Hoppa yfir valmynd
15. janúar 2021 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Sóttvarnaaðgerðir innanlands minna íþyngjandi fyrir efnahagslífið en í flestum samanburðarlöndum

Sóttvarnaaðgerðir innanlands minna íþyngjandi fyrir efnahagslífið en í flestum samanburðarlöndum - myndLandspitali/Þorkell

Reynslan af samspili heimsfaraldurs COVID-19, sóttvarna og efnahagslegra áhrifa hefur aukist með tímanum og sýnir að það er lykilatriði að koma í veg fyrir að faraldurinn fari úr böndum. Sóttvarnaraðgerðir þurfa að vera tímanlegar og nægjanlegar til að skila tilætluðum árangri. Ella er hætt við að það þurfi að beita mun meira íþyngjandi aðgerðum síðar sem hafa til skemmri tíma litið neikvæðari efnahagslegar afleiðingar í för með sér. Hér á landi hefur tekist tiltölulega vel að halda faraldrinum í skefjum með tímanlegum sóttvarnaraðgerðum og umfangsmikilli greiningu og rakningu smita. Reglufylgni og stuðningur almennings við sóttvarnir hafa einnig stuðlað að þessari niðurstöðu og á heildina litið hafa innlendar sóttvarnir verið minna íþyngjandi hér á landi en í flestum OECD-ríkjum.

Þetta eru á meðal niðurstaðna starfshóps fjármála- og efnahagsráðherra um efnahagsleg áhrif valkosta í sóttvarnarmálum. Starfshóp ráðherra skipa Már Guðmundsson, fyrrverandi seðlabankastjóri, Tómas Brynjólfsson, skrifstofustjóri skrifstofu efnahagsmála í fjármála- og efnahagsráðuneytinu og Ásdís Kristjánsdóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Taka undir hugmyndir um varfærnar tilslakanir á landamærum á vormánuðum

Vegna góðs árangurs í sóttvörnum hafa áhrif faraldursins á innlend efnahagsumsvif, þ.m.t. einkaneyslu, verið minni hér á landi en víða annars staðar. Vegna mikilvægis ferðaþjónustunnar skipar Ísland sér engu að síður í þann hóp þróaðra ríkja þar sem efnahagsleg áhrif faraldursins eru hvað mest. Í samræmi við fyrri álit sín tekur starfshópurinn undir hugmyndir um breytt fyrirkomulag á landamærum sem taki gildi á vormánuðum og feli í sér að liðkað yrði fyrir komum ferðamanna frá löndum þar sem tök eru á farsóttinni. Þannig geti ferðaþjónustan boðið upp á meiri fyrirsjáanleika við sölu ferða til Íslands á komandi mánuðum án þess að of mikil áhætta sé tekin varðandi sóttvarnir.

Fjárhagslegur og ófjárhagslegur kostnaður yfir 10% af VLF árið 2020

Í greiningu Analytica sem unnin var fyrir starfshópinn er samdráttur efnahagsumsvifa vegna faraldursins á árinu 2020 metinn um 8% ef ekki er tekið tillit til mótvægisaðgerða ríkisins en um 5% að þeim meðtöldum. Beinar mótvægisaðgerðir ríkisins vegna faraldursins nema samanlagt um 7% af landsframleiðslu á árunum 2020 og 2021 auk þess sem sjálfvirkt viðbragð skattkerfis og atvinnuleysistrygginga er óvíða meira en hérlendis.
Kostnaður vegna farsóttarinnar og sóttvarna verður ekki aðeins mældur í landsframleiðslu. Samfélagið verður fyrir fjölþættu velferðartapi, m.a. vegna áhrifa faraldursins á heilsu, sem meta má til fjár. Með aðferðafræði hagfræðinnar er hluti þessa taps metinn á um 75 ma.kr., eða u.þ.b. 2½% af VLF.

Bóluefni leggur grunn að kröftugum bata

Tilkoma bóluefnis markar þáttaskil í baráttunni við faraldurinn og efnahagslegar afleiðingar hans. Tímasetning efnahagslegrar viðspyrnu hérlendis mun að miklu leyti ráðast af útbreiðslu bóluefnis, bæði hér á landi og í helstu viðskiptaríkjum. Náist að kveða faraldurinn niður fyrir tilstilli bóluefnis gæti efnahagsbatinn orðið kröftugur á fyrri stigum, ekki síst vegna bata í ferðaþjónustu.

Þó er ýmis áhætta til staðar, ekki síst hættan á því að faraldurinn valdi auknu langtímaatvinnuleysi. Vísbendingar um fremur dræma þátttöku og ásókn í virk vinnumarkaðsúrræði til þessa vekur spurningar um hvort ekki þurfi að auka upplýsingar og ráðgjöf til bæði einstaklinga og fyrirtækja um þau úrræði sem í boði eru og hvetja til aukinnar virkni og þátttöku í þeim.

Vandrataður meðalvegur í mótvægisaðgerðum

Mótvægisaðgerðir hins opinbera miða að því að draga úr tjóni, varðveita getu til verðmætasköpunar, milda niðursveifluna og styðja við eftirspurn á fyrri stigum uppsveiflunnar. Það er þó vandrataður meðalvegur og fórnarskipti á milli þess að gera nægilega mikið til að forða tjóni sem bitnar á efnahagsbatanum en ekki svo mikið að komið er í veg fyrir nauðsynlega tilfærslu framleiðsluþátta frá rekstri sem ekki stenst í venjulegu árferði til nýrrar vænlegrar starfsemi. Rök eru fyrir því að gera fremur meira en minna við að vernda framleiðslugetu og ráðningarsamband meðan þjóðarbúið er á botninum en endurmeta þann stuðning um leið og efnahagsbatinn fer á skrið og neyslu- og framleiðslumunstur næstu framtíðar skýrast betur.

Annað efni sem tengist starfhópnum: 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum