Hoppa yfir valmynd
31. mars 2015 Dómsmálaráðuneytið

Embætti forstjóra Persónuverndar auglýst

Innanríkisráðuneytið auglýsir laust til umsóknar embætti forstjóra Persónuverndar. Gert er ráð fyrir að skipað verði í embættið frá 1. ágúst næstkomandi og umsóknarfrestur er til 26. apríl næstkomandi. Auglýsingin fer hér á eftir.

Merki Persónuverndar.
Persónuvernd

Embætti forstjóra Persónuverndar er laust til umsóknar. Persónuvernd annast eftirlit með framkvæmd laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga. Persónuvernd er m.a. falið að hafa eftirlit með því að farið sé að reglum um vinnslu persónuupplýsinga og bætt sé úr annmörkum og mistökum. Þá er verkefni hennar að úrskurða í ágreiningsmálum, að skilgreina og afmarka hvar persónuvernd er hætta búin og veita ráð um leiðir til lausnar; að leiðbeina þeim sem ráðgera að vinna með persónuupplýsingar eða þróa kerfi fyrir slíka vinnslu. Persónuvernd ber að tjá sig um álitamál varðandi meðferð persónuuplýsinga og veita umsagnir við setningu reglna er þýðingu hafa í þágu persónuverndar.

Forstjóri Persónuverndar stýrir starfi stofnunarinnar og er ábyrgur gagnvart ráðherra og stjórn á starfsemi hennar. 

Forstjóri Persónuverndar skal hafa lokið fullnaðarnámi í lögfræði með embættis- eða meistaraprófi og að minnsta kosti 5 ára starfsreynslu sem lögfræðingur. Reynsla af stjórnun er æskileg, sem og reynsla í opinberri stjórnsýslu og alþjóðasamstarfi. Auk þess er gerð krafa um mjög gott vald á íslensku og ensku og þekking á einu Norðurlandamáli er æskileg. Áhersla er lögð á styrkleika í samvinnu og samskiptum, sem og frumkvæði og metnaði til að ná árangri í starfi.

Konur jafnt sem karlar eru hvött til að sækja um starfið.

Innanríkisráðherra skipar forstjóra Persónuverndar til fimm ára í senn, sbr. 6. mgr. 36. gr. laga nr. 77/2000 um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga og lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, að fenginni tillögu stjórnar Persónuverndar. Gert er ráð fyrir að skipað verði í embættið frá og með 1. ágúst 2015. Um laun og starfskjör forstjóra fer eftir ákvörðun kjararáðs, sbr. lög um kjararáð nr. 47/2006.

Upplýsingar um starfið veitir Guðný Elísabet Ingadóttir, mannauðsstjóri í síma 545-9000. Umsóknir með upplýsingum um menntun og starfsferil sendist innanríkisráðuneytinu, Sölvhólsgötu 7, 101 Reykjavík eða á [email protected] Umsóknarfrestur er til og með 26. apríl 2015. Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um ráðningu liggur fyrir.

Innanríkisráðuneyti,

28. mars 2015.

 

Efnisorð

Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira