Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20velfer%C3%B0arm%C3%A1la%20-%20Almannatryggingar

Nr. 338/2018 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 338/2018

Miðvikudaginn 28. nóvember 2018

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eggert Óskarsson lögfræðingur og Jón Baldursson læknir.

Með kæru, móttekinni 19. september 2018, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála synjanir Tryggingastofnunar ríkisins frá 28. ágúst 2018 og 12. september 2018 á umsóknum kæranda, annars vegar um endurhæfingarlífeyri og hins vegar um örorkulífeyri og tengdar greiðslur.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um endurhæfingarlífeyri þann 11. apríl 2018. Með bréfi Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 20. júlí 2018, var umsókn kæranda synjað. Fram kemur í bréfinu að ekki þyki rök fyrir að meta endurhæfingartímabil þar sem virk starfsendurhæfing teljist ekki vera í gangi. Kærandi sótti um endurhæfingarlífeyri á ný með umsókn, dags. 23. maí 2018. Tryggingastofnun ríkisins synjaði kæranda á ný með bréfi, dags. 28. ágúst 2018, þess efnis að ekki væri tilefni til breytinga á fyrra mati þar sem sama endurhæfingaráætlunin hafi aftur verið send. Kærandi sótti um örorkulífeyri með umsókn, móttekinni 17. ágúst 2018. Með ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 12. september 2018, var umsókn kæranda synjað á þeim grundvelli að endurhæfing væri ekki fullreynd. 

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 19. september 2018. Með bréfi, dags. 21. september 2018, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 17. október 2018, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 18. október 2018. Athugasemdir bárust ekki.   

 

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi gerir ekki formlegar kröfur í málinu en ráða má af kæru að óskað sé endurskoðunar á ákvörðunum Tryggingastofnunar ríkisins um að synja umsókn hennar um endurhæfingarlífeyri og örorku.

Í kæru kemur fram að forsaga málsins sé sú að í X hafi kærandi […] Frá lokum […] hafi kærandi reynt að vera virkur þegn […] Síðan þá hafi hún nánast eingöngu fengið skell á nefið í þessu svokallaða heilbrigðiskerfi. Geðlæknir á bráðageðdeild hafi bent kæranda á að óska eftir að komast að hjá VIRK, sem hún hafi gert, en samkvæmt mati VIRK þá sé hún of veik til þess að komast að hjá þeim að svo stöddu. Umsókn kæranda um endurhæfingarlífeyri hafi svo verið synjað.

Kærandi hafi fengið þær upplýsingar símleiðis frá Tryggingastofnun að best væri fyrir hana að sækja um örorkulífeyri og það hafi hún gert. […] hafi fengið hún fengið þær upplýsingar að um X mánaða biðtími sé eftir [...] og þá virðist fá úrræði í boði fyrir hana.

Samkvæmt úrskurði Tryggingastofnunar og VIRK virðist kærandi vera of veik fyrir endurhæfingu en ekki nægilega veik fyrir örorku. Kærandi sé með áfallastreituröskun, mikinn kvíða og mikið þunglyndi [...]. [...] Kærandi trúi því ekki að engin úrræði séu til staðar fyrir einstakling eins og hana önnur enn þau að ganga á hurðir í hvert sinn sem hún sé að leita sér aðstoðar.

Kærandi hafi verið algjörlega óvinnufær frá X og hafi eingöngu fengið [...]. Þá hafi hún hvorki efni á því að ganga til geðlæknis né sálfræðings þar sem ekki sé mikið eftir til framfærslu hennar eftir að hún hafi greitt [...].

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar segir að kærð sé synjun á örorkumati og að skilja megi á málsgögnum að einnig sé verið að kæra synjanir stofnunarinnar á umsóknum kæranda um endurhæfingarlífeyri.

Um endurhæfingarlífeyri sé fjallað í 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð, sbr. 11. gr. laga nr. 120/2009 um breytingu á þeim lögum.

„Heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 18 mánuði þegar ekki verður séð hver starfshæfni einstaklings sem er á aldrinum 18-67 ára verður til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skulu inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum er að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem telst fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar. Heimilt er að framlengja greiðslutímabil skv. 1. mgr. um allt að 18 mánuði ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi.

Um endurhæfingarlífeyri gilda ákvæði a-liðar 1. mgr. 4. mgr. og 5. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar nr. 100/2007. Um aðrar tengdar bætur fer eftir sömu reglum og gilda um örorkulífeyri, sbr. þó 1. mgr. 10. gr. þessara laga.

Tryggingastofnun ríkisins hefur eftirlit með því að endurhæfingaráætlun sé framfylgt og að skilyrði fyrir greiðslum séu að öðru leyti uppfyllt."

Örorkulífeyrir greiðist samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar þeim sem séu metnir til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Tryggingastofnun ríkisins meti örorku þeirra sem sæki um örorkubætur. Hins vegar sé heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi, sbr. 18. gr. laga um almannatryggingar og 7. gr. laga um félagslega aðstoð.

Örorkustyrkur greiðist samkvæmt 19. gr. laga um almannatryggingar þeim sem skorti að minnsta kosti helming starfsorku sinnar. Um framkvæmd örorkumats sé fjallað í reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat. Í 37. gr. laganna sé meðal annars kveðið á um að Tryggingastofnun ríkisins skuli kynna sér aðstæður umsækjenda og greiðsluþega og gera þeim grein fyrir rétti þeirra samkvæmt lögunum og öðrum lögum er stofnunin starfi eftir, reglugerðum settum á grundvelli laganna og starfsreglum stofnunarinnar. Við meðferð máls skuli staða og réttindi umsækjanda eða greiðsluþega skoðuð heildstætt.

Málavextir séu þeir að kærandi hafi sótt um örorkumat með umsókn 17. ágúst 2018. Örorkumati hafi verið synjað 12. september 2018 samkvæmt 18. gr. og 19. gr. laga um almannatryggingar þar sem engin endurhæfing hafi verið reynd í tilviki kæranda. Kæranda hafi verið vísað að nýju á endurhæfingarlífeyri hjá Tryggingastofnun samkvæmt 7. gr. laga um félagslega aðstoð. Kærandi hafi áður sótt um endurhæfingarlífeyri en verið synjað þar sem endurhæfingaráætlanir hafi ekki þótt fullnægjandi og ekki verið til þess fallnar að hafa starfshæfni hennar að markmiði. Þá hafi engin starfsendurhæfing verið í gangi.

Í gögnum málsins komi fram að kærandi, sem sé fædd árið X, þjáist af langvarandi depurð, vanlíðan og kvíða [...]. Í vottorði komi fram að kærandi muni þurfa langvarandi meðhöndlun fagaðila til að ná bata. Þá segi einnig að [...] séu til staðar ásamt svefntruflunum. Á grundvelli gagna málsins hafi tryggingalæknar stofnunarinnar talið við mat á umsókn kæranda um örorkulífeyri þann 12. september 2018 að reglur og lög um endurhæfingarlífeyri gætu átt við í tilviki kæranda. Kæranda hafi því verið bent á að sækja um endurhæfingarlífeyri hjá stofnuninni. Í bréfinu hafi meðal annars komið fram að nokkuð ljóst væri af gögnum málsins að meðferð fyrir kæranda í heilbrigðiskerfinu væri ekki lokið og að engin endurhæfing hafi verið reynd. Í því sambandi hafi henni verið bent á að VIRK væri ekki eina úrræðið sem væri í boði.

Samkvæmt framangreindri 7. gr. laga um félagslega aðstoð eigi Tryggingastofnun að tryggja að skilyrði fyrir greiðslum séu uppfyllt, til dæmis að lögð sé fram endurhæfingaráætlun, lagðir fram endurhæfingarþættir sem taki mið af vanda einstaklingsins hverju sinni og að umsækjandi taki þátt í endurhæfingunni með fullnægjandi hætti. Þá sé skýrt í ákvæðinu að skilyrði greiðslna sé endurhæfing með starfshæfni að markmiði, enda ekki álitið að sjúkdómsmeðferð eða óvinnufærni sem slík veiti rétt til greiðslu endurhæfingarlífeyris.

Umsókn kæranda um endurhæfingarlífeyri hafi verið synjað þar sem fyrirliggjandi endurhæfingaráætlun hafi hvorki verið talin nægilega umfangsmikil né markviss þannig að fullnægjandi hafi verið talið að verið væri að vinna með aukna starfshæfni að markmiði. Þá hafi verið bent á að greiðslur vegna endurhæfingarlífeyris hjá stofnuninni taki ekki eingöngu mið af því tímabili sem viðkomandi sé óvinnufær heldur þurfi starfsendurhæfing að vera hafin. Kærandi hafi því ekki uppfyllt á þeim tíma skilyrði fyrir veitingu endurhæfingarlífeyris, sbr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð.

Greiðslum endurhæfingarlífeyris hafi verið synjað að nýju 28. ágúst 2018 þar sem nýjar upplýsingar hafi ekki gefið tilefni til breytinga þar sem sömu gögn hafi verið send til stofnunarinnar og í fyrra mati.

Við örorkumat hafi legið fyrir læknisvottorð B, dags. X 2018, svör við spurningalista vegna færniskerðingar, dags. X 2018, og umsókn um örorku, dags. 17. ágúst 2018. Á grundvelli þeirra gagna hafi Tryggingastofnun talið það vera í fullu samræmi við gögn málsins að synja kæranda um örorkumat þar sem engin raunhæf endurhæfing hafi verið reynd. Einnig skuli áréttað að það sé ekki hlutverk Tryggingastofnunar að leggja til meðferðar- eða endurhæfingarúrræði heldur sé sú ábyrgð lögð á lækna kæranda, þ.e. að koma umsækjendum um endurhæfingarlífeyri og/eða örorkulífeyri í viðeigandi endurhæfingarúrræði sem taki mið af vanda einstaklingsins hverju sinni.

Í ljósi alls framangreinds sé það niðurstaða stofnunarinnar að afgreiðsla á umsókn kæranda hafi verið rétt miðað við fyrirliggjandi gögn í málinu.

Eins og komið hafi fram hér að framan þá þurfi umsækjandi að stunda endurhæfingu með starfshæfni að markmiði til að uppfylla skilyrði fyrir greiðslu endurhæfingarlífeyris. Óvinnufærni ein og sér veiti ekki rétt til greiðslna endurhæfingarlífeyris. Endurhæfingarlífeyrir taki þannig mið af því tímabili sem viðkomandi taki þátt í skipulagðri endurhæfingu með utanumhaldi viðeigandi fagaðila í samræmi við vanda umsækjandans þar sem áhersla sé lögð á endurkomu á vinnumarkað. Á þeim forsendum hafi umsóknum kæranda um endurhæfingarlífeyri verið synjað.

Að því sögðu þá telji Tryggingastofnun það vera í fullu samræmi við öll gögn málsins að synja kæranda um örorkumat. Jafnframt sé bent á að þrátt fyrir að starfsendurhæfingarmat frá VIRK hafi legið fyrir í málinu þá eigi það ekki að vera til marks um hvenær endurhæfing teljist fullreynd í tilviki kæranda. Málinu til aukins stuðnings sé bent á að í fyrsta lagi sé VIRK endurhæfing ekki eina meðferðarúrræðið sem sé í boði og í öðru lagi þá hafi VIRK ekki veitt kæranda neina raunhæfa endurhæfingu heldur hafi VIRK talið í ljósi aðstæðna hennar, með tilvísun í læknisvottorð, að endurhæfing á þeirra vegum væri ekki raunhæf.

Að lokum telji Tryggingastofnun ljóst að stofnunin hafi afgreitt umsóknir kæranda í samræmi við innsendar endurhæfingaráætlanir, lög um félagslega aðstoð, lög um almannatryggingar og úrskurði úrskurðarnefndar almannatrygginga. Tryggingastofnun telji því ekki ástæðu til þess að breyta fyrri ákvörðunum sínum. Jafnframt skuli áréttað að kærðar ákvarðanir hafi byggst á faglegum sjónarmiðum og gildandi lögum og reglugerðum.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta lýtur að tveimur ákvörðunum Tryggingastofnunar ríkisins, þ.e. ákvörðunum um að synja kæranda um endurhæfingarlífeyri og örorkulífeyri. Ágreiningur málsins lýtur að því annars vegar hvort kærandi uppfylli skilyrði 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð til þess að geta öðlast rétt til endurhæfingarlífeyris. Hins vegar lýtur ágreiningur málsins að því hvort heimilt sé að synja kæranda um örorkumat samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar á þeim grundvelli að endurhæfing samkvæmt 7. gr. laga um félagslega aðstoð hafi ekki verið fullreynd.

Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar eiga þeir rétt til örorkulífeyris sem metnir eru til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Samkvæmt 1. málsl. 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar metur Tryggingastofnun örorku þeirra sem sækja um örorkulífeyri samkvæmt sérstökum örorkustaðli.

Samkvæmt 3. málsl. 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar er heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats kemur, sbr. 7. gr. laga nr. nr. 99/2007 um félagslega aðstoð. Í 1. mgr. 7. gr. laganna segir:

„Heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 18 mánuði þegar ekki verður séð hver starfshæfni einstaklings sem er á aldrinum 18 til 67 ára verður til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skulu inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum er að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem telst fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.“

Samkvæmt 5. mgr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð er heimilt að setja reglugerð um nánari framkvæmd greinarinnar. Slík reglugerð hefur ekki verið sett.

Heimild til greiðslu endurhæfingarlífeyris er samkvæmt framangreindu lagaákvæði bundin ákveðnum skilyrðum sem uppfylla verður til að greiðslur samkvæmt ákvæðinu séu heimilar. Þeirra á meðal er skilyrðið um að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem telst fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila.

Þegar Tryggingastofnun ríkisins tók kærðar ákvarðanir lá fyrir læknisvottorð B, dags. X 2018, vegna umsóknar kæranda um endurhæfingarlífeyri. Í vottorðinu segir að sjúkdómsgreiningar kæranda séu eftirfarandi:

„Kvíðaröskun, ótilgreind

Recurrent depressive disorder

Truflun á virkni og athygli

Átröskun ótilgreind“

Um sjúkrasögu segir í framangreindu vottorði:

„Langvarandi depurð og kvíði. [...] [...] leitaði hún á bmt geðdeildar vegna vanlíðunar. Kom þá fram í því viðtali […] Einnig svefntruflanir, átröskun ofl.

[...], er mjög stutt á hverjum stað. […] Kláraði [...] í C.

Ekki óregla. Skynsöm og innsæi gott en mikil vanlíðan hamlar vinnugetu.

Geðdeild ráðl. vinnuendurhæfingu hjá VIRK og á hún beiðni hjá þeim.“

Í samantekt læknisvottorðsins kemur meðal annars fram að kærandi þurfi þverfaglega aðstoð.

Einnig lá fyrir endurhæfingaráætlun B læknis, dags. X 2018. Samkvæmt endurhæfingaráætluninni var endurhæfing fyrirhuguð á tímabilinu X 2018 til X 2019. Fyrirhugað var að endurhæfing samanstæði af viðtölum við heimilislækni á X vikna fresti og að áfram yrði reynt að sækja þjónustu á göngudeild geðdeildar uns kærandi kæmist að [...] hjá Landspítala. Þá segir að kærandi sé búsett [...] og að hún [...]. Samkvæmt áætluninni er áætlað að þátttakandi fari til vinnu á almennum vinnumarkaði eftir X til X mánuði. Í greinargerð frá lækni segir:

„Þunglyndi og kvíðaröskun. [...] Hefur leitað á bmt slysa- og geðdeildar. Fékk tilvísun til VIRK en var talin ekki hæf til starfsendurhæfingar og vísað aftur til heilbrigðisþjónustunnar til nánari greiningar og meðferðar. Er að bíða eftir viðtölum á göngudeild geðdeildar LSH. Komin á biðlista fyrir meðferð hjá [...] LSH en það mun vera X mán. bið eftir að hún komist þar að. Einnig verið í viðtölum á D og verður áframhald á því en ekki hægt að segja til um fjölda skipta þar á þessu stigi. Vinnusaga er […] og […]. [...] hættir vegna [...]

Einnig lá fyrir læknisvottorð B, dags. X 2018, vegna umsóknar kæranda um örorkulífeyri, þar sem fram kemur að kærandi sé óvinnufær en að búast megi við að færni aukist eftir endurhæfingu. Þá segir að sjúkdómsgreiningar kæranda séu, auk þeirra sjúkdómsgreininga sem tilgreindar voru í fyrrgreindu vottorði frá X 2018, recurrent depressive disorder, emotionally unstable personality disorder, gastritis unspecified og vöðvabólga.

Um fyrra heilsufar segir:

„Er með einkenni um magabólgu og bakflæði. Kviðverkir ýfa upp hennar kvíða og depurð. Útbreiddar vöðvabólgur og festumein með verkjum.“

Um heilsuvanda kæranda og færniskerðingu segir:

„Langvarandi depurð og kvíði[...]. Hefur leitað á bmt geðdeildar vegna vanlíðunar. [...] Skynsöm og innsæi gott en mikil vanlíðan hamlar vinnugetu. Geðdeild ráðl. vinnuendurhæfingu hjá VIRK sem var ekki að ganga upp. [...]“

Í tengslum við umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur lagði kærandi fram spurningalista vegna færniskerðingar þar sem hún svaraði spurningum sem snúa að líkamlegri og andlegri færni hennar. Af svörum hennar verður ráðið að hún eigi ekki við líkamlega færniskerðingu samkvæmt staðli að etja en að hún búi við ýmis vandamál af andlegum toga. Þá greinir kærandi frá því að hún sé að berjast við mikið þunglyndi, kvíða, áfallastreituröskun [...]. Varðandi fyrirhugaða læknismeðferð segir í spurningalistanum:

„Bíður eftir að komast að í [...], hefur sótt viðtöl bæði hjá D, og E, enn hefur ekki fengið þá hjálp sem hún þarf á að halda á þessum stöðum. Hennar von er sú að komast að á Virk þegar hún er búin að ná þeim bata sem hún þarf, til þess að komast útí atvinnulífið aftur“

Þá kemur meðal annars fram í athugasemdum í spurningalistanum:

„A hefur lagt sig fram við að leita sér hjálpar, enn gengur það mjög illa og er bið eftir hjálp um X mánuðir. Hún reyndi líka að komast að hjá Virk, enn þar var henni hafnað á þeim grunni að hún væri of veik til þess að taka þátt í þeirri hjálp. A á mjög erfitt með að [...], sem reynist henni erfitt og það að fá höfnun frá Virk, gerði nánast útslagið hjá henni. Henni finnst hún [...] að fá hvergi þá hjálp sem hún þarf, eða þá að biðin eftir henni er jafn löng og raun ber vitni.“

Í fyrirliggjandi skýrslu sérfræðinga VIRK í kjölfar skoðunar X 2018 kemur fram að kærandi stefni ekki á að fara á almennan vinnumarkað. Í samantekt úr MINI 5 geðgreiningarviðtali segir:

„Uppfyllir viðmið fyrir alvarlegu þunglyndi[...]. Uppfyllir viðmið fyrir felmtursröskun án víðáttufælni. Uppfyllir viðmið fyrir félagsfælni. Töluverð áfallaeinkenni koma fram, miklar tilfinningasveiflur, reiði og fleiri einkenni sem benda til persónuleikavanda.“

Í samantekt skýrslunnar segir meðal annars:

„X ára […] sem kemur hér í format sálfræðings þann X 2018. Beiðni kemur frá heilsugæslu. Í beiðni kemur fram að A sé með langa sögu um þunglyndi og kvíða. [...]. Nýlega farið á BMT geðsviðs og kom þá í ljós [...]. Mjög [...] vinnusaga og [...]. Kláraði X í C. Kemur fram að geðdeild hafi ráðlagt starfsendurhæfingu hjá VIRK.

[…] Hún ólst upp við [...] A býr hjá [...] Hún segist með [...] og þurfa sjúkraþjálfun, er alltaf með bakverki. Hún er nú á Sertral og er í viðtölum í E vegna [...]. Sjálf fór hún [...]. A hefur verið í [...] og hún lýsir miklum einkennum […]persónuleikaröskunar. Á geðgreiningarviðtali og sálfræðiprófum kemur fram þunglyndi, ofsakvíðaköst, félagsfælni, áfallastreitueinkenni og mjög lágt sjálfsmat. Megingreining þó […]persónuleikaröskun sem ég tel nokkuð örugg greining og líklegast [...] sem kemur fram í hennar sögu. Hún stefnir ekki á vinnumarkaðinn og telur sig alveg óvinnufæra og ég tek undir það. Hún þarf mun meiri meðferð á geðdeildinni áður en hún getur stundað starfsendurhæfingu. Tel því starfsendurhæfingu ekki raunhæfa og mæli með að heimilislæknir geri til vísun á göngudeild geðsviðs LSH. Skoða þyrfti hvort meðferð á F og/eða G sé viðeigandi úrræði. “

Þá kemur fram í svari VIRK til kæranda:

„Vegna alvarlegra veikinda og vegna þess að einstaklingur stefnir ekki út á vinnumarkað er starfsendurhæfing ekki talin raunhæf. Mælt er með tilvísun á göngudeild geðdeildar LSH.“

Tryggingastofnun synjaði kæranda í tvígang um endurhæfingarlífeyri með ákvörðunum, dagsettum 20. júlí 2018 og 28. ágúst 2018. Í fyrri ákvörðuninni segir að það sé mat stofnunarinnar að virk endurhæfing hafi ekki verið í gangi og því hafi kærandi ekki uppfyllt skilyrði 7. gr. laga um félagslega aðstoð þar sem segir að endurhæfing skuli vera með starfshæfni að markmiði. Í seinni ákvörðun Tryggingastofnunar segir að ekki sé tilefni til breytinga á fyrra mati þar sem sama endurhæfingaráætlunin hafi verið send aftur.

Samkvæmt gögnum málsins felst endurhæfing kæranda einungis í viðtölum við heimilislækni og auk þess „reynt að sækja þjónustu göngudeildar geðdeildar uns hún kemst að hjá [...]“ Landspítalans.

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, telur ljóst að kærandi glími við andleg veikindi sem orsaki skerta vinnugetu. Að mati nefndarinnar er endurhæfing kæranda, sem lagt var upp með í fyrrgreindri endurhæfingaráætlun, hvorki nægjanlega umfangsmikil né markviss þannig að fullnægjandi verði talið að því leyti að verið sé að vinna með starfshæfni að markmiði og endurkomu á vinnumarkað, eins og 7. gr. laga um félagslega aðstoð gerir kröfur um. Að framangreindu virtu er það niðurstaða úrskurðarnefndar velferðarmála að skilyrði greiðslu endurhæfingarlífeyris samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð hafi ekki verið uppfyllt í tilviki kæranda.

Að því er varðar synjun Tryggingastofnunar ríkisins um örorkulífeyri þá er stofnuninni heimilt samkvæmt 3. málsl. 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar að gera það að skilyrði að umsækjandi um örorku gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats kemur. Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að ekki hafi verið tímabært að meta örorku þar sem endurhæfing hafi ekki verið reynd í tilviki kæranda. Þá var kæranda leiðbeint um að sækja um endurhæfingarlífeyri hjá stofnuninni.

Í fyrirliggjandi læknisvottorði frá B, dags. X 2018, segir að búast megi við að færni aukist eftir endurhæfingu. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur ljóst af fyrrgreindri skýrslu VIRK að starfsendurhæfing á þeirra vegum sé ekki raunhæf í tilviki kæranda. Ekki verður þó dregin sú ályktun af matinu að ekki sé möguleiki á starfsendurhæfingu á öðrum vettvangi. Fyrir liggur að engin markviss starfsendurhæfing hefur verið reynd í tilviki kæranda. Þá telur úrskurðarnefnd velferðarmála að hvorki verði ráðið af eðli veikinda kæranda né sjúkrasögu hennar að endurhæfing geti ekki komið að gagni. Í ljósi framangreinds telur úrskurðarnefnd velferðarmála rétt að láta reyna á starfsendurhæfingu í tilviki kæranda áður en til örorkumats kemur.

Með hliðsjón af öllu framangreindu eru ákvarðanir Tryggingastofnunar ríkisins um að synja kæranda um endurhæfingarlífeyri og örorkulífeyri og tengdar greiðslur, staðfestar.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvarðanir Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um endurhæfingarlífeyri og örorkulífeyri og tengdar greiðslur, eru staðfestar.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum