Styrkir til listdanskennslu
Forsenda þess að geta sótt um styrk er að lágmarki 5 ára reynsla af kennslu nemenda í grunn- og framhaldsnámi í listdansi, jafnframt er skilyrði að vera með hið minnsta 10 ársnemendur á framhaldsstigi. Fleiri en einn aðili geta sótt saman um styrk.
Styrkjunum verður úthlutað annars vegar á grundvelli grunnstyrks og hins vegar á grundvelli ársnemendafjölda en heildarstyrkfjárhæð er 143 m.kr. á ári. Miðað er við að um 45 m.kr verði til styrktar kennslu í klassískum listdansi og 83 m.kr. til kennslu í nútímadansi. Jafnframt er gert ráð fyrir að grunnstyrkur til rekstrar verði 15 m.kr.
Gert er ráð fyrir að samningar verði gerðir um styrkveitinguna og að þeir verði til þriggja ára. Á tímabilinu verður gerð ytri úttekt á grundvelli laga um framhaldsskóla.
Í lok hvers skólaárs er gert uppgjör á grundvelli þreyttra eininga það árið. Uppgjörið getur falið í sér frádrátt ef skilað hefur verið færri einingum en samningur kveður á um.
Umsókn skal senda á netfang ráðuneytisins [email protected]
Með umsókn skal fylgja greinargerð um eftirfarandi þætti:
· Skólastefna, skólanámsskrá, námsskipulag og námsframboð á framhaldsstigi.
· Faglegt hæfi stjórnenda og kennara.
· Starfsaðstaða og aðbúnaður kennara og nemenda.
· Fjöldi nemenda á framhaldsstigi.
· Rekstrahæfi.
· Skil á opinberum gjöldum eða lífeyrisiðgjalda.
· Samþykktir félags eða félagasamtaka þar sem staðfest er að starfsemi sé ekki rekin í hagnaðarskyni heldur á grundvelli samfélagslegra markmiða.
· Ársreikningar umsækjanda síðustu 3 ár.
Hæfi umsækjenda verður metið út frá ofangreindum þáttum. Miðað er við að niðurstaða liggi fyrir í lok ágúst 2020.
Umsóknarfrestur er til kl. 24:00 þann 5. júlí 2020.
Nánari upplýsingar veitir Gísli Rúnar Pálmason [email protected]