Hoppa yfir valmynd
12. janúar 2022 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Forstjórar fyrirtækja á Norðurlöndum vilja sókn í loftslagsaðgerðum

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. - mynd

„Afar mikilvægt er að stjórnvöld og atvinnulífið vinni saman ef við ætlum okkur að ná settum markmiðum í loftslagsmálum,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, á rafrænum norrænum fundi um aðkomu fyrirtækja að loftslagsmálum í gær. Ráðherra lagði áherslu á hve mikilvægu hlutverki atvinnulífið hefur að gegna í baráttunni gegn loftslagsvánni.

Tilefni fundarins var útgáfa skýrslu sem Norræna ráðherranefndin styrkir og byggir hún á viðtölum við forstjóra 40 fyrirtækja, m.a. nokkur af stærstu fyrirtækjum Norðurlandanna. Í skýrslunni  er  rætt  um stefnu þeirra og viðhorf til loftslagsmála og þá sér í lagi hvernig best sé að haga samvinnu fyrirtækja og stjórnvalda. Niðurstöður skýrslunnar eru m.a. þær að forstjórarnir telja loftslagsvá vera alvarlega ógn, sem kalli á skýr og metnaðarfull markmið stjórnvalda og grænar lausnir. Þar kemur einnig fram að fyrirtækin hafi flest sett sér loftslagsviðmið í sínu innra starfi og að þau geti boðið upp á margar loftslagsvænar lausnir, sem gagnist í heimalöndunum jafnt sem á heimsvísu, þar sem þau eru mörg hver með viðamikla alþjóðlega starfsemi.

Auk Guðlaugs Þórs tóku ráðherrar loftslagsmála í Finnlandi, Noregi og Svíþjóð  þátt í fundinum. Ráðherrarnir voru sammála um mikilvægi samtals og samvinnu stjórnvalda og atvinnulífs varðandi stefnu og aðgerðir í loftslagsmálum.

Guðlaugur Þór benti á að ný ríkisstjórn hefði sett fram hert markmið í loftslagsmálum í lok árs 2021. Stærstur hluti losunar gróðurhúsalofttegunda af mannavöldum á heimsvísu tengdist orkuvinnslu og því væru hrein orkuskipti – frá jarðefnaeldsneyti til endurnýjanlegrar orku – einn helsti lykilinn að árangri. Ísland og íslensk fyrirtæki hefðu langa reynslu af nýtingu jarðhita, sem væri hluti af lausninni. Ýmis nýsköpun tengdist nýtingu jarðhita, þ.á m. Carbfix-aðferðin við að dæla koldíoxíði í jarðlög, þar sem það umbreyttist í steindir. Þá hafi íslensk fyrirtæki sem vinna að loftslagsvænum lausnum komið saman undir merkjum Grænvangs, sem er samstarfsvettvangur atvinnulífs og stjórnvalda um loftslagsmál og grænar lausnir. Mikilvægt sé að halda áfram slíkri samvinnu, þar sem fyrirtæki búi yfir þekkingu og getu til að þróa loftslagsvænar lausnir og koma þeim í verk.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum