Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 47/2015

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða 3. desember 2015 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 47/2015.

1. Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með innheimtubréfi, dags. 20. apríl 2015, fór Vinnumálastofnun þess á leit við kæranda, A, að hún greiddi skuld við stofnunina innan 90 daga frá dagsetningu bréfsins. Í bréfinu kemur fram að kærandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur vegna tekna fyrir tímabilið frá 1. ágúst 2012 til 31. desember 2012. Skuldin nemi 31.932 kr. ásamt 15% álagi að fjárhæð 4.790 kr. eða samtals 36.722 kr. Þann 22. apríl 2015 barst Vinnumálastofnun beiðni um rökstuðning. Rökstuðningur var veittur með bréfi, dags. 11. maí 2015, og kæranda var jafnframt tilkynnt um að 15% sem lagt hefði verið á skuldina væri fellt niður. Kærandi kærði ákvörðun Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 10. júní 2015. Kærandi óskar endurskoðunar. Vinnumálastofnun telur að rétt hafi verið staðið að útreikningi skuldamyndunar í máli kæranda.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun þann 23. júní 2009 og skilaði inn tekjuáætlun. Með greiðsluseðlum og/eða tilkynningum á heimasvæðinu „Mínum síðum“ hjá Vinnumálastofnun var kæranda tilkynnt um skuldamyndun sína hjá stofnuninni. Þann tíma sem kærandi þáði greiðslur atvinnuleysistrygginga var ofgreiddum atvinnuleysisbótum skuldajafnað á móti síðari tilkomnum atvinnuleysisbótum. Þann 4. janúar 2013 lauk bótarétti kæranda. Með bréfi, dags. 20. apríl 2015, var þess farið á leit að skuld kæranda yrði greidd innan 90 daga frá dagsetningu bréfsins.

Í kæru kemur fram að kæranda hafi fyrst borist upplýsingar um ofgreiddar bætur þann 20. apríl 2015. Staða hennar sé þannig að hún telji sér ekki fært að greiða þetta. Hún sé í greiðsluaðlögun hjá umboðsmanni skuldara og tekjulág. Hún fái greiddar örorkubætur.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 2. júlí 2015, kemur fram að kærandi hafi fengið greiddan örorkulífeyri frá Tryggingastofnun og Lífeyrissjóði verslunarmanna samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta. Kærandi hafi skilað inn tekjuáætlun til Vinnumálastofnunar vegna tekna sinna og þar hafi hún áætlað að hún fengi greitt 134.975 kr. mánaðarlega frá Tryggingastofnun ríkisins og 30.000 kr. frá Lífeyrissjóði verslunarmanna. Lífeyrisgreiðslunar hafi hins vegar iðulega numið hærri fjárhæð en framlögð tekjuáætlun hennar hafi gert ráð fyrir og af þeim sökum hafi myndast skuld við atvinnuleysistryggingasjóð. Þann tíma sem kærandi hafi þegið greiðslur atvinnuleysistrygginga hafi ofgreiddum atvinnuleysisbótum verið skuldajafnað á móti síðar tilkomnum atvinnuleysisbótum í samræmi við 3. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Sökum þess að greiðslur kæranda frá Tryggingastofnun og Lífeyrissjóði verslunarmanna hafi iðulega numið hærri fjárhæð en framlögð tekjuáætlun hafi gert ráð fyrir hafi greiðslur atvinnuleysistrygginga til kæranda verið skertar afturvirkt í samræmi við 1. mgr. 36. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Því hafi myndast skuld í greiðslukerfi Vinnumálastofnunar. Kæranda beri í samræmi við 2. mgr. 39. gr. laga um laganna að endurgreiða stofnuninni ofgreiddar atvinnuleysisbætur.

Samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé Vinnumálastofnun skylt að leiðrétta fjárhæð atvinnuleysisbóta. Í athugasemdum með 39. gr. frumvarps sem hafi orðið að lögum um atvinnuleysistryggingar sé sérstaklega áréttað að leiðréttingin eigi við í öllum tilvikum sem kunni að valda því að atvinnuleitandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur. Ástæða þess að atvinnuleitandi hafi fengið ofgreiddar atvinnuleysisbætur hafi með öðrum orðum ekki áhrif á skyldu viðkomandi til að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið. Vinnumálastofnun bendi á niðurstöðu úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða í málum nr. 49/2010, 21/2011, 101/2012 og 132/2012 þessu til stuðnings.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 22. október 2015, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Ekki bárust athugasemdir frá kæranda.

2. Niðurstaða

Mál þetta lýtur að þeirri ákvörðun Vinnumálastofnunar að krefja kæranda um endurgreiðslu ofgreiddra atvinnuleysisbóta skv. 36. gr., sbr. 2. mgr. 39. gr., laga um atvinnuleysistryggingar að fjárhæð 31.932 kr. Skuld kæranda á rætur sínar að rekja til þess að hún fékk greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins og Lífeyrissjóði verslunarmanna samhliða greiðslum atvinnuleysisbóta á árinu 2012 sem numu iðulega hærri fjárhæð en tekjuáætlun hennar gerði ráð fyrir.

Í 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar segir að hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur skv. 32. eða 33. gr. laganna en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða öðrum ástæðum beri honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd hafi verið að viðbættu 15% álagi. Í sömu málsgrein segir einnig að fella skuli niður álagið samkvæmt málsgreininni færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leitt hafi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.

Samkvæmt framangreindu ber atvinnuleitendum ávallt að endurgreiða Vinnumálastofnun ofgreiddar bætur. Hins vegar skal fella niður 15% álag færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leitt hafi til ákvörðunar Vinnumálastofnunar. Í tilviki kæranda hefur 15% álagið verið fellt niður og því er ekki ágreiningur um það atriði.

Kærandi byggir á því að hún sé ekki fær um að greiða skuldina. Í lögum um atvinnuleysistryggingar er engin heimild til þess að fella niður endurgreiðslukröfu vegna fjárhagslegra aðstæðna atvinnuleitanda sem hefur fengið ofgreiddar bætur. Hinni kærðu ákvörðun verður því ekki hrundið með vísan til fjárhagserfiðleika kæranda.

Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið og samkvæmt framangreindri 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar ber kæranda að endurgreiða skuld sína við Vinnumálastofnun. Hin kærða ákvörðun er því staðfest.

 

Úrskurðarorð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar í máli A samkvæmt innheimtubréfi frá 20. apríl 2015, þess efnis að hún endurgreiði stofnuninni skuld samtals að fjárhæð 31.932 kr., er staðfest.

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum