Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0ir%20mennta-%20og%20menningarm%C3%A1lar%C3%A1%C3%B0uneytisins

Kæra vegna synjunar á innritun í nám

Ár 2012, föstudaginn 21. desember, er kveðinn upp í mennta- og menningarmálaráðuneytinu svofelldur úrskurður

 Kæruefnið og málsmeðferð.

Mennta- og menningarmálaráðuneytinu barst þann 14. september 2012 stjórnsýslukæra frá X (hér eftir nefndur kærandi), með bréfi frá Y, móður hans, vegna þeirrar ákvörðunar skólameistara A (hér eftir ýmist nefndur A eða skólinn), sem tilkynnt var þann 24. ágúst sl., um að synja kæranda um innritun á fyrra námsár í alþjóðlegu námi til stúdentsprófs (IB1) skólaárið 2012-2013 vegna ófullnægjandi námsárangurs í undirbúningsnámi (Pre-IB).  Með bréfi ráðuneytisins, dags. 21. september 2012, var óskað eftir umsögn A um erindið. Greinargerð skólans barst ráðuneytinu 2. október 2012 og var hún í kjölfarið send kæranda til umsagnar. Athugasemdir kæranda við greinargerð skólans bárust ráðuneytinu með tölvubréfi frá móður kæranda þann 26. október 2012.

Málsatvik og málsaðstæður.

Málavextir eru þeir að kærandi hóf undirbúningsnám (Pre-IB) við A fyrir alþjóðlega námsbraut til stúdentsprófs (IB) á haustmisseri 2011 en náði ekki lágmarkseinkunninni 5 í fjórum námsgreinum, þ.e. sögu, íslensku, stærðfræði og náttúruvísindum. Samkvæmt framvindureglum skólans um IB nám átti kærandi af þessum sökum ekki rétt á að færast sjálfkrafa milli námsára, þ.e. frá undirbúningsárinu (Pre-IB) upp á fyrra námsár alþjóðlega stúdentsnámsins (IB1). Í kærunni kemur fram að samnemandi kæranda hafi fallið í tveimur fögum; íslensku og lífsleikni vorið 2012, en þrátt fyrir það fengið að halda áfram námi sínu. 

Með hliðsjón af 31. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, verður hér einungis fjallað um málsástæður aðila sem teljast skipta máli við úrlausn þessa máls, en öll framkomin sjónarmið og málsástæður eru hafðar til hliðsjónar við úrlausn þess.

Málsástæður kæranda:

Af hálfu móður kæranda er því haldið fram að ákvörðun A um að synja syni hennar um innritun á fyrra námsár í alþjóðlegu námi til stúdentsprófs (IB1) skólaárið 2012-2013 byggist á huglægu mati kennara skólans, þ.e. að þeir hafi ekki talið hann líklegan til að ráða við námið. Að sögn móður kæranda hafi hann fallið í ensku vegna slysni, hann hafi misskilið prófið og talið að þær þrjár spurningar sem prófið samanstóð af hafi verið valspurningar.  Hann hafi valið að svara einni af spurningunum sem síðan hafi komið í ljós að hafi aðeins haft 33% vægi.  Fram kemur að kæranda hafi verið boðið að endurtaka skólaárið en honum hafi reynst of þungbært að setjast á bekk með nýnemum. Af hálfu móður kæranda er vísað til þess að samnemandinn, sem hún telur að sé eins ástatt fyrir og kæranda, hafi fengið undanþágu til að halda áfram námi við skólann.  Slíkt sé brot á jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, og 65. gr. stjórnarskrárinnar. Að sögn móður kæranda er ekki hægt að sjá við lestur skólareglna að gerður sé greinarmunur á milli námsgreina. Fram kemur í bréfi móður kæranda að hann sé nú í sambærilegu námi (IB1) í Danmörku, en hún sé ekki sátt við það að 16 ára drengurinn þurfi að vera fjarri fjölskyldu sinni og félögum og sjá um sig sjálfur, einn í leiguíbúð.

Málsástæður A:

Í greinargerð A kemur fram að kærandi hafi fallið í fjórum IB námsgreinum á haustönn 2011. Kæranda hafi verið veitt heimild til að endurtaka prófin á vorönn með þeim skilmálum að hann fengi að innrita sig í IB1 námið skólaárið 2012-2013 ef hann fengi lágmarkseinkunnina 5 í öllum fögum. Kærandi hafi hins vegar fallið í tveimur IB námsgreinum um vorið og því hafi brostið forsendur fyrir því að hann hæfi nám á IB1 haustið 2012 og ráðgerðu vali hans því verið breytt í endurtekningu á Pre-IB.  Haldinn hafi verið fundur um málið með kæranda og móður hans, þar sem honum hafi m.a. verið leiðbeint um að sækja sumarnámskeið í stærðfræði til að bæta færni sína á því sviði. Um þetta virðist þó vera ágreiningur á milli aðila því móðir kæranda segir að það hafi verið uppástunga hennar að kærandi færi í sumarskóla en kennara í A hafi litist illa á þá ráðagerð, þar sem námið myndi ekki nýtast honum í IB1 náminu. Samkomulag hafi hins vegar orðið um að kærandi fengi að sækja tíma í A sem gestanemi skv. stundaskrá IB1 tímabundið meðan hann undirbyggi flutning til Danmerkur þar sem hann hefði fyrirheit um að komast inn í sambærilegt IB1 nám í dönskum skóla.

Í greinargerð A segir sérstakar framvindureglur um IB námið hafi verið settar árið 2005 vegna þess að almennar kröfur um lágmarkseiningafjölda á önn hafi þótt of vægar með tilliti til þess hvaða kröfur IB nemum sé ætlað að standast skv. hinu samræmda alþjóðlega námsmati. Framvindureglurnar með síðari breytingum séu settar samkvæmt almennri heimild í aðalnámskrá framhaldsskóla en setning þeirra lúti ákveðnu ferli innanhúss með aðkomu kennarafundar, skólaráðs og skólanefndar. Reglurnar séu birtar á heimasíðu og rækilega kynntar nemendum. Við breytingar á þeim hafi þess alltaf verið gætt að beita nýjum reglum ekki afturvirkt. Breyting sem samþykkt hafi verið fyrr á þessu ári, um að áskilja meðaleinkunnina 6, gildi því frá og með haustönn 2012. Við mat á undanþágubeiðnum þurfi eðli málsins samkvæmt að líta sérstaklega til þess að námsbrautin sé afar krefjandi þar sem farið er hratt yfir námsefni og miklar kröfur gerðar til sjálfstæðis nemenda, vinnusemi og góðrar námstækni. Markmið undirbúningsársins sé að búa nemendur sem best undir hið eiginlega tveggja ára IB nám. Í undirbúningsnáminu séu eftirfarandi námsgreinar: enska, saga, stærðfræði, náttúruvísindi, félagsvísindi, leikfimi og lífsleikni. Ennfremur íslenska eða eitthvert annað tungumál. Í sjálfu IB náminu leggi allir nemendur stund á fyrstu fimm námsgreinarnar í upptalningunni og því hafi frammistaða þeirra í þeim mest vægi þegar ákveða þurfi hvort undanþága skuli heimiluð. Á hinn bóginn hafi lífsleikni og leikfimi yfirleitt ekki úrslitaáhrif með þeim rökum að þetta séu ekki IB námsgreinar og áfangarnir aðeins ein eining á meðan hinir áfangarnir séu þrjár einingar hver. Samnemandi kæranda hafi fallið í íslensku og lífsleikni vorið 2012. Það sé mat skólans að fall í lífsleikni sé almennt ekki eins afdrifaríkt fyrir framhaldið og fall í IB námsgreinum. Því hafi niðurstaðan orðið sú  að samnemanda kæranda hafi verið leyft að hefja nám á IB1 til reynslu í eina önn. Uppfyllti hann ekki skilyrði námsins yrði honum gert að færast niður á Pre-IB um áramót.

Rökstuðningur niðurstöðu.

Eins og rakið er hér að framan náði kærandi ekki lágmarkseinkunn í fjórum námsgreinum á haustönn 2011, þ.e. sögu, íslensku, stærðfræði og náttúruvísindum. Í byrjun vorannar 2012 sótti hann um að fá tækifæri til þess að bæta sig á vorönninni með möguleika á að öðlast þannig rétt til að færast upp á IB1 ef vel gengi. Þegar önninni var lokið kom í ljós að hann hafði fallið í tveimur áföngum; ensku og stærðfræði. Einn samnemenda X hafði fallið í íslensku og lífsleikni en fengið undanþágu til áframhaldandi náms. Samkvæmt greinargerð A hafa fall í leikfimi og lífsleikni yfirleitt ekki úrslitaáhrif með þeim rökum að þetta séu ekki IB námsgreinar og áfangarnir aðeins ein eining. Enska, stærðfræði, náttúruvísindi og félagvísindi hafi mest vægi og geti fall í þeim fögum haft úrslitaáhrif á framgang í náminu. IB námsgreinar eins og enska, stærðfræði og íslenska hafi þriggja eininga vægi. Því sé þannig ekki saman að jafna að sögn skólans.  Samnemanda kæranda hafi því verið leyft að hefja nám á IB1 til reynslu í eina önn. Uppfyllti hann ekki skilyrði námsins á þeim tíma yrði honum gert að færast aftur niður á Pre-IB um áramót. Að mati ráðuneytisins hefur þannig ekki verið leitt í ljós að hin kærða ákvörðun hafi falið í sér brot á jafnræðisreglu með hliðsjón af námsframvindu annars nemanda.

Hvað varðar meint einelti sem móðir kæranda segir hann hafa orðið fyrir og varðaði huglægt mat kennara á möguleika hans til framvindu í námi ef hann fengi framgang á milli ára vísast til ákvæða í 4. og 5. mgr. 33. gr. b í lögum um framhaldsskóla  þar sem fram kemur að framhaldsskólar skuli setja sér stefnu um viðbrögð við einelti. Réttur farvegur fyrir slík mál er samkvæmt slíkum reglum og koma slík mál því að jafnaði ekki til umfjöllunar í ráðuneytinu.

Hin kærða ákvörðun varðar ágreining um námsmat í undirbúningsnámi kæranda, svonefndu Pre-IB námi.  Um meðferð slíks ágreinings fer eftir gr. 11.4. í aðalnámskrá framhaldsskóla.  Þar kemur fram að skólameistarar geti vísað ágreiningi milli kennara og nemanda um námsmat til prófdómara.  Samkvæmt því sætir hin kærða ákvörðun ekki endurskoðun æðra stjórnvalds og ber því að vísa kærunni frá afgreiðslu í ráðuneytinu.

ÚRSKURÐARORÐ:

Hin kærða ákvörðun, sem tilkynnt var þann 24. ágúst 2012, um að námsárangur kæranda í undirbúningsnámi fyrir fyrra námsár í alþjóðlegu námi til stúdentsprófs (IB1) hafi verið ófullnægjandi sætir ekki kæru til æðra stjórnvalds og er kærunni vísað frá afgreiðslu í ráðuneytinu.



Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum