Hoppa yfir valmynd
4. október 2022 Matvælaráðuneytið

Matvælaráðherra lætur kanna sameiningu Bjargráðasjóðs og Náttúruhamfaratryggingar Íslands

Starfshópur um tryggingavernd bænda hefur skilað skýrslu til matvælaráðherra. Hópurinn var skipaður í fyrra, og var ætlað að greina stöðu tryggingaverndar bænda vegna óvæntra áfalla í búskap og gera tillögur að úrbótum. Í hópnum áttu sæti fulltrúar matvælaráðuneytis, fjármála- og efnahagsráðuneytis, Náttúruhamfaratryggingar Íslands, Samtaka fjármálafyrirtækja f.h. tryggingafélaga, Bjargráðasjóðs og Bændasamtaka Íslands.

Í skýrslunni eru lagðar fram þrjár tillögur. Fyrsta tillaga gerir ráð fyrir nær óbreyttu fyrirkomulagi, en ráðist yrði í að kynna betur fyrir bændum möguleika tryggingaverndar í núverandi mynd. Einnig er gert ráð fyrir að lög um Bjargráðasjóð verði tekin til endurskoðunar til að uppfæra megi úrelt ákvæði. Um leið yrði sett ný reglugerð um starfsemi sjóðsins.

Önnur tillaga setur fram tvo valkosti um efnislegar endurbætur á núverandi fyrirkomulagi til að bæta tryggingavernd bænda. Þar er lagt til að auk endurskoðunar á lögum um Bjargráðasjóð líkt og í fyrstu tillögu, verði gerðar efnisbreytingar til að auka fyrirsjáanleika og draga úr óvissu um bætur. Einnig að mat verði lagt á sameiningu Bjargráðasjóðs við Náttúruhamfaratryggingu Íslands eða að sjóðurinn verði deild innan NTÍ með sambærilegri iðgjaldainnheimtu.

Þriðja tillagan gerir ráð fyrir umfangsmeiri uppstokkun á fyrirkomulaginu sem innifelur meðal annars í sér valkvæða uppskerutryggingu byggða á iðgjöldum.

Í skýrslunni er einnig að finna yfirlit um tryggingavernd á Íslandi í dag og fyrirkomulag sambærilega verkefna í nokkrum samanburðarlöndum.
Matvælaráðherra hefur farið þess á leit við stjórn Bjargráðasjóðs að hún kanni möguleika á framkvæmd tillögu um sameiningu Bjargráðasjóðs og NTÍ og skili greinargerð að því loknu.

Skýrsluna má nálgast hér.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum