Starfshópur um greiningu skattlagningu á raforkumannvirki

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið
Innanríkisráðherra hefur skipað starfshóp til að greina skattlagningu mannvirkja sem framleiða raforku eða flytja hana.

Auk greiningar á skattlagningu er hópnum ætlað að greina matsaðferðir og fjárhæðir, eignir sem eru undanþegnar mati svo og dreifingu þeirra um landið. Í framhaldi af greiningarvinnu hópsins yrði metið hvort og hvaða lagabreytingar væru nauðsynlegar og hver yrðu áhrif þeirra á samspil fjárhagslegra málefna ríkis og sveitarfélaga.

Forsaga málsins er sú að í lok síðasta árs óskuðu Samband íslenskra sveitarfélaga, Samorka og Samtök orkusveitarfélaga eftir því við innanríkisráðherra að skipaður yrði starfshópur til að ræða hugmyndir um breytta skattlagningu virkjana- og raforkuflutningsmannvirkja. Telja þessir aðilar mikilvægt að ,,nærsamfélög virkjana- og flutningskerfa fái sanngjarnar tekjur m.t.t. „umhverfisáhrifa virkjana,“ eins og segir m.a. í minnisblaði Sambands ísl. sveitarfélaga til ráðherra um málið. Talið er að það auki líkur á samfélagslegri sátt um þróun í orkumálum ef nærsamfélög virkjana njóta sanngjarnrar hlutdeildar í tekjum sem skapast af raforkuframleiðslu.

Í framhaldinu var ákveðið að skipa starfshóp til að vinna að ofantaldri greiningu og er miðað við að , hópurinn skili skýrslu sinni með haustinu.

Starfshópinn skipa:

  • Áslaug Friðriksdóttir, borgarfulltrúi sem jafnframt er formaður, skipuð án tilnefningar.
  • Guðlaug Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Landsnets, tilnefnd af Samorku.
  • Hreinn Hrafnkelsson, viðskiptafræðingur á skrifstofu iðnaðar- og orkumála, tilnefndur af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.
  • Sigurður Snævarr, sviðsstjóri hag- og upplýsingasviðs, tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga.
  • Stefán Bogi Sveinsson, bæjarfulltrúi á Fljótsdalshéraði, tilnefndur af Samtökum orkusveitarfélaga.
  • Steinar Örn Steinarsson, lögfræðingur, tilnefndur af fjármála- og efnahagsráðuneyti.
  • Ástríður Jóhannesdóttir, sviðsstjóri, tilnefnd af Þjóðskrá Íslands.

Þá hefur Þjóðskrá tilnefnt í teymi sérfræðinga til að vinna með starfshópnum. Jóhannes Finnur Halldórsson, sérfræðingur í innanríkisráðuneyti, er starfsmaður hópsins.

Tímabundnar nefndir
Til baka
Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn