Hoppa yfir valmynd
23. ágúst 2012 Dómsmálaráðuneytið

Auglýsing um þjóðaratkvæðagreiðslu 20. október 2012

Með vísan til 5. gr. laga um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna, nr. 91/2010, sbr. ályktun Alþingis 24. maí 2012, skal fara fram hinn 20. október 2012 ráðgefandi  þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs að frumvarpi til stjórnarskipunarlaga og tiltekin álitaefni þeim tengd.

Í atkvæðagreiðslunni verða eftirfarandi spurningar lagðar fyrir kjósendur:

1.      Vilt þú að tillögur stjórnlagaráðs verði lagðar til grundvallar frumvarpi að nýrri stjórnarskrá?

2.      Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði náttúruauðlindir sem ekki eru í einkaeigu lýstar þjóðareign?

3.      Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi?

4.      Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði persónukjör í kosningum til Alþingis heimilað í meira mæli en nú er?

5.      Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að atkvæði kjósenda alls staðar að af landinu vegi jafnt?

6.      Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um að tiltekið hlutfall kosningarbærra manna geti krafist þess að mál fari í þjóðaratkvæðagreiðslu?

Atkvæðagreiðslan fer fram á sömu kjörstöðum og notast er við í almennum kosningum. Skömmu fyrir atkvæðagreiðsluna mun hvert sveitarfélag auglýsa með venjulegum hætti hvar kjörstaðir verði, hvenær kjörfundur hefjist og hvenær honum verði slitið á kjördag, hvernig skipt verði í kjördeildir, o.fl. Kjósendur eru beðnir að kynna sér vel þær upplýsingar.

Kosningarrétt við þjóðaratkvæðagreiðsluna eiga þeir kjósendur sem eiga kosningarrétt til Alþingis, samkvæmt 2. gr. laga nr. 91/2010, sbr. 1. gr. laga nr. 24/2000.

Kjörskrár verða gerðar á grundvelli kjörskrárstofna sem Þjóðskrá Íslands lætur sveitarstjórnum í té. Kjörskrár miðast við skráð lögheimili kjósenda í viðkomandi sveitarfélagi hinn 29. september 2012, sbr. 2. gr. laga nr. 91/2010. Kjörskrár skulu lagðar fram almenningi til sýnis á skrifstofu sveitarstjórnar eða öðrum hentugum stað eigi síðar en 10. október 2012.

Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar hefst 25. ágúst 2012.

 

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira