Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 24/2016. Ákvörðun kærunefndar útboðsmála:

Ákvörðun kærunefndar útboðsmála 5. janúar 2017

í máli nr. 24/2016:

Exprima AB

gegn

Reykjavíkurborg

Með kæru 9. desember 2016 kærir Exprima ehf. útboð Reykjavíkurborgar nr. 13805 auðkennt „Skóli, menningarhús, bókasafn og sundlaug 2. áfangi – Uppsteypa og utanhússfrágangur“. Kærandi krefst þess að „felld verði úr gildi ákvörðun varnaraðila um að hafna beiðni kæranda um viðbótarfrest í 15 daga, frá 7. desember 2016 að telja, til að skila inn vilyrði um skilyrðislausa verktryggingu“. Þá er þess krafist að kærunefnd láti uppi álit sitt á skaðabótaskyldu varnaraðila vegna framangreindrar ákvörðunar. Jafnframt er krafist málskostnaðar. Í þessum hluta málsins tekur kærunefnd útboðsmála afstöðu til þess hvort rétt sé að verða við kröfu kæranda um að stöðva innkaupaferlið um stundarsakir.

Af gögnum málsins verður ráðið að varnaraðili hafi auglýst útboð nr. 13805 auðkennt „Skóli, menningarhús, bókasafn og sundlaug 2. áfangi – Uppsteypa og utanhússfrágangur“ í dagblöðum 15. október sl.  Í grein 0.1.3. D í útboðsgögnum kom fram að þeir bjóðendur, sem eftir opnun og yfirferð tilboða kæmu til álita sem viðsemjendur varnaraðila í útboðinu, skyldu, ef þess yrði óskað, láta í té innan viku nánar tilgreindar upplýsingar, m.a. yfirlýsingu frá banka eða tryggingarfélagi um að bjóðandi myndi fá verktryggingu vegna verksins, án skilyrða. Yrði dráttur á afhendingu umbeðinna upplýsinga áskildi verkkaupi sér rétt til að líta svo á að bjóðandi hefði fallið frá tilboðinu. Á opnunarfundi 24. október sl. kom í ljós að kærandi átti næstlægsta tilboð í útboðinu, en Prima ehf. var lægstbjóðandi. Hinn 28. nóvember sl. óskaði varnaraðili eftir því að Prima ehf. og kærandi skiluðu gögnum þeim sem tilgreind voru í grein 0.1.3. D í útboðsgögnum, þ.á m. áðurnefndri verktryggingu, og var veittur frestur til þess til 2. desember sl. Þann dag var frestur þessi framlengdur til 6. desember að beiðni kæranda. Sama dag óskaði kærandi eftir viðbótarfresti til 9. desember sl. til þess að leggja fram vilyrði fyrir verktryggingu en þeirri ósk hafnaði varnaraðili samdægurs. Kærandi ítrekaði ósk sína um framlengdan skilafrest vegna verktryggingar og með bréfi 7. desember sl. óskaði hann eftir 15 daga viðbótarfresti til að honum gæfist færi á að útvega vilyrði um verktryggingu. Þeirri beiðni var hafnað með bréfi varnaraðila 8. desember 2016. Samkvæmt upplýsingum varnaraðila skilaði lægstbjóðandi Prima ehf. ekki inn neinum gögnum sem óskað hafði verið eftir af hálfu varnaraðila.

Kærandi byggir að meginstefnu á því að með því að synja beiðni hans um fyrrgreindan 15 daga frest hafi varnaraðili brotið gegn meðalhófsreglu útboðs- og stjórnsýsluréttar þar sem veittur frestur til að útvega umrædda verktryggingu hafi verið allt of stuttur.  

Niðurstaða

Hinn 29. október 2016 tóku gildi lög um opinber innkaup nr. 120/2016 og féllu þá úr gildi samnefnd lög nr. 84/2007. Samkvæmt 6. mgr. 123. gr. fyrrnefndu laganna fer þó áfram um innkaup, sem hafa verið auglýst fyrir gildistöku laganna, samkvæmt eldri lögum um opinber innkaup. Þá gilda lög nr. 120/2016 um meðferð kærunefndar útboðsmála vegna kæra sem borist hafa nefndinni eftir gildistöku laganna samkvæmt 7. mgr. 123. gr. laganna. Samkvæmt þessu fer um úrlausn málsins eftir lögum nr. 84/2007 en meðferð þess fyrir kærunefnd eftir lögum nr. 120/2016.

Í grein 0.1.3. D í útboðsgögnum kom fram að þeir bjóðendur, sem eftir opnun og yfirferð tilboða kæmu til álita sem viðsemjendur varnaraðila í útboðinu, skyldu, ef þess yrði óskað, láta í té innan viku nánar tilgreindar upplýsingar, m.a. yfirlýsingu frá banka eða tryggingarfélagi um að bjóðandi myndi fá verktryggingu vegna verksins, án skilyrða. Í máli þessu liggur fyrir að varnaraðili óskaði eftir þeim gögnum frá kæranda sem tilgreind voru í ákvæðinu, þ.á m. áðurnefndri verktryggingu, með tölvupósti 28. nóvember 2016. Upphaflega var frestur til þess að verða til beiðninni veittur til 2. desember 2016, en síðar var hann framlengdur til 6. desember þess árs. Var kæranda því veittur frestur í samræmi við ákvæði útboðsgagna og raunar degi betur. Verður því ekki séð að sú ákvörðun varnaraðila að hafna því að veita kæranda frekari frest til að skila inn vilyrði um skilyrðislausa verktryggingu hafi verið í andstöðu við meðalhóf eða brotið gegn lögum um opinber innkaup að öðru leyti. Hafa því ekki verið leiddar verulegar líkur að broti á lögum um opinber innkaup sem réttlætt getur stöðvun samningsgerðar um stundarsakir, sbr. 110. gr. laga nr. 120/2016 um opinber innkaup. Verður því að hafna kröfu kæranda um að útboð nr. 13805 verði stöðvað um stundarsakir, svo sem nánar greinir í ákvörðunarorðum. Að öðru leyti bíður efnisleg úrlausn kærunnar úrskurðar kærunefndar.

Ákvörðunarorð:

Kröfu kæranda, Exprima ehf., um að útboð varnaraðila Reykjavíkurborgar nr. 13805 auðkennt „Skóli, menningarhús, bókasafn og sundlaug 2. áfangi – Uppsteypa og utanhússfrágangur“, verði stöðvað um stundarsakir, er hafnað.

                                                                                    Reykjavík, 5. janúar 2017

                                                                                    Skúli Magnússon       

                                                                                    Ásgerður Ragnarsdóttir

                                                                                    Stanley Pálsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum