Hoppa yfir valmynd
4. desember 2019 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Guðrún Ögmundsdóttir skipuð skrifstofustjóri skrifstofu rekstrar og innri þjónustu

Guðrún Ögmundsdóttir - mynd

Fjármála- og efnahagsráðherra hefur skipað Guðrúnu Ögmundsdóttur í embætti skrifstofustjóra á skrifstofu rekstrar og innri þjónustu í fjármála- og efnahagsráðuneytinu til fimm ára, frá 2. desember 2019.

Guðrún hefur starfað í fjármála- og efnahagsráðuneytinu frá árinu 2011. Þar hefur hún verið leiðandi sérfræðingur á skrifstofu stjórnunar og umbóta og stýrt verkefnum í tengslum við þróun stafrænnar þjónustu og rekstur stofnana ríkisins. Þá var hún formaður verkefnisstjórnar um framkvæmd höfuðstólslækkunar íbúðarlána. Síðastliðið ár hefur Guðrún verið settur skrifstofustjóri á skrifstofu rekstrar og innri þjónustu. Guðrún var áður ráðgjafi hjá Capacent, fjárfestatengill hjá Landic Property hf., og sérfræðingur hjá Kaupþingi banka hf. Þar áður starfaði hún sem hagfræðingur á efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins frá 2002 til 2005.

Guðrún er hagfræðingur frá Háskóla Íslands og með meistaragráðu í fjármálum frá Cass Business School í London.

Skrifstofa rekstrar og innri þjónustu annast rekstur, mannauðsmál og fjármál ráðuneytisins. Skrifstofan hefur umsjón með stefnumótun og fjárveitingum vegna málaflokka sem ráðuneytið ber ábyrgð á auk rekstrarlegs eftirlits með stofnunum ráðuneytisins.

Alls bárust 25 umsóknir um stöðuna sem var auglýst 28. ágúst síðastliðinn.


Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum