Hoppa yfir valmynd
17. janúar 2020 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Mikilvægt innlegg í mótun menntastefnu til ársins 2030: Niðurstöður fundaraðar um menntamál

Í skýrslunni „Menntun til framtíðar“ er fjallað um helstu viðfangsefni og niðurstöður fundaraðar um menntamál sem mennta- og menningarmálaráðuneyti gekkst fyrir í samráði við hagaðila veturinn 2018-19. Fundaröðin var liður í mótun menntastefnu Íslands til ársins 2030 sem nú stendur yfir en ný menntastefna mun ávarpa og setja í forgang þær áskoranir sem íslenskt samfélag stendur frammi fyrir í mennta- og velferðarmálum.

„Markmið stjórnvalda er að veita framúrskarandi menntun með áherslu á þekkingu, vellíðan, þrautseigju og árangur þar sem allir skipta máli og geta lært,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra. „Það var ómetanlegt að finna þann áhuga og eldmóð sem einkenndi málflutning þátttakenda í fundaröðinni síðasta vetur og ég vonast eftir áframhaldandi góðu samstarfi við næstu skref í mótun menntastefnunnar. Við ráðgerum að setja drög hennar í opið samráð á næstu vikum og leggja síðan í kjölfarið fram þingsályktunartillögu um hana á Alþingi í vor.“

Áhersla á fræðslu- og umræðufundunum var meðal annars á hugmyndafræði menntunar fyrir alla og þá reynslu sem komin er á þá nálgun í íslenskum leik-, grunn- og framhaldsskólum. Þessi stefna sem lögfest var hér á landi árið 2008, hefur verið í endurmati og þróun sl. ár. Annað markmið fundanna var að skapa breiðan umræðuvettvang þeirra sem starfa að mennta-, velferðar- og heilbrigðismálum hér á landi og kalla eftir sjónarmiðum skólafólks um hvernig efla megi menntun og forgangsraða verkefnum á því sviði. Tillögur sem fjallað er um í skýrslunni snerta meðal annars mat á skólastarfi, kennaramenntun og starfsþróun, lærdómssamfélög, starfsaðstæður í skólum, skólaþjónustu og samspil kerfa og nýtingu fjármagns.

Í skýrslunni eru niðurstöður fundaraðarinnar settar í samhengi við önnur verkefni og greiningarvinnu á vegum ráðuneytisins. Umræður fundargesta og tillögur starfshóps sem vann úr niðurstöðum fundanna falla vel að áherslum er birtast í drögum að menntastefnu og verði þær innleiddar einar og sér eða í samhengi við sambærilegar niðurstöður úr öðrum stefnumótunarhópum, geta þær orðið farvegur fyrir breytingar sem nýrri menntastefnu er ætlað að ná fram.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

4. Menntun fyrir öll

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum