Hoppa yfir valmynd
8. febrúar 2018 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Verðmæti stöðugleikaeigna aukast um fimmtung

Með setningu laga nr. 60/2015 um stöðugleikaskatt og breytingum á bráðabirgðaákvæði III laga nr. 36/2001 um Seðlabanka Íslands, sem var hluti af áætlun um losun fjármagnshafta, var heimilað að slitabú fallinna fjármálafyrirtækja gætu greitt stöðugleikaframlag í stað greiðslu stöðugleikaskatts. Seðlabanki Íslands veitti stöðugleikaeignunum viðtöku en verðmætin runnu í ríkissjóð. Stöðugleikaeignir voru í megin atriðum flokkaðar í laust fé, framseldar eignir, skilyrtar fjársópseignir og framlög vegna viðskiptabanka og nam ætlað virði þeirra samtals 384,3 ma.kr.

Andvirði þeirra stöðugleikaeigna sem búið er að innleysa, að meðtöldum vaxtatekjum og arðgreiðslum, frá ársbyrjun 2016 nemur alls um 207,5 ma.kr. Þessum fjármunum hefur lögum samkvæmt verið ráðstafað inn á stöðugleikareikning í eigu ríkissjóðs í Seðlabanka Íslands og þeir nýttir til að greiða niður útistandandi skuldir ríkissjóðs, til að mæta tekjutapi vegna sérstaks skatts á fjármálafyrirtæki og til að fjármagna lífeyrisskuldbindingar. Til viðbótar gera áætlanir ráð fyrir að tekjur stöðugleikaframlaga á yfirstandandi ári nemi um 63 ma.kr. Samtals má því gera ráð fyrir að um 270 ma.kr. hafi skilað sér til ríkissjóðs á í lok árs 2018.

Stór hluti af stöðugleikaframlögum í upphafi voru framlög vegna viðskiptabanka. Bókfært virði hlutafjár í Íslandsbanka var metið á 185 ma.kr., sérstakt skuldabréf sem Kaupþing gaf út til ríkissjóðs með veði í hlutafé Arion banka var að fjárhæð 84 ma.kr. og afkomuskiptasamningur í tengslum við sölu á Arion banka var metinn á 19,5 ma.kr. Áætlað verðmæti annarra eigna, þ.e. að frátöldu framlagi vegna viðskiptabanka, nam því um 96 ma.kr.

Lindarhvoll ehf. annaðist umsýslu stöðugleikaeigna að undanskildum hlut í Íslandsbanka sem var í höndum Bankasýslu ríkisins. Áætlanir ríkissjóðs gera nú ráð fyrir að heildarandvirði stöðugleikaeigna gæti numið um 458 ma.kr. við lok úrvinnslu þeirra. Verðmætaaukningin á þeim tveimur árum sem ríkissjóður fékk þær í hendur er því um 74 ma.kr. Skiptingu niður á einstaka liði má sjá í neðangreindri töflu.

Eignir Virði janúar 2016 Áætlað virði í árslok 2018 Mismunur
Laust fé 17,2 18,6 1,4
Framseldar eignir 60,4 71,4 11,0
Fjársópseignir 18,4 27,4 9,1
Framlag vegna viðskiptabanka 288,2 340,4 52,2
Samtals 384,3 457,8 73,6

Í byrjun árs 2018 hefur ríkissjóður ráðstafað alls um 204 ma.kr. af tekjum vegna stöðugleikaeigna sem hér segir: Um 34 ma.kr. til að mæta tapi vegna lækkunar stofns til sérstaks skatts á fjármálafyrirtæki, um 40 ma.kr. hefur verið ráðstafað til lækkunar lífeyrisskuldbindinga gagnvart Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins og um 130 ma.kr. hefur verið ráðstafað beint til niðurgreiðslu skulda ríkissjóðs.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum