Hoppa yfir valmynd

Matsnefnd eignarnámsbóta, úrskurður 1. júní 2005

Ár 2005, miðvikudaginn 1. júní, er í matsnefnd eignarnámsbóta samkvæmt lögum nr. 11/1973 tekið fyrir matmálið nr. 6/2005.

                                   Vegagerðin

                                    gegn

                                    Sigurði Baldurssyni

 

og í því kveðinn upp svohljóðandi

 

ÚRSKURÐUR

Úrskurð þennan kveða upp Allan Vagn Magnússon, héraðsdómari og varaformaður matsnefndar eignarnámsbóta, ásamt meðnefndarmönnunum, Benedikt Bogasyni, héraðsdómara og Sverri Kristinssyni, löggiltum fasteignasala, en formaður hefur kvatt þá til starfa í málinu skv. heimild í 2. mgr. 2. gr. laga nr. 11/1973.

 

Með bréfi dagsettu 26. apríl 2005 beiddist eignarnemi, sem er Vegagerðin Borgartúni 5 og 7 Reykjavík, þess með vísan til 46. gr. vegalaga nr. 45/1994 og laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms að matsnefnd eignarnámsbóta mæti bætur vegna framkvæmda við vega- og jarðgangagerð í landi Sléttu, Fjarðarbyggð.

Eignarnámsþoli er Sigurður Baldursson Sléttu Fjarðarbyggð.

Eignarnemi vísar um lagaheimild til eignarnámsins til 45. gr. vegalaga nr. 45/1994.                                  

Tilefni eignarnámsins er gerð 5,9 km og 7,5 m breiðra jarðganga milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar. Reyðarfjarðarmegin er munni ganganna í um 65 m hæð yfir sjávarmáli í landi Sléttu. Þar er unnið að byggingu um 50 m langs vegskála við gangamunna. Fáskrúðsfjarðarmegin er gangamunninn í um 100 m hæð yfir sjávarmáli og byggður um 200 m langur vegskáli.

Andlag eignarnáms er í fyrsta lagi landspilda undir vegsvæði Suðurfjarðarvegar, land undir vegskála og jarðgöng þar til göngin hafa náð 30 m dýpi, alls 11,9 ha. að flatarmáli. Vegsvæði vegarins er 60 m á breidd og miðast eignarnámsspildan við þá breidd. Þar sem nýr vegur fylgir gamla veginum, þ.e. frá st. 2000-2700, er eignarnámsspildan talin 48 m á breidd og þá miðað við að 12 m breidd hafi fylgt gamla veginum. Ennfremur er andlag eignarnáms jarðefni til vegagerðar sem tekið er úr Sléttuá, alls 5.000 m3. Loks er um að ræða tímabundin afnot lands og rask utan hinnar eignarnumdu spildu.

Eignarnemi hóf framkvæmdir við byggingu jarðganganna í apríl 2003 og eru verklok áætluð 4. október 2005. Eignarnámsþoli heimilaði eignarnema að hefja framkvæmdir en samkomulag hefur ekki tekist um hæfilegar bætur vegna þeirra. Ágreiningur er einkum um hvert telja beri verðmæti hins eignarnumda lands. Auk þess er ágreiningur um hvort meta beri bætur vegna jarðefnis sem sprengt er og grafið úr gangastæði þar sem miðlína ganga er meira en 30 metrum undir yfirborði í landi Sléttu.

Framkvæmdir eignarnema eru í samræmi við aðalskipulag Fjarðarbyggðar og framkvæmdaleyfi sveitarfélagsins. Samkvæmt aðalskipulagi Fjarðarbyggðar er ekki gert ráð fyrir nýtingu landsins til bygginga á þeim stað sem göngin eru eða í næsta nágrenni þeirra. Við vettvangsskoðun kom fram fullyrðing um hið gagnstæða sem leiðréttist hér með og er áskilinn réttur til framlagningar gagna þar að lútandi á síðari stigum gefist tilefni til þess. Sléttuland er nýtt til hefðbundins landbúnaðar auk þess sem malartekja hefur þar verið nokkur. Við vettvangsgöngu kom fram að stærð jarðnæðis er ekki þekkt með nákvæmni en ljóst að um landmikla jörð er að ræða og með allmiklu undirlendi.

Eignarnemi hefur átt viðræður við eignarnámsþola um framkvæmdir og bætur vegna þeirra. Ekki hefur verið ágreiningur um framkvæmdina sem slíka og öll samskipti með ágætum að mati eignarnema.

 

 

KRÖFUGERÐ

Eignarnemi gerir þá kröfu að bætur verði ákvarðaðar sem hér segir:

Aðalkrafa eignarnema er að bætur fyrir andvirði hins eignarnumda lands og jarðefnis til vegagerðar taki mið af tilboði eignarnema sem gerð er grein fyrir hér að framan, og fram kemur á mskj. nr. 8.

Frávísunarkrafa: Þess er krafist að kröfu eignarnámsþola um bætur fyrir jarðefni úr jarðgöngum verði vísað frá nefndinni.

Til vara er þess krafist, að bætur vegna hins eignarnumda lands taki mið af úrskurði í matsmáli nr. 3/2004 vegna Horns og krafa eignarnámsþola um bætur vegna jarðrasks, átroðnings o.fl. verði lækkuð verulega.

Ennfremur er þess krafist til vara að kröfu eignarnámsþola um bætur vegna jarðefnis úr göngum verði hafnað eða að öðrum kosti verði bætur fyrir jarðefni úr göngum mun lægri en krafist er af hálfu eignarnámsþola og að hámarki 7 kr./m3 sbr. Orðsending um landbætur o.fl. nr. 14/2005, mskj. 22.

 

Af hálfu eignarnámsþola, er þess krafist að bætur til handa eignarnámsþola vegna þeirrar eignaskerðingar og verðmætarýrnunar sem hljótast muni af framkvæmdum Vegagerðarinnar verði metnar að minnsta kosti að fjárhæð 17.050.000 krónur.  Jafnframt er krafist málskostnaðar úr hendi matsbeiðanda.

 

 

SJÓNARMIÐ EIGNARNEMA

Af hálfu eignarnema er bent á að hið eignarnumda land sé landspilda undir vegsvæði. Fyrsti hluti vegarkaflans, frá vegstöð 2000 til 2700, sé lagður á svipuðum stað og gamli vegurinn með minniháttar færslu og breikkun vegsvæðis í sjó fram. Á kaflanum frá stöð 2700 til 3360 liggi vegurinn um land þar sem skiptast á grónar aurkeilur og mýrlendi og er tekið fram í útboðslýsingu að á þessum kafla megi búast við mikilli bleytu og landið geti orðið erfitt yfirferðar í bleytutíð. Á kaflanum milli stöðva 3360-3640 liggur veglínan m.a. um árfarveg Hrútár. Loks er um 200 m kafli þar sem veglínan liggur að mestu um mólendi. Með hliðsjón af ofangreindri lýsingu á hinu eignarnumda landi er það mat eignarnema að notagildi hins eignarnumda lands hafi verið mjög takmarkað að stórum hluta. Einstakir hlutar landsins, s.s. farvegir, urð, grýtt fjara og mýrlendi hafa sem slíkir lítið notagildi fyrir eignarnámsþola og verðmæti þeirra takmarkað í samræmi við það. Eignarnemi hafi í tilboði sínu til eignarnámsþola skilgreint land eftir landgæðum og látið eignarnámsþola njóta alls vafa í þeim efnum. Hafi eignarnemi skipt landinu í tvo megin flokka. Annars vegar sé um að ræða verðminna sauðfjárbeitiland, sem skv. skilgreiningu eignarnema teljist 7,54 ha., og hins vegar annað land, sem eignarnemi fellst á að geti talist verðmeira vegna annarrar mögulegrar nýtingar en til sauðfjárbeitar, og teljist það 4,36 ha. Ljóst sé að stór hluti þess lands sem eignarnemi hafi skilgreint sem sauðfjárbeitiland hljóti að teljast afar rýrt til þeirra nota vegna staðsetningar og landgæða. Önnur not af landinu en til sauðfjárbeitar og svipaðrar nýtingar virðist vart fýsileg. Þrátt fyrir að áður hafi verið búið í Borgargerði verði ekki séð að landið hafi síðar freistað til búsetu. Árétta verði að ekki séu staðfest áform um skipulag og not á neinum hluta hinnar eignarnumdu spildu sem byggingarlands. Verðmæti landsins sé samkvæmt framansögðu ekki meira en sem nemi tilboði eignarnema. Með tilkomu vegarins gæti notagildi landsins hugsanlega aukist. Þegar eignarnemi breyti legu vegarins verði auðveldara en áður fyrir eignarnámsþola að tengja spilduna með vegi.

Af hálfu eignarnema er á því byggt að engar bætur eigi að koma fyrir land sem tilheyri nú þegar vegsvæði Hringvegar enda hafi það land verið hluti vegar og því eign og í umráðum eignarnema. Sé því ekki þörf á að taka það eignarnámi og greiða bætur fyrir það land sem nú þegar sé hluti vegarins. Skerðing lands vegna fyrirhugaðra framkvæmda taki einungis til þess lands, sem tekið sé til viðbótar vegna breikkunar vegar, nýs vegarstæðis að gangamunna og vegskála.

Af hálfu eignarnema er á því byggt, að bætur til eignarnámsþola geti aldrei numið hærri fjárhæð en sannað fjárhagslegt tjón hans sé af eignarnáminu. Eignarnámsþoli verði sem líkast settur fjárhagslega og eignarnámið hefði ekki farið fram. Miða eigi bætur við sannað fjárhagslegt verðmæti hins eignarnumda á matsdegi miðað við staðgreiðslu. Til frádráttar bótum eigi að koma hagsbætur þær, sem ætla megi að hljótist af framkvæmdum þeim, sem séu tilefni eignarnámsins.

Vegagerðin gefi út verðgrundvöll sem miðað sé við þegar bætur eru greiddar fyrir landbúnaðarland og malarefni til vegagerðar. Sé það gert að höfðu samráði við Bændasamtök Íslands. Um sé að ræða viðmiðun sem almennt sé stuðst við þegar boðnar eru bætur fyrir landbúnaðarland, þegar það sé í meðallagi verðmætt, og skerðing á ræktunarlandi hafi ekki tilfinnanleg áhrif á heildarstærð ræktanlegs lands viðkomandi jarðar. Núgildandi orðsending um landbætur sé nr. 15/2004, en verði væntanlega endurskoðuð fljótlega á þessu ári með hliðsjón af verðlagsþróun. Samkvæmt orðsendingunni séu lágmarksbætur fyrir ræktunarhæft land undir veg 28.000 kr./ha. en óræktunarhæft gróið land með 10.500 kr./ha. Liggi fyrir upplýsingar sem leiði til þess að landverð teljist hærra beri að greiða bætur í samræmi við það.

Eignarnemi hafi að hluta til miðað tilboð sitt við ofangreinda orðsendingu. Miðað við framangreinda lýsingu sé eðlilegt að lágmarksbætur greiðist fyrir a.m.k. hluta hinnar eignarnumdu spildu. Flatarmál hinnar eignarnumdu spildu sé óverulegt í hlutfalli við heildarstærð jarðarinnar og muni því lítið um þá spildu sem tekin sé eignarnámi. Lega hinnar eignarnumdu spildu sé með þeim hætti að eignarnámið breyti litlu um nýtingu jarðarinnar til landbúnaðar eða annarra nota. Vafalítið sé hér um að ræða eitt verðminnsta land Sléttu vegna legu þess, staðhátta og takmarkaðra landgæða. Eignarnemi hafi almennt stuðst við þá viðmiðun sem fram komi í orðsendingu um landbætur í samningum við landeigendur á þessu svæði og í nágrannahéruðum. Orðsending eignarnema sé þannig viðurkennd viðmiðun við mat á verðmæti landbúnaðarlands enda gerð í samráði við Bændasamtök Íslands. Þegar svo hátti til að ekki liggi fyrir gögn um hærra landverð sé eðlilegt að taka mið af orðsendingunni. Ennfremur sé rétt að taka mið af orðsendingunni þegar um sé að ræða verðlítið land vegna staðsetningar og landgæða svo sem hér um ræði. Verðviðmiðun í orðsendingu eignarnema hafi verið endurskoðuð í samræmi við verðlagsþróun undanfarin ár og hafi hækkanir verið langt umfram almennar vísitöluhækkanir og þannig haldið í við hækkanir á fasteignaverði.

Vísað er til þess að í fasteignamati jarðarinnar Sléttu komi fram að fasteignamat jarðarinnar fyrir utan ræktað land sé 610 þúsund krónur. Með hliðsjón af miklu landrými Sléttu sé matsverð væntanlega nokkru lægra en miðað sé við í bótatilboði eignarnema ef tekið sé meðaltal verðs pr. ha. lands. Fram komi að 42,7 ha. ræktaðs lands séu metnir á tæpar 2.135 þúsund krónur eða tæpar 50.000 kr./ha. sem sé aðeins helmingur þess sem eignarnemi hafi boðið fyrir annað land en beitiland, þ.e. land sem gæti hugsanlega verið nýtt til ræktunar. Einnig sé vísað til fyrri úrskurða matsnefndar eignarnámsbóta eftir því sem við geti átt. Varðandi mat á bótum almennt er einnig vísað til fyrri úrskurða matsnefndar eignarnámsbóta eftir því sem við geti átt. T. d. megi líta á úrskurð í máli nr. 4/1998,  sem að einhverju leyti geti talist sambærilegt mál sem hægt sé að hafa til hliðsjónar en þar hafi bætur fyrir 11,13 ha. verði metnar að fjárhæð 90.000 kr., eða um 8.000 kr./ha., en litið hafi verið sérstaklega til þess að undirlendi jarðarinnar væri afar lítið og því öll skerðing bagaleg og bætur þar með ákvarðaðar hærri en ella.

Ekki liggi fyrir að beint tjón eða röskun hafi hlotist af framkvæmdum eignarnema. Land það sem nýtt sé með þessum hætti tímabundið undir vinnubúðir hefði að öðrum kosti fyrst og fremst mátt nýta til sauðfjárbeitar. Eins og fram hafi komið sé beitiland jarðarinnar víðfeðmt og því ekki mikill skaði af þessum afnotum. Framkvæmdir í landi Sléttu séu að mestu fjarri húsum jarðarinnar og ræktuðu landi. Átroðningur af framkvæmdum sé af þeim sökum óverulegur fyrir eignarnámsþola.  Jarðrask utan vegsvæðis verði jafnað og sáð í sár á grónu landi en það séu lagalegar skyldur eignarnema skv. ákvæðum vegalaga nr. 45/1994 og náttúruverndarlaga.

 

Eignarnemi mótmælir því að eignarnámsþola beri bætur fyrir jarðefni úr jarðgöngum. Krefst eignarnemi þess aðallega að kröfum eignarnámsþola þar að lútandi verði vísað frá nefndinni en til vara er þess krafist að kröfum þessum verði alfarið hafnað.

Krafa um frávísun sé á því byggð að eignarnemi hafi ekki tekið umrætt efni eignarnámi. Eignarnemi viðurkenni ekki eignarrétt eignarnámsþola að umræddu jarðefni. Af hálfu eignarnema sé á því byggt, að samkvæmt almennum meginreglum eignaréttarins um inntak eignarréttar yfir fasteign nái réttur landeiganda til nýtingar auðlinda í jörðu aðeins til venjulegrar nýtingar á eign sem eðlilegt og skynsamlegt sé að gera ráð fyrir á hverjum tíma. Við losun og uppgröft bergs af miklu dýpi við jarðgangagerð verði berg sem áður hafi verið ónýtanlegt með öllu aðgengilegt og nýtanlegt fyrir tilverknað eignarnema og með ærnum tilkostnaði.  Ekki sé eðlilegt með tilliti til hagsmuna eignarnámsþola eða eignarnema að viðurkenna að við þessar aðstæður verði eignamyndun hjá eignarnámsþola á kostnað almennings. Verði slík niðurstaða ekki leidd af skýringu á ákvæðum laga nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu auðlinda í jörðu þar sem þau vísi alfarið til almennra meginreglna eignaréttarins um inntak og umfang eignarréttinda yfir auðlindum undir yfirborði fasteignar. Komi það fram í greinargerð með frumvarpi til laganna. Matsnefnd eignarnámsbóta hafi ekki það hlutverk að fjalla um og úrskurða um ágreining sem snúi að eignarrétti yfir verðmætum. Af þeim sökum sé það krafa eignarnema, að nefndin vísi frá kröfu um bætur fyrir umrætt jarðefni þar sem það sé ekki viðurkennt sem andlag eignarnáms í málinu og ágreiningur sé um eignarrétt að því. Jarðefni úr göngum hafi ekki verið vinnanleg auðlind undir yfirborði Sléttu fyrr en eignarnemi hóf framkvæmdir. Eignarréttur landeiganda til efnisins hafi því ekki verið fyrir hendi samkvæmt lögum um rannsóknir og nýtingu auðlinda í jörðu nr. 57/1998 og almennum meginreglum eignaréttarins. Við uppgröft efnisins hafi eignarnemi eignast efnið og verið frjálst að ráðstafa því að vild án bótagreiðslna til eignarnámsþola. Með hliðsjón af framangreindu sé eignarnemi þeirrar skoðunar að úrskurður í máli nr. 3/2004, þar sem matsnefnd eignarnámsbóta ákvarðaði bætur fyrir efni úr göngunum til eigenda jarðarinnar Horns, sé án fordæma og í andstöðu við meginreglur eignaréttarins. Fordæmisgildi úrskurðarins sé takmarkað þar sem niðurstaðan sé mjög umdeilanleg, án fordæma og feli í sér ótvíræða stefnubreytingu.

Verði ekki fallist á að vísa beri kröfu um bætur fyrir jarðefni úr göngum frá nefndinni sé þess krafist til vara, að engar bætur verði metnar vegna jarðefnis úr göngum, eða a.m.k. mun lægri en krafist sé af eignarnámsþola. Eignarnámsbótum sé ætlað að bæta skerðingu á fjárhagslegum verðmætum sem eignarnámsþoli verði fyrir við eignarnámið. Ekki sé með nokkru móti hægt að sjá að hann verði fyrir fjárhagslegu tjóni við það eitt að eignarnemi noti umrætt jarðefni. Það almenna skilyrði bótaréttar, að fjárhagslegt tjón hafi orðið, sé því ekki fyrir hendi. Um sé að ræða jarðefni sem grafið sé úr jörðu af miklu dýpi undir landi Syðri-Fjarðar. Dýrar ráðstafanir og tæknibúnað í gangagerð þurfi til þess að losa efnið og koma því upp á yfirborð jarðar. Til að þessi vinnsla gæti borgað sig þyrfti efni að vera mjög verðmætt. Augljóst sé að ekki sé mögulegt með skynsamlegum hætti að vinna efni með svo miklum kostnaði þegar nægt grjót sé og muni verða til staðar til vinnslu af yfirborði jarðar. Mikið magn jarðefnis falli til við gangagerðina og sé það misjafnt að gæðum. Efnið sé lagskipt þar sem skiptist á efni sem nothæft sé í fyllingar og ónothæft efni. Flokka þurfi frá ónothæft efni og koma fyrir utan vegfyllingar eða á frálagsstaði. Eignarnemi ábyrgist ráðstöfun umrædds efnis, kosti frágang þess og sjái um að aka því í frálagshaug ef nauðsynlegt sé. Þar sem eignarnemi beri allan kostnað af frágangi og meðhöndlun efnisins sé eðlilegt að hann geti jafnframt nýtt efnið ef þess sé kostur án bótagreiðslna til eignarnámsþola, honum að skaðlausu. Þar sem allur kostnaður af vinnslu og meðhöndlun efnisins sé á herðum eignarnema og almennings sé eðlilegt að efnið sé nýtt í almannaþágu án bótagreiðslna til eignarnámsþola. Sú staðreynd að eignarnemi getur nýtt efnið til vegagerðar geri ekki að verkum að efnið verði sjálfkrafa skilgreint sem nýtanleg auðlind undir yfirborði Sléttu. Efni sem grafið sé af meira en 30 metra dýpi sé utan þeirra marka sem raunhæft sé og skynsamlegt að gera ráð fyrir við vinnslu á venjulegu jarðefni til mannvirkjagerðar. Algerlega óraunhæft hefði verið að nýta efnið ef ekki hefði komið til gerðar ganganna og hefði aldrei komið til þess að öðrum kosti. Óhemju kostnaður sé af því að sprengja og fjarlægja grjót úr jörðu af því dýpi sem hér um ræði. Eignarnemi kosti alfarið þær ráðstafanir sem nauðsynlegar séu til að unnt sé að nýta efnið og sé því eigandi þess. Eignarnámsþoli geti ekki kallað til eignar- og bótaréttar fyrir efni sem gert sé nýtanlegt á kostnað almennings. Hvað sem líði fræðilegum vangaveltum um eignarrétt að bergi djúpt undir yfirborði jarðar sé ljóst að eignarnámsþoli verði ekki fyrir fjárhagslegu tjóni við það að bergið sé fjarlægt enda sé það honum með öllu ónýtanlegt og án fjárhagslegs gildis. Að eignarnemi nýti berg í þágu mannvirkjagerðar í almannaþágu og á kostnað almennings sé eðlilegt enda hafi hann sjálfur gert það nýtanlegt með jarðgangagerðinni. Sú staðreynd að eignarnemi geti nýtt bergið til vegagerðar hafi ekki sjálfkrafa í för með sér að meta eigi eignarnámsþola bætur fyrir bergið. Þar sem bergið sé ónýtanlegt vegna legu þess djúpt í jörðu hafi það ekki fjárhagslegt gildi fyrir eignarnámsþola. Með því að gera honum bætur fyrir notkun eignarnema á sprengdu berginu hlytist af óeðlileg auðgun eignarnámsþola á kostnað eignarnema þar sem hann fengi bætur fyrir hagsmuni sem honum séu einskis virði en eignarnemi geri nýtanlega á sinn kostnað með framkvæmdum þeim sem séu tilefni eignarnámsins. Sá kostur sé því nærtækastur að ákvarða engar bætur fyrir efnið þar sem það hafði ekki fjárhagslegt gildi fyrir eignarnámsþola, ef á annað borð er fallist á að eignarréttur fasteignaeiganda nái til efnisins. Þeirri röksemd hafi verið hreyft í þessu samhengi að þar sem eignarnemi greiði bætur fyrir jarðefni úr námum utan alfaraleiðar, þar sem enginn annar kaupandi sé að því og aðrir nýtingarmöguleikar ekki fyrir hendi, beri á sama hátt að greiða bætur fyrir jarðefni úr jarðgöngum. Viðurkennt sé í íslenskum rétti að ekki gilda sömu reglur um eignarrétt fasteignaeiganda á yfirborði jarðar og neðanjarðar. Eignarréttur ofanjarðar er talinn heimila landeiganda öll almenn not og veitir honum full umráð og ráðstöfunarrétt yfir eign með þeim takmörkunum sem leiða má af lögum og réttindum annarra. Öðru máli gegni um eignarrétt neðanjarðar sem sé takmarkaður við ákveðnar nýtingarheimildir. Vinnsla umrædds efnis sem slík feli ekki í sér kvaðir á eigninni.

Af framangreindu leiði að með öllu væri óeðlilegt að viðurkenna bótakröfu landeiganda vegna jarðefnis úr göngum. Verði það gert hagnist landeigandi óeðlilega á framkvæmdinni á kostnað almennings án þess að eign hans hafi verið skert með sama hætti. Fráleitt er að fallast á svo háa kröfu sem lögmaður eignarnámsþola hefur sett fram. Ef fallast ætti á bótarétt yrði að horfa til þess fjárhagslega tjóns sem ætla má að eignarnámsþoli verði fyrir við að efnið er numið úr jörðu. Í fljótu bragði verður ekki komið auga á að slíkt tjón verði yfirhöfuð. Verði fallist á að allt að einu beri að meta bætur ber í hæsta lagi að miða við lægsta gjaldi skv. Orðsendingu um landbætur nr. 15/2004, eða 7 kr./m3.

 

Til stuðnings ofangreindum kröfum og sjónarmiðum vísar eignarnemi til vegalaga nr. 45/1994, einkum ákvæða IX. kafla laganna. Vísað er til laga um framkvæmd eignarnáms nr. 11/1973. Ennfremur er vísað til 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944 með síðari breytingum. Vísað er til hefðbundinna skýringa á þessum lagaákvæðum og til almennra ólögfestra reglna og viðurkenndra sjónarmiða um ákvörðun eignarnámsbóta.

 

SJÓNARMIÐ EIGNARNÁMSÞOLA

Jörðin Slétta sé all landmikil en þó mjög fjalllend.  Nýtanlegt undirlendi sé þannig af mjög skornum skammti. Svo sem upplýst hafi verið á vettvangi sé jörðin mjög stór en undirlendi lítið.  Er undirlendi gróflega áætlað um 100 ha, undirlendi undir 60 metra hæð um 60-70 ha og ræktað land um 42 ha.  Vegakerfi eignarnema liggur nú, eftir framkvæmd við Fáskrúðsfjarðargöng og vegtengingu þeirra, með tvöföldum hætti um besta hluta jarðarinnar þ.e. annarsvegar þjóðvegur 1 um göngin en hinsvegar þjóðvegurinn út fjörðinn sunnanverðan. Að Sléttu hafi til skamms tíma verið stundaður hefðbundinn landbúnaður og nú síðast sauðfjár- og hrossabúskapur.  Í landi jarðarinnar séu malarnámur og hlunnindanýting. Jörðin sé með tilliti til margþættrar nýtingar vel í sveit sett í næsta nágrenni við einn helsta byggðakjarna fjórðungsins og mesta uppbyggingarsvæði á landsbyggðinni en svo sem kunnugt er stendur nú yfir bygging álverksmiðju í Reyðarfirði.  Til þess verði því að líta að fasteignaverð í Reyðarfirði og næsta nágrenni sé allt annað og miklu hærra en í fjærliggjandi byggðum og muni raunar, skv. munnlegum upplýsingum fasteignasala, hafa hækkað um tugi ef ekki hundruð prósenta á liðnum misserum. Tilvist Fáskrúðsfjarðarganga muni auk þess auðvelda og stytta vegalengdina frá Reyðarfirði og yfir í Suðurfirði og muni þannig og með öðru hafa í för með sér almenna verðhækkun fasteigna og fasteignaréttinda á svæðinu.

Svo sem fram komi í gögnum og greinargerð eignarnema hafi um nokkurn tíma staðið yfir viðræður um gerð nýs vegar og jarðganga milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar.  Það veki þó óneitanlega athygli að vinnubrögð eignarnema hafa ekki verið sem skyldi í undirbúningi verksins. Þannig liggi ekkert fyrir um það að eignarnámsþola hafi verið boðnar bætur nema með þeim almenna hætti sem fram komi í bréfi frá 20. febrúar 2004.  Síðan hafi ekkert gerst í málinu í nærfellt ár eða fyrr en lögmaður tók við hagsmunagæslu, sbr. bréf hans frá 14. desember 2004.  Á þessum tíma hafi þrátt fyrir það verið unnið við vegalagningu og gangagerð í landi eiganda Sléttu.  Í framhaldi af tilvitnuðu bréfi frá desember s.l. hafi eignarnemi loks boðið  1.065.170 krónur í bætur, sbr. bréf hans, dags. 14. janúar 2005.  Þar af hafi bótatilboð fyrir land numið samtals 515.170 krónur og hafi þá ýmist verið miðað við 10.000 krónur eða 100.000 krónur pr. ha., miðað við 11,90 ha. samtals.  Framboðnar bætur fyrir efnistöku hafi numið 250.000 krónum miðað við 50 krónur pr. m3 og bætur vegna átroðnings og röskunar 300.000 krónum.  Þessu boði hafi eignarnámsþoli hafnað.

Í greinargerð eignarnema sé umfangi framkvæmdarinnar lýst nánar, þ.m.t. legu vegar, gerð jarðganga, vegskála o.s.frv.  Við þessa lýsingu eina og sér geri eignarnámsþoli ekki athugasemdir.  Í matsbeiðni og greinargerð sé út frá því gengið að hið eignarnumda nemi samtals 11,90 ha.  Af hálfu eignarnámsþola er lýsingum eignarnema í greinargerð á staðháttum, landgæðum og nýtingarmöguleikum hins eignarnumda lands hinsvegar sérstaklega mótmælt.  Þannig sé ekki í greinargerð eignarnema vikið einu orði að þeirri atvinnuuppbyggingu sem nú eigi sér stað í Reyðarfirði og leitt hafi til gríðarlegrar eftirspurnar eftir landi og verðhækkun fasteigna.  Þá sé ekkert vikið að því sérstaka óhagræði sem eignarnámsþola stafi af því að þurfa nú að búa við tvöfalt vegakerfi um besta hluta undirlendis jarðarinnar.  Sé t.d. ekkert að því vikið, sem fram hafi komið á vettvangi og samsinnt hafi verið af starfsmanni eignarnema að á svæðinu frá vegstöð 2700 og út undir vegstöð 3300 ónýtist eignarnámsþola allt land milli vegstæðis og sjávar og að svæðið frá þeirri stöð og út fyrir gangamunna torveldist mjög til allra nota milli vegstæðis og sjávar, m.a. vegna óhjákvæmilegrar legu girðingar.  Þá sé því ranglega haldið fram að ekki hafi verið áformuð uppbygging sumar- eða frístundahúsa í landi jarðarinnar á svæðinu sunnan vegstæðis frá vegstöð 3000 og út undir gangamunna en eignarnámsþoli hafi nú aflað gagna sem staðfesti þau áform. Staðreyndin sé sú að land það sem fari nú undir veg eða ónýtist vegna vegastæðisins sé allt afar gott land og þeim mun dýrmætara í ljósi takmarkaðs lands á undirlendi. Þá sé af eignarnema hálfu einblínt á hinn eignarnumda hluta og verðmæti hans án þess að nokkur marktæk umfjöllun eigi sér stað um áhrif vegalagningarinnar á nýtingarmöguleika jarðarinnar, utan hins eignarnumda hluta, þ.m.t. mögulega og líklega framtíðarnotkun.  Þá séu engar bætur boðnar fyrir þau jarðefni sem eignarnemi vinni úr jarðgöngunum og liggi Sléttu megin landamerkja.  Þá sé enn og aftur vakin á því sérstök athygli að eignarnemi hyggist ekki skila landi undir núverandi þjóðvegi út fjörðinn og verði hann nýttur áfram sem þjóðvegur, sbr. upplýsingar sem komið hafi fram við vettvangsgöngu.

Í 1. mgr. i.f. 72. gr. stjórnarskrárinnar segi að fullt verð skuli koma fyrir hlut sem eignarnám sé gert í. Samkvæmt hefðbundnum sjónarmiðum við verðlagningu eigna sé rétt, við mat á því hvað teljist fullt verð í skilningi stjórnarskrárákvæðisins, að líta til þess hvert sé líklegt söluverðmæti eignarinnar, notagildi eignarinnar eða hver kostnaður sé fyrir eignarnámsþola að útvega sér sambærilega eign. Beita beri því sjónarmiði sem teljist hagstæðast fyrir eignarnámsþola.

Eignarnámsþoli leggur á það áherslu að við mat á bótum verði að líta til staðsetningar landsins í hjarta eins helsta þéttbýlis- og uppbyggingarkjarna landsfjórðungsins, þá möguleika sem í því felist og þau áhrif sem sú staðsetning hafi á markaðsverð jarðarinnar og lands á svæðinu.  Þá gæti þess grundvallar misskilnings í málatilbúnaði eignarnema að unnt sé, til framtíðar litið, að miða fyrst og fremst við það að stundaður verði búskapur á jörðinni.  Miðað við allar forsendur og þróun í jarðanotum sé ekki víst að búskapur verði til framtíðar litið stundaður í landi Sléttu, enda styttist nú mjög í þéttbýliskjarna á Reyðarfirði og því mögulegt að vermætt land jarðarinnar verði betur fallið til annarrar nýtingar en búskapar.  Sé land jarðarinnar til framtíðar litið heppilegra til að reisa á því byggð á heilsársgrundvelli, stunda þar iðnaðarframleiðslu eða á hinn bóginn reisa þar sumarhús eða reka þar aðra starfsemi tengda ferðamennsku.  Tilvist Fáskrúðsfjarðarganga auki slíka möguleika almennt séð á Reyðarfirði og nærsveitum.

Þá er enn bent á þá staðreynd að nýtanlegt undirlendi jarðarinnar sé tiltölulega lítið og því þeim mun verðmeira.  Með vegagerðinni hátti svo til að eystri hluti jarðarinnar, þ.e. undirlendi meðfram firðinum, ónýtist í raun, og vísast þá sérstaklega til lands milli vegstöðvar 2000 og gangamunnans.  Þá sé nauðsynlegt að vekja á því sérstaka athygli að um stóraukið land undir vegastæði sé að ræða miðað við núverandi stöðu og þrátt fyrir það ónæði sem stafi af núverandi þjóðvegi út fjörðinn þá feli fyrirhuguð vegalagning í sér þá grundvallarbreytingu að vegur muni liggja mun miðlægar á hinu litla undirlendi sem fyrir hendi sé og raunar gera allt land á umræddum kafla ónýtanlegt, milli fjalls og fjöru, og áform um sumarhúsabyggingu í svokölluðu Borgargerðislandi séu komin í fullkomið uppnám, svo sem ljóslega hafi komið fram á vettvangi.  Þá feli vegalagningin í sér þá breytingu að tvöfalt vegakerfi verði á umræddum hluta jarðarinnar þar sem skilji á milli vegar að jarðgöngunum annarsvegar og vegar út fjörðinn hinsvegar.  Liggi fyrir stefnumarkandi og skýrar niðurstöður Matsnefndar eignanámsbóta í þá veru að við vegalagningu sem þessa sé óhjákvæmilegt annað en að reikna með því að áhrifa vegalagningar gæti langt út fyrir hefðbundið helgunarsvæði vegar.

Af framangreindu verði í fyrsta lagi ráðið að í tilboði eignarnema sé miðað við of lítið land þegar gengið sé út frá 11,90 ha.  Ljóst sé að auk þess lands ónýtist með öllu framangreint land í geilinni milli nýs vegstæðis og sjávar, vegstöð 2700 og út undir stöð 3300 og svæðið neðan vegstæðis frá þeirri stöð og út fyrir gangamunna torveldist mjög til allrar nýtingar.  Í öðru lagi er bent á að lega vegarins og uppbygging geri áform um sumarhúsauppbyggingu í Borgargerði nú lítt fýsileg svo sem ljóslega hafi mátt sjá á vettvangsgöngu.  Það land ónýtist að sjálfsögðu ekki til beitar og sambærilegra nota en útilokist til verðmætari nýtingar.  Í þriðja lagi telur eignarnámsþoli að þær viðmiðanir eignarnema fái engan veginn staðist, og engar forsendur séu til þess að greina land jarðarinnar niður í beitiland og annað land og verðleggja síðan með ólíkum hætti.  Í fjórða lagi virðist framboðið verð pr. ha. byggt á heimatilbúnu plaggi sem hafi enga þýðingu.

Við verðákvörðun kveðst eignarnámsþoli leggja það sjónarmið til grundvallar að miðað við tilboð og gagntilboð í 7,5% hlut í jörðinni frá því í ársbyrjun 2005 sé annars vegar miðað við að heildarvirði jarðarinnar nemi 26,5 milljónum en hins vegar um 50 milljónum.  Með vísan til þess að nýtilegt undirlendi jarðarinnar sé um 100 ha nemi hektaraverð í þessum tilboðum að meðaltali um 380 þúsund krónum.

Þá hafi eignarnemi sætt sig við að greiða 300 þúsund krónur pr. ha í svokölluðu Þjórsártúnsmáli sbr. úrskurð matsnefndar eignarnámsbóta í málinu nr. 2/2002 og í máli um vegabætur til handa landeigendum og rétthafa í Hrauni í Grindavík, sem að hluta til hafi verið leyst fyrir matsnefnd, sbr. mál nr. 5/2005.  Verði eignarnemi nú að útskýra hvaða munur sé t.d. á svokölluðu Hraunsmáli sem fjalli um vegagerð í nágrenni kaupstaðarins Grindavíkur og svo sambærilega vegagerð í nágrenni uppbyggingarsvæðisins í Reyðarfirði.

Til hliðsjónar um eðlilegt viðmiðunarverð vísar eignanrámsþoli til kaupsamninga um jarðir í austurlandsfjórðungi á síðustu misserum.  Að öllu framangreindu virtu telji eignarnámsþoli ásættanlegt að miða við 300.000 krónur pr. ha. og telji þó að með því sé farið mjög varlega í sakirnar.  Þá verði að meta að fullu land það sem ónýtist á milli stöðva 2700 og út undir stöð 3300.  Loks verði við mat á bótum fyrir land að taka sérstakt tillit til áhrifa hins nýja vegar á fyrirhugaða sumarhúsabyggð í Borgargerði sem og áhrifa þess tvöfalda vegakerfis sem eignarnámsþoli má nú til framtíðar búa við og lýst hefur verið hér að framan.  Að öllu þessu virtu telur eignarnámsþoli að hæfilegar bætur fyrir land og skerðingu á landi eigi að lágmarki að nema 7.500.000 krónum, en sé þá gerður fyrirvari um stærð þess lands sem ónýtist milli stöðva 2700 og 3300.

Ekki sé um það ágreiningur með aðilum að hver m3 úr námu í Sléttuá verði bættur með 50 krónum.

Í greinargerð eignarnema sýnist miðað við það að eingöngu komi bætur fyrir land undir jarðgöng þar til komið sé á 30 metra dýpi en eftir það komi ekki sérstakar bætur til.  Þessari aðferðafræði sem telja verði án nokkurrar lagaheimildar er mótmælt.  Þvert á móti beri að bæta eignarnámsþola að fullu fyrir þann hluta jarðganganna sem sannarlega liggur undir landi fasteignar hans. Við mat á bótum beri að hafa þá meginreglu íslensk réttar í huga að eignarráð fasteignareiganda ná jafnt til umráða og nota undir yfirborði jarðar sem yfir því.  Hafi í eignarrétti verið viðurkennt að miða verði við þær kröfur sem eðlilegt sé að viðurkenna af tilliti til hagsmuna landeiganda, sbr. t.d. 2. og 3. gr. auðlindalaga nr. 57/1998.  Við mat á bótum til eignarnámsþola vegna þess hluta framkvæmdarinnar sem felist í jarðgöngum undir landi hans sé eðlilegt að líta til þess efnis sem tekið verði vegna gangagerðarinnar, sem samtals nemi 350.000 m3. Þar komi jafnframt fram að allt verði það efni nýtt af eignarnema til vegagerðar í nýjan veg af flokki C1.  Lagt er til grundvallar að helmingur þess efnis sem úr göngunum kemur tilheyri Sléttu og það verðlagt með sama hætti og skv. samkomulagi eignarnema og eiganda Horns í tilvitnuðu máli.  Leggur eignarnámsþoli áherslu á að hér sé um lágmarksbótaviðmið að ræða. Landbætur vegna ganganna geti aldrei numið lægri fjárhæð, enda verði jafnframt að hafa í huga þær framtíðarskorður sem tilvist ganganna setur nýtingu eignarnámsþola á þessum hluta jarðarinnar. Í úrskurði Matsnefndar eignarnámsbóta í matsmálinu nr. 3/2004 sé eðlilega fallist á það að eignarnema beri undir kringumstæðum sem þessum að bæta eignarnámsþola það efni sem fjarlægt er úr jörðu fasteignar hans.  Málatilbúnaður eignarnema um þennan þátt málsins, þ.e. göngin, sé allur mjög sérkennilegur að mati eignarnámsþola.  Fyrst sé til þess að taka að eignarnemi krefst “frávísunar” á óframkomnum kröfum eignarnámsþola á efnisbótum vegna jarðefnavinnslu úr göngunum.  Hér sé um stjórnsýslunefnd að ræða en ekki dómstól og allt svigrúm hennar hvað formhlið máls varði því með öðrum hætti.  Að öðru leyti sýnist málatilbúnaður eignarnema byggjast á þeim dæmalausa skilningi að hann fari með ákvörðunarvald þess hvaða þætti nefndin leggi til grundvallar við mat á eignarröskunum vegna lagningar vegar og jarðganga um land jarðarinnar.  Eðli málsins samkvæmt hljóti eignarnámið að taka til þess, sbr. 45. gr. vegalaga nr. 45/1994 og áratugalanga framkvæmd á grundvelli laga nr. 11/1973 um framkvæmd eignarnáms.  Væri sú niðurstaða fráleit ef eignarnemi, sem í tilviki vegalaga fari bæði með þá hagsmuni sem um sé að ræða og heimildina til að heimila eignarnám þeirra vegna, gæti í matsbeiðni takmarkað þá þætti sem matsnefnd bæri að líta til við mat á eignarnámsbótum, sem eðli málsins samkvæmt eigi að vera heildarmat á allri þeirri eignarýrnun sem eignarnámsþoli verði fyrir. Kenningum um takmarkanir eignarréttarins af þeim toga sem eignarnemi vill halda fram hér hafi síðast verið hreyft af alvöru á sjötta áratug síðustu aldar en löngu sé viðurkennt að eignarráðum niður á við verði ekki sett slík útmæld takmörk.  Kröfugerð eignarnámsþola í þessa veru taki heldur ekki mið af sérstökum bótum fyrir það land jarðarinnar sem liggi ofan ganganna, enda liggi ekki fyrir að meðferð þess sæti að lögum sérstökum takmörkunum.  Sé raunar allur réttur áskilinn af því tilefni.  Kröfugerð taki þvert á móti mið af áætluðu verðmæti þeirra jarðefna sem unnin verði úr gangastæðinu og nýtt. Verði engin frekari sönnunarbyrði lögð á eignarnámsþola þar um og þá ekki heldur um meint fjárhagslegt tjón vegna efnistökunnar.

Ljóst sé að eignarnámsþoli og þeir aðilar sem frá honum leiði rétt á jörðinni hafi á framkvæmdatímanum orðið fyrir verulegum óþægindum og ónæði vegna vegalagningarinnar.  Auk átroðnings og jarðrasks utan vegstæða sé ljóst að sauðfjárbúskapur og beit hafi orðið fyrir stórkostlegri truflun á framkvæmdatímanum.  Þetta viðurkenni eignarnemi en bjóði sem bætur 300.000 krónur.  Enga útlistun sé að finna í gögnum eignarnema á grundvelli þess boðs.  Í tilvitnuðu máli, nr. 3/2004, hafi umsamdar og ákvarðaðar bætur vegna þessa þáttar, sem og tímabundinna afnota lands numið samtals 500.000 krónum.  Sýnist rask það sem eignarnámsþoli hefur orðið fyrir í þessu máli vera sýnu meira . Sé varlega áætlað að þetta verði bætt með eingreiðslu, samtals að fjárhæð 750.000 krónur.   

Samandregið telji eignarnámsþoli að við ákvörðun bóta beri Matsnefnd eignarnámsbóta að líta til framkominna sjónarmiða um landbætur að fjárhæð 7.500.000 krónur, framsettra bótasjónarmiða vegna jarðganga að lámarksfjárhæð 8.550.000 krónur, bóta vegna efnistöku úr námu að fjárhæð 250.000 krónur og jarðrasks, átroðnings og tímabundinna óþæginda og óhagræðis að fjárhæð kr. 500.000.  Nemi þetta samtals framsettum kröfum eignarnámsþola um lágmarksbætur að fjárhæð 17.050.000 krónur.

 

Vísað er til 65. og 72. gr. stjórnarskrárinnar og hefðbundinna sjónarmiða við verðmat eigna við eignarnám og innlausn. Ítrekuð er tilvísun til auðlindalaga nr. 57/1998 og vegalaga nr. 45/1994. Þá vísast, eftir því sem við á, til ákvæða Vegalaga nr. 45/1994, einkum 9. kafla laganna.

Málskostnaðarkrafan er reist á 11. gr. laga nr. 11/1973.

 

Eignarnemi hefur veitt andsvör við því sem fram kemur í greinargerð eignarnámsþola og eignanámsþoli gert athugasemdir við það. Er þar fyrst og fremst um að ræða endurtekningu á sjónarmiðum sem hér eru rakin að framan og nánari útlistun og reifun á þeim.

 

 

NIÐURSTAÐA

Andlag eignarnáms er í fyrsta lagi landspilda undir vegsvæði Suðurfjarðavegar. Svæði þetta er samtals 11,9 ha að flatarmáli og er ekki ágreiningur um stærð þess með aðilum. Fallast má á það með eignarnema að land þetta sé misjafnt að gæðum og nokkur hluti þess hentar til byggðar, þar með talin sumarhúsa. Að öðru leyti er landið lakara. Við matið verður litið til þess að landið er fjarri mestu þéttbýlisvæðum landsins en þó í námunda við ört vaxandi þéttbýli á Austfjörðum. Þá er höfð hliðsjón af verði eigna á sama svæði og þróun verðlags á fasteignamarkaði að undanförnu sem hefur farið stighækkandi. Hér koma og til athugunar sjónarmið vegna þróunar byggðar og atvinnu á Reyðarfirði. 

Þessu til viðbótar verður að líta til þess að nýtingarmöguleikar á landi eignarnámsþola í geil milli nýs vegastæðis og sjávar skerðast.  Sama á við um svæði fyrir ofan veg kennt við Borgargerði en möguleikar til byggingar sumarbústaða þar skerðast.

Að öllu þessu gættu telur nefndin að hæfilegar bætur fyrir þau fasteignaréttindi sem hér hefur verið gerð grein fyrir nemi 2.000.000 króna.

Ljóst er að eignarnemi þarf að sprengja og flytja grjót úr göngunum og enda þótt fallast megi á það að hér sé ekki um arðvænlegt grjótnám í sjálfu sér að ræða nýtist það eignarnema við vegagerð hans. Telur matsnefndin að efni þetta allt sé háð  eignarrétti landeiganda. Ekki verður fallist á það með eignarnema að eignarráð landeiganda séu takmörkuð miðað við 30 metra eins og hann heldur fram. Fyrir þeirri málsástæðu skortir lagarök og getur hún ekki takmarkað úrlausnarvald nefndarinnar við ákvörðun bóta vegna skerðingar eignarréttinda. Kemur og hér til að samkvæmt 3. gr. laga nr. 57/1998 fylgir eignarréttur að auðlindum í jörðu eignarlandi. Verður þá einnig að hafna kröfu eignarnema um frávísun þessa þáttar matsins.

Við mat á bótum vegna efnis úr göngunum verður hins vegar að líta til þess að mjög takmörkuð not hefði verið unnt að hafa af efni þessu nema vegna framkvæmda  eignarnema. Öflun og nýting efnisins verður því vegna framkvæmda hans og verður að taka mið af því við ákvörðun bóta. Samkvæmt upplýsingum  eignarnema nemur magn efnis sem kom úr göngunum 171.470 m3. Með tilliti til þess sem segir um hlut eignarnema í öflun efnisins þykja bætur til eignarnámsþola vegna þessa hæfilega ákveðnar 3.086.460 krónur (171.470 * 18 krónur ).

            Samkvæmt því sem fram kemur í gögnum málsins er ágreiningslaust að eignarnemi fær 5.000 rúmmetra jarðefnis úr námu í Sléttuá og enn fremur er ágreiningslaust að verðmæti þess sé 50 krónur á m3. Þykir það hæfilegt og verður lagt til grundvallar í matinu. Fyrir þennan lið eru bætur 250.000 krónur.

            Loks verður fallist á kröfu eignarnámsþola um bætur fyrir jarðrask og óþægindi að með 400.000 krónum.

            Samkvæmt framansögðu ákvarðast bætur til eignanámsþola 5.736.460 krónur og 534.012 krónur  í málskostnað.

            Eignarnemi greiði 650.000 krónur til ríkisjóðs vegna kostnaðar við starf matsnefndar eignarnámsbóta í máli þessu.

 

ÚRSKURÐARORÐ

            Eignarnemi Vegagerðin greiði eignarnámsþola Sigurði Baldurssyni 5.736.460 krónur og 552.687 krónur í málskostnað.

            Eignarnemi greiði 650.000 krónur til ríkissjóðs vegna starfa matsnefndar eignarnámsbóta í máli þessu.

                                                                        Allan V. Magnússon

                                                                        Benedikt Bogason

                                                                        Sverrir Kristinsson       

 




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum