Hoppa yfir valmynd
7. febrúar 2020 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Milljarði varið í fjárfestingar vegna innviða fyrir orkuskipti á tveimur árum

Ráðherrarnir kynna landsáætlun og framkvæmdasjóð ferðamanna - mynd

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar og nýsköpunarráðherra og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, hafa ákveðið að veita 200 milljónum króna í styrki til uppbyggingar innviða fyrir orkuskipti í samgöngum. Þetta kemur til viðbótar við styrki sem úthlutað var á síðasta ári, en að teknu tilliti til mótframlags styrkþega verður fjárfesting í innviðum vegna orkuskipta alls um milljarður króna á tveimur árum.

Verkefnið er hluti af aðgerðaráætlun stjórnvalda í loftslagsmálum og uppbyggingu innviða vegna orkuskipta í samgöngum.

Orkuskipti í samgöngum eru meginforsenda þess að Ísland geti staðið við skuldbindingar í loftslagmálum. Því er jákvætt að sjá að orkuskiptin fara vel af stað hérlendis, en á dögunum var greint frá því að aldrei hafa fleiri nýir rafbílar verið skráðir hér á landi en í janúar sl. Á sama tíma hefur skráning á dísil- og bensínbílum dregist umtalsvert saman. Til marks um þetta hefur aðeins ein þjóð í heiminum, Noregur, hærra hlutfall en Ísland í nýskráningum rafbíla.

„Við erum að ná eftirtektarverðum árangri í orkuskiptum á landi. Við erum í fremstu röð á heimsvísu í rafbílavæðingu. Við beinum nú í auknum mæli sjónum okkar að möguleikum til orkuskipta á hafinu sem sést með ákvörðun okkar um að veita styrkjum til skipa og hafnarinnviða í fyrsta sinn,“ segir Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar og nýsköpunarráðherra.

„Orkuskipti í samgöngum eru eitt megin áhersluatriði í aðgerðaáætlun okkar í loftslagsmálum, en miklu skiptir líka að breyta ferðavenjum. Stór skref hafa verið stigin í hvoru tveggja á undanförnu ári, bæði með styrkveitingum, skattaívilnunum og samningnum við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu. Nú fikrum við okkur einnig inn í orkuskipti fyrir hafnir og það er afar jákvætt skref,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra.

Þrenns konar styrkir

Áætlað er að verja 100 milljónum króna í styrki fyrir innviði sem ætlað er að ýta undir fjölgun vistvænna bifreiða hjá aðilum sem reka fólks- og hópbifreiðar. Aðgerðin nær til allra vistvænna bíla, hvort sem þeir ganga fyrir metani, lífeldsneyti, vetni eða rafmagni.

Þá verður 70 milljónum króna varið í styrki vegna raftenginga eða hitaveitna í höfnum landsins í því skyni að ýta undir orkuskipti í haftengdri starfsemi.

Loks verður 30 milljónum króna varið í styrki fyrir hleðslustöðvar við gististaði og veitingastaði og er þar um að ræða framhald á styrkveitingum síðasta árs sem miðuðu m.a. að því að auðvelda orkuskipti í ferðaþjónustu.

Ákvörðun ráðherranna byggir á tillögum starfshóps sem ráðherrarnir skipuðu síðastliðið haust. Starfshópurinn leitaði samstarfs við Grænu orkuna- samstarfsvettvang um orkuskipti, til að byggja á bestu mögulegu upplýsingum um hvaða nýir innviðir geti best hraðað orkuskiptum, hvort sem þeir eru á landi eða í haftengdri starfsemi. Tillögurnar byggja að miklu leyti á framlagi úr þeirri hugmyndavinnu sem stór hópur úr atvinnulífinu kom að.

 

 Í umferðinni

Innviðir styrkjast

Styrkirnir nú koma til viðbótar við úthlutun Orkusjóðs til tveggja verkefna í fyrra. Annars vegar var úthlutað 227 milljónum króna til uppsetningar 43 nýrra hraðhleðslustöðva vítt og breitt um landið sem eru þrisvar sinnum aflmeiri en öflugustu stöðvarnar sem fyrir eru hérlendis.

 

 Dreifing nýrra, öflugra hraðhleðslustöðva um landið.

Hins vegar var úthlutað styrkjum til gististaða vítt og breitt um landið þar sem settar verða upp 55 hleðslustöðvar á 40 gististöðum. Heildarupphæð þessara styrkja nam 30 m.kr.

 

Nýjar hleðslustöðvar við gististaði

Í báðum tilfellum var gerð krafa um 50% mótframlag styrkþega. Í ár er einnig gert ráð fyrir 50% mótframlagi við uppsetningu hleðslustöðva við gististaði en í öðrum verkefnum geta styrkir að hámarki numið 33% af heildarkostnaði hvers verkefnis. Samtals nemur heildarfjárfesting vegna innviða fyrir orkuskipti því um milljarði á þessu tveggja ára tímabili.

Hér má sjá tillögur og skýrslu starfshópsins:

 

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

7. Sjálfbær orka
15. Líf á landi
14. Líf í vatni
9. Nýsköpun og uppbygging

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum