Hoppa yfir valmynd
%C3%9Arskur%C3%B0arnefnd%20velfer%C3%B0arm%C3%A1la%20-%20F%C3%A6%C3%B0ingar-%20og%20foreldraorlof

Mál nr. 90/2012

Föstudaginn 22. mars 2013

 

A

gegn

Vinnumálastofnun-Fæðingarorlofssjóði

 

Úrskurður

Mál þetta úrskurða Jóna Björk Helgadóttir hdl., Gunnlaugur Sigurjónsson læknir og Heiða Gestsdóttir lögfræðingur.

Þann 24. október 2012 barst úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála kæra A, dags. 21. október 2012. Kærður var útreikningur Vinnumálastofnunar-Fæðingarorlofssjóðs (hér eftir nefndur Fæðingarorlofssjóður) sem tilkynntur var með bréfi, dags. 1. október 2012, um að mánaðarleg greiðsla til kæranda yrði X kr. á mánuði miðað við 100% orlof.

Með bréfi, dags. 31. október 2012, óskaði úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála eftir greinargerð Fæðingarorlofssjóðs sem barst með bréfi, dags. 1. nóvember 2012.

Greinargerðin var send kæranda til kynningar með bréfi, dags. 8. nóvember 2012, og honum gefinn kostur á að koma að athugasemdum. Engar frekari athugasemdir bárust. 

 

I. Sjónarmið kæranda.

Kærandi greinir frá því að hann hafi eignast son þann Y. september 2012 og sé ósáttur við útreikninga Fæðingarorlofssjóðs á meðaltekjum sínum.

Frá árinu 2008 hafi kærandi verið á námssamningi hjá stálsmíðafyrirtæki. Haustið 2011 hafi kærandi fengið leyfi frá vinnu til að klára nám sitt og ná sér í réttindi. Hann hafi verið í fullu námi haustið 2011 og vorið 2012. Kærandi hafi því ekki náð fullum sex mánuðum í vinnu fyrir fæðingardag barns.

Kærandi greinir frá því að í fyrstu hafi Fæðingarorlofssjóður haldið því fram að kærandi hafi einungis átt rétt á fæðingarstyrk námsmanna. Þar sem kærandi hafi ekki verið námsmaður lengur hafi hann ekki sætt sig við það. Hann hafi ekki átt rétt á námslánum á móti eða öðrum tekjum svo fæðingarstyrkur námsmanna hafi einfaldlega ekki dugað honum. Í lögum nr. 95/2000 um fæðingar- og foreldraorlof segi að launalaust leyfi teljist með sem vinna svo kærandi hafi skilað inn vottorði frá vinnuveitanda um launalaust leyfi. Fæðingarorlofssjóður hafi fallist á þennan skilning kæranda og reiknað meðaltekjur kæranda í ár aftur í tímann og tekið þar með inn í útreikninga sína haustið 2011 auk janúar- og febrúarmánaðar 2012 þegar kærandi hafi verið í fullu námi og nánast tekjulaus. Kærandi bendir á að þetta tímabil dragi meðaltekjur kæranda mikið niður. Í lögunum segi einnig að aldrei skuli miða við minna en fjóra mánuði í útreikningi meðallauna. Kærandi nái fimm mánuðum af þeim tólf í vinnu. Þar sem hann hafi skilað inn skólavottorði vilji kærandi að ekki verði litið til þeirra mánaða sem hann hafi verið í námi, einungis þeirra mánaða sem hann hafi verið í vinnu.

Kærandi tekur fram að Fæðingarorlofssjóður reikni út að heildartekjur kæranda séu X kr. og því verði mánaðarleg greiðsla miðað við 100% fæðingarorlof X kr. sem sé X kr. hærri greiðsla en fæðingarstyrkur námsmanna. Kærandi segir þetta óásættanlegt þar sem lágmarks framfærsla fjölskyldu með tvö börn sé 300.000 kr. fyrir utan húsnæðiskostnað skv. viðmiðum velferðarráðuneytis. Kærandi og kona hans nái ekki því marki fyrir skatt, taki þau fæðingarorlof á sama tíma.

 

II. Sjónarmið Fæðingarorlofssjóðs.

Af hálfu Fæðingarorlofssjóðs kemur fram að kærandi hafi sótt um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði með umsókn, dags. 12. júlí 2012, í þrjá mánuði vegna barns hans sem fæddist þann Y. september 2012.

Auk umsóknar kæranda hafi borist tilkynning um tilhögun fæðingarorlofs, dags. 8. ágúst 2012, og launaseðlar frá B ehf. fyrir júní – júlí 2012. Enn fremur hafi legið fyrir upplýsingar úr skrám ríkisskattstjóra og Þjóðskrá Íslands.

Með bréfi Fæðingarorlofssjóðs til kæranda, dags. 6. september 2012, hafi honum verið tilkynnt að af upplýsingum úr staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra væri ráðið að hann uppfyllti ekki skilyrði 1. mgr. 13. gr. ffl. um að hafa verið í a.m.k. 25% starfshlutfalli síðustu sex mánuði fyrir fæðingardag barns þar sem engar tekjur væru skráðar á hann tímabilið mars, apríl, júlí, ágúst og september 2012 fram að fæðingardegi barns. Kæranda hafi jafnframt verið leiðbeint um hvað annað gæti talist til þátttöku á innlendum vinnumarkaði skv. 2. mgr. 13. gr. a. ffl.

Í a – lið 2. mgr. 13. gr. a. ffl. komi þannig fram að til þátttöku á innlendum vinnumarkaði teljist enn fremur orlof eða leyfi samkvæmt lögum, kjarasamningi eða ráðningarsamningi þótt ólaunað sé að hluta eða öllu leyti.

Í kjölfarið hafi borist bréf frá B ehf., dags. 28. september 2012, sem staðfesti að kærandi hafi verið fastráðinn hjá þeim frá því í júlí 2008 en hafi verið í launalausu leyfi tímabilið frá ágúst 2011 til 8. maí 2012 til að ljúka stálsmíðanámi frá C-framhaldsskólanum. Einnig hafi borist staðfesting á skólavist frá C-framhaldsskólanum, dags. 25. september 2012, og námssamningur, dags. 12. desember 2011.

Í framhaldinu hafi kæranda verið send greiðsluáætlun, dags. 1. október 2012, þar sem fram hafi komið að umsókn hans um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði hefði verið samþykkt og að mánaðarleg greiðsla yrði X kr. á mánuði miðað við 100% orlof. Kærandi hafi þannig verið fyrri hluta ávinnslutímabils 1. mgr. 13. gr. ffl. í launalausu leyfi skv. a-lið 2. mgr. 13. gr. a. ffl. á meðan hann hafi verið í fullu námi við C-framhaldsskólanum en seinni hluta ávinnslutímabilsins í a.m.k. 25% starfshlutfalli.

Í 2. mgr. 13. gr. ffl., sbr. 8. gr. laga nr. 74/2008, a-liður 16. gr. laga nr. 120/2009 og 3. gr. laga nr. 136/2011, sé kveðið á um að mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til starfsmanns, sbr. 2. mgr. 7. gr., í fæðingarorlofi skuli nema 80% af meðaltali heildarlauna að fjárhæð 200.000 kr. og 75% af þeirri fjárhæð meðaltals heildarlauna sem umfram sé og miða skuli við tólf mánaða samfellt tímabil sem ljúki sex mánuðum fyrir fæðingardag barns eða þann dag sem barn komi inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur. Til launa teljast hvers konar laun og aðrar þóknanir samkvæmt lögum um tryggingagjald sem og greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði, greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði, sjúkra- og slysadagpeningar, greiðslur úr sjúkrasjóðum stéttarfélaga, bætur frá tryggingafélagi vegna tímabundins atvinnutjóns eða tekjutengdar greiðslur skv. III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna, sbr. a–e liði 2. mgr. 13. gr. a. Þegar um sé að ræða 100% greiðslur á viðmiðunartímabili úr Fæðingarorlofssjóði, Atvinnuleysistryggingasjóði eða sjúkrasjóði stéttarfélags, bætur frá tryggingafélagi vegna tímabundins atvinnutjóns eða tekjutengdar greiðslur skv. III. kafla laga um greiðslur til foreldra langveikra eða alvarlega fatlaðra barna sem foreldri átti rétt á skal taka mið af þeim viðmiðunartekjum sem þær greiðslur miðuðust við. Hafi foreldri hins vegar kosið að dreifa greiðslum skv. 3. málsl. hlutfallslega á lengri tíma samhliða hlutastarfi eða leyfi, launuðu eða ólaunuðu, skuli taka mið af þeim viðmiðunartekjum sem þær greiðslur hafi miðast við í sama hlutfalli og greiðslurnar hafi verið inntar af hendi á því viðmiðunartímabili sem um ræðir. Sama eigi við hafi foreldri kosið að dreifa greiðslum skv. 3. málsl. hlutfallslega á lengri tíma enda þótt foreldri hafi ekki verið í ráðningarsambandi á sama tíma. Aldrei skuli taka mið af hærri fjárhæð en sem nemi viðmiðunartekjum sem miða skuli við samkvæmt framangreindu enda þótt foreldri hafi fengið mismuninn milli greiðslna skv. 3. málsl. og meðaltals heildarlauna bættan samhliða greiðslunum.

Þá segir í greinargerð Fæðingarorlofssjóðs að í  2. mgr. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof segi ennfremur að einungis skuli miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabili sem foreldri hafi verið á innlendum vinnumarkaði, sbr. einnig 2. mgr. 13. gr. a, án tillits til þess hvort laun skv. 2. málsl. eða reiknað endurgjald skv. 5. mgr. hafi komið til. Aldrei skuli þó miða við færri mánuði en fjóra við útreikning á meðaltali heildarlauna. Í athugasemdum við 8. gr. frumvarpsins er varð að lögum nr. 74/2008 komi fram að átt sé við almanaksmánuði.

Jafnframt sé í 3. mgr. 15. gr. ffl. kveðið á um að útreikningar á greiðslum til foreldris í fæðingarorlofi skuli byggjast á upplýsingum sem Vinnumálastofnun afli um tekjur foreldra úr skattframtölum, staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá skattyfirvalda.  Þar segi jafnframt að Vinnumálastofnun skuli leita staðfestingar hjá skattyfirvöldum á því að upplýsingar úr staðgreiðsluskrá og tryggingagjaldsskrá hafi verið í samræmi við álagningu skattyfirvalda vegna viðmiðunartímabila skv. 2. og 5. mgr. 13. gr. laganna.

Fæðingardagur barns kæranda var þann Y. september 2012 og því skuli, samkvæmt framangreindum lagaákvæðum, mánaðarleg greiðsla Fæðingarorlofssjóðs til kæranda reiknast sem 80% af meðaltali heildarlauna hans að fjárhæð 200.000 kr. og 75% af þeirri fjárhæð meðaltals heildarlauna sem umfram sé þá mánuði sem kærandi var á innlendum vinnumarkaði tímabilið mars 2011 – febrúar 2012, skv. 2. mgr. 13. gr. ffl. sbr. og 2. mgr. 13. gr. a. ffl hvort heldur laun hafi komið til eður ei.

Samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra hafi kærandi talið tekjur sínar fram í samræmi við það sem fram komi í staðgreiðsluskrá ríkisskattstjóra um tekjur hans á framangreindu viðmiðunartímabili og telji Fæðingarorlofssjóður að þar með liggi fyrir staðfesting á að upplýsingar úr staðgreiðsluskrá hafi verið í samræmi við álagningu skattyfirvalda. Á viðmiðunartímabilinu hafi kærandi þegið laun frá B ehf. frá mars til september 2011 og frá nóvember 2011 til janúar 2012. Jafnframt sé staðfest skv. bréfi frá vinnuveitanda kæranda, dags. 28. september 2012, að kærandi hafi verið fastráðinn hjá fyrirtækinu en í launalausu leyfi frá ágúst 2011 til 8. maí 2012, sbr. a-liður 2. mgr. 13. gr. a. ffl. Því skuli einnig þeir mánuðir hafðir með við útreikning á meðaltali heildarlauna kæranda sem falli innan viðmiðunartímabils 2. mgr. 13. gr. ffl. án tillits til þess hvort laun hafi komið til eður ei.

Í lögum um fæðingar- og foreldraorlof og í reglugerð um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks sé ekki að finna neina heimild til þess að víkja frá 2. mgr. 13. gr. ffl., sbr. 2. mgr. 13. gr. a. ffl. við útreikning á meðaltali heildarlauna kæranda.

Með vísan til framangreinds telji Fæðingarorlofssjóður að bréf til kæranda, dags. 1. október 2012, beri með sér réttan útreikning á greiðslum til kæranda.

 

III. Niðurstaða.

Kærð er ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs sem tilkynnt var með bréfi, dags. 1. október 2012, um að mánaðarleg greiðsla til kæranda yrði X kr. á mánuði miðað við 100% fæðingarorlof.

Af hálfu kæranda er á því byggt að Fæðingarorlofssjóði beri að líta framhjá þeim mánuðum sem hann hafi verið í námi við útreikning meðaltalslauna hans á viðmiðunartímabili 2. mgr. 13. gr. laga um fæðingar- og foreldraorlof nr. 95/2000 (ffl.)

Í 2. mgr. 13. gr. ffl. segir að við útreikning mánaðarlegra greiðslna Fæðingarorlofssjóðs til foreldris í fæðingarorlofi skuli miða við tólf mánaða samfellt tímabil sem ljúki sex mánuðum fyrir fæðingardag barns eða þann dag sem barn komi inn á heimili við frumættleiðingu eða töku í varanlegt fóstur. Auk þess segir að einungis skuli miða við meðaltal heildarlauna fyrir þá mánuði á viðmiðunartímabili sem foreldri hafi verið á innlendum vinnumarkaði, sbr. einnig 2. mgr. 13. gr. a, án tillits til þess hvort laun skv. 2. málsl. eða reiknað endurgjald skv. 5. mgr. hafi komið til. Aldrei skuli þó miða við færri mánuði en fjóra við útreikning á meðaltali heildarlauna.

Barn kæranda fæddist þann Y. september 2012. Viðmiðunartímabil skv. 2. mgr. 13. gr. ffl. var því tímabilið mars 2011 til febrúar 2012. Kærandi var í launalausu leyfi á tímabilinu ágúst 2011 til 8. maí 2012. Hvorki í ffl. né reglugerð nr. 1218/2008 um greiðslur úr Fæðingarorlofssjóði og greiðslu fæðingarstyrks er að finna heimild til að víkja frá því viðmiðunartímabili sem ákvæði 2. mgr. 13. gr. ffl. mælir fyrir um. 

Hin kærða ákvörðun er því staðfest.

 

ÚRSKURÐARORÐ:

Ákvörðun Fæðingarorlofssjóðs um mánaðarlegar greiðslur til A er staðfest.

 

Jóna Björk Helgadóttir

Heiða Gestsdóttir

Gunnlaugur Sigurjónsson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum