Hoppa yfir valmynd

Mál nr. 53/2015

Úrskurður

Á fundi úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 3. desember 2015 var kveðinn upp svohljóðandi úrskurður í máli A, nr. 53/2015.

1. Málsatvik og kæruefni

Málsatvik eru þau að með bréfi, dags. 23. júní 2015, tilkynnti Vinnumálastofnun kæranda, A, að Vinnumálastofnun hefði ákveðið á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til hans þar sem hann hafi verið við vinnu samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur. Var það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi skyldi ekki eiga rétt á atvinnuleysisbótum fyrr en hann hefði starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði. Kæranda var einnig gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur samtals að fjárhæð 339.099 kr. með 15% álagi. Kærandi vildi ekki una ákvörðun Vinnumálastofnunar og kærði hana til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða þann 29. júlí 2015. Kærandi óskar endurskoðunar. Vinnumálastofnun telur að kærandi skuli sæta viðurlögum á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og að honum beri að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur.

Kærandi sótti um atvinnuleysisbætur hjá Vinnumálastofnun þann 1. ágúst 2013. Í júní 2015 barst Vinnumálastofnun ábending um að kærandi væri að starfa við akstur samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur. Með bréfi, dags. 16. júní 2015, var kæranda tilkynnt um að Vinnumálastofnun hefði upplýsingar um að hann hefði starfað sem „skutlari“ samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur og án þess að tilkynna stofnuninni um það. Óskað var eftir skýringum frá kæranda. Þann 17. júní 2015 bárust skýringar frá kæranda. Fram kemur meðal annars að hann telji það ekki vera vinnu að skutla fólki. Endurgjald fyrir akstur sé lítið og fari í kostnað á eldsneyti. Með bréfi, dags. 23. júní 2015, var kæranda tilkynnt um viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar. 

Af hálfu kæranda kemur fram í kæru að hann hafi verið kærður fyrir að vera „mögulegur skutlari“ á Facebook síðunni „skutlarar“. Hann hafi játað að hafa skutlað aðeins en bent á að það væri ekki vinna enda sennilega ólöglegt og ekki sé hægt að ætlast til að hann sendi Vinnumálastofnun fyrirfram póst um að hann ætli að stunda ólöglegt athæfi til að reyna að bjarga fjölskyldunni frá gjaldþroti. Auk þess mætti hann fá 59.000 kr. fyrir tilfallandi vinnu. Þær greiðslur sem hann fái nái alls ekki upp í þá upphæð enda sé greiðsla fyrir akstur lág og alltaf þurfi að borga bensín og kostnað vegna aksturs. Vinnumálastofnun refsi án tillits til afkomu fólks fyrir saklausan akstur. Meðalhófsreglan hafi verið brotin.

Þá segir að atvinnuleysisbætur séu til að tryggja framfærslu fólks og hann telji það ekki vera glæp að skutla fyrir smáaura. Í sumum löndum sé þetta löglegt. Hann telji engar sannanir fyrir því að hann sé að fá meira en hann hafi nefnt fyrir akstur. Hann fái á milli 30.000 og 40.000 kr. og þá sé eftir að draga frá kostnað. Það sé fjöldi fólks sem bjóði akstur og enn fleiri sem séu hræddir við fjölmiðlaumfjöllun og hafi bara samband við þá sem óski eftir að fá far. Hann sé einn tekinn út úr hópnum. Hann sé maður sem sannanlega sé að reyna að sjá fyrir fjölskyldunni og borga af þeim skuldum sem séu sumar komnar til Motus. Hann hafi skrifað talsvert inn á síðuna […].

Það fólk sem hafi fjallað um hans mál hafi ekki komið fram undir nafni og stöðvað bótagreiðslur í júní, sem hann hefði átt að fá í byrjun júlí. Einnig skuli hann greiða til baka þrjá mánuði. Það sé refsigleði hjá þeim sem hafi völdin. Andmælaréttur hafi verið lítilsvirtur,  einnig meðalhófsreglan og rannsóknarreglan. Því sé ekki neitað að hann megi hafa 59.000 kr. í tekjur án þess að skerða bætur heldur sé honum bara refsað fyrir að tilkynna ekki fyrirfram.

Hann sé ekki að selja landa eða dóp eða stela tölvum og farsímum til að selja heldur sé hann aðeins að uppfylla þarfir um ódýrara far þar sem leigubílar séu rándýrir. Þá óskar kærandi eftir því að úrskurðarnefndin skoði meðalhófsreglu.

Í greinargerð Vinnumálastofnunar til úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, dags. 19. október 2015, segir að mál þetta lúti að ákvörðun Vinnumálastofnunar sem tilkynnt hafi verið með bréfi, dags. 23. júní 2015, þar sem kæranda hafi verið gert að sæta viðurlögum á grundvelli 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Honum hafi einnig verið gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir það tímabil sem hann hafi ekki uppfyllt skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar.

Bent er á að annar málsliður 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar taki á því þegar atvinnuleitandi starfi á vinnumarkaði, til lengri eða skemmri tíma, samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur og án þess að hafa uppfyllt skyldu sína skv. 10. og 35. gr. a. laga um atvinnuleysistryggingar um að upplýsa Vinnumálastofnun um störf sín. Fram komi í 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar að það sé skilyrði fyrir því að launamaður teljist vera tryggður í skilningi laganna að hann sé í virkri atvinnuleit. Í 14. gr. sömu laga sé að finna nánari útfærslu á því hvað teljist til virkrar atvinnuleitar. Ljóst sé að aðili sem starfi á vinnumarkaði geti hvorki talist vera án atvinnu né í virkri atvinnuleit í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar.

Vinnumálastofnun hafi aflað gagna um starfsemi kæranda og samkvæmt Facebook síðu skutlara hafi hann unnið við akstur bifreiða gegn gjaldi samhliða því að fá greiddar atvinnuleysisbætur. Kærandi hafi ekki tilkynnt um þá starfsemi sína.

Í ljósi afdráttarlausrar verknaðarlýsingar í 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og þeirrar skyldu sem hvíli á atvinnuleitendum til að tilkynna um tilfallandi vinnu til stofnunarinnar, sbr. 35. gr. a. laga nr. 54/2006, verði að telja kæranda hafa brugðist skyldum sínum. Af þeim sökum hafi greiðslur atvinnuleysistrygginga til kæranda verið stöðvaðar og hann skuli ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann hafi starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði, sbr. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kæranda beri því að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir þau tímabil er hann hafi ekki uppfyllt skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar.

Í kæru sinni til úrskurðarnefndarinnar geri kærandi fjölmargar athugasemdir við afgreiðslu Vinnumálastofnunar á máli hans. Kærandi haldi því meðal annars fram að meðalhófsregla stjórnsýslulaganna hafi ekki verið virt. Vinnumálastofnun bendi á að í 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar sé að finna ítarlega verknaðarlýsingu og viðurlög við brotum.  Ákvæðið taki sérstaklega á því tilviki sem uppi sé í málinu og þar segi að sá sem gerist brotlegur við ákvæðið skuli ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann hafi starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði áður en hann sæki aftur um atvinnuleysisbætur. Meðalhófsregla stjórnsýslulaganna geti ekki vikið frá skýrum lögbundnum viðurlögum. Þar sem þau atvik sem uppi séu í máli kæranda séu sérstaklega tilgreind í 60. gr. laganna sé Vinnumálastofnun ekki heimilt að velja vægara úrræði.

Að því er varði athugasemdir kæranda í kæru sinni til úrskurðarnefndarinnar um að hann hafi ekki notið andmælaréttar þá bendi Vinnumálastofnun á að kæranda hafi verið veitt færi á að koma að andmælum sínum, sbr. bréf dags. 16. júní 2015.  Kærandi hafi komið athugasemdum sínum að með tölvupósti þann 17. júní. Ekki verði séð að brotið hafi verið á andmælarétti kæranda í máli þessu.

Kærandi telji einnig að Vinnumálastofnun hafi farið á svig við rannsóknarreglu stjórnsýslulaganna við meðferð máls. Í máli þessu liggi fyrir gögn sem Vinnumálastofnun hafi aflað við meðferð máls. Þar sé meðal annars að finna útprentun af vefsíðu þar sem kærandi lýsi daglegu amstri við akstur á farþegum. Sjálfur hafi kærandi ekki neitað því að skutla fólki. 

Í kæru segi einnig að kærandi hafi ekki talið sig vera að vinna við akstur bifreiða. Vinnumálastofnun fallist ekki á að skýringar kæranda eða að starfsemi hans teljist ekki vinna í eiginlegri merkingu. Staðreyndin sé sú að kærandi hafi starfað við akstur gegn greiðslu. Það að kærandi telji sig ekki að vera að starfa á þeim tíma sem hann flytji fólk gegn greiðslu breytir í engu staðreyndum máls. Það hafi ekki áhrif á niðurstöðu máls að kæranda þiggi lægra endurgjald fyrir viðvik sitt en almennt þekkist hjá leigubifreiðum. Þá verði ekki séð að afstaða kæranda til verðlagningar á fargjöldum hjá öðrum leigubílstjórum eða leigubílastöðum geti haft áhrif á niðurstöðu í máli þessu.

Þá segir kærandi að ekki sé hægt að ætlast til þess að hann tilkynni Vinnumálastofnun um vinnu sína vegna þess að athæfi hans hafi sennilega verið „ólöglegt“. Vinnumálastofnun bendi á að tilgangur með núgildandi 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar hafi einmitt verið að koma í veg fyrir svarta atvinnustarfsemi. Þótt kærandi hafi viðurkennt að hann hafi á umræddum tíma verið að stunda svarta atvinnustarfsemi eða „ólöglegt athæfi“ komi það ekki í veg fyrir að 60. gr. laganna eigi við í máli hans.

Kæranda var með bréfi úrskurðarnefndarinnar, dags. 22. október 2015, sent afrit af greinargerð Vinnumálastofnunar og gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum. Athugasemdir bárust ekki.

2. Niðurstaða

Mál þetta lýtur að túlkun á 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 54/2006, sbr. 23. gr. laga nr. 134/2009 og 4. gr. laga nr. 103/2011:

Sá sem lætur vísvitandi hjá líða að tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á högum hans á því tímabili sem hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum eða veitir vísvitandi rangar upplýsingarsem leiða til þess að hann telst ranglega tryggður að fullu eða að hluta samkvæmt lögum þessum skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði áður en hann sækir aftur um atvinnuleysisbætur. Hið sama gildir um þann sem starfar á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann fær greiddar atvinnuleysisbætur eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum án þess að hafa tilkynnt Vinnumálastofnun um að atvinnuleit sé hætt skv. 10. gr. eða um tilfallandi vinnu skv. 35. gr. a. Skal honum jafnframt verða gert að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur skv. 39. gr.

Þá segir í 35. gr. a:

Þeim sem telst tryggður samkvæmt lögum þessum ber að tilkynna til Vinnumálastofnunar með að minnsta kosti eins dags fyrirvara um tilfallandi vinnu sem hann tekur á þeim tíma er hann fær greiddar atvinnuleysisbætur skv. 32. eða 33. gr. eða sætir biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögum þessum. Heimilt er þó að tilkynna samdægurs um tilfallandi vinnu enda sé um að ræða tilvik sem er þess eðlis að mati Vinnumálastofnunar að ekki var unnt að tilkynna um hina tilfallandi vinnu fyrr. Í tilkynningunni skulu meðal annars koma fram upplýsingar um hver vinnan er, um vinnustöðina og um lengd þess tíma sem hinni tilfallandi vinnu er ætlað að vera.

Í meðförum úrskurðarnefndar atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða hefur ákvæði 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar verið túlkað með þeim hætti að fyrsti málsliður þess eigi við ef atvinnuleitandi hefur með vísvitandi hætti hegðað sér með tilteknum hætti á meðan slíkt huglægt skilyrði á ekki við ef háttsemin fellur undir annan málslið ákvæðisins. Þessi munur stafar af því að annar málsliðurinn tekur á því þegar atvinnuleitandi starfar á vinnumarkaði, til lengri eða skemmri tíma, samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur og án þess að hafa uppfyllt skyldu sína skv. 10. gr. og 35. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar að upplýsa Vinnumálastofnun um þessa atvinnuþátttöku. Vinnumálstofnun byggir á því að háttsemi kæranda falli undir síðari málsliðinn.

Óumdeilt er að kærandi hefur verið að skutla einstaklingum gegn greiðslu og auglýst starfsemi sína á þar til gerðri Facebook síðu. Kærandi byggir hins vegar á því að hann hafi ekki haft tekjur umfram 59.000 kr. á mánuði af þessari starfsemi. Þá hafi starfsemin ekki verið vinna í eiginlegri merkingu og ekki sé hægt að gera kröfu um að hann tilkynni um athæfi sem sé sennilega ólögmætt. Að auki byggir kærandi á því að Vinnumálastofnun hafi ekki gætt að andmælarétt hans sem og rannsóknarreglu og meðalhófsreglu stjórnsýslulaga.

Úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða telur að ráða megi af orðalagi 2. málsl. 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, sbr. 10. og 35. gr. a laganna, að óheimilt sé að vinna nokkurt starf á innlendum vinnumarkaði án þess að tilkynna Vinnumálastofnun um það. Þannig er hvorki gerð krafa um ákveðið lágmarksstarfshlutfall né að viðkomandi fái greidd einhver lágmarkslaun fyrir sína vinnu. Í málinu liggja meðal annars fyrir útprentanir af Facebook þar sem kærandi býðst til að skutla fólki gegn greiðslu og fjallar um einstaklinga sem hann hefur skutlað. Þá hefur hann viðurkennt að hann hafi skutlað einstaklingum gegn greiðslu. Það er því mat nefndarinnar að kærandi hafi verið starfandi á innlendum vinnumarkaði í skilningi 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar samhliða töku atvinnuleysisbóta. Úrskurðarnefndin telur einnig með vísan til framangreinds að Vinnumálastofnun hafi gætt nægilega að rannsóknarskyldu sinni, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Kærandi var upplýstur um það með bréfi, dags. 16. júní 2015, að Vinnumálastofnun hefði upplýsingar um að hann hefði starfað við að skutla fólki samhliða því að þiggja atvinnuleysisbætur og án þess að hafa tilkynnt það til stofnunarinnar. Í bréfinu er gert grein fyrir skyldu atvinnuleitanda til að tilkynna um tilfallandi vinnu og vakin athygli á mögulegum viðurlögum. Þá var kæranda veittur kostur á að skila inn skýringum og athugasemdum. Með hliðsjón af framangreindu fellst úrskurðarnefndin ekki á að brotið hafi verið gegn andmælarétti kæranda, sbr. 13. gr. stjórnsýslulaga.

Af gögnum málsins verður ekki ráðið að kærandi hafi tilkynnt Vinnumálastofnun um atvinnu sína. Atvinnuleitendum sem þiggja atvinnuleysisbætur ber að tilkynna Vinnumálastofnun um tilfallandi vinnu skv. 35. gr. a laga um atvinnuleysistryggingar. Í 3. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er jafnframt kveðið á um þá skyldu atvinnuleitanda að upplýsa Vinnumálastofnun um breytingar á högum viðkomandi eða annað það sem kann að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögunum, eins og námsþátttöku og tekjur fyrir tilfallandi vinnu.

Í ljósi afdráttarlausrar verknaðarlýsingar í 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar og þeirrar skyldu atvinnuleitanda sem kveðið er á um í 35. gr. a. sömu laga, verður að telja að kærandi hafi brugðist trúnaðar- og upplýsingaskyldum sínum gagnvart Vinnumálastofnun. Háttsemi kæranda hefur því réttilega verið heimfærð til ákvæðis 60. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Kæranda ber því að sæta viðurlögum þeim sem þar er kveðið á um, enda var hann starfandi á innlendum vinnumarkaði á sama tíma og hann þáði atvinnuleysisbætur án þess að hafa tilkynnt Vinnumálastofnun um tilfallandi vinnu eða um tekjur. Þá er ákvæði 60. gr. fortakslaust en í því felst að ekki er heimild til að beita vægari úrræðum en ákvæðið kveður á um. Skal kærandi ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta fyrr en hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði.

Í 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar er fjallað um leiðréttingar á atvinnuleysisbótum og hljóðar 2. mgr. lagagreinarinnar svo:

Hafi hinn tryggði fengið hærri atvinnuleysisbætur skv. 32. eða 33. gr. en hann átti rétt á samkvæmt álagningu skattyfirvalda eða öðrum ástæðum ber honum að endurgreiða þá fjárhæð sem ofgreidd var að viðbættu 15% álagi. Hið sama gildir um atvinnuleysisbætur sem hinn tryggði hefur fengið greiddar fyrir tímabil er hann uppfyllti ekki skilyrði laganna. Fella skal niður álagið samkvæmt þessari málsgrein færi hinn tryggði rök fyrir því að honum verði ekki kennt um þá annmarka er leiddu til ákvörðunar Vinnumálastofnunar.

Samkvæmt 2. mgr. 39. gr. laga um atvinnuleysistryggingar ber því kæranda einnig að endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur fyrir það tímabil sem hann uppfyllti ekki skilyrði laga um atvinnuleysistryggingar auk 15% álags. Í málinu liggur fyrir útprentun af Facebook síðunni […].  Kæranda ber því að endurgreiða atvinnuleysisbætur vegna tímabilsins frá 21. mars 2015 til 30. maí 2015 auk 15% álags eða samtals 339.099 kr.

Með vísan til framangreinds er hin kærða ákvörðun staðfest.

 

Úrskurðarorð

Hin kærða ákvörðun Vinnumálastofnunar frá 23. júní 2015 í máli A, þess efnis að stöðva greiðslur atvinnuleysisbóta til kæranda þar til hann hefur starfað a.m.k. tólf mánuði á innlendum vinnumarkaði og að hann skuli endurgreiða ofgreiddar atvinnuleysisbætur með 15% álagi, samtals að fjárhæð 339.099 kr., er staðfest.

Brynhildur Georgsdóttir, formaður

Hulda Rós Rúriksdóttir

Helgi Áss Grétarsson

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum