Starfsemi samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs
Mennta- og menningarmálaráðuneyti auglýsir eftir stofnun eða samtökum til þess að hafa umsjón með starfsemi samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs á grundvelli nýrra laga nr. 45/2019 um samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs. Um er að ræða ígildi eins stöðugildis til fimm ára. Stofnun eða samtök sem veljast til þess að hafa umsjón með starfseminni mun ráða starfsmann með fagþekkingu í starf samskiptaráðgjafa. Markmið með starfseminni er að auka öryggi í íþrótta- og æskulýðsstarfi.
Hlutverk samskiptaráðgjafa samkvæmt 5. gr. laganna er eftirfarandi:
- Koma með virkum hætti á framfæri upplýsingum til þeirra sem taka þátt í starfsemi þeirra félaga og samtaka sem falla undir lög þessi, um atvik og misgerðir í þeim tilgangi að auka þekkingu og stuðla að réttum viðbrögðum við þeim.
- Leiðbeina þeim einstaklingum sem til hans leita vegna atvika eða misgerða sem orðið hafa í skipulögðu starfi félaga og samtaka sem falla undir lög þessi eða í tengslum við það um þau úrræði sem standa til boða, hvernig kvörtun er komið á framfæri við rétt yfirvöld og eftir atvikum um þá þjónustu sem ríki og sveitarfélög bjóða upp á.
- Aðstoða samtök og félög sem falla undir lög þessi við að gera viðbragðsáætlanir vegna atvika og misgerða sem verða í starfi þeirra og stuðla að samræmingu á landsvísu, eftir atvikum í samráði við Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Ungmennafélag Íslands, æskulýðssamtök og önnur samtök.
- Veita ráðgjöf til þeirra sem taka þátt í starfsemi félaga og samtaka sem falla undir lög þessi um fyrirbyggjandi aðgerðir.
- Fylgjast með rannsóknum og þróun á verksviði samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs og koma upplýsingum á framfæri við Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands, Ungmennafélag Íslands, æskulýðssamtök og önnur samtök sem falla undir lög þessi.
- Taka saman upplýsingar um starf samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs og þær tilkynningar sem honum hafa borist á liðnu almanaksári.
Nánari upplýsingar veitir Óskar Þór Ármannsson, sérfræðingur í mennta- og menningarmálaráðuneyti, í síma 5459500.
Umsóknir um umsjón með starfseminni sendist til mennta- og menningarmálaráðuneytis Sölvhólsgötu 4, 101 Reykjavík eða á netfangið [email protected] fyrir 1. september 2019.