Hoppa yfir valmynd
F%C3%A9lagsd%C3%B3mur

Mál nr. 4/2005: Dómur frá 16. júní 2005

Ár 2005, fimmtudaginn 16. júní, var í Félagsdómi í málinu nr. 4/2005:

                                                           

Vélstjórafélag Íslands

gegn

Samtökum atvinnulífsins f.h.

Landssambands íslenskra útvegsmanna f.h.

Útvegsmannafélags Norðurlands vegna

Brims hf.

 

kveðinn upp svofelldur

 

D Ó M U R :

 

Mál þetta var dómtekið að loknum munnlegum málflutningi 17. maí sl.

Málið dæma Eggert Óskarsson, Gylfi Knudsen, Kristjana Jónsdóttir, Valgeir Pálsson og Vilhjálmur H. Vilhjálmsson.

 

Stefnandi er Vélstjórafélag Íslands, kt. 690269-3419, Borgartúni 18, Reykjavík.

Stefndi er, Samtök atvinnulífsins, kt. 680699-2919, Borgartúni 35, Reykjavík, fyrir hönd Landssambands íslenskra útvegsmanna, kt. 420269-0649, Borgartúni 35, Reykjavík, fyrir hönd Útvegsmannafélags Norðurlands, kt. 431096-3239, Fiskitanga, Akureyri, vegna Brims hf., kt. 670269-4429, Fiskitanga, Akureyri.

 

Dómkröfur stefnanda 

Að viðurkennt verði að Brim hf., hafi brotið gegn ákvæði 9. mgr. greinar 5.24. í kjarasamningi milli Landssambands íslenskra útvegsmanna og Vélstjórafélags Íslands, með því að halda frystitogaranum Sléttbaki EA-4, skipaskrárnúmer 2550, til veiða lengur en í 40 sólarhringa samfellt eða frá 7. október til 25. nóvember 2004, með þrjá félagsmenn Vélstjórafélags Íslands í áhöfn skipsins, þá Jón Hilmar Lúthersson, kt. 190855-3099, í stöðu yfirvélstjóra, Ragnar Frey Steinþórsson, kt. 160581-5499, í stöðu 1. vélstjóra og Hrafn Jónasson, kt. 110454-7169, í stöðu 2. vélstjóra.

Að Brim hf. verði gert að greiða stefnanda févíti að fjárhæð 373.833 kr. samkvæmt grein 1.56. í kjarasamningi milli Landssambands íslenskra útvegsmanna og Vélstjórafélags Íslands, sem renni í félagssjóð stefnanda, vegna brots á ákvæði 9. mgr. greinar 5.24. í kjarasamningi milli Landssambands íslenskra útvegsmanna og Vélstjórafélags Íslands, með því að halda frystitogaranum Sléttbaki EA-4, skipaskrárnúmer 2550, til veiða lengur en í 40 sólarhringa samfellt eða frá 7. október til 25. nóvember 2004, með þrjá félagsmenn Vélstjórafélags Íslands í áhöfn skipsins, þá Jón Hilmar Lúthersson, kt. 190855-3099, í stöðu yfirvélstjóra, Ragnar Frey Steinþórsson, kt. 160581-5499, í stöðu 1. vélstjóra og Hrafn Jónasson, kt. 110454-7169, í stöðu 2. vélstjóra.

Að viðurkennt verði að Brim hf. hafi brotið gegn 7. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur, ásamt síðari breytingum með því að semja við þrjá félagsmenn Vélstjórafélags Íslands, þá Jón Hilmar Lúthersson, kt. 190855-3099, yfirvélstjóra, Ragnar Frey Steinþórsson, kt. 160581-5499, 1. vélstjóra og Hrafn Jónasson, kt. 110454-7169, 2. vélstjóra, um greiðslu að fjárhæð 5.000 kr. á dag til hvers þeirra um sig, fyrir hvern dag sem veiðiferð Sléttbaks EA-4 stóð yfir umfram 40 daga í veiðiferð skipsins sem hófst 7. október 2004 og lauk 25. nóvember 2004 og brjóta þannig gegn ákvæði 9. mgr. greinar 5.24. í kjarasamningi milli Landssambands íslenskra útvegsmanna og Vélstjórafélags Íslands.

Að Brim hf. verði dæmt til greiðslu sektar í ríkissjóð samkvæmt 1. mgr. 70. gr. laga nr. 80/1938, ásamt síðari breytingum, með því að hafa brotið gegn 7. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur, ásamt síðari breytingum með því að semja við þrjá félagsmenn Vélstjórafélags Íslands, þá Jón Hilmar Lúthersson, kt. 190855-3099, yfirvélstjóra, Ragnar Frey Steinþórsson, kt. 160581-5499, 1. vélstjóra og Hrafn Jónasson, kt. 110454-7169, 2. vélstjóra, um greiðslu að fjárhæð 5.000 kr. á dag til hvers þeirra um sig, fyrir hvern dag sem veiðiferð Sléttbaks EA-4 stóð yfir umfram 40 daga í veiðiferð skipsins sem hófst 7. október 2004 og lauk 25. nóvember 2004 og brjóta þannig gegn ákvæði 9. mgr. greinar 5.24. í kjarasamningi milli Landssambands íslenskra útvegsmanna og Vélstjórafélags Íslands.

Að Samtök atvinnulífsins eða eftir atvikum Brim hf., verði dæmd til að greiða stefnanda málskostnað að skaðlausu.

 

Dómkröfur stefnda 

Stefndi krefst þess að stefndi verði sýknaður af kröfum stefnanda.

Til vara að févítiskrafa stefnanda verði lækkuð.

Að stefnandi verði dæmdur til að greiða honum málskostnað að skaðlausu.

 

Málavextir

Frystitogaranum Sléttbaki EA-4, skipaskrárnúmer 2550, sem er í eigu og útgerð Brims hf., var haldið til veiða 7. október 2004 í Barentshafi og stóð sú veiðiferð samfellt til 25. nóvember 2004 eða í 50 daga.  Samkvæmt 9. mgr. greinar 5.24. í kjarasamningi Landssambands íslenskra útvegsmanna og Vélstjórafélags Íslands, skal veiðiferð aldrei vera lengri en 40 sólarhringar. Þrír félagsmenn Vélstjórafélags Íslands gegndu vélstjórnarstörfum um borð í skipinu í veiðiferðinni.  Jón Hilmar Lúthersson, kt. 190855-3099, gegndi stöðu yfirvélstjóra, Ragnar Freyr Steinþórsson, kt. 160581-5499, gegndi stöðu 1. vélstjóra og Hrafn Jónasson, kt. 110454-7169, gegndi stöðu 2. vélstjóra.

Með bréfi Sjómannafélags Eyjafjarðar, dags. 7. janúar 2005, var Brim hf. krafið um greiðslu févítis að fjárhæð 379.839 kr. vegna brota á ákvæði 8. mgr. greinar 5.29. í kjarasamningi Landssambands íslenskra útvegsmanna og Sjómannasambands Íslands, en um sams konar ákvæði er að ræða og fyrrgreint ákvæði í kjarasamningnum við Vélstjórafélags Íslands.

Með bréfi, dags. 13. janúar 2005, undirrituðu af lögmanni Brims hf., og trúnaðarmanni skipverja Sléttbaks EA-4, var því mótmælt að um kjarasamningsbrot hafi verið að ræða. Í bréfinu segir meðal annars svo:

“Trúnaðarmaður skipverja, skipstjóri og útgerð skipsins ákváðu að bera það undir atkvæði skipverja Sléttbaks EA. 4 hvort halda ætti til hafnar eða halda áfram veiðum.  Þetta var gert þegar um 37 dagar voru liðnir frá upphafi veiðiferðar skipsins.  Skipverjar greiddu atkvæði og ákváðu að halda áfram veiðum:  18 skipverjar vildu halda veiðum áfram, 5 skipverjar vildu hætta veiðum, 3 skipverjar skiluðu auðu.  Allir skipverjar höfðu fyrirfram komið sér saman um að hlíta niðurstöðu meirihluta skipverja.  -  Þar sem gert er ráð fyrir því í kjarasamningi að veiðiferð standi ekki lengur en 40 sólarhringa þá bauð útgerðin kr. 5.000 – greiðslu til hvers skipverja fyrir hvern úthaldsdag umfram 40 daga, þó þannig að lengd veiðiferðar yrði að hámarki 50 dagar.  Greiðsla þessi hefur verið greidd skipverjum, samtals um kr. 1.100.000.- “

Með bréfi lögmanns stefnanda, dags. 24. janúar 2005, var krafist greiðslu févítis úr hendi Brims hf. vegna framangreindra kjarasamningsbrota, ella kæmi til málshöfðunar. Í kjölfar þess að því var lýst yfir af hálfu Brims hf. að tekið yrði til varna í málinu hefur mál þetta verið höfðað fyrir Félagsdómi.

       

Málsástæður stefnanda og lagarök

Stefnandi byggir á því að Brim hf. hafi brotið gegn ákvæði 9. mgr. greinar 5.24. í kjarasamningi milli Landssambands íslenskra útvegsmanna og Vélstjórafélags Íslands, með því að halda frystitogaranum Sléttbaki EA-4, skipaskrárnúmer 2550, sem er í eigu og útgerð Brims hf., til veiða 7. október 2004 og koma ekki aftur til hafnar á Akureyri fyrr en 25. nóvember 2004 eða 50 dögum síðar, sbr. framlagt lögskráningarvottorð og vottorð Fiskistofu um landanir Sléttbaks EA-4, fiskveiðiárið 2004-2005. Þrír fyrrgreindir félagsmenn Vélstjórafélags Íslands gegndu vélstjórnarstörfum um borð í skipinu í veiðiferðinni. 

Samkvæmt framangreindu kjarasamningsákvæði megi aldrei halda frystitogurum úti til veiða með sömu áhöfn lengur en í 40 sólarhringa samfleytt.  Einstakir skipverjar eða eftir atvikum meirihluti skipverja, geti ekki vikið ákvæði þessu til hliðar með samkomulagi við útgerð, sbr. ákvæði greinar 1.54. í kjarasamningi aðila, þar sem segir orðrétt:

Samningar milli einstakra útgerðarmanna og vélstjóra er hljóða upp á lægri kjör en tekið er fram í samningi þessum eru ógildir.

Þá séu ákvæði kjarasamningsins vernduð af ákvæði 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, sbr. 5. gr. laga nr. 69/1993, en orðrétt hljóði ákvæðið svo:

Laun og önnur starfskjör, sem aðildarsamtök vinnumarkaðarins semja um, skulu vera lágmarkskjör, óháð kyni, þjóðerni eða ráðningartíma fyrir alla launamenn í viðkomandi starfsgrein á svæði því er samningurinn tekur til.  Samningar einstakra launamanna og atvinnurekenda um lakari kjör en hinir almennu kjarasamningar ákveða skulu ógildir.

Samkvæmt ákvæði greinar 1.56. í kjarasamningi milli Landssambands íslenskra útvegsmanna og Vélstjórafélags Íslands, sem undirritaður var 9. maí 2001, varðar kjarasamningsbrot útgerðarmann févíti allt að 342.110 kr. og renni sú fjárhæð í félagssjóð Vélstjórafélags Íslands.  Samkvæmt ákvæði greinar 1.11. í kjarasamningi aðila hækkaði févítið um 3% 01.01.2002, aftur um 3% 01.01.2003 og enn um 3% 01.06.2004.  Er umrætt brot var framið nam því févítið allt að kr. 373.833,00 og er gerð sú krafa að Brim hf. verði dæmt til að greiða þá fjárhæð að fullu vegna brota fyrirsvarsmanna félagsins á ákvæði 9. mgr. greinar 5.24. í kjarasamningi aðila.

Á því er einnig byggt í málinu að með því að semja við skipverja Sléttbaks EA-4 um greiðslu að fjárhæð 5.000 kr. á sólarhring fyrir hvern sólarhring umfram 40 sólarhringa, sem er hámarkið samkvæmt nefndu ákvæði kjarasamningsins, hafi Brim hf. brotið gegn 7. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur, ásamt síðari breytingum.  Í greininni segir orðrétt:

Samningar einstakra verkamanna við atvinnurekendur eru ógildir að svo miklu leyti, sem þeir fara í bága við samninga stéttarfélags við atvinnurekandann, enda hafi félagið ekki samþykkt þá.

Ljóst sé að framangreindur samningur milli Brims hf. og skipverjanna á Sléttbaki EA-4 og þar með nefndra þriggja vélstjóra skipsins, brjóti í bága við framangreint ákvæði.  Brot á lögum nr. 80/1938 ásamt síðari breytingum varði sektum sem renna í ríkissjóð, sbr. 1. mgr. 70. gr. laganna, sbr. 9. gr. laga nr. 10/1983 og komi það í hlut Félagsdóms að ákvarða sektarfjárhæðina.

Samkvæmt 2. málslið 2. mgr. 45. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur reka félög, sem ekki eru meðlimir sambandanna, mál sín og meðlima sinna.  Samkvæmt 1. tölulið 1. mgr. 44. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur er það verkefni Félagsdóms að dæma í málum sem rísa út af kærum um brot á lögunum og tjóni sem orðið hefur vegna ólögmætra vinnustöðvana.  Samkvæmt 2. tölulið 1. mgr. 44. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur er verkefni Félagsdóms að dæma í málum sem rísa út af kærum um brot á vinnusamningi eða út af ágreiningi um skilning á vinnusamningi eða gildi hans.  Sé máli þessu því réttilega stefnt fyrir Félagsdóm af hálfu Vélstjórafélags Íslands á hendur Samtökum atvinnulífsins, fyrir hönd Landssambands íslenskra útvegsmanna, fyrir hönd Útvegsmannafélags Norðurlands vegna Brims hf.

Stefnandi byggir á ákvæðum kjarasamnings milli Landssambands íslenskra útvegsmanna og Vélstjórafélags Íslands sem undirritaður var 9. maí 2001, greinum 1.11., 1.54., 1.56. og 9. mgr. greinar 5.24.  Þá byggir stefnandi á 7., 44., 45. og 70. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur, ásamt síðari breytingum og 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, sbr. 5. gr. laga nr. 69/1993.  Um málskostnað er vísað til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð eiknamála.

 

Málsástæður stefnda og lagarök

Sýknukrafa stefnda er byggð á því að skipverjum hafi verið heimilt að ákveða með þeim hætti sem gert var að lengja yfirstandandi veiðiferð Sléttbaks EA 4 umfram þá 40 daga sem kjarsamningur gerir ráð fyrir. Ákvörðunin hafi verið tekin sameiginlega með þátttöku allra skipverja í leynilegri atkvæðagreiðslu sem trúnaðarmaður skipverja og skipstjóri stóðu sameiginlega að. Atkvæði hafi fallið þannig að 18 skipverjar greiddu atkvæði með lengingu veiðiferðarinnar, 5 voru á móti og auðir seðlar voru 3. Niðurstaðan hafi því verið ótvíræð. Áður en atkvæðagreiðslan fór fram höfðu allir skipverjar komið sér saman um að hlíta niðurstöðu hennar. 

Framkvæmd kjarasamninga sé almennt þannig háttað að einstakir starfsmenn eða hópar starfsmanna geti vikið frá einstökum ákvæðum kjarasamninga í samskiptum sínum við vinnuveitanda sinn feli það, þegar á heildina sé litið, ekki í sér lakari kjör fyrir þá en kjarasamningur ákveði.  Í þessu tilviki hafi verið um að ræða aukna veiðivon (aflahlut) auk þess sem til kom sérstök viðbótargreiðsla af hálfu útgerðarinnar.  Hafi hver skipverji fengið greiddar 45.000 kr. vegna níu daga útivistar.

Fyrrgreind ákvörðun skipverja varðaði vinnuaðstöðu þeirra á Sléttbaki EA 4 í þeirri veiðiferð sem þá stóð yfir. Ljóst sé að samningsumboð stéttarfélaga sé leitt frá þeim launþegum sem félögin komi fram fyrir, sbr. dóm Hæstaréttar í máli  nr. 34/2001. Verði kjarasamningur aðila því ekki skilinn þannig að hann banni skipverjum að ákveða sameiginlega, eins og gert var í þessu tiltekna tilviki, hvernig einstaklingsbundnum hagsmunum þeirra skyldi varið.

Þá bendir stefndi á að stefnandi sækir málflutningsumboð sitt fyrir Félagsdómi með sama hætti til félagsmanna sinna, sbr. 45. gr. laga nr. 80/1938. Málsókn þessi miði að því að hnekkja lýðræðislegri ákvörðun skipverja án þess að fyrir liggi að það sé gert í umboði eða að ósk viðkomandi félagsmanna stefnanda. Þvert á móti  liggi fyrir í málinu bréf  undirritað af trúnaðarmanni, fyrir hönd skipverja, ásamt lögmanni útgerðarinnar, fyrir hennar hönd, þar sem sú von sé látin í ljós að sjómannafélag skipverja virði sameiginlega niðurstöðu þeirra.  

Stefndi byggir sýknukröfu sína einnig á því að trúnaðarmaður skipverja um borð, hafi átt aðild að fyrrgreindri ákvörðun um framlengingu veiðiferðarinnar umfram 40 daga og hafi þar komið fram fyrir hönd skipverja.  Sú ákvörðun sé því bindandi gagnvart stefnanda enda beri stéttarfélög ábyrgð á störfum trúnaðarmanns samkvæmt 8. gr. laga nr. 80/1938.  

Að mati stefnda sé ekki um það að ræða að lenging þessarar tilteknu veiðiferðar Sléttbaks EA 4 hafi á nokkurn hátt kollvarpað viðkomandi ákvæði í kjarasamningi aðila.  Hvorki trúnaðarmaður né aðrir skipverjar hafi heldur litið þannig á.

Það sé einnig vel þekkt að skip hafi verið lengur að veiðum en 40 sólarhringa án þess að nokkuð hafi legið fyrir um afstöðu skipverja. Hafi það verið látið átölulaust a.m.k. svo framarlega sem févíti hafi verið greitt til  stéttarfélagsins. Fram komi í gögnum málsins að Brim hf. hafi gefist tækifæri til að fara þá leið án frekari eftirmála, en í  þessu tiltekna tilviki hafi greiðslan gengið til skipverja. Þar sem um hafi verið að ræða frjálsa ákvörðun skipverja Sléttbaks EA 4 hafi útgerðin ekki talið sig hafa gerst brotleg við ákvæði kjarasamnings og bæri því engin skylda til greiðslu févítis til stefnanda. 

Stefndi vísar jafnframt til þess að skipverjar hafi fengið launauppbót vegna lengdrar útiveru sem þeir hafi sjálfir tekið ákvörðun um og hafi því ekki notið lakari kjara en samkvæmt kjarasamningi. Útgerðin hafi því hvorki brotið gegn 7. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur, grein 1.54. í kjarasamningi aðila né 1. gr. laga nr. 55/1980.  

Þá mótmælir stefndi því að 7. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur hafi sjálfstætt gildi með þeim hætti sem stefnandi heldur fram.  Ákvæðið hafi auk þess aldrei verið skilið þannig að það bannaði yfirborganir eða frávik frá kjarasamningi sem ekki feli í sér lakari kjör en kjarasamningur ákveði enda sé slíkt almenn venja á íslenskum vinnumarkaði.  Ákvæðið banni aðeins lakari kjör í einstaklingsbundnum ráðningarsamningum en ekki að í vinnustaðasamningi allra sé samið um gagnkvæmt hagræði og ávinning.  Stefndi mótmælir sektarkröfu stefnanda. Samkvæmt efni sínu sé 7. gr. laga nr. 80/1938 viðurlagaákvæði og geti því ekki verið grundvöllur sektarálagningar samkvæmt 70. gr.  sömu laga. 

Varakrafa stefnda er studd þeim rökum að með tilliti til þess að ákvörðunin um framlengingu veiðiferðar skipsins umfram 40 daga hafi verið tekin af skipverjum á lýðræðislegan hátt og með atbeina trúnaðarmanns þeirra verði févítisákvæði kjarasamnings aðila ekki beitt að fullu. Aðeins geti verið um að ræða lágmarks févíti, sbr. orðalag gr. 1.56  í kjarasamningi aðila.  Að öðru leyti er vísað til rökstuðnings fyrir sýknukröfu stefnda. 

Til stuðnings kröfum sínum vísar stefndi aðallega til 7.,  8., 9., 12.,  45. og 70. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur og kjarasamnings aðila. 

Krafa um málskostnað er studd við 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991.

 

Niðurstaða

Mál þetta á undir Félagsdóm samkvæmt 1. og 2. tölul. 1. mgr. 44. gr. laga nr. 80/1938, um stéttarfélög og vinnudeilur.

Fram er komið í málinu að frystitogaranum Sléttbaki EA-4 var haldið til veiða 7. október 2004 í Barentshafi og kom ekki aftur úr veiðiferðinni fyrr en 25. nóvember 2004 eða 50 dögum síðar, en þann dag landaði skipið á Akureyri samkvæmt gögnum málsins. Í málinu er deilt um það hvort þessi tímalengd veiðiferðarinnar hafi verið brot á ákvæðum 9. mgr. greinar 5.24 í kjarasamningi aðila frá 9. maí 2001 um hámarkslengd veiðiferðar (40 sólarhringar). Þá er ágreiningsefni í málinu hvort hið stefnda útgerðarfélag hafi brotið gegn 7. gr. laga nr. 80/1938 með því að semja við þrjá tilgreinda félagsmenn stefnanda um greiðslu að fjárhæð 5.000 kr. á dag til hvers um sig fyrir hvern sólarhring sem greind veiðiferð fór fram úr umræddu 40 sólarhringa hámarki, sbr. meint brot á greindu ákvæði kjarasamningsins.

Af hálfu stefnanda er á því byggt að greint ákvæði kjarasamnings aðila um hámarkslengd veiðiferðar sé ófrávíkjanlegt og geti einstakir skipverjar eða eftir atvikum meirihluti skipverja ekki vikið ákvæðinu til hliðar með samkomulagi við útgerð. Í þessu sambandi vísar stefnandi til greinar 1.54 í kjarasamningnum og 1. gr. laga nr. 55/1980, um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda, sbr. 5. gr. laga nr. 69/1993. Þá telur stefnandi að með því að semja við skipverja Sléttbaks EA-4 um greiðslu að fjárhæð 5.000 kr. fyrir hvern sólarhring umfram 40 sólarhringa hámarkið hafi hið stefnda útgerðarfélag brotið gegn 7. gr. laga nr. 80/1938. Af hálfu stefnda er því haldið fram að útgerðin hafi hvorki brotið gegn greindum ákvæðum kjarasamningsins né umræddum ákvæðum 7. gr. laga nr. 80/1938 og 1. gr. laga nr. 55/1980, enda hafi þeim verið fyllilega heimilt með sameiginlegri atkvæðagreiðslu að samþykkja lengingu veiðiferðarinnar umfram greint hámark. Er sérstaklega vísað til aðildar trúnaðarmanns að ákvörðuninni. Þá þýði sú launauppbót, sem skipverjar fengu, að hvorki hafi verið brotið gegn 7. gr. laga nr. 80/1938, grein 1.54. í kjarasamningi aðila, né 1. gr. laga nr. 55/1980.

Samkvæmt 9. mgr. greinar 5.24 í kjarasamningi aðila skal veiðiferð aldrei vera lengri en 40 sólarhringar. Að virtu orðalagi ákvæðisins og þeim hagsmunum sem búa að baki ákvæðinu verður að telja að um sé að ræða skyldubundið og ófrávíkjanlegt ákvæði. Varð ákvæðinu því ekki vikið til hliðar með neinu samkomulagi útgerðar og skipverja. Samkvæmt þessu gat umrædd atkvæðagreiðsla meðal skipverja, sem fram fór 10. nóvember 2004, ekki haft neina þýðingu í þessu sambandi, enda bar útgerðinni, hvað sem leið atkvæðagreiðslunni, að sjá til þess að sínu leyti að greint ákvæði kjarasamningsins yrði virt. Þá gátu rekstrarlegir hagsmunir, sem í þessu tilviki fólust í óveiddum eftirstöðvum kvóta, ekki réttlætt frávikið.

Samkvæmt framansögðu verður að fallast á það með stefnanda að hið stefnda útgerðarfélag hafi brotið gegn ákvæði 9. mgr. greinar 5.24 í kjarasamningi aðila greint sinn.  Kemur þá til úrlausnar hvort dæma beri hið stefnda útgerðarfélag til greiðslu févítis samkvæmt grein 1.56 í kjarasamningnum.  Samkvæmt því ákvæði og að teknu tilliti til hækkana, sbr. grein 1.11, varðar kjararsamningsbrot stefnda févíti allt að 373.833 krónum og skal það renna í félagssjóð stefnanda.  Ekki er ágreiningur með aðilum um útreikning fjárhæðarinnar.  Frekari ákvæði eru ekki um févíti þetta í kjarasamningnum, hvorki um beitingu þess almennt né með tilliti til brota á einstökum ákvæðum samningsins, en ljóst er að því er ætlað að tryggja samningsefndir.  Að þessu virtu og með vísan til fortakslauss ákvæðis greinar 1.56 um að kjarasamningsbrot varði févíti, ber að dæma stefnda, Brim hf., til greiðslu févítis samkvæmt greindu ákvæði kjarasamningsins. Að mati dómsins þykja ekki vera næg efni til að verða við varakröfu stefnda um lækkun fjárhæðar févítis.

Kemur þá til úrlausnar hvort hið stefnda útgerðarfélag hafi brotið gegn 7. gr. laga nr. 80/1938 og hvort dæma beri félagið til greiðslu sektar fyrir brot á þeirri grein sem hljóðar svo: “Samningar einstakra verkamanna við atvinnurekendur eru ógildir að svo miklu leyti, sem þeir fara í bága við samninga stéttarfélags við atvinnurekandann, enda hafi félagið ekki samþykkt þá.”  Þegar litið er til aðdraganda þess að umrædd veiðiferð var lengd fram yfir tilgreint hámark og þátttöku skipverja sjálfra í þeirri ákvörðun, þar á meðal trúnaðarmanns Sjómannafélags Eyjafjarðar um borð, með greindri atkvæðagreiðslu, þar sem mikill meirihluti þeirra samþykkti þetta ráðslag, og þess að skipverjar fengu auknar greiðslur af þeim sökum, verður ekki talið að útgerðin hafi brotið gegn 7. gr. laga nr. 80/1938.  Verður útgerðarfélagið því sýknað af þeirri kröfu stefnanda.  Þegar af þeirri ástæðu verður útgerðarfélagið einnig sýknað af kröfu um að það greiði sekt í ríkissjóð samkvæmt 1. mgr. 70. gr. laga nr. 80/1938.

Eftir framangreindum úrslitum þykir rétt að stefndi greiði stefnanda 150.000 krónur í málskostnað.

 

D Ó M S O R Ð :

Stefndi, Brim hf., braut gegn ákvæði 9. mgr. greinar 5.24 í kjarasamningi milli Vélstjórafélags Íslands annars vegar og Samtaka atvinnulífsins vegna aðildarfélaga Landssambands íslenskra útvegsmanna hins vegar með því að halda frystitogaranum Sléttbaki EA-4, skipaskrárnúmer 2550, til veiða lengur en í 40 sólarhringa samfellt eða frá 7. október til 25. nóvember 2004.   

Stefndi, Brim hf., greiði 373.833 krónur í févíti, sem renni í félagssjóð Vélstjórafélags Íslands.

Stefndi skal vera sýkn af kröfum stefnanda um að stefndi, Brim hf., hafi brotið gegn 7. gr. laga 80/1938 og um greiðslu sektar.

Stefndi, Samtök atvinnulífsins fyrir hönd Landssambands íslenskra útvegsmanna fyrir hönd Útvegsmannafélags Íslands vegna Brims hf., greiði stefnanda, Vélstjórafélagi Íslands 150.000 krónur í málskostnað.

 

 

Eggert Óskarsson

Gylfi Knudsen

Kristjana Jónsdóttir

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson

 

 

Sératkvæði

Valgeirs Pálssonar

 

Ég er sammála niðurstöðu meiri hluta dómenda um annað en ákvörðun févítis.

Samkvæmt grein 1.56, sbr. grein 1.11, í kjarasamningi aðila varðar kjarasamningsbrot útgerðarmann févíti allt að 373.833 krónum.  Þótt engum frekari ákvæðum sé til að dreifa í sjálfum kjarasamningnum um það hvernig beita skuli févíti felst í orðalagi greinar 1.56 að févíti megi ákvarða með lægri fjárhæð en þeirri sem tilgreind er í sjálfu ákvæðinu að teknu tilliti til hækkunar vegna kaupbreytinga.  Verður að meta í hverju tilviki hversu hátt févítið skuli vera.

Þegar litið er til aðdraganda þess að skipverjar ákváðu með atkvæðagreiðslu að framlengja hina umdeildu veiðiferð, einkum þess að trúnaðarmaður skipverja tók þátt í ákvörðun um atkvæðagreiðsluna, mikill meirihluti áhafnar samþykkti að framlengja veiðiferðina, öll áhöfnin samþykkti fyrir fram að hlíta niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar og og útgerðin greiddi hverjum skipverja aukagreiðslu vegna hins langa úthalds, verður að telja rétt að févíti nemi nokkuð lægri fjárhæð en nemur hámarkinu.  Eftir atvikum tel ég rétt að stefnda Brim hf. greiði févíti að upphæð 200.000 krónur.

 

Valgeir Pálsson.




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum