Hoppa yfir valmynd

Matsmál nr. 10/2014, úrskurður 1. október 2014

Miðvikudaginn 1. október 2014  var í Matsnefnd eignarnámsbóta tekið fyrir matsmálið nr. 10/2014

Vegagerðin

gegn

eigendum Efri- og Neðri-Skálateigs

 

og kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r :

 

I.  Skipan matsnefndar eignarnámsbóta:

Matsnefnd eignarnámsbóta skipa í máli þessu þeir Helgi Jóhannesson hrl., formaður, Vífill Oddsson, verkfræðingur og Kristinn Gylfi Jónsson, viðskiptafræðingur og bóndi, en formaður kvaddi þá tvo síðastnefndu til starfans með vísan til 2. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms.

II.  Matsbeiðni, aðilar og matsandlag:

Með matsbeiðni dags. 14. mars 2014 sem lögð var fram hjá Matsnefnd eignarnámsbóta þann 28. mars 2014 fór Vegagerðin, kt. 680269-2899, Borgartúni 5 og 7, Reykjavík, (eignarnemi) þess á leit við nefndina að hún mæti hæfilegar bætur vegna lagningar vegs um land jarðanna Efri- og Neðri-Skálateigs í Norðfirði.

Matsandlagið eru 4,3 ha lands úr óskiptu landi Skálatúnsjarða að frádregnum 0,4 ha lands undir eldra vegstæði sem eignarnemi mun skila til eignarnámsþola. Samtals er matsandlagið því 3,9 ha.

Eignarnámsþolar eru þeir Vilberg Einarsson, kt. 110357-3979, Efri-Skálateig I, Neskaupstað, Einar Sigfússon, kt. 170442-3349, Efri-Skálateig 2, Neskaupstað og Leifur M. Jónsson, kt. 080146-3879, Neðri-Skálateig, Neskaupstað.

Eignarnemi byggir eignarnámsheimild sína á 37. gr. vegalaga nr. 80/2007

III.  Málsmeðferð:

Mál þetta var fyrst tekið fyrir föstudaginn 28. mars 2014. Eignarnemi lagði fram matsbeiðni ásamt fylgiskjölum. Matsnefndin lagði fram afrit boðunarbréfa. Eigendur Efri- og Neðri-Skálateigs samþykktu að eignarnemi fengi umráð hins eignarnumda þó mati væri ekki lokið en eigandi Efri-Skálateigs 2 féllst ekki á að veita slíka umráðaheimild. Var málinu að því búnu frestað til vettvangsgöngu.

Fimmtudaginn 5. júní 2014 var málið tekið fyrir. Gengið var á vettvang og aðstæður kannaðar. Matsnefndin heimilaði eignarnema að taka umráð hins eignarnumda lands þó mati væri ekki lokið sbr. 14. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms. Málinu var að þú búnu frestað til framlagningar greinargerðar af hálfu eignarnema.

Fimmtudaginn 26. júní 2014 var málið tekið fyrir. Af hálfu eignarnema var lögð fram greinargerð ásamt fylgiskjölum. Málinu var að því búnu frestað til framlagningar greinargerða af hálfu eignarnámsþola.

Fimmtudaginn 24. júlí 2014 var málið tekið fyrir. Lagðar voru fram greinargerðir ásamt fylgiskjölum af hálfu eignarnámsþola. Málinu var að því búnu frestað til munnlegs flutnings þess fyrir matsnefndinni.

Þriðjudaginn 9. september 2014 var málið tekið fyrir. Eftirfarandi var bókað við fyrirtökuna: „Fyrir liggur að eignarnámsþolar eru ekki sammála um hvernig hin eignarnumda spilda skiptist þeirra í milli. Lögmenn eignarnámsþola lýsa því yfir að þeir gera ekki ágreining um að málið haldi þrátt fyrir þetta áfram fyrir nefndinni. Nefndin mun því ákvarða heildarbætur fyrir hið eignarnumda land án þess að taka afstöðu til þess hvort og þá hvernig bæturnar skiptist á milli eignarnámsþola“. Málið var að því búnu flutt munnlega fyrir matsnefndinni og tekið til úrskurðar að því loknu.

IV.  Sjónarmið eignarnema:

Eignarnemi kveður hið eignarnumda land vera 3,9 ha lands sem fer undir nýjan Norðfjarðarveg. Samtals fara 4,3 ha lands úr Skálateigsjörðum undir hinn nýja veg en á móti mun eignarnemi skila 0,4 ha lands undir eldra vegstæði.

Eignarnemi kveðst hafa staðið í þeirri trú að óumdeilt væri að bætur vegna framkvæmda skyldu renna til eiganda Neðri-Skálateigs. Af þeim sökum hafi eignarnemi átt í samningaviðræðum við eiganda þeirrar jarðar um bætur vegna fyrirhugaðra framkvæmda. Samningur og afsal dags. 29. nóvember 2012 hafi í kjölfarið verið undirritað af eignarnámsþola Leifi M. Jónssyni með samþykki þinglýsts eiganda Efri-Skálateigs 1, Vilbergs Einarssonar. Samkvæmt þeim samningi voru umsamdar bætur sem hér segir:

 

Eignarnemi kveður bætur til eignarnámsþola aldrei geta numið hærri fjárhæð en sem jafngildi því fjárhagslega tjóni sem eignarnámsþolar verða fyrir við eignarnámið. Eignarnámsþolar eigi með bótunum að verða sem líkast settir og eignarnámið hefði ekki farið fram. Þá telur eignarnemi að til frádráttar bótum eigi að koma verðmæti þess lands sem skilað er til eignarnámsþola með framkvæmdinni. Til stuðnings sjónarmiðum sínum bendir varðandi ákvörðun bóta vísar eignarnemi til 72. gr. stjórnarskrárinnar og ákvæða vegalaga nr. 80/2007, einkum ákvæða VII. kafla laganna.

Eignarnemi kveðst hafa um áratuga skeið haft samráð við Bændasamtök Íslands um útgáfu viðmiðana um lágmarksbætur fyrir land undir veg og efnistöku. Þessar viðmiðanir hafi eignarnemi endurskoðað með hliðsjón af verðþróun á fasteignamarkaði og með hliðsjón af úrskurðum Matsnefndar eignarnámsbóta. Eignarnemi bendir á vinnureglur þessar sem fram komi í orðsendingu nr. 2/2009 og liggi frammi í málinu.

Eignarnemi kveðst standa við þær bætur sem hann var tilbúinn til að greiða samkvæmt samningi þeim sem gerður hafði verið og fjallað er um hér að framan. Telur eignarnemi vel boðið þar enda séu bætur samkvæmt þeim samningi hærri en framangreind orðsending geri ráð fyrir auk þess sem eignarnemi hafi verið tilbúinn til að greiða sérstaklega fyrir ónýtanlegt tún ofan vegar og við fjárhús ásamt bótum vegna viðbótargirðinga og framtíðaróhagræðis.

V.  Sjónarmið eignarnámsþola:

Af hálfu eignarnámsþolans Leifs M. Jónssonar, eiganda Neðra-Skálateigs er gerð krafa um að úrskurðaðar bætur nemi ekki lægri fjárhæð en samið var um þann í samningi og afsali dags. 29. nóvember 2012 og fjallað var um í kafla IV. hér að framan. Þá gerir eignarnámsþoli kröfu til þess að eignarnema verði gert að greiða honum kostnað vegna reksturs máls þessa, samtals kr. 1.132.155 auk virðisaukaskatts.

Eignarnámsþolinn Vilberg Einarsson, eigandi Efra-Skálateigs 2 gerir sömu kröfur og eignarnámsþolinn Leifur M. Jónsson auk þess sem hann gerir þá kröfu að eignarnema verði gert að greiða honum kr. 102.150 auk virðisaukaskatts í kostnað vegna rekstur matsmáls þessa.

Af hálfu framangreindra tveggja eignarnámsþola er til þess vísað að það hafi í raun verið búið að semja um bætur með samningnum frá 29. nóvember 2012 og þar hafi verið samið um bætur sem þeir samþykki að feli í sér fullar bætur.

Eignarnámsþolinn Einar Sigfússon, eigandi Efra-Skálateigs 2 gerir þær kröfur að bætur verði ákvarðaðar hærri en samið var um í samningi og afsali dags. 29. nóvember 2012. Þá er gerð krafa til þess að honum verði ákvarðar bætur að fjárhæð kr. 1.126.676 vegna meðferðar máls þessa fyrir matsnefndinni.

Af hálfu eignarnámsþolans er á því byggt að bætur fyrir vegsvæði og ræktað land séu nærri lagi en  verulega vanti upp á þá fjárhæð sem boðin er fyrir framtíðar óhagræði vegna eignarnámsins. Gerir hann þá kröfu að bætur vegna þess þáttar verði að lágmarki ákvarðaðar kr. 4.000.000. Telur eignarnámsþolinn að ónæði verði af veginum til framtíðar í formi hávaða og ljósmengunar. Þetta muni fela í sér verðmætarýrnun á jörðinni sem beri að bæta.

VI.  Álit matsnefndar:

Matsnefndin hefur farið á vettvang og kynnt sér aðstæður. Stærð og lega hins eignarnumda lands er óumdeild. Þá hafa aðilar málsins orðið ásáttir um að matsnefndin meti heildarbætur fyrir hið eignarnumda, án þess að þeim verði skipt niður á eignarnámsþolana þrjá, sbr. bókun þar að lútandi við fyrirtöku málsins þann 9. september 2014 og fjallað er um í kafla III hér að framan.

Fyrir liggur að 2,1 ha af hinu eignarnumda landi er ræktað land og 2,2 ha óræktað land. Þá mun eignarnemi skila til baka 0,4 ha af eldra vegsvæði. Að áliti matsnefndarinnar munu 0,14 ha af túni við fjárhús eyðileggjast vegna veglagningarinnar og 1,2 ha lands ofan vegar og ber eignarnema að bæta þetta land einnig.

Við ákvörðun bóta tekur matsnefndin tillit til verðmætis landsins sem tekið er eignarnámi. Ekki þykja efni til að bæta að auki sérstaklega framtíðar óhagræði af veginum, enda liggur eldri vegur nánast á sama stað. Á hinn bóginn þykir nefndinni ljóst að nokkurt óhagræði og ónæði verði á framkvæmdatíma veglagningarinnar sem beri að bæta auk þess sem veglagningin kalli á girðingarvinnu af hálfu eignarnámsþola.

Að áliti matsnefndarinnar gefur orðsending eignarnema nr. 2/2009 ekki rétta mynd af verðmæti þess lands sem hér er til umfjöllunar, þó vissulega sé hægt að líta til hennar í öðrum tilvikum fjær þéttbýli.

Með vísan til þess sem að framan greinir þykja hæfilegar eignarnámsbætur vera sem hér segir:

Þá skal eignarnemi greiða eignarnámsþolum kostnað vegna reksturs máls þessa fyrir nefndinni sem hér segir:

Leifi M. Jónssyni, kr. 1.100.000 auk virðisaukaskatts

Vilberg Einarssyni, kr. 200.000 auk virðisaukaskatts

Einari Sigfússyni, kr. 1.100.000 auk virðisaukaskatts.

Þá skal eignarnemi greiða kr. 1.000.000 í ríkissjóð vegna starfa Matsnefndar eignarnámsbóta í máli þessu.


ÚRSKURÐARORÐ:

Eignarnemi, Vegagerðin, skal greiða kr. 4.840.000 í eignarnámsbætur í máli þessu og samtals kr. 2.400.000 auk virðisaukaskatts í kostnað eignarnámsþola við rekstur matsmáls þessa.

Þá skal eignarnemi greiða kr. 1.000.000 í ríkissjóð vegna kostnaðar við Matsnefnd eignarnámsbóta í máli þessu.


Helgi Jóhannesson (sign)

Vífill Oddsson (sign)

Kristinn Gylfi Jónsson (sign)

 



Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum