Hoppa yfir valmynd
10. október 2018 Menningar- og viðskiptaráðuneytið, Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Staða forstöðumanns Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum laus til umsóknar

Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum er háskólastofnun sem hefur náin tengsl við Háskóla Íslands. Hlutverk hennar er að vinna að rannsóknum í íslenskum fræðum og skyldum fræðigreinum, einkum á sviði miðaldafræða, íslenskrar tungu og bókmennta, að miðla þekkingu á þeim fræðum og varðveita og efla þau söfn sem henni eru falin eða hún á. Nánari upplýsingar um stofnunina er að finna á vefsíðu hennar.

Hæfnikröfur
Forstöðumaður Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum skal hafa hæfi sem prófessor á fræðasviði stofnunarinnar að mati þriggja manna dómnefndar sem mennta- og menningarmálaráðherra skipar. Leitað er eftir einstaklingi með umfangsmikla stjórnunarreynslu, leiðtoga- og samskiptahæfni, reynslu af stefnumótunarvinnu og breytingastjórnun og hæfileika til nýsköpunar. Þekking og reynsla af stjórnsýslu, fjármálum og rekstri er einnig mikilvæg.

Starfssvið
Forstöðumaður stjórnar starfsemi og rekstri stofnunarinnar og er mikilvægt að umsækjendur hafi skýra framtíðarsýn hvað þetta varðar. Hann ræður starfsmenn hennar og er í fyrirsvari fyrir hana. Hann ber ábyrgð á rekstri stofnunarinnar og að starfsemi hennar sé í samræmi við lög og stjórnvaldsfyrirmæli. Hann ber ábyrgð á gerð fjárhagsáætlunar og að henni sé fylgt.

Ráðning og kjör
Mennta- og menningarmálaráðherra skipar forstöðumann til fimm ára að fenginni umsögn stjórnar stofnunarinnar, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga um Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum, nr. 40/2006, sbr. lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, með síðari breytingum. Ráðið er í starfið frá 1. mars 2019.

Um laun forstöðumanns fer eftir 39. gr. a í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996.

Umsóknir
Umsóknir með greinargerð umsækjenda um framtíðarsýn fyrir Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum (út frá faglegum og rekstrarlegum áherslum) með upplýsingum um núverandi starfsheiti umsækjenda og ítarlegum upplýsingum um menntun og fyrri störf, ásamt ritaskrá og 3-5 ritum sem umsækjandi óskar sérstaklega eftir að leggja fram vegna umsóknarinnar, skulu hafa borist mennta- og menningarmálaráðuneyti, Sölvhólsgötu 4, 101 Reykjavík eða á netfangið [email protected], eigi síðar en mánudaginn 5. nóvember 2018.

Nöfn allra umsækjenda verða birt á vef ráðuneytisins að loknum umsóknarfresti og verða umsóknir þar sem óskað er nafnleyndar ekki teknar til greina. Nánari upplýsingar um starfið veitir rekstrarstjóri í mennta- og menningarmálaráðuneyti í síma 545 9500 eða [email protected]

Umsóknarfrestur er til og með 5. nóvember 2018.

 


Mennta- og menningarmálaráðuneyti, 10. október 2018.Efnisorð

Var efnið hjálplegt?Nei
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Vefurinn notar vefkökur til að bæta upplifun notenda og greina umferð um vefinn. Lesa meira