Hoppa yfir valmynd
30. mars 2023 Innviðaráðuneytið

Mælt fyrir lagabreytingu um að einstaklingar sem sæta heimilisofbeldi geti fengið dulið lögheimili

Þjóðskrá Íslands (Reykjavík) - mynd

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, mælti á Alþingi í gær fyrir frumvarpi til breytingar á lögum um lögheimili og aðsetur (80/2018). Í frumvarpinu eru gerðar breytingar á ákvæðum laganna um dulið lögheimili til að tryggja að einstaklingar sem sæta heimilisofbeldi innan náins sambands geti flutt lögheimili sitt meðan á skilnaðarferli stendur.

Meginreglan er að samþykki hjóna þarf fyrir lögheimili hvort á sínum stað. Með frumvarpinu er færð inn í lög skýr undantekning á samþykkinu þess efnis að það eigi ekki við ef annað hjóna sæti heimilisofbeldi af hálfu maka. Einnig er lögð til sambærileg heimild um sambúðaraðila ef annað þeirra sætir heimilisofbeldi.

Í greinargerð með frumvarpinu segir að Þjóðskrá Íslands telji að 10-20 mál af þessu tagi séu til meðferðar á ári þar sem núverandi ákvæði um samþykki komi í veg fyrir að einstaklingar geti fengið dulið lögheimili vegna ofbeldis í nánu sambandi. Það sé einnig mikilvægt fyrir einstaklinga að fá lögheimili flutt þar sem mörg réttindi fylgja skráningu þess.

Ákvæðið um dulin lögheimili voru nýmæli í heildarlögum um lögheimili og aðsetur sem Alþingi samþykkti árið 2018 og einnig með lögum um skráningu einstaklinga frá árinu 2019. Samkvæmt reglugerð er úrræðið hugsað fyrir þá einstaklinga sem geta sýnt fram á að hann eða fjölskylda hans sé í hættu með staðfestingu frá lögreglustjóra.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum