Hoppa yfir valmynd
10. desember 2019 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Tímamót í yfirfærslu á þjónustu ríkisins við fatlað fólk til sveitarfélaga

 Birkir Jón Jónsson, formaður bæjarráðs Kópavogs, Aðalsteinn Sigfússon, félagsmálastjóri Kópavogs, Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra og Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra við undirritunina í dag.  - mynd

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, og Aðalsteinn Sigfússon, félagsmálastjóri Kópavogs, undirrituðu í dag að viðstöddum Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra og Birki Jóni Jónssyni, formanni bæjarráðs Kópavogs, samning um yfirtöku Kópavogsbæjar á þjónustu við íbúa Kópavogsbrautar 5a (áður deildar 20 á Kópavogshæli). Samningurinn er þáttur í lokaáfanga yfirfærslu sértækrar þjónustu ríkisins við fatlað fólk til sveitarfélaga. Í samningnum er meðal annars kveðið á um að Kópavogsbær standi fyrir byggingu sex íbúða, með framlögum frá Íbúðalánasjóði, sem íbúar Kópavogsbrautar 5a munu eiga forgang að búsetu í.

Í skýrslu vistheimilanefndar í árslok 2016 sem gerði könnun á Kópavogshæli komu fram margvíslegar athugasemdir um stöðu þeirra sem búið höfðu við slæmar aðstæður á Kópavogshæli. Ein þeirra tillagna sem nefndin gerði á grundvelli skýrslunnar var að tryggja ætti rétt þeirra sem áður höfðu búið á Kópavogshæli til sjálfstæðs lífs með því að bjóða samfellda, samhæfða, örugga og sveigjanlega þjónustu við hæfi.

Fjöldi fatlaðra einstaklinga hefur búið á Kópavogsbraut 5a frá barnsaldri. Þar búa nú fjórir einstaklingar sem alið hafa allan sinn aldur þar. Frá árinu 2013 hefur Styrktarfélagið Ás annast rekstur þjónustunnar með samningi við Landspítala. Síðastliðið sumar gerðu heilbrigðisráðherra og félags- og barnamálaráðherra með sér samkomulag um að þær fjárveitingar sem áður höfðu verið settar í samning spítalans og Ás skyldu fluttar yfir til félagsmálaráðuneytisins. Við þá aðgerð var opnað fyrir það að félagsmálaráðuneytið gæti gengið til samningaviðræðna við Kópavogsbæ um að bærinn tæki við rekstrinum.

Í samningnum er meðal annars kveðið á um að Kópavogsbær standi fyrir byggingu fyrrnefndra íbúða í Kópavogi sem íbúar Kópavogsbrautar 5a munu eiga forgangsrétt að. Þannig geta íbúar að Kópavogsbraut 5a endanlega orðið fullgildir íbúar Kópavogsbæjar og notið þeirrar þjónustu sem þeir eiga rétt á samkvæmt samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og laga um málefni fatlaðs fólks með langvarandi stuðningsþarfir.

„Samningurinn markar tímamót en hann opnar fyrir það að síðustu íbúar á fyrrum Kópavogshæli geti flutt í nýtt húsnæði og fengið þjónustu sem hæfir þeirra óskum og þörfum. Við þurfum ætíð að minnast sögunnar og draga af henni lærdóm. Með þessu hefjum við nýjan kafla í þjónustu við það fólk sem áður hefur búið við erfiðan kost og veitum því stuðning til að lifa lífinu með reisn og virðingu til framtíðar,“ sagði Ásmundur Einar við undirritunina.

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum