Hoppa yfir valmynd
5. febrúar 2020 Heilbrigðisráðuneytið

Ásthildur Knútsdóttir skipuð skrifstofustjóri í heilbrigðisráðuneytinu

Ásthildur Knútsdóttir - myndHeilbrigðisráðuneyti - /ME

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur skipað Ásthildi Knútsdóttur í embætti skrifstofustjóra á skrifstofu lýðheilsu og forvarna í heilbrigðisráðuneytinu til næstu fimm ára. Ráðherra skipar Ásthildi að undangengnu mati ráðgefandi nefndar sem metur hæfni umsækjenda. Niðurstaða nefndarinnar var að Ásthildur væri mjög vel hæf til að gegna starfinu.

Ásthildur er hjúkrunarfræðingur að mennt með MBA í stjórnun frá University of St. Thomas í Minneapolis. Hún hefur starfað sem settur skrifstofustjóri í heilbrigðisráðuneytinu frá 1. apríl 2019, starfað um árabil sem sérfræðingur í sama ráðuneyti og einnig gegnt stöðu sem staðgengill skrifstofustjóra. Á árunum 2003 – 2006 var Ásthildur deildarfulltrúi heilbrigðisráðuneytisins og utanríkisráðuneytisins hjá Fastanefnd Íslands í Genf. Þar hafði hún m.a. umsjón með málefnum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar vegna setu Íslands í framkvæmdastjórn stofnunarinnar.

Eins og fram kemur í mati nefndarinnar sem mat hæfni umsækjenda hefur Ásthildur starfað lengi innan Stjórnarráðsins og býr því að góðri þekkingu og reynslu á sviði opinberrar stjórnsýslu. Hún hefur einnig mjög langa starfsreynslu á heilbrigðissviði og áralanga reynslu af alþjóðlegu samstarfi á sviði heilbrigðismála.

Í niðurstöðu nefndarinnar segir að Ásthildur hafi mikla yfirsýn og þekkingu á sviði lýðheilsu, forvarna og heilbrigðismála almennt, bæði hvað varðar stefnumótun og faglega greiningu. Þess er einnig getið sérstaklega að hún hafi að sögn umsagnaraðila óvenjulega góða hæfni í mannlegum samskiptum, láti vel að leiða saman ólík sjónarmið og ná sameiginlegri niðurstöðu.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum