Hoppa yfir valmynd
28. febrúar 2019 Heilbrigðisráðuneytið

Vegna ákvörðunar SÁÁ um tímabundna lokun göngudeildarþjónustu á Akureyri

Heilbrigðisráðuneytið - myndHeilbrigðisráðuneytið

Samningviðræður standa yfir milli Sjúkratrygginga Íslands og SÁÁ um rekstur göngudeildarþjónustu á Akureyri. Fjárframlag af hálfu ríkisins til starfseminnar er tryggt í fjárlögum þessa árs. Það kemur því á óvart að SÁÁ ætli að loka göngudeildarþjónustunni tímabundið frá og með morgundeginum vegna kostnaðar, líkt og fram hefur komið í fjölmiðlum.

SÁÁ hefur rekið göngudeildarþjónustu fyrir áfengis- og vímuefnanotendur á Akureyri til margra ára. Reksturinn hefur verið greiddur af sjálfsaflafé samtakanna og með stuðningi frá Akureyrarbæ og þar af leiðandi ekki á grundvelli þjónustusamnings við ríkið. Á síðasta ári kom fram af hálfu SÁÁ að til stæði að loka göngudeildinni en af því varð þó ekki. Við fjárlagagerð þessa árs ákvað Alþingi að veita SÁÁ sérstaka fjárveitingu á þessu ári, þar af samtals 100 milljónir króna til reksturs göngudeildarþjónustu, meðal annars til að tryggja fjármögnun göngudeildarstarfseminnar á Akureyri. Þetta er því í fyrsta skipti sem ríkið ákveður að koma inn í þennan rekstur með sérstöku fjárframlagi.

Ríkinu er skylt samkvæmt lögum um sjúkratryggingar að gera samninga um þá heilbrigðisþjónustu sem ákveðið er að kaupa. Slíkir samningar skulu gerðir í samræmi við stefnumörkun m.a. um skipulag heilbrigðisþjónustu, forgangsröðun verkefna innan hennar, hagkvæmni og gæði þjónustunnar og aðgengi að henni. Við samningsgerð skal hafa hagsmuni sjúkratryggðra að leiðarljósi.

Sjúkratryggingar Íslands annast gerð samninga um kaup á heilbrigðisþjónustu fyrir hönd ríkisins og í samræmi við það hefur stofnunin átt í viðræðum við SÁÁ um gerð þjónustusamnings vegna göngudeildarþjónustunnar á Akureyri. Samkvæmt upplýsingum heilbrigðisráðuneytisins frá Sjúkratryggingum Íslands var fundur milli samningsaðila síðastliðinn mánudag. Þar kom fram af hálfu fulltrúa SÁÁ að samtökunum væri vandi á höndum við að manna þjónustu göngudeildarinnar en það var ekki skilningur fulltrúa Sjúkratryggingar Íslands að SÁÁ vildu slíta samningaviðræðum eða loka starfseminni.

Vegna umfjöllunar í fréttum í dag telur heilbrigðisráðuneytið mikilvægt að koma þessum sjónarmiðum á framfæri. Það er von ráðuneytisins að samningaviðræðum aðila verði haldið áfram og að ekki verði rof í þjónustunni á Akureyri meðan unnið er að gerð samnings um þjónustuna.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum