Hoppa yfir valmynd
9. nóvember 2021 Heilbrigðisráðuneytið

Skilyrði um 12 mánaða starfsnám sálfræðinga fyrir útgáfu starfsleyfis frestað

Heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að fresta til 1. júlí 2023 gildistöku reglugerðarákvæðis sem kveður á um að 12 mánaða verkleg þjálfun að loknu framhaldsnámi sálfræðinga (cand.spych) sé skilyrði fyrir útgáfu starfsleyfis. Frestunin gildir einnig um sálfræðinga sem útskrifast hafa frá 1. júlí sl. Landsráði um mönnun og menntun í heilbrigðisþjónustu verður falið að gera tillögu til heilbrigðisráðherra, eigi síðar en næsta vor, um fyrirkomulag verklegrar þjálfunar. Tíminn fram að gildistöku ákvæðisins í júlí 2023 verði nýttur til að skipuleggja og koma á fót verklegri þjálfun í samræmi við tillögur landsráðs.

Gildistöku reglugerðarákvæðisins um starfsþjálfun sálfræðinga hefur ítrekað verið frestað þar sem skort hefur stöður fyrir skipulagða starfsþjálfun til að uppfylla skilyrðið. Heilbrigðisráðuneytið telur ljóst að til að koma á fót skipulagðri starfsþjálfun þurfi fleiri aðilar að taka höndum saman um verkefnið og landsráð um mönnun og menntun í heilbrigðisþjónustu sé réttur vettvangur til þess. Í landsráðinu eiga sæti auk fulltrúa heilbrigðisráðuneytisins, fulltrúi mennta- og menningarmálaráðuneytisins, embættis landlæknis, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, heilbrigðisvísindasviðs háskólasamfélagsins, heilbrigðisstofnana og Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Landsráð um mönnun og menntun í heilbrigðisþjónustu var skipað í maí á þessu ári. Hlutverk þess er að vera ráðgefandi fyrir undirbúning ákvarðana heilbrigðisráðherra á þessu sviði. Því er einnig ætlað að vera samráðsvettvangur um mönnun og menntun í heilbrigðisþjónustu og að hafa virkt samráð við aðila tengda heilbrigðisþjónustu, þ.e. sjúklinga, sjúklingasamtök, fagfélög og aðra hagsmunaaðila, sem og menntastofnanir sem koma að menntun heilbrigðisstarfsmanna.

Sjá einnig tilkynningu um fjármögnun og framboð á námsstöðum í sér- og framhaldsnámi heilbrigðisstétta, dags. 2. nóvember síðastliðinn.  

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum