Hoppa yfir valmynd

Matsmál nr. 7/2008, úrskurður 30. apríl 2009

Fimmtudaginn 30. apríl 2009 var í Matsnefnd eignarnámsbóta tekið fyrir matsmálið nr. 7/2008

 

Vegagerðin

gegn

Eiganda Gestsstaða, Fjarðabyggð

 

og kveðinn upp svohljóðandi

 

úrskurður:

 

I.  Skipan matsnefndar eignarnámsbóta:

 

Matsnefnd eignarnámsbóta skipa í máli þessu, Helgi Jóhannesson, hrl., formaður, dr. Ragnar Ingimarsson, verkfr. og Magnús Leópoldsson og lögg. fasteignasali, en formaður kvaddi þá tvo síðastnefndu til starfans með vísan til 2. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms.

 

II.  Matsbeiðni, aðilar og matsandlag:

 

Með matsbeiðni dags. 29. ágúst 2008 sem lögð var fram hjá Matsnefnd eignarnámsbóta þann 24. september 2008, fór Vegagerðin, kt. 680269-2900, Borgartúni 5 og 7, Reykjavík (eignarnemi), þess á leit við matsnefndina að hún mæti hæfilegar bætur vegna eignarnáms á landi og malarefni úr jörðinni Gestsstöðum, Fjarðabyggð. Eignarnámsþoli er eigandi Gestsstaða, Vilborg Ákadóttir, kt. 050325-3189, Gestsstöðum, Fjarðabyggð.

 

Tilefni eignarnámsins eru framkvæmdir eignarnema við gerð jarðgangna milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar ásamt tilheyrandi vegtengingum beggja vegna ganganna.

 

Andlag eignarnámsins að mati eignarnema er 11,74 ha. lands undir veg sem skiptist þannig niður:

 

Tún                                                                                                    0,61 ha.

Ræktunarhæft land                                                                           2,92 ha.

Beitiland/farvegur Dalsár                                                                 8,21 ha.

Samtals                                                                                  11,74 ha.

 

Til frádráttar koma 1,32 ha. sem er flatarmál gamals vegar. Samals nær eignarnámið því til 10,42 ha lands  og 22.100 m³ af jarðefni (burðarlagsefni). Þá óskar eignarnemi eftir mati á bótum vegna skertra efnistökumöguleika eignarnámsþola úr farvegi Dalsár.

 

Eignarnámsheimildina er að finna í 37. gr. vegalaga nr. 80/2007.

 

III.  Málsmeðferð:

 

Mál þetta var fyrst tekið fyrir miðvikudaginn 24. september 2008. Eignarnemi lagði þá fram matsbeiðni ásamt fylgiskjölum. Málinu var að því búnu frestað til vettvangsgöngu.

 

Þriðjudaginn 7. október 2008 var málið tekið fyrir. Gengið var á vettvang og aðstæður skoðaðar. Málinu var að því búnu frestað til framlagningar greinargerðar af hálfu eignarnema.

 

Þriðjudaginn 2. desember 2008 var málið tekið fyrir. Eignarnemi lagði fram greinargerð ásamt fylgiskjölum. Var málinu að því búnu frestað til framlagningar greinargerða og annarra gagna af hálfu eignarnámsþola.

 

Mánudaginn 2. febrúar 2009 var málið tekið fyrir. Af hálfu eignarnámsþola var lögð fram greinargerð ásamt fylgiskjölum og var málinu að því búnu frestað til munnlegs flutnings þess fyrir matsnefndinni.

 

Þriðjudaginn 24. mars 2009 var málið tekið fyrir. Aðilar óskuðu eftir að bókað yrði að ekki væri ágreiningur um að eignarnám hafi í raun farið fram á þeim verðmætum sem til mats væru, þó ágreiningur kynni að vera um fyrir hversu stórt svæði skyldi greiða bætur.  Málið var að því búnu flutt munnlega fyrir matsnefndinni og tekið til úrskurðar að því loknu.

 

 

IV.  Sjónarmið eignarnema:

 

Eignarnemi gerir þær kröfur að bætur til eignarnámsþola í máli þessu verði að hámarki ákvarðaðar kr. 4.000.000 sem sundurliðist þannig:

 

Bætur fyrir tún 0,61 ha. @ 400.000                                 kr.           244.000

Ræktunarhæft land 2,92 ha. @ 300.000                          kr.           876.000

Beitiland og áreyrar 6,89 ha. @ 100.000                          kr.           689.000

Malarefni 22.100 m³ @ 60                                                kr.        1.326.000

Bætur fyrir skerðingar á efnistökumöguleikum                kr.           800.000

Bætur fyrir jarðrask og átroðning                                     kr.             65.000

Samtals                                                                             kr.        4.000.000

 

 

Eignarnemi kveður hina eignarnumdu spildu í landi eignarnámsþola vera samtals 11.74 ha. að stærð en til frádráttar komi 1,32 ha. sem er land undir núverandi vegi. Samtals þurfi því að meta 10,42 ha. lands.

 

Eignarnemi telur rétt að skipta landinu í þrjá verðflokka. Þannig sé verð í hverjum flokki að hámarki kr. 400.000 pr./ha. fyrir tún, kr. 300.000 pr./ha. fyrir ræktunarhæft land og kr. 100.000 pr./ha fyrir beitiland og land í farvegi Dalsár.

 

Hvað varðar hið eignarnumda burðarlagsefni telur eignarnemi hæfilegar bætur fyrir það vera kr. 60 pr./m³. Þá tekur eignarnemi fram að hann hafi á fyrri stigum máls þessa boðið kr. 865.000 í bætur fyrir rask og átroðning. Telur eignarnemi að þar hafi verið boðið umfram skyldu í því skyni að ná sáttum í málinu. Telur eignarnemi sig óbundinn af þessu boði nú, en fellst á að greiða kr. 65.000 vegna þessa þáttar.

 

Eignarnemi telur að líta beri til sölu lands á frjálsum markaði og fyrri úrskurða Matsnefndar eignarnámsbóta við mat á verðmæti hins eignarnumda. Í þessu sambandi vísar eignarnemi til nokkurra úrskurða, en ekki liggja fyrir upplýsingar um frjásar sölur á þessu svæði sem hægt er að styðjast við. Með hliðsjón af fordæmum matsnefndarinnar telur eignarnemi að það verð sem að framan er nefnt séu hæfilegar bætur að teknu tilliti til landgæða og markaðstæðna.

 

V.  Sjónarmið eignarnámsþola:

 

Af hálfu eignarnámsþola er þess krafist að eignarnema verði gert að greiða honum kr. 26.161.000 í eignarnámsbætur auk kostnaðar vegna reksturs matsmálsins fyrir matsnefndinni.

 

Eignarnámsþoli telur að meta beri honum bætur vegna þess að framkvæmd eignarnema skerðir möguleika hans til malarsölu á veghelgunarsvæðinu. Eignarnámsþoli mótmælir því sérstaklega að eignarnemi geti ákvarðað veghelgunarsvæðið einungis 20 m. þar sem fram komi í 32. gr. vegalaga takmarkanir á notum lands á 30 m. breiðu belti við veg. Af þessum sökum er gerð krafa til þess að eignarnema verði gert að borga bætur fyrir 30 m. breitt svæði.

 

Eignarnámsþoli gerir þá kröfu að bætur verði miðaðar við verðlag í ágúst 2008, þegar eiganrenemi lagði fram matsbeiðni í máli þessu. Krafa eignarnema sundurliðast sem hér segir:

 

Tún 330 m. x 30 m. @ kr. 800.000                                   kr.           752.000

30 m. breitt ræktunarhæft land @ kr. 600.000                 kr.        5.352.000

Námasvæði í árfarvegi 2,61 ha. x 2 m. þykkt

alls 52.200 m³ @ kr. 110                                                   kr.        5.742.000

Krafa vegna lands og efnistökusvæðis sem ónýtist

vegna vegarins                                                                  kr.      10.384.000

Eignarnumið efni 22.100 m³ @ kr. 110                            kr.        2.431.000

Rask og átroðningur                                                         kr.        1.500.000

Samtals                                                                             kr.      26.161.000

Þá gerir eignarnámsþoli kröfu til þess að bótafjárhæðin beri dráttarvexti skv. III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá 29. ágúst 2008 til greiðsludags auk kostnaðar vegna rekstur málsins fyrir matsnefndinni.

 

Varðandi mat á hinu eignarnumda malarefni tekur eignarnemi fram að hann hafi um árabil selt malarefni af þessu svæði og það efni hafi verið notað sem steypuefni. Þá bendir eignarnámsþoli á að malarefni á þessum slóðum sé ekki að endurnýjast og því sé í raun um takmarkaða auðlind að ræða sem hljóti að gera efnið verðmeira en annars væri. Vísar eignarnámsþoli til framlagðra reikninga vegna efnissölu m.a. frá árinu 2008 þar sem verðið var kr. 110 pr./m³.

 

Eignarnámsþoli mótmælir sérstaklega að litið sé til orðsendingar eignarnema sjálfs um verð á malarefninu. Bendir hann á að þar sé um einhliða ákvörðun verðs að ræða hjá efniskaupanum sjálfum.

 

VI.  Álit matsnefndar:

 

Matsnefndin hefur farið á vettvang og kynnt sér aðstæður. Með vísan til 1. mgr. 32. gr. vegalaga nr. 80/2007 er litið svo á að eignarnámið nái til 30 m. breiðrar spildu, en við ákvörðun bótanna er þó við það miðað að hluti hennar mun áfram nýtast eignarnámsþolum t.d. fyrir búsmala, þó gera megi ráð fyrir að malartekja á því svo einhverju nemi sé þar óheimil vegna framangreinds ákvæðis í vegalögum. Með þetta í huga er við það miðað að hið eignarnumda land sé 17,61 ha. að frádregnum 1,32 ha. sem er flatarmáls eldri vegar. Samtals tekur matið því til 16,29 ha. lands.

 

Hið eignarnumda land er allt á láglendi og nærri þéttbýli. Landið sem vegurinn liggur um var gróðursnautt og hentaði í raun ekki til annarra nota en malartekju, en seljanleiki malarefnis á þessum slóðum eykur verðmæti þess lands. Sá hluti landsins hefði aldrei getað talist seljanlegt frístundarland og laut því markaðsverð þess aldrei lögmálum slíks lands.

 

Hæfilegar bætur fyrir 16,29 ha. spildu sem fer undir hinn nýja veg teljast vera kr. 8.145.000 og hefur þá verið tekið tillit til þess malarefnis sem á því landi er. Til þess er litið við matið að nægt malarefni er enn til staðar víða utan 30 m. helgunarsvæðis vegarins þannig að efnissölumöguleikar eignarnámsþola á jörðinni eru enn til staðar.

 

Við mat á hinu eignarnumda malarefni er við það miðað að efnið sé gott efni og hafi m.a. nýst í steypugerð. Náman sé á markaðssvæði og efnið aðgengilegt. Kostnaður eignarnema við að nýta það var óverulegur þar sem ekki þurfti að aka því um langan veg heldur var hægt að ýta því upp að mestum hluta. Með vísan til þessa og fram lagðra gagna um efnissölur af svæðinu þykja hæfilegar bætur fyrir 22.100 m³ malarefnis í máli þessu vera kr. 1.989.000.

 

Ekki þykja efni til að ákvarða sérstakar bætur fyrir rask og óþægindi í máli þessu.

 

Eignarnemi skal að auki greiða eignarnámsþola kr. 871.500,  þ.m.t. virðisaukaskattur, í kostnað vegna rekstur máls þessa fyrir matsnefndinni.

 

Þá skal eignarnemi greiða kr. 500.000 í ríkissjóð vegna starfa Matsnefndar eignarnámsbóta í máli þessu.

 

 

ÚRSKURÐARORÐ:

 

Eignarnemi, Vegagerðin, 680269-2900, Borgartúni 5 og 7, Reykjavík, greiði eignarnámsþola, eiganda Gestsstaða, Fjarðabyggð, samtals kr. 10.134.000 í eignarnámsbætur og kr. 871.500 í kostnað vegna reksturs matsmáls þessa.

 

Þá skal eignarnemi greiða kr. 500.000 í ríkissjóð vegna starfa Matsnefndar eignarnámsbóta að máli þessu.

 

 

________________________________

Helgi Jóhannesson

 

______________________________                      ___________________________

Magnús Leópoldsson                                                Ragnar Ingimarsson

 

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum