Hoppa yfir valmynd
28. september 2018 Forsætisráðuneytið

Rýmri tímafrestur fyrirtækja og stofnana til að öðlast jafnlaunavottun

Ásmundur Einar DaðasonÁsmundur Einar Daðason félags- og jafnréttismálaráðherra hefur ákveðið að nýta heimild sína samkvæmt lögum sem gerir honum kleift að lengja frest fyrirtækja og stofnana til að öðlast jafnlaunavottun um 12 mánuði.

Umrætt ákvæði þessa efnis er í 3. mgr. ákvæðis til bráðabirgða VI í lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.

Með ákvörðun sinni vill ráðherra bregðast við töfum sem hafa orðið á innleiðingu jafnlaunavottunar hjá mörgum fyrirtækjum og stofnunum, sem stafar annars vegar af því að innleiðingarferlið sem þarf að liggja til grundvallar vottun hefur reynst tímafrekara en áætlað var og hins vegar af því að vottunarstofurnar sem eru bærar til að veita jafnlaunavottun anna ekki eftirspurn.

Félags- og jafnréttismálaráðherra segir rétt og eðlilegt að nýta þessa heimild til frestunar til að veita þessari mikilvægu vinnu þann tíma sem þarf: „Það sem skiptir mestu máli er að standa vel að verki og þótt þetta taki eitthvað lengri tíma en vonir stóðu til, þá er það engin frágangssök. Ég hvet stofnanir og fyrirtæki til að nýta frestinn vel og sinna þessu verkefni af krafti, vel og skipulega. Afstaða stjórnvalda til lögfestingar jafnlaunavottunar hefur ekki breyst þótt atvinnurekendum sé með reglugerðarbreytingu veittur rýmri tími til innleiðingarinnar. Þess má geta að ríkisstjórnin samþykkti í vor sérstaka fjárveitingu til verkefna sem hafa að markmiði að styrkja innleiðingu jafnlaunavottunar.“

Markviss skref verða tekin til að útrýma kynbundnum launamun. Í því skyni þarf meðal annars að draga muninn betur fram í dagsljósið, til dæmis í ársreikningum fyrirtækja. Tryggja þarf að sambærileg störf séu metin með sambærilegum hætti í samræmi við þær kröfur sem gerðar eru til fyrirtækja í lögum og eiga að endurspeglast í nýjum jafnlaunastaðli.

Samkvæmt lögunum skulu 142 fyrirtæki og stofnanir, með 250 eða fleiri starfsmönnum að jafnaði á ársgrundvelli, hafa öðlast jafnlaunavottun fyrir 31. desember 2018. Einungis 15 þeirra hafa þegar lokið ferlinu og hlotið vottun.

Á grundvelli fyrrnefnds bráðabirgðaákvæðis undirbýr velferðarráðuneytið breytingu á reglugerð nr. 1030/2017 um vottun á jafnlaunakerfum fyrirtækja og stofnana um rýmri tímafrest. Gert er ráð fyrir að aukinn frestur verði 12 mánuðir og er áformað að hann muni taka til allra fyrirtækja og stofnana sem falla undir gildissvið laganna, óháð stærð þeirra.

Gert er ráð fyrir að reglugerðarbreytingin öðlist gildi í lok október að undangengnu samráðsferli við helstu hagsmunaaðila.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum