Hoppa yfir valmynd
19. janúar 2018 Innviðaráðuneytið

Áform um setningu nýrra umferðarlaga

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið undirbýr nú heildarendurskoðun umferðarlaga. Frestur til að koma að ábendingum og umsögnum er til og með 2. febrúar næstkomandi og sendist á netfangið [email protected].

Vegna margvíslegra breytinga og nútímavæðingar í umferðarmálum er talið að með heildarendurskoðun laganna sé helst unnt að ná markmiðum um að skýr lagasetning tryggi umferðaröryggi enn frekar. Samgönguráðherra skipaði árið 2007 nefnd til að endurskoða umferðarlög og var frumvarp lagt fram á Alþingi veturinn 2012-2013 en ekki afgreitt.

Úrlausnarefni nýrra umferðarlaga er að tryggja umferðaröryggi enn frekar og nauðsynlegt að uppfæra gildandi ákvæði til samræmis við reynslu liðinna áratuga og þróun í umferðarmálum.  Endurskoðunin sem fyrirhuguð er nú felur í sér viðamiklar og margar breytingar, uppstokkun kafla og endurskoðun skipulags laganna.

Meðal nýjunga í áformuðu lagafrumvarpi eru

  • Nýr kafli um hjólreiðar.
  • Ákvæði um lækkun leyfilegs magns áfengis í blóði ökumanna.
  • Ákvæði um snjalltæki verði skýrt og endurbætt.
  • Ákvæði um samspil ólíkra samgöngumáta verði gerð skýrari.
  • Ákvæði um ljósaskyldu verða skýrð.
  • Hlutlæg ábyrgð eigenda ökutækja á sektum vegna brota sem greind eru með  hraðamyndavélum og varða ekki punktum.
  • Samspil og uppbygging ákvæða laganna um framúrakstur er einfölduð.
  • Ákvæði um neyðarakstur gerð ítarlegri.
  • Ákvæði um akstur í hringtorgum.
  • Uppstokkun á skilgreiningakafla laganna og nýjum skilgreiningum bætt við.
  • Ákvæði um ökutækjatryggingar verði í sérstökum lögum.
  • Hámarks sektarfjárhæð hækkuð í kr. 500.000 úr kr. 300.000.

Samhliða hækkun á sektarfjáræð yrði reglugerð um sektir og önnur viðurlög vegna brota á umferðarlögum og reglum settum samkvæmt þeim uppfærð. Framangreind upptalning á fyrirhuguðum breytingum er ekki tæmandi.

Frumvarpið sem lagt var fram á Alþingi veturinn 2012-2013 var sent helstu hagsmunaaðilum til umfjöllunar síðasta sumar og fyrirhugað er áfram víðtækt samráð auk þess sem leitað verður umsagna með kynningu frumvarpsins á vef ráðuneytisins og hjá fagráði um umferðarmál.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum