Áherslumál Þorgerðar Katrínar

Sanngirni, sjálfbærni, samkeppni

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra vill stuðla að aukinni samkeppnishæfni íslensks sjávarútvegs og landbúnaðar, með sanngirni, sjáflbærni og hagsmuni neytenda að leiðarjósi. Lögð skal áhersla á gæði og heilnæmi íslenskrar framleiðslu, sterka umhverfisvitund, nýsköpun samfélagslega sátt um þessar mikilvægu atvinnugreinar.

Sátt um gjaldtöku í sjávarútvegi

Sjávarútvegur er grunnstoð í íslensku atvinnulífi. Á undanförnum árum hefur orðið mikil hagræðing í greininni og árangur náðst í verndun fiskistofna með áherslu á sjálfbæra nýtingu auðlindarinnar sem byggir á vísindalegri ráðgjöf. Sjávarútvegsráðherra vill stuðla að frekari uppbyggingu greinarinnar á þeim grunni. Helsta verkefnið framundan er stuðla að víðtækri sátt um sanngjarnt afgjald fyrir aðgang nýtingu sameiginlegrar auðlindar þjóðarinnar. Fyrr á þessu ári skipaði ráðherra þverpólitíska nefnd með fulltrúum allra flokka, sem hefur það hlutverk að móta tillögur að framtíðarskipan gjaldtöku í sjávarútvegi. Ráðgert er að nefndin skili tillögum sínum til ráðherra í ársbyrjun 2018.

Aukin nýsköpun og samkeppni í landbúnaði

Í árslok 2016 tók nýr búvörusamningur gildi til tíu ára en endurskoðun samningsins stendur yfir fram til ársloka 2019. Meðal fyrstu verka Þorgerðar Katrínar Gunnarstóttur í starfi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra var að gera breytingar á skipan endurskoðunarnefndar, með það að markmiði að auka vægi umhverfis- og neytendasjónarmiða. Ráðherra leggur áherslu á að umgjörð landbúnaðar á Íslandi stuðli að aukinni nýsköpun í greininni, bæði hvað varðar vöruþróun og markaðssetningu. Grunnforsendur eru umhverfisvernd, sjálfbærni og hagsmunir neytenda.

Meðal verkefna sem framundan eru má nefna frumvarp til laga um samkeppni í mjólkuriðnaði, sem stuðli að aukinni vöruþróun og betra verði til neytenda. Leitað hefur verið eftir umsögnum hagsmunaaðila en fyrirhugað er að frumvarpið verði lagt fram á haustþingi.
Þá er í farvatninu endurskoðun laga um Matvælastofnun, sem meðal annars skulu styrkja eftirlit með matvælaframleiðslu og efla matvælaöryggi í landinu.

Loks er í bígerð mótun heildstæðrar matvælastefnu fyrir Ísland, sem skal taka til fæðuöryggis, matvælaöryggis, nýsköpunar í matvælaframleiðslu og eflingu matarmenningar á Íslandi.

Fiskeldi: öflug atvinnugrein í sátt við umhverfið

Fiskeldi hefur verið í mikilli sókn á heimsvísu undanfarna áratugi og óhætt að segja að greininni hafi vaxið fiskur um hrygg hérlendis á nýliðnum árum. Raunhæfar væntingar eru um að greinin muni í framtíðinni skapa umtalsverð verðmæti fyrir þjóðarbúið og renna styrkari stoðum undir atvinnuuppbyggingu á landsbyggðinni.

Ráðherra sjávarútvegs- og landbúnaðarmála vill stuðla að því að Íslendingar raungeri þau tækifæri sem felast í þróun fiskeldis, en leggur jafnframt áherslu á að uppbygging greinarinnar einkennist minna af kappi og meira af forsjá. Mikilvægt er að hagsmunum umhverfisins verði ekki fórnað fyrir hagsmuni fjármagns of framleiðenda. Sjónarmið nýtingar og verndunar þurfa að fara saman. Starfshópur um stefnumótun í fiskeldi mun skila tillögum til ráðherra á haustmánuðum.

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn