Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 40/2017

ÁLIT

KÆRUNEFNDAR HÚSAMÁLA

í máli nr. 40/2017

Tryggingarfé. Takmörkun tjóns.

I. Málsmeðferð kærunefndar

Með bréfi, dags. 7. apríl 2017, beindi A, hér eftir nefndur álitsbeiðandi, til nefndarinnar erindi vegna ágreinings við B og C, hér eftir nefnd gagnaðilar.

Gagnaðilum var gefinn kostur á að koma á framfæri við nefndina sjónarmiðum sínum og kröfum í samræmi við ákvæði 3. mgr. 85. gr. húsaleigulaga, nr. 36/1994. Gagnaðilar létu málið þó ekki til sín taka og var það tekið til úrlausnar á fundi nefndarinnar 31. ágúst 2017.

II. Helstu málsatvik og ágreiningsefni

Álitsbeiðandi leigði gagnaðilum íbúð sína tímabundið til tveggja ára frá 1. október 2015. Hinn 8. mars afhentu gagnaðilar álitsbeiðanda fyrirvaralaust lykil að íbúðinni. Ágreiningur er um endurgreiðslu tryggingarfjár.

Krafa álitsbeiðanda er:

Að viðurkennt verði að honum hafi verið heimilt að ganga að tryggingarfé gagnaðila, 400.000 kr.

Í álitsbeiðni kemur fram að gagnaðilar hafi skilað hinni leigðu eign fyrirvaralaust 8. mars 2017 eftir að álitsbeiðandi hafði gengið eftir því að leigugreiðsla fyrir marsmánuði yrði innt af hendi. Íbúðin hafi verið í mjög slæmu ástandi við afhendingu en í henni hafi búið allt að ellefu einstaklingar í einu, án samþykkis álitsbeiðanda. Þrífa hafi þurfti íbúðina, sem hafi verið óþrifin með öllu, auk þess sem álitsbeiðandi hafi þurft að kalla til lögreglu vegna skemmda á íbúðinni. Skipta hafi þurft um „cylinder“ þar sem fjöldi manns hafi verið með lykla að eigninni en aðeins tveimur lyklum skilað. Vatnstjón hafi orðið á skáp og sökkli í eldhúsi og álitsbeiðandi þurft að greiða 89.900 kr. í eigin áhættu vegna þess tjóns. Skemmdir hafi verið á kjallaraíbúð. Rúða hafi verið brotin og álitsbeiðandi þurft að greiða 21.300 kr. vegna þess. Gagnaðilar hafi fjarlægt ísskáp álitsbeiðanda úr íbúðinni sem og antikborð álitsbeiðanda. Þá hafi þurft að mála efri hluta eldhúsinnrétttingar eftir skemmdir gagnaðila og farga ónýtum húsgögnum og rusli sem gagnaðilar hafi skilið eftir í íbúðinni. Telur álitsbeiðandi tjón sitt vegna þessa nema a.m.k. 919.700 kr. en tryggingarfé nemi 400.000 kr.

III. Forsendur

Álitsbeiðandi krefst þess að viðurkennt verði að honum hafi verið heimilt að ganga að tryggingarfé vegna leiguvanskila og skaðabóta vegna tjóns á hinu leigða húsnæði. Gagnaðilar hafa ekki látið málið til sín taka. Ákvæði 4. tölul. 1. mgr. 40. gr. húsaleigulaga, nr. 36/1994, kveður á um að leigusala sé jafnan heimilt að ráðstafa tryggingarfé til greiðslu á vangoldinni leigu. Gagnaðilar greiddu ekki leigu vegna marsmánaðar 2017 og álitsbeiðanda því heimilt að ráðstafa tryggingarfé til greiðslu þeirrar leigu. Í ákvæðinu segir einnig að leigusali megi ráðstafa tryggingarfé til greiðslu bóta ef dómur er genginn um bótaskyldu leigjanda eða leigjandi er því samþykkur. Í málinu liggja fyrir myndir af hinni leigðu eign við upphaf og lok leigutíma og vettvangsskýrsla lögreglu þar sem kvartað er yfir skemmdum á eign og að munum hafi verið stolið. Gagnaðilar hafa ekki látið málið til sín taka og málatilbúnaði álitsbeiðanda þannig ekki mótmælt. Með vísan til þess og fyrirliggjandi gagna telur kærunefnd að álitsbeiðanda hafi verið heimilt að ráðstafa tryggingarfé gagnaðila, 400.000 kr., upp í leiguvankil og skaðabætur vegna ólögmætrar riftunar og skemmda á hinu leigða húsnæði.

IV. Niðurstaða

Það er álit kærunefndar húsamála að álitsbeiðanda hafi verið heimilt að ráðstafa tryggingarfé, 400.000 kr., upp í kröfu sína um skaðabætur og leiguvanskil.

Reykjavík, 31. ágúst 2017

Auður Björg Jónsdóttir

Valtýr Sigurðsson

Eyþór Rafn Þórhallsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum