Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 210/2017

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 210/2017

Föstudaginn 22. september 2017

A og B

gegn

umboðsmanni skuldara

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Lára Sverrisdóttir lögfræðingur, Sigríður Ingvarsdóttir lögfræðingur og Þórhildur Líndal lögfræðingur.

Þann 7. júní 2017 barst úrskurðarnefnd velferðarmála kæra A og B. Kærð var ákvörðun umboðsmanns skuldara sem tilkynnt var með bréfi 18. maí 2017 þar sem greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda voru felldar niður.

Með bréfi 8. júní 2017 óskaði úrskurðarnefnd velferðarmála eftir greinargerð umboðsmanns skuldara sem barst með bréfi 13. júní 2017.

Greinargerð umboðsmanns skuldara var send kærendum til kynningar með bréfi 14. júní 2017 og þeim gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Engar athugasemdir bárust.

I. Málsatvik og málsmeðferð

Kærendur eru fædd 1954 og 1955. Þau búa í eigin húsnæði að C.

Kærendur starfa hjá félögum kæranda B.

Heildarskuldir kærenda samkvæmt skuldayfirliti umboðsmanns skuldara 18. maí 2017 eru 66.464.435 krónur.

Kærendur sóttu um heimild til að leita greiðsluaðlögunar hjá embætti umboðsmanns skuldara 30. mars 2015. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 25. júní 2015 var kærendum veitt heimild til að leita greiðsluaðlögunar og þeim skipaður umsjónarmaður með greiðsluaðlögunar-umleitunum sínum.

Frestun greiðslna, eða svokallað greiðsluskjól, hófst við samþykki umsóknar um greiðsluaðlögun, sbr. 1. mgr. 11. gr. laga um greiðsluaðlögun einstaklinga nr. 101/2010 (lge.). Umsjónarmaður tilkynnti í bréfi til umboðsmanns skuldara 19. maí 2016 að fram væru komnar upplýsingar sem ætla mætti að hindruðu að greiðsluaðlögun á grundvelli lge. væri heimil þar sem kærendur hefðu ekki talið allar tekjur sínar fram eins og skylt væri. Umsjónarmaður lagði því til að greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda yrðu felldar niður samkvæmt 15. gr. lge. Með ákvörðun umboðsmanns skuldara 8. júlí 2016 var heimild kærenda til greiðsluaðlögunar í framhaldinu felld niður með vísan til b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. Kærendur kærðu þá ákvörðun til úrskurðarnefndar velferðarmála sem hnekkti ákvörðuninni með úrskurði 7. desember 2016 þar sem kærendur lögðu fyrir úrskurðarnefndina þau gögn sem synjun umboðsmanns skuldara byggði á. Mál kærenda barst því umboðsmanni skuldara til efnislegrar meðferðar á ný og var nýr umsjónarmaður skipaður í málinu 13. desember 2016. Umboðsmanni skuldara barst tilkynning frá síðari umsjónarmanni í máli kærenda 22. febrúar 2017 þar sem lagt var til á ný að greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra yrðu felldar niður á grundvelli 15. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara sendi kærendum bréf með tölvupósti 23. mars 2017. Með bréfinu var þeim kynnt framkomin tillaga umsjónarmanns um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra. Þá var þeim enn fremur gefinn kostur á að láta álit sitt í ljós innan tilskilins frests og leggja fram frekari gögn áður en umboðsmaður skuldara tæki ákvörðun um hvort fella skyldi niður greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra samkvæmt 1. mgr. 15. gr. lge. Kærendur áttu í framhaldinu tölvupóstsamskipti við umboðsmann skuldara og lögðu fram skýringar og gögn.

Með bréfi til kærenda 18. maí 2017 felldi umboðsmaður skuldara greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra niður með vísan til 15. gr., sbr. b- og d-liði 1. mgr. 6. gr., b- og f-liði 2. mgr. 6. gr. og a- og c-liði 1. mgr. 12. gr. lge.

II. Sjónarmið kærenda

Kærendur mótmæla niðurfellingu á heimild til greiðsluaðlögunar. Skilja verður þetta svo að þau krefjist þess að ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður heimild þeirra til að leita greiðsluaðlögunar verði felld úr gildi.

Kærendur reki einkahlutafélagið D ehf. en félagið framleiði[...]. Síðustu ár hafi rekstur félagsins gengið erfiðlega og félagið ekki getað skilað þeim launum sem reiknuð hafi verið. Nú sé reksturinn á uppleið og því líkur á að félagið geti staðið við launaskuldbindingar sínar.

Megin athugasemd umboðsmanns skuldara sé að aðili í greiðsluskjóli sýni fram á sparnað. Óumdeilt sé að kærendur eigi verulegan sparnað bundinn hjá félaginu og hafi nú auk þess lagt um 1.500.000 krónur inn á bankareikning. Hægt verði að leggja meira inn á bankareikninginn á næstu vikum þar sem innkoma félagsins sé með besta móti.

III. Sjónarmið umboðsmanns skuldara

Í ákvörðun sinni vísar umboðsmaður skuldara til þess að komi fram upplýsingar, sem ætla megi að komi í veg fyrir að greiðsluaðlögun sé heimil á grundvelli lge., skuli umsjónarmaður tilkynna það til umboðsmanns skuldara sem í kjölfarið taki afstöðu til málsins með rökstuddri ákvörðun, sbr. 1. mgr. 15. gr. lge. Skuldara skuli gefið tækifæri til að láta álit sitt í ljós áður en slík ákvörðun sé tekin.

Í b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. sé kveðið á um að synja skuli um heimild til að leita greiðsluaðlögunar, gefi fyrirliggjandi gögn ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar.

Að því er varði skýringu á b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. verði að líta til 4. gr. lge. en þar séu raktar þær upplýsingar og þau gögn sem skuldara beri að leggja fram þegar sótt sé um heimild til að leita greiðsluaðlögunar. Þá segi í 4. tl. 1. mgr. 4. gr. lge. að umsókn skuli fylgja upplýsingar um hverjar tekjur skuldara séu, hvort sem er af vinnu eða öðrum sökum, og upplýsingar um af hvaða samningum eða öðru tekjurnar ráðist, svo og hvort horfur séu á að breytingar verði á tekjum eða atvinnuhögum. Jafnframt skuli greina hvort skuldari muni hafa aðra fjármuni en vinnutekjur sínar til að greiða af skuldum, svo sem vegna sölu eigna eða fjárframlaga annarra.

Í 5. gr. lge. sé kveðið á um að umboðsmaður skuldara skuli ganga úr skugga um að í umsókn skuldara komi fram allar nauðsynlegar upplýsingar og geti hann ef þörf krefur, krafist þess að skuldari staðfesti gefnar upplýsingar með skriflegum gögnum.

Í greinargerð með frumvarpi til lge. komi fram í athugasemdum við 4. gr. laganna að upptalning 4. gr. sé ekki tæmandi, enda sé gert ráð fyrir að umboðsmaður skuldara geti krafist þess að skuldari afli frekari upplýsinga en tilgreindar séu í ákvæðinu. Einnig komi fram að gert sé ráð fyrir því að skuldari útvegi að jafnaði sjálfur nauðsynleg gögn, enda mikilvægt að hann taki virkan þátt í að kortleggja fjárhag sinn til að fá yfir hann heildarmynd. Hins vegar sé ljóst að margir þurfi aðstoð við gagnaöflun og skuli umboðsmaður aðstoða skuldara við hana, auk þess sem embættið geti aflað upplýsinga sjálft með heimild frá skuldara. Þá segi að eflaust verði þó ómögulegt eða erfitt um vik fyrir umboðsmann að nálgast einhver gögn, og sé það því á ábyrgð skuldara að afla þeirra.

Félagið D ehf. sé í eigu kæranda B. Kærendur séu einu starfsmenn félagsins. Við skoðun umsjónarmanns á ársreikningi félagsins fyrir tekjuárið 2015 hafi komið í ljós að skammtímaskuldir vegna ógreiddra launa, launatengdra gjalda, lífeyrissjóðs, staðgreiðslu, tryggingagjalds og félagsgjalda hafi alls verið 6.918.185 krónur. Þar af hafi ógreidd laun árið 2015 verið 4.774.355 krónur. Í ársreikningi félagsins hafi einnig komið fram að kærandi B ætti útistandandi skuld á félagið að fjárhæð 4.243.802 krónur. Að mati umsjónarmanns hafi ekki legið fyrir glögg mynd af tekjum kærenda vegna reksturs félagsins. Kærendur hafi veitt þær skýringar að þau hefðu reiknað sér laun frá D ehf. en ekki fengið þau greidd út nema að litlu leyti þar sem lausafjárstaða félagsins hefði verið erfið. Að sögn kærenda séu nú líkur á að hagur félagsins vænkist og kveðist þau eiga verulegar inneignir hjá félaginu sem verði greiddar út þegar félagið hafi lausafjárstöðu til þess.

Samkvæmt skattframtali 2017 hafi tekjur kæranda B frá D ehf. á árinu 2016 verið 3.600.000 krónur. Umboðsmaður skuldara hafi óskað eftir skýringum á því hvort sú fjárhæð gæfi rétta mynd af tekjum hans þar sem kærendur hefðu að eigin sögn aðeins fengið laun greidd út „að litlu leyti“. Samkvæmt skattframtali 2017 hafi tekjur kæranda A frá D ehf. verið 600.000 krónur á árinu 2016. Heildartekjur hennar hafi alls numið 965.048 krónum það ár samkvæmt skattframtali 2017. Samkvæmt upplýsingum frá Arion banka hf. hafi velta á bankareikningi kæranda A verið 2.276.633 krónur. Mismunur á upplýsingum um tekjur frá Ríkisskattstjóra annars vegar og veltu á bankareikningi hins vegar hafi því numið 1.311.585 krónum á árinu 2016. Umboðsmaður skuldara hafi jafnframt óskað eftir skýringum á þessum mismun sem og upplýsingum um nákvæmar tekjur hennar á árinu 2016. Að sögn kærenda hafi kærandi B fengið greiddar 2.980.000 krónur eftir frádrátt skatts frá D ehf. á árinu 2016. Hluti þessara launa, um helmingur, hafi verið lagður inn á bankareikning kæranda A en hinn helmingurinn hafi ekki verið greiddur út vegna slæmrar afkomu félagsins. Framangreindar fullyrðingar hafi ekki verið rökstuddar frekar og engin gögn lögð fram þeim til stuðnings.

Að mati umboðsmanns skuldara, hafi svör kærenda um tekjur þeirra af rekstri D ehf. og þróun fjárhags þeirra vegna reksturs félagsins, ekki veitt nægilega skýra mynd af fjárhag þeirra eða þróun hans. Að sögn kærenda gefi tekjur samkvæmt skattframtölum ekki rétt mynd af fjárhag þeirra þar sem reiknuð laun hafi í raun og veru aðeins verið greidd út að litlu leyti vegna slæmrar lausafjárstöðu og rekstrarafkomu félagsins. Kærendur hafi þó ekki sýnt fram á það með gögnum hverjar tekjur þeirra hafi í raun og veru verið, þ.e. hve mikið þau hafi fengið greitt.

Samkvæmt ársreikningi D ehf. vegna rekstrarársins 2015 hafi rekstrartekjur félagsins verið 12.063.006 krónur og rekstrargjöld 15.275.626 krónur. Þar af hafi fastur kostnaður vegna launa og launatengdra gjalda numið 4.784.652 krónum. Skuld félagsins vegna ógreiddra launa hafi hækkað um 4.619.712 krónur á milli áranna 2014 og 2015. Því verði að telja að fastur kostnaður vegna launa og launatengdra gjalda, sem komi til frádráttar rekstrartekjum, hafi ekki verið greiddur út. Að sögn kærenda hafi heildartekjur D ehf. samkvæmt virðisaukaskattsuppgjöri verið 5.716.888 krónur á árinu 2016 en rekstrarafkoma félagsins árið 2016 liggi ekki enn fyrir. Að mati umboðsmanns skuldara hafi kærendur ekki sýnt fram á það með óyggjandi hætti að rekstrarafkoma D ehf. sé svo slæm að ekki hafi verið hægt að greiða kærendum út laun, en í því samhengi beri að líta til þess að félagið hafi tekið yfirdráttarlán að fjárhæð 12.228.861 krónu árið 2015 til kaupa á [...].

Af öllu ofangreindu virtu sé það mat umboðsmanns skuldara að fyrirliggjandi gögn í málinu gefi ekki nægilega skýra mynd af fjárhag kærenda eða þróun fjárhags þeirra á tímabili greiðsluaðlögunar, sbr. b. lið 1. mgr. 6. gr. lge. Umboðsmaður skuldara telji að þær upplýsingar sem kærendur hafi verið beðin um varðandi fjárhag þeirra séu mikilvægar og nauðsynlegar til þess að fá heildarmynd af fjárhag þeirra. Embættið telji því að það sé á þeirra ábyrgð að leggja fram gögn sem skýri fjárhag þeirra og rekstur einkahlutafélags þeirra með ítarlegri hætti.

Í 2. tölul. 1. mgr. 4. gr. lge. segi að sundurliðaðar upplýsingar skuli liggja fyrir um allar eignir skuldara. Umboðsmaður skuldara hafi tekið á móti umsókn kærenda um greiðsluaðlögun 4. júní 2015. Í umsókninni, svo og greinargerð kærenda um aðstæður sínar 12. júní 2015, hafi komið fram að einu eignir þeirra væru fasteign að C og einkahlutafélagið D ehf. Þá hafi kærendur greint frá því að þau væru aðilar að rekstri [...]. Við vinnslu umsóknar kærenda hafi þau verið spurð nánar út í þann rekstur. Þau hafi greint frá því að [...] hefði ekki verið kominn í gagnið fyrr en vorið 2015 en yrði væntanlega í fullri notkun næsta vetur.

Við vinnslu málsins hjá umboðsmanni skuldara eftir að seinni umsjónarmaður hafði vísað málinu til embættisins á grundvelli 15. gr. lge., hafi komið í ljós að kærandi B ræki einkahlutafélagið E ehf. ásamt F Á heimasíðu félagsins komi fram að helsta starf kæranda B fyrir félagið sé [...]. Umboðsmaður skuldara hafi í kjölfarið óskað eftir upplýsingum um tengsl kærenda við félagið, eignarhlut þeirra og tekjur af rekstri þess. Kærendur hafi þá greint frá því að kærandi B væri 50% eigandi félagsins á móti F. Varðandi rekstrartekjur þess hafi kærendur sagt að félagið leigði [...] af D ehf. ásamt manni. Sú vinna sem kærandi B innti af hendi fyrir E ehf. félli að sögn kærenda undir laun frá D ehf. Í sundurliðun í ársreikningi E ehf. fyrir árið 2015 komi fram undir liðnum „annar rekstrarkostnaður“ að tækjaleiga hafi numið 350.000 krónum á árinu. Af skýringum kærenda verði ráðið að það hafi verið fyrir leigu á [...]. Í rekstrarreikningi D ehf. fyrir árið 2015 sé hins vegar ekki að finna neinar rekstrartekjur fyrir tækjaleigu. Samkvæmt ársreikningi D ehf. fyrir árið 2015 og upplýsingum frá kærendum sé D ehf. eigandi [...] sem hafi verið keyptur í árslok 2014 fyrir 14.364.000 krónur, auk virðisaukaskatts. E ehf. hafi tekist á hendur skuld samkvæmt óverðtryggðu skuldabréfi að fjárhæð 15.500.000 krónur vegna kaupa á [...]. Að sögn kærenda hafi eigendur E ehf., þ.e. kærandi B og F, auk þess lagt til 3.002.361 krónu vegna kaupa á [...] en þá fjárhæð ættu þeir inni hjá D ehf.

Óskað hafi verið eftir því að kærendur upplýstu hvenær kærandi B hefði eignast 50% hlut í E ehf. og hvort og þá hvernig hann hefði greitt fyrir eignarhlut sinn í félaginu. Að sögn kærenda hefðu kærandi B og F fengið kennitölu E ehf., án þess að greiða fyrir hana þar sem leggja hefði átt félagið niður. Ekki hafi verið upplýst hvenær kærandi B hafi eignast hlut sinn í félaginu. Þá hafi kærendur jafnframt verið spurð að því hvers vegna E ehf. skuldaði hluthöfum sínum samtals 2.024.000 krónur eins og fram komi í ársreikningi 2015. Að sögn kærenda hafi fyrri eigendur lagt félaginu til rekstrarfé og hafi það verið fært sem skuld við hluthafa. Því væri um tapað fé fyrri eigenda að ræða en það stæði áfram í ársreikningi og gæti komið nýjum eigendum að notum til úttektar úr félaginu þegar hagur þess vænkaðist. Kærendur hafi ekki lagt fram gögn þessu til stuðnings.

Að mati umboðsmanns skuldara liggi ekki ljóst fyrir hve verðmætur eignarhlutur kærenda í félaginu E ehf. sé, meðal annars þar sem óljóst sé hverjar eignir og skuldir félagsins nákvæmlega séu. Þá liggi að mati umboðsmanns heldur ekki ljóst fyrir hverjar tekjur kærenda af rekstri félagsins séu eða komi til með að verða á tímabili greiðsluaðlögunar, en að sögn kærenda sé félagið að hasla sér völl í [...]. Auk þessa telji umboðsmaður skuldara óljóst hverjar tekjur kæranda B séu vegna starfa fyrir það. Að sögn kærenda greiði D ehf. laun kæranda B þar sem E ehf. leigi [...] af D ehf., þrátt fyrir að E ehf. hafi tekist á hendur skuldbindingu að fjárhæð 15.500.000 krónur vegna kaupa á [...]. Enn fremur sé það mat umboðsmanns skuldara að hvorki sé ljóst hvernig kærandi B hafi, ásamt F, getað lagt fram 3.002.361 krónu vegna kaupa á [...] né hvernig staðið hafi verið að þeim fjárframlögum. Þá sé átt við hvort lagt hafi verið fram reiðufé eða hvort kærandi B hafi stofnað til frekari skulda í þeim tilgangi. Samkvæmt skattframtali 2015 hafi heildartekjur kæranda B numið 1.046.400 krónum á árinu 2014 en þá hafi kærendur þegar verið komin í vanskil með nær allar sínar skuldbindingar.

Þegar tekið sé mið af öllu ofangreindu er það mat umboðsmanns skuldara að óljós mynd sé af fjárhag kærenda hvað varði rekstur E ehf., sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. Umboðsmaður skuldara telji umbeðnar upplýsingar um eignir, skuldir og rekstur félagsins mikilvægar og nauðsynlegar til þess að fyrir liggi heildarmynd af fjárhag kærenda.

Í d-lið 1. mgr. 6. gr. lge. sé kveðið á um að synja skuli um heimild til að leita greiðsluaðlögunar hafi skuldari af ráðnum hug eða með grófri vanrækslu veitt rangar og villandi upplýsingar um aðstæður sem mikilsverðar séu í málinu.

Eins og rakið hafi verið sé kærandi B 50% eigandi félagsins E ehf. og starfi fyrir það. Ekki liggi ljóst fyrir hvenær hann hafi eignast hlut sinn í félaginu en samkvæmt upplýsingum frá kærendum hafi hann sem eigandi þess lagt fram fjármuni við kaup á [...] í nóvember 2014.

Í umsókn sinni um greiðsluaðlögun hafi kærendur ekki greint frá eignarhluta kæranda B í félaginu svo sem skylt sé samkvæmt 2. tölul. 1. mgr. 4. gr. lge. Þá hafi kærendur hvorki greint fyrri né seinni umsjónarmanni sínum frá eignarhlutanum eða tekjum vegna starfa fyrir félagið. Umboðsmaður skuldara hafi óskað eftir skýringum frá kærendum á því hvers vegna þau hefðu ekki upplýst um eign sína í félaginu, tengsl við það eða rekstur þess við vinnslu máls þeirra hjá umboðsmanni skuldara. Engin svör hafi borist frá kærendum. Að mati umboðsmanns skuldara verði að telja, að með því að upplýsa ekki um tilvist, eignarhluta, rekstur eða störf sín fyrir E ehf., hafi kærendur af ráðnum hug eða með grófri vanrækslu veitt rangar og villandi upplýsingar um aðstæður sem séu mikilsverðar í málinu.

Fram komi í 2. mgr. 6. gr. lge. að utan þeirra synjunarástæðna sem kveðið sé á um í 1. mgr. 6. gr. lge. sé umboðsmanni skuldara heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar þyki óhæfilegt að veita hana. Við mat á slíku skuli taka sérstakt tillit til nánar tilgreindra aðstæðna sem taldar séu upp í stafliðum a til g í ákvæðinu. Í f-lið 2. mgr. 6. gr. lge. sé fjallað um þau tilvik þegar skuldari hafi ekki staðið í skilum með skuldbindingar sínar eftir því sem honum framast hafi verið unnt. Í 12. gr. lge. séu síðan tilgreindar skyldur skuldara á meðan á greiðsluaðlögunarumleitunum standi en í c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. komi fram að skuldara sé óheimilt að láta af hendi eða veðsetja eignir og verðmæti sem gagnast geti lánardrottnum sem greiðsla.

Umboðsmaður skuldara hafi samþykkt umsókn kærenda um greiðsluaðlögun 25. júní 2015 og hafi þar með hafist tímabil frestunar greiðslna, sbr. 11. gr. lge. Frá þeim tíma hafi kærendur notið svokallaðs greiðsluskjóls og borið skyldur samkvæmt 12. gr. lge.

Eftir að umsókn kærenda um greiðsluaðlögun hafi verið samþykkt hafi komið í ljós að þau ættu samtals um 9.000.000 króna inni hjá einkahlutafélagi sínu D ehf. vegna launa og útistandandi skuldar. Kærendur, sem séu einu starfsmenn fyrirtækisins, beri það fyrir sig að þau hafi ekki getað greitt sér laun nema að litlu leyti þar sem rekstrarafkoma og lausafjárstaða félagsins væri slæm. Eins og að ofan greinir sé það mat umboðsmanns skuldara að kærendur hafi ekki sýnt fram á það með óyggjandi hætti að rekstrarafkoma félagsins væri það slæm að þau gætu ekki greitt sér laun.

Samkvæmt upplýsingum frá kærendum hafi kærandi B, ásamt F, lagt fram 3.002.361 krónu í nóvember 2014 vegna kaupa á [...] fyrir D ehf. Ekki liggi fyrir hvernig staðið hafi verið að þeim fjárframlögum, þ.e. hve mikið af fénu kærendur hafi lagt til, hvort lagt hafi verið til reiðufé eða hvort kærandi B hafi stofnað til frekari skulda í þessum tilgangi. Á þessum tíma hafi kærendur þegar verið komin í vanskil með nær allar sínar skuldbindingar en þær helstu séu eftirfarandi:

· Veðskuldabréf hjá Íbúðalánasjóði nr. [...]. Lánið hafi verið í vanskilum frá X 2012.

· Veðskuldabréf hjá Íbúðalánasjóði nr. [...]. Lánið hafi verið í vanskilum frá X 2012.

· Veðskuldabréf hjá Íbúðalánasjóði nr. [...]. Lánið hafi verið í vanskilum frá X 2013.

· Veðkrafa hjá Arion banka hf. nr. [...]. Lánið hafi verið í vanskilum frá X 2014.

· Brunatryggingar og aðrar tryggingar[tryggingar] hafi verið í vanskilum frá árinu 2014.

Þrátt fyrir að óljós mynd sé af lausafjárstöðu D ehf. sé það mat umboðsmanns skuldara að með því að reikna sér ekki laun frá einkahlutafélagi sínu hafi kærendur látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir fremsta megni, sbr. f-lið 2. mgr. 6. gr. lge., en allar skuldbindingar kærenda séu í vanskilum, sbr. ofangreint. Í því samhengi beri að líta til þess að á sama tíma og félagið hafi ekki getað greitt eigendum sínum og einu starfsmönnum laun hafi félagið tekið yfirdráttarlán að fjárhæð 12.228.861 króna.

Þá sé það jafnframt mat umboðsmanns skuldara að með því að reikna sér ekki laun frá einkahlutafélagi sínu hafi kærendur látið af hendi verðmæti sem gagnast gætu lánardrottnum sem greiðsla á tímabili greiðsluskjóls, sbr. c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. en með því að greiða sér ekki laun hafi þau ekki getað lagt fyrir fé í greiðsluskjóli.

Enn fremur sé það mat umboðsmanns skuldara að með því að leggja til 3.002.361 krónu í nóvember 2014 vegna kaupa á [...] í eigu D ehf., ásamt F, hafi kærendur látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir fremsta megni, sbr. f-lið 2. mgr. 6. gr. lge., og látið af hendi verðmæti sem gagnast gætu lánardrottnum sem greiðsla í formi sparnaðar í greiðsluskjóli, sbr. c-lið 1. mgr. 12. gr. lge.

Hafi kærendur tekist á hendur frekari skuldbindingar í þessum tilgangi á sama tíma og þau hafi verið komin í vanskil með allar sínar skuldbindingar, telji umboðsmaður jafnframt ljóst að þau hafi stofnað til skulda á þeim tíma sem þau hafi greinilega verið ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar, sbr. b-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Samkvæmt skattframtali 2015 hafi heildartekjur kæranda B numið 1.046.400 krónum á árinu 2014 og tekjur kæranda A 1.929.911 krónum. Heildartekjur kærenda hafi því samanlagt numið 2.976.311 krónum á árinu 2014 eða að meðaltali 248.025 krónum á mánuði. Framfærslukostnaður kærenda samkvæmt framfærsluviðmiði umboðsmanns skuldara og fyrirliggjandi upplýsingum um raunútgjöld kærenda árið 2014 hafi að meðaltali numið 242.487 krónum á mánuði. Samkvæmt upplýsingum frá Íbúðalánasjóði hafi greiðslubyrði af ofangreindum veðskuldabréfum kærenda hjá sjóðnum numið 176.572 krónum á mánuði. Því sé ljóst að kærendur hafi ekki verið í stakk búin til þess að takast á hendur enn frekari skuldbindingar á þessum tíma.

Samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem sé umfram það sem hann þurfi til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða.

Á meðan á greiðsluskjóli standi skuli skuldari greiða tilfallandi mánaðarlegan framfærslukostnað svo sem rafmagn, hita, samskiptakostnað og fasteignagjöld. Í fylgiskjölum með ákvörðun um samþykki greiðsluaðlögunar sé að finna greiðsluáætlun þar sem gert sé ráð fyrir þessum kostnaði í mánaðarlegum framfærslukostnaði kærenda.

Umboðsmaður skuldara hafi samþykkt umsókn kærenda um greiðsluaðlögun 25. júní 2015 og þar með hafi tímabil frestunar greiðslna hafist, sbr. 11. gr. lge. Frá þeim tíma hafi kærendum borið að leggja til hliðar af launum sínum og öðrum tekjum það fé sem hafi verið umfram framfærslukostnað þeirra. Við útreikning á greiðslugetu sé ávallt notast við þau framfærsluviðmið sem umboðsmaður skuldara setji, sbr. 4. mgr. 16. gr. lge. Umsjónarmanni sé almennt óheimilt að miða við annan framfærslukostnað en þann sem reiknaður hafi verið fyrir kærendur. Framfærsluviðmið umboðsmanns skuldara séu byggð á hlutlægum viðmiðum um almenna framfærslu með tilliti til fjölskyldustærðar og stýrist af vísitölu. Þá sé venjulega tekið tillit til annarra útgjaldaliða sem fella megi undir hefðbundinn heimilisrekstur, sbr. a-lið 1. mgr. 12. gr. lge., séu lögð fram gögn þar um.

Samkvæmt skattframtali kærenda 2016 vegna tekjuársins 2015 hafi heildartekjur kæranda B á árinu 2015 verið 2.596.354 krónur eftir frádrátt skatts. Heildartekjur kæranda A hafi verið 1.180.815 krónur á árinu 2015 eftir frádrátt skatts. Heildartekjur kærenda á árinu 2015 hafi því numið 3.777.169 krónum. Sé þeirri fjárhæð skipt til helminga á þá sex mánuði ársins 2015 sem kærendur hafi verið í greiðsluskjóli hafi tekjur þeirra frá júlí til desember 2015 verið samtals 1.888.585 krónur. Þar sem staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra hafi gefið aðra mynd af tekjum kærenda en skattframtalið hafi umboðsmaður skuldara ekki getað skipt tekjum þeirra niður á síðustu sex mánuði ársins 2015 með nákvæmari hætti en þetta, enda hafi kærendur ekki mótmælt framangreindum útreikningum. Framfærslukostnaður kærenda samkvæmt framfærsluviðmiði umboðsmanns skuldara árið 2015 fyrir hjón og fyrirliggjandi upplýsingum um raunútgjöld kærenda hafi verið samtals 1.454.922 krónur á tímabilinu júlí til desember 2015. Í samræmi við a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. hefðu kærendur þannig átt að geta lagt til hliðar 433.663 krónur á því tímabili sé tekið mið af uppgefnum tekjum þeirra samkvæmt leiðréttu skattframtali 2016.

Samkvæmt skattframtali kærenda 2017 fyrir tekjuárið 2016 hafi tekjur þeirra á árinu 2016 samanlagt verið 4.181.680 krónur. Einnig hafi kærandi B fengið 130.834 krónur greiddar úr ríkissjóði í júlí 2016 og kærandi A hafi fengið 19.748 krónur greiddar úr ríkissjóði í júlí 2016. Heildartekjur kærenda á árinu 2016 hafi því numið 4.332.262 krónum. Framfærslukostnaður kærenda samkvæmt framfærsluviðmiði umboðsmanns skuldara árið 2016 fyrir hjón og fyrirliggjandi upplýsingum um raunútgjöld kærenda hafi alls verið 2.908.656 krónur. Í samræmi við a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. hefðu kærendur þannig átt að geta lagt til hliðar samtals 1.423.606 krónur á árinu 2016.

Samkvæmt staðgreiðsluskrá Ríkisskattstjóra hafi tekjur kæranda B verið 1.055.023 krónur frá janúar til apríl 2017 og tekjur kæranda A verið 288.000 krónur á sama tímabili. Tekjur kærenda hafi því alls verið 1.343.023 krónur frá janúar til apríl 2017. Framfærslukostnaður kærenda samkvæmt framfærsluviðmiði umboðsmanns skuldara í maí 2017 fyrir hjón og fyrirliggjandi upplýsingum um raunútgjöld kærenda hafi að meðaltali numið 252.531 krónu á mánuði eða samtals 1.010.124 krónum frá janúar til apríl 2017. Í samræmi við a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. hefðu kærendur þannig átt að geta lagt til hliðar 332.899 krónur á tímabilinu frá janúar 2017 til apríl 2017.

Þrátt fyrir að óljós mynd sé af fjárhag kærenda verði að telja, þegar tekið sé mið af opinberum upplýsingum um tekjur þeirra, að þau hefðu átt að geta lagt til hliðar alls 2.190.168 krónur í greiðsluskjóli í samræmi við a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Þau eigi um 1.500.000 krónur í sparnað. Þannig hafi vantað 690.168 krónur upp á sparnað þeirra á tímabili greiðsluskjóls.

Því til skýringar hafi kærendur lagt fram gögn vegna læknis- og lyfjakostnaðar kæranda A að fjárhæð samtals 151.128 krónur á tímabili greiðsluskjóls, þ.e. frá júlí 2015 til ársloka 2016. Samkvæmt framfærsluviðmiði umboðsmanns skuldara fyrir árið 2015 hafi læknis- og lyfjakostnaður verið að meðaltali 14.493 krónur á mánuði fyrir hjón eða samtals 86.958 krónur á tímabilinu júlí til desember 2015. Samkvæmt framfærsluviðmiði umboðsmanns skuldara fyrir árið 2016 hafi læknis- og lyfjakostnaðar verið að meðaltali 14.811 krónur á mánuði fyrir hjón eða samtals 177.732 krónur á árinu 2016. Samtals geri framfærsluviðmið því ráð fyrir læknis- og lyfjakostnaði að fjárhæð 264.690 krónur á tímabili greiðsluskjóls eða 132.345 krónum fyrir kæranda A. Lækniskostnaður kæranda A samkvæmt framlögðum gögnum hafi því aðeinsskýrt að litlu leyti vöntun á sparnaði kærenda eða 18.783 krónur.

Samkvæmt þessu verði að telja að kærendur hafi brotið gegn skyldum sínum samkvæmt a-lið 1. mgr. 12. gr. lge. með því að leggja ekki til hliðar þá fjármuni sem til féllu umfram framfærslukostnað á tímabili frestunar greiðslna. Skriflegar leiðbeiningar um 12. gr. lge. hafi fylgt með ákvörðun um samþykki umsóknar um greiðsluaðlögun 25. júní 2015 sem borist hafi kærendum með tölvupósti. Þá hafi umsjónarmaður ítrekað við kærendur að þeim bæri að leggja til hliðar fjármuni umfram framfærslukostnað í greiðsluskjóli. Kærendum hafi því vel mátt vera ljóst að þau skyldu halda til haga þeim fjármunum sem þau hafi átt aflögu í lok hvers mánaðar til greiðslu af skuldum sínum, þegar að því kæmi að semja við kröfuhafa.

Af fyrirliggjandi gögnum málsins og því sem fram hafi komið eftir að umsókn kærenda um greiðsluaðlögun var samþykkt og að öllu ofangreindu virtu sé að mati umboðsmanns skuldara nauðsynlegt að fella niður heimild kærenda til greiðsluaðlögunar samkvæmt 15. gr., sbr. b- og d-liði 1. mgr. 6. gr., b- og f-liði 2. mgr. 6. gr. og a- og c-liði 1. mgr. 12. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara fer fram á að hin kærða ákvörðun um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda verði staðfest með vísan til forsendna.

IV. Niðurstaða

Ákvörðun umboðsmanns skuldara byggist á 15. gr. lge. með vísan til b- og d-liða 1. mgr. 6. gr., b- og f-liða 2. mgr. 6. gr. og a- og c-liða 1. mgr. 12. gr. laganna.

Samkvæmt b-lið 1. mgr. 6. gr. skal synja um heimild til greiðsluaðlögunar gefi fyrirliggjandi gögn ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun fjárhags hans á tímabili greiðsluaðlögunar. Í d-lið 1. mgr. 6. gr. lge. er kveðið á um að synja skuli um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari af ráðnum hug eða með grófri vanrækslu veitt rangar eða villandi upplýsingar um aðstæður sem eru mikilsverðar í málinu. Í b-lið 2. mgr. 6. gr. segir að heimilt sé að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi verið stofnað til skulda á þeim tíma er skuldari var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar. Samkvæmt f-lið 2. mgr. 6. gr. lge. er heimilt að synja um heimild til greiðsluaðlögunar hafi skuldari á ámælisverðan hátt látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir því sem honum framast var unnt. Í a-lið 1. mgr. 12. gr. kemur fram að á meðan leitað sé greiðsluaðlögunar skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Loks segir í c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. að skuldari skuli ekki láta af hendi eða veðsetja eignir og verðmæti sem gagnast geti lánardrottnum sem greiðsla.

Við mat á því hvað teljist vera nægjanlega glögg mynd af fjárhag skuldara í skilningi b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. telur úrskurðarnefndin meðal annars rétt að líta til 4. og 5. gr. lge.

Í 4. gr. lge. er gerð grein fyrir því hvernig umsókn um greiðsluaðlögun skuli vera úr garði gerð. Í 1. mgr. 4. gr. er upptalning í 11 töluliðum á því sem koma skal fram í umsókninni. Í 4. tölul. lagaákvæðisins segir að í umsókn um greiðsluaðlögun skuli koma fram hverjar tekjur skuldara séu, hvort sem er af vinnu eða öðrum sökum, og upplýsingar um af hvaða samningum eða öðru tekjurnar ráðist, svo og hvort horfur séu á að breytingar verði á tekjum eða atvinnuhögum.

Í athugasemdum með 4. gr. í frumvarpi til lge. kemur fram að gert sé ráð fyrir að skuldari, eftir atvikum með aðstoð umboðsmanns skuldara, leggi mat á hversu háa fjárhæð hann geti greitt mánaðarlega til að standa skil á skuldbindingum sínum. Upptalning í 1. mgr. sé ekki tæmandi, enda gert ráð fyrir að umboðsmaður skuldara geti krafist þess að skuldari afli frekari upplýsinga en tilgreindar eru í ákvæðinu.

Í 5. gr. lge. er kveðið á um að umboðsmaður skuldara skuli ganga úr skugga um að í umsókn komi fram allar nauðsynlegar upplýsingar og getur embættið krafist þess að skuldari staðfesti upplýsingarnar með gögnum. Rannsókn á fjárhagsstöðu skuldara hefur bæði þýðingu við mat á því hvort tilefni sé til að synja umsókn á grundvelli 2. mgr. 6. gr. lge. og varpar jafnframt ljósi á núverandi fjárhagsstöðu skuldara og væntanlega þróun hennar til framtíðar.

Í skýringum við frumvarp til lge. er fjallað um inntak b-liðar 1. mgr. 6. gr. Þar segir að umboðsmanni sé skylt að hafna umsókn gefi fyrirliggjandi gögn ekki nægilega glögga mynd af fjárhag skuldara eða væntanlegri þróun hans á tímabili greiðsluaðlögunar, enda mikilvægt að skuldari veiti fullnægjandi upplýsingar um fjárhagsleg málefni sín. Hér sé einungis um það að ræða að skuldari hafi ekki orðið við áskorunum umboðsmanns skuldara um öflun gagna eða upplýsingagjöf sem honum einum er unnt að afla eða gefa. Áréttað er að skuldari skuli taka virkan þátt í og sýna viðleitni til að varpa sem skýrustu ljósi á skuldastöðu sína og félagslegar aðstæður.

Hver sá sem leitar greiðsluaðlögunar skal þannig veita umboðsmanni skuldara ítarlegar upplýsingar og gögn. Í þessu felst skylda til að veita allar þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að greina fjárhagsstöðu viðkomandi til fulls. Með öðru móti verður ekki lagt efnislegt mat á hvort heimilt eða hæfilegt sé að veita skuldara greiðsluaðlögun. Rannsóknarskylda stjórnvalda leysir umsækjanda um greiðsluaðlögun ekki undan þeirri skyldu.

Í málinu hefur komið fram að kærendur starfi hjá félaginu D ehf. sem er í eigu kæranda B. Samkvæmt fyrirliggjandi skattframtölum, álagningarseðlum og launaupplýsingum Ríkisskattstjóra námu launagreiðslur félagsins til kærenda alls 2.850.000 krónum á árinu 2015. Samkvæmt óendurskoðuðum ársreikningi D ehf. fyrir árið 2015, sem er meðal gagna málsins, greiddi félagið alls 3.975.000 krónur í laun það ár en fram hefur komið í málinu að kærendur eru einu starfsmenn félagsins. Kærendur hafa hvorki lagt fram gögn sem sýna hvers vegna þetta ósamræmi er fyrir hendi né hvaða launagreiðslur þau hafa raunverulega fengið frá félaginu.

Af ársreikningi D ehf. má einnig ráða að í lok árs 2015 hafi D ehf. skuldað kærendum 3.587.955 krónur vegna ógreiddra launa árið 2015. Félagið hefur ekki skilað ársreikningi vegna ársins 2016 og því ekki ljóst hvort einhver hluti þessara launa hefur verið greiddur eða hvort kærendur eiga enn inni laun hjá félaginu. Fram kemur í kæru að félagið hafi ekki getað skilað þeim launum sem „reiknuð hafa verið“ en kærendur hafa ekki frekar gert grein fyrir því hvaða laun þau hafi fengið greidd frá félaginu.

Það er markmið lge. að gera einstaklingum kleift að endurskipuleggja fjárhag sinn með samningum við kröfuhafa eftir atvikum með niðurfellingu skulda að einhverju eða öllu leyti. Samkvæmt reglum lge. er skuldara gert að greiða eins hátt hlutfall af kröfum og sanngjarnt er þar sem í greiðsluaðlögun felst að jafnaði eftirgjöf af kröfum með tilheyrandi afskriftum í lok greiðsluaðlögunartímabils. Hér verður að hafa í huga að skuldari hefur sjálfur óskað greiðsluaðlögunarsamnings við kröfuhafa.

Að mati úrskurðarnefndarinnar eru þær upplýsingar sem tilgreindar eru í ákvæði 4. tölul. 1. mgr. 4. gr. lge. grundvallarupplýsingar til þess að unnt sé að taka umsókn um greiðsluaðlögun til afgreiðslu, enda væri ómögulegt án þeirra upplýsinga að átta sig á greiðslugetu skuldara þegar gerður er samningur um greiðsluaðlögun.

Eins og rakið er hér að framan eru fyrir hendi misvísandi upplýsingar um launagreiðslur D ehf. til kærenda á árinu 2015. Þá liggur ekki fyrir hvort kærendur eiga inni launagreiðslur frá D ehf. Af þessu leiðir að ekki eru fyrir hendi viðhlítandi upplýsingar um ráðstöfunartekjur kærenda allt frá árinu 2015 er þau komust í greiðsluskjól. Af þeim sökum er ekki unnt að leggja mat á fjárhag kærenda að því marki sem nauðsynlegt er samkvæmt ákvæðum lge. Með vísan til þess er það mat úrskurðarnefndarinnar að fjárhagur kærenda sé óljós í skilningi b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. og rétt hafi verið að fella greiðsluaðlögunarumleitanir þeirra niður af þeirri ástæðu.

Að því er varðar d-lið 1. mgr. 6. gr. lge. telur umboðsmaður skuldara að með því að upplýsa ekki um eignarhluta, rekstur eða störf sín fyrir félagið E ehf. í umsókn um greiðsluaðlögun hafi kærendur af ráðnum hug eða með grófri vanrækslu veitt rangar og villandi upplýsingar um aðstæður sem séu mikilsverðar í málinu. Kærendur hafi heldur ekki greint umsjónarmönnum sínum frá tengslum sínum við félagið.

Í málinu hefur komið fram að kærendur hafi upphaflega óskað eftir ráðgjöf hjá Embætti umboðsmanns skuldara en hafi síðar fært umsókn sína yfir í greiðsluaðlögun. Af þeirri ástæðu er eiginleg umsókn um greiðsluaðlögun ekki fyrir hendi í gögnum málsins. Að því er varðar upplýsingar um E ehf. til umsjónarmanna hafa engin gögn verið lögð fram um samskipti kærenda við fyrri umsjónarmann. Að því er varðar seinni umsjónarmann verður það ekki ráðið af þeim gögnum sem liggja fyrir hvort kærendur leyndu umsjónarmann því að kærandi B ætti 50% eignarhlut í E ehf. Með vísan til þessa telur úrskurðarnefndin sig ekki geta lagt mat á það hvort kærendur hafi brotið gegn d-lið 1. mgr. 6. gr. lge.

Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að D ehf. hafi keypt[...] í nóvember 2014 og við kaupin hafi verið lögð fram 3.002.361 króna. Þar segir einnig að hafi kærendur tekist á hendur skuld vegna kaupa á[...] telji umboðsmaður skuldara að þau hafi stofnað til skulda á þeim tíma er þau voru greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar og þar með brotið gegn b-lið 2. mgr. 6. gr. lge. Í málinu er ekki upplýst hvort kærendur tókust á hendur skuld vegna þessa og þegar af þeirri ástæðu kemur þetta atriði því ekki til skoðunar fyrir úrskurðarnefndinni.

Þá er það mat umboðsmanns skuldara að með því að reikna sér ekki laun frá einkahlutafélagi sínu hafi kærendur látið undir höfuð leggjast að standa við skuldbindingar sínar eftir fremsta megni, sbr. f-lið 2. mgr. 6. gr. lge. en allar skuldbindingar kærenda séu í vanskilum.

Samkvæmt því sem fram kemur í ákvörðun umboðsmanns skuldara eru veðlán kærenda hjá Íbúðalánasjóði í vanskilum frá 2012 og 2013. Veðlán hjá Arion banka hf. er í vanskilum frá árinu 2014. Samkvæmt skattframtali kærenda 2013 vegna tekjuársins 2012 voru tekjur kæranda B á því ári vegna atvinnuleysisbóta en kærandi A taldi ekki fram neinar tekjur. Engar upplýsingar liggja fyrir um rekstur D ehf. á árinu 2012. Samkvæmt skattframtali kærenda 2014 vegna tekjuársins 2013 voru framtaldar tekjur kæranda B á því ári 365.900 krónur og voru þær frá L en tekjur kæranda A voru vegna atvinnuleysisbóta. Engar upplýsingar liggja fyrir um rekstur D ehf. á árinu 2013. Samkvæmt skattframtali kærenda 2015 vegna tekjuársins 2014 voru framtaldar tekjur kæranda B á því ári 1.090.000 krónur frá D ehf. en tekjur kæranda A vegna atvinnuleysisbóta. Samkvæmt fyrirliggjandi ársreikningi D ehf. á árinu 2014 greiddi félagið 1.090.000 krónur í laun á árinu. Skuld vegna launa nam 1.186.400 krónum í lok árs 2014. Umsókn kærenda um greiðsluaðlögun var samþykkt 25. júní 2015 og komust þau þá í greiðsluskjól. Kærendur höfðu ekki heimild til að greiða af skuldum sínum í skjólinu.

Í málinu liggja ekki fyrir gögn er sýna fram á hver greiðslubyrði kærenda á veðskuldum sínum var á árunum 2012 til 2015. Þá er ekki að sjá að umboðsmaður skuldara hafi kannað hvort kærendur hafi haft aðra fjármuni en uppgefin laun sér til framfærslu á tímabilinu. Að mati úrskurðarnefndarinnar liggja því ekki fyrir þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að hægt sé að meta hvort kærendur hefðu átt að geta staðið við skuldbindingar sínar að einhverju eða öllu leyti á fyrrgreindu tímabili. Að þessu virtu er það mat úrskurðarnefndarinnar að greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda verði ekki felldar niður á grundvelli f-liðar 2. mgr. 6. gr. lge.

Umboðsmaður skuldara vísar til þess að kærendur hafi brotið gegn a-lið 1. mgr. 12. gr. þar sem segir að á meðan leitað sé greiðsluaðlögunar skuli skuldari leggja til hliðar af launum og öðrum tekjum sínum það fé sem er umfram það sem hann þarf til að sjá sér og fjölskyldu sinni farborða. Kærendur hefðu átt að getað lagt fyrir 2.190.168 krónur en hafi aðeins lagt fyrir 1.500.000 krónur. Eins og rakið hefur verið er það mat úrskurðarnefndarinnar að fjárhagur kærenda sé óljós í skilningi b-liðar 1. mgr. 6. gr. lge. Þær aðstæður valda því að ekki er unnt að slá því föstu hvort og þá hve mikla peninga kærendur hafi haft til ráðstöfunar umfram framfærslukostnað og önnur nauðsynleg útgjöld á tímabili greiðsluskjóls. Það er því álit úrskurðarnefndarinnar að ekki séu skilyrði til að fella greiðsluaðlögunarumleitanir kærenda niður á grundvelli a-liðar 1. mgr. 12. gr. lge.

Loks telur umboðsmaður skuldara að kærendur hafi látið af hendi eignir og verðmæti sem gagnast geta lánardrottnum sem greiðsla samkvæmt c-lið 1. mgr. 12. gr. lge. Það hafi þau meðal annars gert með því að reikna sér ekki laun frá einkahlutafélagi sínu.

Eins og rakið hefur verið telst fjárhagur kærenda óljós. Þar af leiðandi telur úrskurðarnefndin ekki hægt að fullyrða að kærendur hafi látið af hendi verðmæti sem gagnast gætu lánardrottnum sem greiðsla. Í því sambandi er einkum litið til þess að ekki eru fyrir hendi nauðsynlegar upplýsingar um ráðstöfunartekjur kærenda allt frá árinu 2015 er þau komust í greiðsluskjól. Samkvæmt þessu er það álit úrskurðarnefndarinnar að c-liður 1. mgr. 12. gr. lge. eigi ekki við í málinu eins og það liggur fyrir.

Með vísan til alls þess sem hér hefur verið rakið bar að fella niður heimild kærenda til að leita greiðsluaðlögunar á grundvelli 1. mgr. 15. gr., sbr. b-lið 1. mgr. 6. gr. lge. Ákvörðun umboðsmanns skuldara er samkvæmt því staðfest.

ÚRSKURÐARORÐ

Ákvörðun umboðsmanns skuldara um að fella niður greiðsluaðlögunarumleitanir A og B er staðfest.

Lára Sverrisdóttir

Sigríður Ingvarsdóttir

Þórhildur Líndal


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum