Hoppa yfir valmynd
13. maí 1985 Dómsmálaráðuneytið

Matsnefnd eignarnámsbóta, úrskurður 13. maí 1985

Ár 1985, mánudaginn 13. maí var í Matsnefnd eignarnámsbóta skv. lögum nr. 11/1973 tekið fyrir matsmálið:

                  Svavar Magnússon
                  bóndi Búðardal I
                  Dalasýslu
                  gegn
                  Sigurborgu Karlsdóttur og
                  Ragnheiði Karlsdóttur

og í því kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r :

Málavextir eru þeir, að 2. nóvember 1979 var í Matsnefnd eignarnámsbóta kveðin upp matsgerð í máli Svavars Magnússonar, bónda, Búðardal I, í Dalasýslu og Sigurborgar Karlsdóttur og Ragnheiðar Karlsdóttur, þar sem metinn var til kaupverðs sá hluti ábýlisjarðar matsbeiðanda, þ.e. 3/5 hl. lands og íbúðarhúss í Búðardal I, sem matsþolar áttu.

Matsbeiðandi var eigandi að 2/5 hlutum landsins og átti allar byggingar á jörðinni nema íbúðarhús.

Eignarnámsheimild matsbeiðanda var að finna í 14. gr. laga nr. 65/1976, en eignarnemi hafði einnig aflað sér tilskilinna leyfa til eignarnámsins.

Í matsgerðinni var metið til verðs land og ræktun, hús og hlunnindi utan lax- og silungsveiði, sem undanskilin var í matsgerðinni. Um þau hlunnindi segir svo í umræddri matsgerð: "Allt fram til ársins 1978 var engin veiði í Búðardalsá fyrir landi Búðardals-jarðanna. Þær fyrirstöður voru í ánni er hindruðu fiskgöngu um hana. Úr þessu hefur nú verið bætt og í ágústmánuði 1978 er talið að fyrsti fiskurinn hafi getað gengið óhindrað upp ána.

Þann 29. ágúst 1973 staðfesti landbúnaðarráðherra samþykkt fyrir Veiðifélag Búðardalsár, Skarðströnd, sem nær yfir þær jarðir sem aðild eiga að vatnasvæði árinnar.

Það mun hafa verið árið 1971, sem veruleg hreyfing komst á að gera Búðardalsá fiskgenga, er aðilar á vatnasvæði árinnar leigðu veiðifélaginu Búð h/f ána til 10 ára með því skilyrði að áin yrði gerð fiskgeng. Á þessum tíma hefur félagið fengið leyfi til að fresta framkvæmdum um eitt ár á leigutímabilinu, sem þá framlengdist tilsvarandi og rennur út árið 1982.

Á árinu 1978 veiddust 100 laxar í Búðardalsá skv. skýrslum veiðimálastofnunarinnar, þar af er talið að 1 - 3 laxar hafi veiðst fyrir ofan brú.

Jónas Gestsson, útibússtjóri Landsbankans í Ólafsvík upplýsti, að á árinu 1979 hafi veiðst milli 140 - 150 laxar í Búðardalsá, þar af muni 10 - 15 laxar hafa veiðst í Lambatangafljóti, sem er fyrir landi Búðardals. Veiðiskýrsla fyrir 1979 er ekki fullfrágengin.

Framkvæmdin við að gera Búðardalsá fiskgenga hefur tekist og Veiðimálanefnd hefur viðurkennt stofnkostnað að upphæð kr. 9.5 milljónir, en telur þó að fjármagnskostnaður geti verð orðinn einar 12 milljón krónur, þar sem vextir og ræktunarkostnaður er ekki með í útreikningum.

Vegna þess hve stutt er um liðið síðan að fiskur fór að ganga um ána, þá hefur engin arðskrá verið samin og ekkert uppgjör vegna stofnframkvæmda verið gert.

Matsnefndin álítur að fresta beri mati á laxveiðihlunnindum, þar til þessi mál liggi ljósara fyrir og metur því ekki þenna þátt málsins."

Nú hefur Svavar Magnússon, bóndi sent Matsnefnd eignarnámsbóta svohljóðandi beiðni dags. 22. janúar 1985.

"Ég undirritaður, Svavar Magnússon bóndi í Búðardal I, Skarðshrepp, Dalasýslu, óska hér með eftir því að sá hluti ábýlisjarðar minnar (hluti Búðardalsár), sem undanskilinn var þegar jörðin var metin til kaupverðs, verði metinn af eignarnámsnefnd á grundvelli gildandi laga um eignarnám. Það er fullreynt af minni hálfu að engir samningar geta átt sér stað varðandi kaup mín á hluta árinnar, verður því að fara þessa leið og vil ég óska eindregið eftir því að máli þessu verði hraðað svo sem kostur er."

Matsþolar, Sigurborg og Ragnheiður Karlsdætur, komu á fund nefndarinnar 8. maí 1985 og lýstu þær því yfir, að ekki væri að vænta samkomulags í málinu og ekki um annað að ræða, en Matsnefndin úrskurði í því.

Samkvæmt upplýsingum Veiðimálastofnunar hefur laxveiði í Búðardalsá verið sem hér segir á eftirgreindum árum:

Ár:   1978   1979   1980   1981   1982   1983   1984
tala laxa   100   120   131   71   54   71   34

eða samtals 581 laxar veiddir á stöng á ofangreindu tímabili, sem gerir um 83 laxa meðalveiði á ári. Umræddar tölur eru fengnar úr veiðiskýrslum frá Veiðifélagi Búðardalsár. Samkvæmt yfirliti Veiðimálastofnunar yfir laxveiði í ám landsins á árinu 1984 reyndist meðalþungi veiddra laxa í Búðardalsá 8.6 pd (4.3 kg).

Af ofangreindu yfirliti sést að um litlar sveiflur er að ræða í veiðinni fyrstu 3 árin, en hún minnkar áberandi 1981 og síðar miðað við fyrri ár.

Í framlögðum gögnum málsins kemur fram, að um Búðardalsá stofna jarðeigendur veiðifélag þann 27.5.1972. Síðan er veiðiréttur vatnasvæðis félagsins leigður Búð h/f, Skarðströnd, til 10 ára, gildandi frá og með byrjun veiðitímans 1973.

Sem endurgjald fyrir veiðiréttinn á ofangreindu tímabili samdist um að leigutaki tæki að sér að gera fiskvegi (laxastiga) í tveimur fossum árinnar, sem hindruðu eðlilega fiskgöngu um hana. Sömuleiðis var samið um að leigutaki setti ótiltekinn fjölda seiða í ána til ræktunar samkvæmt mati Veiðimálastjóra.

Af framlögðum gögnum verður ekki annað séð en að framkvæmdir þær, sem samið var um, hafi verið frágengnar á leigutímabilinu.

Á aðalfundi Veiðifélags Búðardalsár þann 22. ágúst 1982 er lögð fram tillaga að arðskiptingu árinnar. Hlaut arðskráin fundarsamþykki með gildi í 3 ár frá og með 1. janúar 1983.

Eins hlaut arðskráin meðmæli Veiðimálanefndar og Veiðimálastjóra, eins og fram kemur í bréfi téðrar nefndar til landbúnaðarráðuneytisins vegna staðfestingar hennar.

Fyrsta leiga Veiðifélags Búðardalsár gegn peningagreiðslum hefst vorið 1983, að loknu áðurnefndu 10 ára stofnframkvæmdatímabili. Þá gengur Búð h/f inn í hæsta tilboð sem veiðifélaginu hafði borist, samkvæmt forgangsréttarákvæði í leigusamningi við Veiðifélag Búðardalsár frá 1972. Tilboðið hljóðaði upp á kr. 111.700.- til viðbótar ætlaði Búð h/f að verja allt að 30.000 kr. til seiðakaupa. Samningurinn gilti í 1 ár.

Þann 1.6.1984 gerir Veiðifélag Búðardalsár nýjan samning við Búð h/f um leigu á veiðiréttindum árinnar. Var nú samið fyrir 5 ára tímabil (1984 - 1988). Greiðsla hljóðaði upp á kr. 250.000.- fyrir allt tímabilið. Til viðbótar skuldbatt leigutaki sig til að verja kr. 50.000.- til seiðakaupa ár hvert. Sömuleiðis var ákvæði um að leigutaki notaði kr. 50.000.- til aukaseiðakaupa einhvern tímann á leigutímabilinu. Báðar fyrri greiðslurnar voru bundnar lánskjaravísitölu eins og hún reiknast í janúar ár hvert, en í leigusamningi er hún tilgreind 846 stig í janúar 1984. Kveðið er á um að árleg leiga greiðist með þremur jöfnum greiðslum ár hvert: 1. maí, 1. júlí og 1. september. Samkomulag varð einnig um að leigutaki og leigusali réðu sér eftirlitsmann með ánni og greiddu til helminga þann kostnað.

Á mskj. nr. 7 er skráð veiði fyrir landi jarðanna Búðardals I og II á tímabilinu 1980 - 1984. Er hún sem hér greinir:

Ár:   1980   1981   1982   1983   1984
veiddir laxar   19   8   7      3

% af heildarveiði
í Búðardalsá:   14.5   11.27   12.96      8.82

Eins og fram kemur eru engar upplýsingar um veiðina fyrir Búðardalsjörðunum árið 1983. Að öðru leyti leynir það sér ekki, að veiðin í ánni á svæði Búðardalsjarða er mjög dræm og bendir til þess að tilraunir til ræktunar með seiðasleppingu hafi ekki skilað árangri varðandi veiði. Annað sem vekur athygli ef skoðuð er veiðiskýrsla Búðardalsár fyrir árið 1984, sem Matsnefnd hefur undir höndum er, að þeir fáu laxar sem veiddust fyrir Búðardalslandi eru í flokki þeirra þyngstu sem fengust í ánni. Spurning getur því verið hvort smærri fiskur kunni hugsanlega að eiga erfitt með uppgöngu í Búðardalshluta árinnar.

Samkvæmt gildandi arðskrá er arðskipting jarðanna að Búðardalsá í hundraðshlutum sem hér greinir:

      Tindar   28%
      Búðardalur   22%
      Hvarfsdalur   7%
      Barmur   3%
      Hvalgrafir   40%
      alls   100%

Í samræmi við ofanskráð hlutföll koma að meðaltali á ári í hlut Búðardals I, samkvæmt núgildandi veiðileigusamningi, kr. 12.100 í leigutekjur sem framreiknaðar eftir lánskjaravísitölu 1006 í janúar 1985 gera kr. 14.388 fyrir árið 1985. Hlutur Sigurborgar Karlsdóttur og Ragnheiðar Karlsdóttur á árinu mun því verða kr. 8.633.- og hlutur Svavars Magnússonar kr. 5.755.- eða 3/5 hlutar á móti 2/5 hl. leiguteknanna. Til frádráttar þessum upphæðum kemur hlutdeild í kostnaði við eftirlitsmann með veiðinni, samkvæmt því samkomulagi sem kveðið er á um í samningi leigusala og leigutaka.

Útilokað er að segja til um hverjar muni veiðilíkur Búðardalsár á næstu árum, en sé litið á daufan og þverrandi afrakstur áranna 1981 - 1984 þá sýnist heldur vafasamt að myndast geti aukið svigrúm um tekjuöflun frekar en nú er með leigu á ánni nema því aðeins að ræktunin glæðist.

Með hliðsjón af því, sem rakið er hér að framan þykja hæfilegar bætur fyrir veiðiréttindi þeirra Sigurborgar og Ragnheiðar Karlsdætra vera metnar kr. 95.000.- og er þá miðað við staðgreiðslu.

Rétt þykir skv. 11. gr. laga nr. 11/1973, að matsbeiðandi greiði til ríkissjóðs kostnað af starfi Matsnefndarinnar kr. 8000.-.

Úrskurð þenna hafa kveðið upp þeir Egill Sigurgeirsson hrl, formaður nefndarinnar og matsmennirnir Björn Bjarnarson, ráðunautur og Óli Valur Hansson, ráðunautur, sem formaður hefur kvatt til meðferðar þessa máls skv. 2. gr. laga nr. 11/1973.

M a t s o r ð :

Matsbeiðandi, Svavar Magnússon bóndi, Búðardal I, Skarðshreppi, Dalasýslu greiði matsþolum Sigurborgu Karlsdóttur og Ragnheiði Karlsdóttur kr. 95.000.00.

Matsbeiðandi greiði til ríkissjóðs kostnað af starfi Matsnefndarinnar kr. 8.000.00.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum