Hoppa yfir valmynd

Snæfellsbær - Samþykkt bæjarráðs á útgjöldum, breytingar frá fjárhagsáætlun

Gunnar Örn Gunnarsson, bæjarfulltrúi
9. ágúst 2006
FEL06070018

Vallholti 7

355 Snæfellsbæ - Ólafsvík

Vísað er til erindis yðar til ráðuneytisins, dagsett 4. júlí 2006, þar sem óskað er álits á heimild bæjarráðs

Snæfellsbæjar til afgreiðslu tillagna um útgjöld sem ekki er gert ráð fyrir í samþykktri fjárhagsáætlun. Í

fyrirspurninni er vísað til 62. gr. sveitarstjórnarlaga og spurt hvort bæjarráð geti í sumarleyfi bæjarstjórnar

“afgreitt svo veigamiklar tillögur”. Ráðuneytið óskaði eftir umsögn meirihluta bæjarstjórnar Snæfellsbæjar

um erindið með bréfi, dagsettu 10. júli 2006, og barst umsögn, undirrituð af þremur bæjarfulltrúum

meirihlutans, með bréfi, dagsettu 18. júlí 2006.

I. Málavextir og málsástæður:

Í erindinu er gerð grein fyrir afgreiðslu mála á fundi í bæjarráði Snæfellsbæjar sem haldinn var 27. júní

2006. Þar hafi verið bornar upp og samþykktar fjórar tillögur sem allar hafi í för með sér aukin útgjöld án

útskýringa á hvernig þeim verði mætt, sbr. 62. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998.

Í umsögn bæjarfulltrúa meirihluta bæjarstjórnar, dagsettri 18. júlí 2006, kemur fram að í umræddum

tillögum, sem voru skriflegar og dagsettar 22. júní 2006, sé tekið fram að auknum kostnaði sem þeim fylgi

skuli vísað til endurskoðunar fjárhagsáætlunar. Tillögurnar hafi verið samþykktar samhljóða í bæjarráði.

Máli sínu til frekari stuðnings vísa bæjarfulltrúar meirihlutans til 2. mgr. 62. gr. sveitarstjórnarlaga nr.

45/1998, þar sem fjallað er um breytingar á fjárhagsáætlun. Í umsögninni segir síðan: “Rétt er að það

komi fram að þessi háttur að vísa auknum kostnaði sem tillögu fylgir til endurskoðunar fjárhagsáætlunar

hefur verið sá háttur sem hefur tíðkast í Snæfellsbæ frá stofnun sveitarfélagsins og er þessi sami háttur

hafður hjá flestum sveitarfélögum á Íslandi.”

Hvað varðar valdsvið bæjarráðs vísa fulltrúar meirihlutans til fundar bæjarstjórnar Snæfellsbæjar sem

haldinn var 15. júní 2006 þar sem samþykkt var tillaga forseta þess efnis að bæjarstjórn veiti bæjarráði

fullt umboð til að starfa sem bæjarstjórn vegna sumarleyfis bæjarstjórnar í júlí og ágúst. Enn framur er

vísað í umsögninni til 3. mgr. 39. gr. laga nr. 45/1998. Í niðurlagi umsagnarinnar segir orðrétt: “Þessar

ákvarðanir sem teknar voru á umræddum fundi varða ekki verulega fjárhag sveitarsjóðs, full samstaða var

um tillögurnar í bæjarráði og umboð bæjarstjórnar til bæjarráðs var til staðar þannig að ákvarðanirnar eru í

fullu samræmi við 39. gr. laganna nr. 45/1998.”

II. Álit ráðuneytisins.

Málið er tekið til afgreiðslu á grundvelli 102. gr. sveitarstjórnarlaga, sem kveður á um eftirlitshlutverk

ráðuneytisins með sveitarfélögum.

Í 61. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 er ákvæði um fjárhagsáætlanir sveitarfélaga. Í 2. mgr. þeirrar

greinar segir að fjárhagsáætlun skuli vera meginreglan um tekjuöflun, ráðstöfun fjármagns og

fjármálastjórn sveitarsjóðs og stofnana sveitarfélagsins á viðkomandi reikningsári.

Í 62. gr. sveitarstjórnarlaga er fjallað um breytingar á fjárhagsáætlun og er í 1. mgr. þeirrar greinar kveðið

á um heimild til endurskoðunar og breytinga ef í ljós koma breytingar á forsendum fjárhagsáætlunar. Í 2.

mgr. sömu greinar segir: “Samþykki sveitarstjórn fjárveitingu sem ekki er gert ráð fyrir í fjárhagsáætlun

skal hún jafnframt kveða á um hvernig útgjöldum skuli mætt. Samþykkt slíkrar fjárveitingar telst breyting

á fjárhagsáætlun.”

Ljóst er af 61. gr. sveitarstjórnarlaga að fjárhagsáætlun sem samþykkt er í upphafi árs af sveitarstjórn skal

vera meginregla um fjármálastjórn sveitarfélagsins og að breytingar á almennt ekki að gera á samþykktri

fjárhagsáætlun nema í ljós komi að forsendur hennar hafi breyst, sbr. 62. gr. laganna. Sveitarstjórnir verða

þó að geta brugist við aðstæðum sem kalla á fjárveitingar sem ekki er gert ráð fyrir í samþykktri

fjárhagsáætlun. Við slíkar aðstæður hefur víða skapast sú hefð í sveitarstjórnum að nýjar fjárveitingar eru

samþykktar með bókun þess efnis að þeim sé vísað til endurskoðunar fjárhagsáætlunar, sbr. 1. mgr. 62. gr.

sveitarstjórnarlaga, í stað þess að fylgja nákvæmlega bókstaf laganna um að kveða í hvert sinn á um

hvernig einstökum viðbótarútgjöldum skuli mætt. Ráðuneytið hefur ekki gert alvarlegar athugasemdir við

slíka málsmeðferð ef ekki er um að ræða svo umfangsmikil fjárútlát að þau hafi veruleg áhrif á rekstur

sveitarsjóðs. Af gögnum þessa máls er ekki að sjá að samþykkt umræddra tillagna muni hafa slík áhrif.

Um er að ræða tillögur um aukið starfshlutfall tveggja starfsmanna sveitarfélagsins, lengingu opnunartíma

íþróttahúss og að gjaldskrá leikskóla verði breytt.

Í seinni lið fyrirspurnarinnar er spurt um valdsvið bæjarráðs. Að mati ráðuneytisins er ákvæði 3. mgr. 39.

gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998, eins og því var breytt með lögum nr. 68/2004, skýrt. Þar segir:

“Byggðarráði er heimil fullnaðarákvörðun mála sem eigi varða verulega fjárhag sveitarsjóðs eða stofnana

hans, enda sé eigi ágreiningur innan ráðsins eða við framkvæmdastjóra um ákvörðunina, en meðan

sveitarstjórn er í sumarfríi fer byggðaráð með sömu heimildir og sveitarstjórn hefur ella.”

Bæjarstjórn Snæfellsbæjar samþykkti einnig á fundi sínum þann 15. júní 2006 tillögu forseta bæjarstjórnar

þar sem bæjarráði er veitt fullt umboð til starfa sem bæjarstjórn vegna sumarleyfa bæjarstjórnar í júli og

ágúst. Samþykkt þeirrar tillögu var raunar óþörf að mati ráðuneytisins þar sem valdheimildir bæjarráðs á

meðan bæjarstjórn er í sumarleyfi eru skýrt orðaðar í sveitarstjórnarlögum, eins og áður er fram komið.

Ráðuneytið telur því engan vafa vera um að bæjarráð Snæfellsbæjar hafði samkvæmt lögum umboð til að

fjalla um þær tillögur um fjárútlát sem raktar eru í erindi yðar. Það umboð var ennfremur veitt bæjarráði af

bæjarstjórn á fundi bæjarstjórnar hinn 15. júní sl. Verður ekki séð að bæjarráð hafi farið út fyrir umboð sitt

með samþykkt umræddra tillagna.

Með vísan til þess er að framan er rakið gerir ráðuneytið ekki athugasemd við afgreiðslu bæjarráðs

Snæfellsbæjar á fundi sem haldinn var 27. júní sl. á fjórum tillögum fulltrúa D-lista sem vitnað er til í

erindi yðar.

Fyrir hönd ráðherra

Guðjón Bragason (sign.)

Stefanía Traustadóttir (sign.)

9. ágúst 2006 - Snæfellsbær - Samþykkt bæjarráðs á útgjöldum, breytingar frá fjárhagsáætlun (PDF)




Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum