honum. Varðandi þá fullyrðingu kæranda að undirbúningurinn hafi fyrst og fremst hvílt á sendifulltrúum erlendis, bendir kærði á að frá upphafi samstarfsins hafi starfsmenn sýslumannsembættisins sótt kynningarfundi erlendis, skoðað erlenda flugvelli og búnað og undirbúið sig fyrir gildistöku samningsins. Í tengiliðanefnd, sem kærandi nefni, eigi sæti fulltrúar þeirra ráðuneyta og stofnana sem að Schengen-samstarfinu komi, en sýslumaðurinn á Keflavíkurflugvelli hafi nýlega verið skipaður í nefndina.

Sú ákvörðun ráðuneytisins að krefjast tungumálakunnáttu sé ekki ákvörðun um sérstakt hæfnisskilyrði eins og kærandi haldi fram. Hið sama eigi við um það mat ráðuneytisins að telja starfsreynslu B innan utanríkisþjónustunnar, þar sem hann hafi starfað í 10 ár, æskilegan grunn fyrir starfið. Starf sýslumannsins einkennist mikið af samskiptum við varnarliðið á Keflavíkurflugvelli. Íbúafjöldi á varnarsvæðinu sé um 4000, þar af séu tæplega 2000 hermenn, en aðrir borgaralegir, þ.m.t. fjölskyldur hermanna. Varnarliðsmenn dvelji að jafnaði stuttan tíma á Íslandi, eða 2 til 3 ár. Ýmis vandamál geti komið upp í samskiptum Íslendinga og varnarliðsmanna. Sýslumaðurinn á Keflavíkurflugvelli komi fram gagnvart lögregluyfirvöldum varnarliðsins. Komi slík mál til kasta yfirmanna varnarliðsins sé það ýmist skrifstofustjóri varnarmálaskrifstofu sem sinni þeim eða feli þau sýslumanni. Oft sé um viðkvæm mál að ræða. Lausn felist oft í samkomulagi en ekki hefðbundinni beitingu lögregluvalds. Reynsla B í utanríkisþjónustunni hafi að mati ráðuneytisins verið hinn besti undirbúningur fyrir slíkar úrlausnir.

Þá er mótmælt þeirri fullyrðingu kæranda að B hafi enga reynslu af rekstri. Hann hafi í starfi sínu hjá Húsasmiðjunni hf. borið ábyrgð á öllum útlánum fyrirtækisins en í því starfi hafi m.a. falist að leggja mat á lánshæfi viðskiptavina og hafi þá rekstrarreikningar fyrirtækja oft verið skoðaðir. Hann hafi hafið störf á almennri skrifstofu utanríkisráðuneytisins, sem sé starfsmanna-, fjármála- og rekstrarskrifstofa ráðuneytisins. Þegar hann starfaði í sendiráðunum í París og Bruxelles hafi það oftsinnis komið í hans hlut að gera rekstraráætlanir fyrir þessi sendiráð.

Að lokum bendir kærði á að grundvöllur þess að leggja fram kæru til kærunefndar jafnréttismála sé að kærandi telji að ákvæði jafnréttislaga hafi verið brotin á sér, þ.e. að atvinnurekendur hafi mismunað fólki eftir kynferði m.a. við ráðningu, setningu eða skipun í starf. Sönnunarbyrðin fyrir því að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun sé samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laganna lögð á atvinnurekandann. Þegar kærandi leggur fram erindi fyrir kærunefnd hljóti hann, þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 6. gr., að rökstyðja að hann sé a.m.k. jafnhæfur og sá sem starfið fékk eða standi honum framar. Í þessu máli rökstyðji kærandi það í sumum tilvikum ekki, heldur dragi úr mikilvægi ýmissa þátta í starfsemi embættisins eða telji að þekking eða reynsla B skipti ekki máli. Eigi þetta við um umfjöllun kæranda um Schengen og samskipti við önnur stjórnvöld. Samkvæmt framansögðu hafi utanríkisráðherra ekki brotið gegn 2. tl. 1. mgr. 6. gr. jafnréttislaga með skipun B í embætti Sýslumanns á Keflavíkurflugvelli.

V
Niðurstaða

Tilgangur jafnréttislaga nr. 28/1991 er að koma á jafnrétti og jafnri stöðu kvenna og karla. Sérstaklega skal bæta stöðu kvenna til að ná því markmiði. Atvinnurekendur gegna afar miklu hlutverki í því að ná fram markmiði laganna. Ýmsar skyldur eru lagðar þeim á herðar í þessu skyni og skorður settar við ákvörðunum þeirra m.a. um ráðningu starfsmanna. Atvinnurekendur skulu vinna að því að jafna stöðu kynjanna innan fyrirtækja sinna eða stofnana og sjá til þess að störf flokkist ekki í kvenna- og karlastörf, sbr. 5. gr. jafnréttislaga.

Samkvæmt 6. gr. laganna er óheimilt að mismuna starfsfólki eftir kynferði. Gildir það m.a. um ráðningu, setningu og skipun í starf. Atvinnurekandi skal, ef máli er vísað til kærunefndar, sýna nefndinni fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans. Í 7. gr. er kveðið á um að öll laus störf skuli standa opin jafnt konum sem körlum. Samkvæmt 8. gr. skal atvinnurekandi veita kærunefnd upplýsingar um menntun, starfsreynslu og það hvaða aðra sérstaka hæfileika umfram kæranda sá hafi til að bera sem ráðinn var í starfið.

Forsenda þess að jafnréttislögin nái þeim tilgangi sínum að tryggja jöfn áhrif kvenna og karla og brjóta upp þá kynskiptingu sem er í starfsgreinum á vinnumarkaði, er að við val milli umsækjenda, sem telja verður nokkuð jafn hæfa, sé horft til skiptingar milli kynja í viðkomandi starfsgrein, sbr. 1. gr., 3. gr. og 5. gr. laganna. Hefur þessi meginregla verið staðfest í nokkrum dómum Hæstaréttar svo sem í dómum frá 2. desember 1993, 28. nóvember 1996 og 5. nóvember 1998. Fyrir liggur að engin kona gegnir embætti forstöðumanns hjá stofnun eða fyrirtæki sem heyrir undir utanríkisráðuneytið. Embætti Sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli er eina sýslumannsembættið sem heyrir undir utanríkisráðuneytið. Önnur sýslumannsembætti heyra undir dóms- og kirkjumálaráðuneytið. Umdæmin eru 27 og gegna tvær konur stöðu sýslumanns, þar af er önnur þeirra sett tímabundið.

Einn umsækjandi um stöðu sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli hefur óskað eftir því að nefndin veiti álit sitt á því hvort sú skipun brjóti gegn ákvæðum jafnréttislaga. Sjö umsækjendur voru um stöðuna, þ.á m. kærandi og B sem skipaður var í embættið. Telur nefndin því ekki ástæðu til að afla upplýsinga um hæfni annarra umsækjenda en þessara tveggja þar sem þeir hafa ekki óskað eftir afstöðu nefndarinnar. Um starfsgengisskilyrði sýslumanna er fjallað í 2. mgr. 5. gr. laga nr. 92/1989 um framkvæmdavald ríkisins í héraði, eins og þau heita nú, sbr. 2. mgr. 12. gr. dómstólalaga nr. 15/1998. Óumdeilt er að bæði kærandi og B uppfylla lagaskilyrði til að vera skipuð í embætti sýslumanns.

Í 8. gr. jafnréttislaga er að finna mikilvægar leiðbeiningar við mat á hæfni tveggja umsækjenda, sem báðir teljast hæfir, en þar er tilgreind menntun, starfsreynsla og aðrir sérstakir hæfileikar þess sem ráðinn er.

Kærandi og B hafa bæði lokið prófi frá lagadeild Háskóla Íslands. Kærandi hefur því til viðbótar eins árs framhaldsnám í lögfræði við Kaupmannahafnarháskóla. Lauk hún þar prófi í afbrotafræði, alþjóðlegum mannréttindum, alþjóðlegum refsirétti og Evrópurétti. Kærði hefur bent á að í auglýsingu um starfið hafi ekki verið krafist framhaldsnáms. Bæði uppfylli menntunarskilyrði til að fá skipun. Þrátt fyrir að slík krafa hafi ekki verið gerð, enda óheimil samkvæmt lögum nr. 92/1989, verður að telja viðbótarmenntun almennt til þess fallna að auka hæfni í starfi. Viðbótarnám kæranda hefur þar að auki beina skírskotun til viðkomandi starfs. Telst kærandi því hæfari en B að því er menntun varðar.

Starfsreynsla kæranda og B er ólík. Starfsferill hans sem lögfræðingur er þremur árum lengri en hennar. Hann starfaði í eitt ár hjá einkafyrirtæki við innheimtur og samningagerð og síðan innan utanríkisþjónustunnar. Hún hefur rekið lögmannsstofu og starfað við þinglýsingar og í skiptarétti hjá Borgarfógetaembættinu í Reykjavík. Hún starfar nú sem verkefnisstjóri rannsóknar í fíkniefnadeild Lögreglustjórans í Reykjavík. Hvorugt hefur gegnt starfi sýslumanns. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 92/1989 fara sýslumenn, hver í sínu umdæmi, með stjórnsýslu ríkisins eftir því sem lög og reglugerðir mæla fyrir um. Þar á meðal fara þeir með lögreglustjórn, tollstjórn og innheimtu opinberra gjalda. Kærandi og kærði hafa lagt áherslu á að starfsreynsla fyrir lagapróf skipti máli við mat á hæfni. Kærandi starfaði tvö sumur sem tollvörður á Keflavíkurflugvelli, eitt sumar hjá Sýslumanninum á Selfossi og eitt í Sakadómi Reykjavíkur. B starfaði sem lögregluþjónn í Reykjavík tvö sumur á meðan hann var í námi. Ekki verður séð að annað standi hinu framar hvað starfsreynslu varðar.

Sýslumenn eru forstöðumenn embætta sinna og bera því ábyrgð á rekstri þeirra, þ.m.t. starfsmannahaldi, sbr. 6. gr. laga nr. 92/1989. Kærandi bendir á að reynsla umsækjenda af rekstri hljóti því að skipta máli við mat á hæfni. Telur hún sig standa B framar að þessu leyti þar sem hún hafi bæði rekið lögmannsstofu og starfað fyrir Alþýðusamband Íslands þar sem ráðgjöf á sviði vinnuréttar hafi verið stór þáttur í starfi hennar. B hafi hins vegar enga slíka reynslu. Kærði vísar hins vegar til þess að B hafi hafið störf á almennri skrifstofu ráðuneytisins, sem sinni rekstri og starfsmannahaldi, og í starfi sínu í sendiráðum m.a. unnið að gerð rekstraráætlana fyrir þau. Þá muni starfsreynsla hans hjá Húsamiðjunni hf. nýtast honum.

Í starfsauglýsingu var ekki gerð krafa um reynslu af stjórnun en telja verður að slík reynsla ásamt reynslu af rekstri skipti máli við mat á hæfni umsækjenda um stöðu forstöðumanna ríkisstofnana. Af gögnum málsins verður ekki séð að B hafi reynslu af starfsmannahaldi en störf hans við gerð rekstraráætlana voru á ábyrgð yfirmanns. Kærandi rak lögmannsstofu í tvö ár þar sem hún sinnti m.a. skiptastjórn. Hún hefur því nokkra reynslu af rekstri. Þá ber að fallast á það með kæranda að reynsla hennar af starfi hjá Alþýðusambandi Íslands hefði getað nýst henni að einhverju leyti við starfsmannahald hjá embættinu. Það er álit nefndarinnar að kærandi hafi staðið B nokkru framar að því er varðar reynslu af rekstri og stjórnun.

Koma þá til athugunar þau sjónarmið önnur sem lögð voru til grundvallar skipun í embættið. Í bréfi utanríkisráðuneytisins, dags. 2. júlí 1999, kemur fram að ráðuneytið hafi talið mikilvægt að skoða hvernig menntun, reynsla og aðrir eiginleikar umsækjenda ættu við þau verkefni sem komi til með að einkenna starfsemi sýslumannsembættisins næstu árin og hafi þá m.a. verið horft til næstu fimm ára sem sé skipunartími sýslumanna samkvæmt lögum nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Í auglýsingu um embættið hafi því verið stutt lýsing á starfsemi þess en umfangsmestu verkefni embættisins séu toll- og lögreglustjórn og persónueftirlit með flugfarþegum en stærsti millilandaflugvöllur landsins sé í umdæminu. Tekið hafi verið fram að Schengen-samstarfið komi til með að breyta persónueftirliti á flugvellinum á næstu árum. Auk þess sé umdæmi sýslumannins hluti varnarsvæða samkvæmt varnarsamningi Íslands og Bandaríkjanna og sýslumaður fari með margs konar samskipti við yfirstjórn varnarliðsins. Þá hafi verið gerð krafa um fullkomið vald á ensku og góða kunnáttu í Norðurlandamálum. Við mat á hæfni umsækjenda hafi verið horft til þessarar sérstöðu embættisins. Kærandi heldur því fram að framangreind ákvörðun ráðuneytisins jafngildi því að Sýslumanninum á Keflavíkurflugvelli séu sett hæfnisskilyrði umfram þau sem kveðið er á um í lögum.

Þegar velja skal milli hæfra umsækjenda verður að meta hæfni sérhvers þeirra til að takast á við þau verkefni sem einkenna viðkomandi starf. Með því að lýsa fyrirfram hvaða sjónarmið verði lögð til grundvallar er verið að tryggja jafnræði umsækjenda við meðferð málsins og koma í veg fyrir að ákvörðun sé síðar rökstudd með tilliti til þess sem ráðinn var. Með því að lýsa helstu verkefnum í starfsauglýsingu er jafnframt verið að auðvelda mögulegum umsækjendum að meta hæfni sína til að takast á við viðkomandi starf. Þau sjónarmið, sem lögð eru til grundvallar vali á umsækjendum, verða hins vegar að hafa skírskotun til viðkomandi starfs og eðlilegt samræmi verður að vera milli vægis einstakra sjónarmiða. Þá mega slík sjónarmið eða innbyrðis vægi þeirra ekki fela í sér mismunun vegna kynferðis. Kröfur til umsækjenda, umfram þau hæfnisskilyrði, sem einstök lög setja fyrir skipun í starf, verða því ekki taldar jafngilda lögbundnum hæfnisskilyrðum.

Af hálfu kærða er áhersla lögð á að það hafi verið aðrir þættir en menntun og starfsreynsla sem þyngst hafi vegið við val á umsækjendum. Schengen-samstarfið komi til með að setja mark sitt á starf sýslumanna, einkum sýslumannins á Keflavíkurflugvelli, þar sem innan hans umdæmis sé stærsti alþjóðaflugvöllur landsins. Samningurinn komi til með að hafa víðtæk áhrif og ná til sviða utan ákvæða hans. Þannig sé gert ráð fyrir auknu samstarfi lögreglu- og tollayfirvalda um fíkniefnamál. B þekki vel til samningsins og það hafi vegið þungt við val á umsækjendum. Kærandi heldur því aftur á móti fram að alltof mikið sé gert úr þeim áhrifum sem samningurinn komi til með að hafa. Embættið muni einungis framfylgja afmörkuðum þætti hans, þ.e. persónueftirliti með farþegum sem fara um flugvöllinn. Þá bendir kærandi á að hún hafi allgóða þekkingu á samningnum sem utanríkisráðherra hafi ekki séð ástæðu til að kanna frekar. Samningurinn hafi verið stór hluti af framhaldsnámi hennar við Kaupmannahafnarháskóla. Þá hefði reynsla hennar af störfum hjá fíkniefnadeild Lögreglustjórans í Reykjavík komið að góðum notum.

Í greininni "Hvert fara landamæraverðirnir? Ísland, Schengen og Amsterdamsáttmálinn" eftir Högna S. Kristjánsson, lögfræðing, sem birt er í tímaritinu Úlfljóti 2. tbl. 1999, er fjallað um Schengen-samstarfið, m.a. áhrif samningsins á íslensk lög og stjórnskipan. Um efnisatriði samningsins segir í greininni að fellt verði niður persónueftirlit á innri landamærum aðildarríkja og að eftirlitið færist til ytri landamæra þar sem það verður samræmt og styrkt. Í þessu felist að aðildarríkin feli í reynd hvert öðru að hafa eftirlit með landamærum hvers annars. Í stað innra eftirlits á landamærum, verði gripið til víðtækra stuðningsaðgerða sem felist í lögreglusamvinnu milli ríkjanna, aukinni og einfaldaðri samvinnu ríkjanna á sviði gagnkvæmrar réttaraðstoðar í sakamálum, sett verði upp sameiginleg upplýsingakerfi í því skyni að styrkja lögregluyfirvöld og að lokum muni Schengen þátttakan leiða til þess að gefin verða út ítarlegri starfsfyrirmæli en áður á samningssviðinu t.d. um framkvæmd eftirlits á ytri landamærum og útgáfu vegabréfsáritana.

Samkvæmt ofansögðu verður að fallast á það með kærða að Schengen-samningurinn muni hafa bein og veruleg áhrif á starfsemi Sýslumannsembættisins á Keflavíkurflugvelli vegna staðsetningar alþjóðaflugvallarins innan þess umdæmis. Undirbúningur að breytingum á skipulagi mála hvað varðar persónueftirlit með farþegum var hafinn þegar embætti Sýslumanns var auglýst. Verður að telja sanngjarna og eðlilega þá ákvörðun skipunaraðila að tilgreina sérstaklega í starfsauglýsingu um fyrirhugaðar breytingar og meta hæfni umsækjenda m.t.t. þekkingar þeirra á samningnum. Enda þótt svo mikil áhersla væri lögð á þetta sjónarmið, var enginn umsækjenda kallaður í viðtal og engin tilraun virðist hafa verið gerð til að staðreyna þekkingu kæranda eða eftir atvikum annarra umsækjenda á Schengen-samningnum og samstarfinu. Kærandi vísar í umsókn sinni til þess að hún hafi í framhaldsnámi lagt stund á alþjóðlegan refsirétt, þar sem m.a. hafi verið fjallað um Schengen-samninginn, um gagnkvæma aðstoð og varnarþingsreglur. Í umsókn B kemur fram að hann hafi um tólf mánaða skeið verið aðstoðarmaður aðalsamningamanns Íslands í Schengen-viðræðunum, setið sérfræðingafundi og þekki því vel til ákvæða samningsins og þeirra samningsskuldbindinga sem aðildarríkin þurfi að uppfylla.

Gera verður þá kröfu til skipunaraðila í opinbert embætti að hann staðreyni þekkingu umsækjenda og tryggi þeim þannig jafnræði við mat. Verður ekki séð að það hafi verið gert í máli þessu. Þátttaka B snemma í undirbúningsferli samningaviðræðnanna og seta á sérfræðingafundum um nokkurra mánaða skeið réttlæta ekki að vikið sé frá þeirri rannsóknarskyldu en kærandi hefur einnig til að bera þekkingu á Schengen-samningnum. Þá ber og til þess að líta að þrátt fyrir að samningurinn taki ekki til tollaeftirlits þá hefur utanríkisráðuneytið upplýst að gert sé ráð fyrir auknu samstarfi lögreglu- og tollayfirvalda varðandi fíkniefnamál. Kærandi hefur starfað rúm tvö ár sem verkefnisstjóri rannsóknar hjá fíkniefnadeild Lögreglustjórans í Reykjavík og verður að ætla að sú reynsla hefði nýst henni vel í umræddu starfi.

Kærði hefur jafnframt lagt áherslu á að horft hafi verið til þeirrar sérstöðu embættisins að umdæmi þess sé varnarsvæði. Reynsla af samskiptum við stjórnvöld annarra ríkja sé því mikilvæg. B hafi starfað í rúm 10 ár innan utanríkisþjónustunnar og sú starfsreynsla hafi verið talin nýtast mjög vel. Kærandi telur ráðuneytið aftur á móti ofmeta þennan þátt verulega.

Með bréfi, dags. 31. ágúst 1999, óskaði kærunefnd eftir nánari upplýsingum um hlutverk sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli gagnvart varnarliðinu. Í svarbréfi ráðuneytisins, dags. 16. september 1999, kemur fram að tilvist varnarliðsins hafi mikil áhrif á störf sýslumannins án þess þó að útvíkka hlutverk hans á nokkurn hátt eins og það er afmarkað í lögum og stjórnvaldsfyrirmælum. Varnarliðið á Keflavíkurflugvelli komi fram fyrir hönd bandarískra yfirvalda á svæðinu og sýslumaður fyrir hönd íslenskra stjórnvalda í þeim málaflokkum sem undir hann heyri. Vegna sérstöðu umdæmisins reyni meira á tiltekna málaflokka en aðra svo sem löggæslu og tollgæslu. Í varnarsamningnum sé fjallað um lögsögu beggja ríkjanna og mörk hennar. Bæði varnarliðið og íslensk stjórnvöld fari með lögregluvald á svæðinu. Því sé samvinna mikilvæg. Í því sambandi er nefnt að í samningnum sé kveðið á um að við handtöku manna úr varnarliðinu, sem framið hafi brot á Íslandi, og við rannsókn brota og saksókn skuli ríkin veita hvort öðru aðstoð. Samvinnan nái einnig til tollgæslu en bæði bandarískir og íslenskir lög- og tollgæslumenn hafi eftirlit með umferð og flutningi varnings inn og út af svæðinu.

Af framangreindu er ljóst að sérstaða embættis Sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli er mikil gagnvart öðrum sýslumannsembættum vegna þess að umdæmi þess er varnarsvæði og sýslumaður fer með valdheimildir samhliða bandarískum stjórnvöldum. Mikilvægt er því að sýslumaður búi yfir góðri samskiptahæfni og sé vanur að leysa mál í samvinnu við aðra án valdbeitingar. Ljóst er að B hefur starfað erlendis um árabil og hefur því reynslu af að koma fram fyrir hönd íslenskra stjórnvalda gagnvart erlendum aðilum og stofnunum. Ætla má að þessi reynsla B geti nýst vel til margs konar starfa þar sem reynir á samskipti við erlenda aðila.

B hafði starfað um árabil innan utanríkisþjónustunnar þegar hann var skipaður í embætti Sýslumannsins á Keflavíkurflugvelli. Utanríkisráðherra og starfsmenn utanríksráðuneytisins hafa væntanlega þekkt til starfa hans og hæfni á þessu sviði. Þess frekar verður að telja ástæðu til að samskiptahæfni annarra umsækjenda, þ.m.t. kæranda, yrði könnuð. Það var þó var ekki gert. Með umsókn kæranda fylgdu meðmæli. Ekki hefur annað komið fram við meðferð þessa máls en að kærandi sé fyllilega hæf til samskipta og til að leysa mál á farsælan hátt í samvinnu við aðra. Verður því ekki talið að þekking utanríkisráðherra á sérstakri hæfni eins umsækjanda á þessu sviði, réttlæti að gengið sé fram hjá öðrum umsækjanda sem samkvæmt almennum viðmiðum um mat á hæfni telst a.m.k. jafn hæfur til að gegna embættinu. Er í því sambandi ítrekuð sú skylda sem atvinnurekandi hefur til að jafna hlut kynjanna í starfsgreinum, en engin kona gegnir forstöðumannsstöðu hjá stofnun eða fyrirtæki sem heyrir undir utanríkisráðuneytið.

Þrátt fyrir ákvæði starfsauglýsingarinnar um að umsækjendur skuli hafa fullkomið vald á ensku og kunnáttu í Norðurlandamáli, var sú þekking umsækjenda ekki staðreynd. Gildir um þetta atriði það sama og að framan er rakið, að hæfni B á þessu sviði hefur án efa verið þekkt innan ráðuneytisins en hæfni annarra umsækjenda síður eða ekki. Til að tryggja jafnræði þeirra bar ráðuneytinu að kanna hæfni annarra umsækjenda, þ.m.t. kæranda. Af hálfu kærða hefur því hins vegar ekki verið haldið fram að B standi kæranda framar að því varðar tungumálakunnáttu. Verður því að ætla að bæði kærandi og B uppfylli þetta skilyrði.

Með vísan til þeirra lögmæltu hæfnisskilyrða og þeirra þátta annarra sem kærði lagði til grundvallar skipun í stöðuna, er það álit kærunefndar jafnréttismála að kærandi teljist a.m.k. jafn hæf B til að gegna stöðu Sýslumanns á Keflavíkurflugvelli. Með vísan til framangreinds er það því álit kærunefndar að utanríkisráðherra hafi við skipun í embætti sýslumanns á Keflavíkurflugvelli brotið gegn ákvæðum 2. tl. 1. mgr. 6. gr. jafnréttislaga, sbr. 1. gr. 3. gr. og 5. gr. sömu laga.

Þeim tilmælum er beint til utanríksráðherra að viðunandi lausn verði fundin á málinu sem kærandi getur sætt sig við.

 

Sigurður Tómas Magnússon

Erla S. Árnadóttir

Helga Jónsdóttir
 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum