Hoppa yfir valmynd
30. desember 1997 Matvælaráðuneytið

Yfirmatsgerð á arðskrá fyrir Veiðifélag Laxdæla


YFIRMATSMENN


samkvæmt lögum um


lax- og silungsveiði nr. 76/1970



YFIRMATSGERÐ


á arðskrá fyrir Veiðifélag Laxdæla



I.


Undirmat. Beiðni um yfirmat


Hinn 7. maí 1996 luku þeir Gísli Kjartansson héraðsdómslögmaður og Haukur Sveinbjörnsson bóndi á Snorrastöðum mati á arðskrá fyrir Veiðifélag Laxdæla. Höfðu þeir verið dómkvaddir til starfans af Héraðsdómi Vesturlands 19. mars 1992.


Þessu arðskrármati hafa nokkrir eigendur veiðiréttar í Laxá í Dölum skotið til yfirmats. Rituðu umboðsmenn eigenda jarðanna Saura, Áss, Sauðhúsa og Hrappsstaða sýslumanninum í Búðardal bréf þessa efnis 17. júlí 1996, sem hann kom á framfæri við yfirmatsmenn samkvæmt lögum um lax- og silungsveiði nr. 76/1970. Hefur ekki verið vefengt að erindið sé nægilega snemma fram komið.


II.


Upphaf matsstarfa. Vettvangsganga.


Nokkrir veiðiréttareigendur lýsa sjónarmiðum sínum


Að ósk yfirmatsmanna boðaði stjórn Veiðifélags Laxdæla eigendur veiðiréttar til fundar með yfirmatsmönnum 24. október 1996 í veiðihúsinu Þrándargili. Eigendur eða umboðsmenn eigenda nokkurra jarða komu til fundarins, þar sem kynnt var starfstilhögun yfirmatsmanna. Var fundarmönnum gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum og athugasemdum vegna undirmats og væntanlegs yfirmats. Jafnframt var því beint til þeirra að senda yfirmatsmönnum skriflegar greinargerðir, ef þeir vildu kynna sjónarmið sín nánar. Skyldu þær hafa borist 15. janúar 1997.


Að loknum fundi og viðtölum voru kannaðar aðstæður við Laxá í Dölum. Var það gert með þeim hætti, að leiðsögumenn úr stjórn veiðifélagsins fylgdu yfirmatsmönnum um svæðið frá árósum og upp fyrir Sólheimafoss. Umboðsmenn eða eigendur veiðiréttar eftirgreindra jarða lýstu viðhorfum sínum til skiptingar arðskrár í viðtölum við yfirmatsmenn að loknum fundi eða við vettvangsgöngu: Áss, Fjósa, Sauðhúsa, Hjarðarholts, Hrappsstaða, Gillastaða, Sámsstaða, Engihlíðar og Hamra.


Á fundinum og í framhaldi af honum hafa yfirmatsmönnum borist minnisblöð eða greinargerðir frá talsmönnum eftirgreindra jarða: Fjósa, Leiðólfsstaða, Hamra og sameiginleg greinargerð talsmanna Sauðhúsa, Saura, Hrappsstaða, Áss og Fjósa.


Eftir þetta hefur verið leitað margs konar upplýsinga hjá stjórn veiðifélagsins. Þá hafa í lok árs 1996 og fyrri hluta árs 1997 verið gerðar mælingar á bakkalengd, sbr. síðar. Þá fóru yfirmatsmenn aftur á vettvang 6. ágúst 1997 í fylgd eins stjórnarmanns í veiðifélaginu. Var tilefnið í senn það að skoða nánar en kostur var í fyrri ferð hliðarár Laxár, en einkum þó að kanna aðstæður við árósinn í tilefni nýrrar mælingar á bakkalengd þar.


III.


Um Veiðifélag Laxdæla


Félagið heitir Veiðifélag Laxdæla og starfar samkvæmt samþykkt nr. 50/1973, sem staðfest var af landbúnaðarráðherra 12. febrúar 1973. Kom hún í stað eldri samþykktar fyrir Fiskræktar- og veiðifélag Laxdæla nr. 17/1936.


Í 2. gr. samþykktarinnar er lýst markmiðum félagsins, en meðal þeirra er að gera leigusamning fyrir Laxá eða annast rekstur hennar. Samkvæmt 3. gr. hefur félagið umráð yfir rétti til lax- og silungsveiði á göngufiski á vatnasvæði Laxár. Samkvæmt sömu grein eiga eftirtaldar jarðir aðild að félaginu: Fjósar, Hrappsstaðir, Hjarðarholt, Spágilsstaðir, Goddastaðir, Lambastaðir, Gillastaðir I-II, Sámsstaðir I, II og III, Hamrar, Svalhöfði, Sólheimar I-II, Pálssel, Dönustaðir og Lambeyrar, Gröf, Svarfhóll og Engihlíð, Þrándargil, Leiðólfsstaðir, Hornsstaðir, Höskuldsstaðir, Sauðhús, Saurar og Ás. Tekið er fram að jarðirnar séu 28 talsins. Í nokkrum tilvikum munu veiðihlunnindi vera sameiginleg með tveimur eða fleiri þessara jarða. Verða þau þá metin í einu lagi, svo sem áður hefur verið gert.


Í 8. gr. samþykktarinnar er svofellt ákvæði: "Arði af sameiginlegri veiði og öðrum tekjum, svo og öllum gjöldum er af starfsemi félagsins leiðir skal skipt niður á félagsmenn samkv. arð- og gjaldskrá, sem lögmætur fundur samþykkir og undirrituð er samkvæmt lögum um lax- og silungsveiði á hverjum tíma."


Um langt skeið hefur gilt arðskrá fyrir Veiðifélag Laxdæla frá 1970, sem byggðist á samkomulagi veiðiréttareigenda sjálfra. Kom hún í stað arðskrár samkvæmt ákvörðun yfirmatsmanna frá 1962. Þar áður gilti arðskrá samkvæmt ákvörðun undirmatsmanna frá 1952.


IV.


Rekstur árinnar. Leigusamningur um veiði


Á tímabilinu 1983 til 1996 (bæði ár meðtalin) annaðist veiðifélagið sjálft sölu veiðileyfa og rekstur árinnar að öðru leyti. Áður hafði veiðin verið leigð útlendingum með leigusamningi um nokkurra ára skeið.


Árið 1996 var áin boðin út í einu lagi og í kjölfar þess gerður leigusamningur um alla ána. Gildir hann fyrir árin 1997 - 1999 að báðum meðtöldum. Ársleiga er 13.500.000 krónur. Er helmingur endurgjaldsins vegna áranna 1998 og 1999 verðtryggður miðað við þá breytingu, sem kann að verða á kaupgengi bandaríkjadollars frá 10. apríl 1997. Þá skulu samningsaðilar greiða ýmsan kostnað að jöfnu, svo sem gerð og viðhald vega við ána, gufubaðstofu við veiðihús og kostnað við að lagfæra veiðistaði og gera nýja. Leigusali annast og kostar seiðasleppingar, hreinsun fiskvegar og veiðivörslu.


Alls er leyft að veiða með sex stöngum í einu í Laxá í Dölum.


V.


Gögn til afnota við matsstörf


Yfirmatsmenn hafa fengið eftirtalin gögn til afnota við matsstörfin:


1. Beiðni um yfirmat (áður getið)


2. Arðskrármat undirmatsmanna 7. maí 1996.


3. Veiðikort fyrir Laxá í Dölum.


4. Samþykkt Veiðifélags Laxdæla (áður getið)




  1. Handritað blað um landlengd einstakra jarða að veiðivatni, ódagsett ( frá 1951, sjá síðar)




6. Bréf Friðriks Jónssonar héraðsráðunautar 17. desember 1996 til yfirmatsmanna með niðurstöðum mælinga á landlengd sex hliðaráa Laxár í Dölum og við árós.


7. Bréf sama til yfirmatsmanna 20. mars 1997. Skýring á mælingu í desember 1996 við árós.


8. Bréf Svavars Jenssonar, Hrappsstöðum, 21. desember 1996 með frekari upplýsingum um nýja mælingu á landlengd við árós.


9. Leigusamningur um Laxá í Dölum, október 1996 (áður getið)


10. Jón Kristjánsson og Þórir Dan Jónsson: "Mat á uppeldissvæðum í Laxá í Dölum 1992". Október 1992.


11. Veiðimálastofnun: Ýmsar rannsóknarskýrslur og gögn frá árunum 1979-1992


12. Ódagsett yfirlit frá Veiðifélagi Laxdæla um veiði í Laxá í Dölum árin 1982-1996 (bæði meðtalin). Sýnir skiptingu á einstaka veiðistaði.


13. Yfirlit 12. janúar 1997 um breytingar á arðskrármati hjá fimm jörðum við neðsta hluta Laxár 1941-1996.


14. Greinargerðir og minnisblöð nokkurra veiðiréttareigenda til yfirmatsmanna (getið í kafla II að framan).


15. Greinargerðir eigenda eða talsmanna Hamra, Áss og Saura til undirmatsmanna.


16. Krafa talsmanns eigenda Dönustaða, Hamra, Sámsstaða og Svalhöfða um mælingu á laxgengum hluta þriggja hliðaráa 18. nóvember 1996.




  1. Nokkrar fundargerðir Veiðifélags Laxdæla frá fyrri árum.



  2. Ósamþykkt tillaga um arðskrá, lögð fyrir fund 11. maí 1991.



  3. Bréf Veiðifélags Laxdæla 10. maí 1997 varðandi veiðibækur og nokkra veiðistaði í Laxá, sem veiðifélagið hefur kostað lagfæringu á.



  4. Bréf yfirmatsmanna til talsmanns Áss/Saura 28. nóvember 1997 vegna mælingar við ós.



  5. Bréf yfirmatsmanna til talsmanns Fjósa 28. nóvember 1997 vegna mælingar við ós. Ódagsett.



  6. Svar talsmanns Áss/Saura vegna mælinga, ódagsett.



  7. Veiðibók 1997.



  8. Svarbréf Veiðifélags Laxdæla, 18. desember 1997, vegna fyrirspurnar yfirmatsmanna um mælingu á landlengd 1951.


VI.


Mælingar á landlengd


Meðal gagna málsins er handritað blað, sem hefur að geyma upplýsingar um bakkalengd einstakra jarða að Laxá. Er sú mæling, sem þar er byggt á, gerð af Jens Guðbrandssyni árið 1951. Munu undirmatsmenn hafa lagt það til grundvallar. Að ósk veiðiréttareigenda verður svo einnig gert nú, sbr. þó það, sem síðar greinir, um landlengd við árósinn.


Eftir fyrri vettvangsgöngu yfirmatsmanna kom fram ósk talsmanns eigenda fjögurra jarða við efri hluta Laxár til veiðifélagsins um að mældur yrði laxgengur hluti þriggja hliðaráa, þ.e. Sámsstaðaár, Hólmavatnsár og Hólkotsár. Af því tilefni mældi Friðrik Jónsson, héraðsráðunautur nefndar ár eða læki. Í samræmi við óskir annarra mældi hann að auki þrjá aðra læki, þ.e. Bæjargil, Arnargil og Þrándargil. Loks mældi hann landlengd við ós Laxár að sunnanverðu. Er skýrsla hans til yfirmatsmanna um framangreindar mælingar dagsett 17. desember 1996. Með bréfi 20. mars 1997 skýrði hann nánar mælinguna við árósinn.


VII.


Sjónarmið nokkurra eigenda veiðiréttar.


Áður er þess getið, að nokkrir eigendur veiðiréttar hafi komið sjónarmiðum sínum á framfæri við yfirmatsmenn, ýmist munnlega eða skriflega. Hér á eftir verður þeim lýst í höfuðatriðum.


Saurar, Ás, Fjós, Sauðhús og Hrappsstaðir:


Eigendur og talsmenn eigenda þessara fimm neðstu jarða við ána hafa í flestum greinum haft samstöðu um sjónarmið gagnvart yfirmatsmönnum, en sameiginleg beiðni um yfirmat er komin frá fjórum þeirra. Sameiginleg greinargerð þeirra allra var lögð fyrir yfirmatsmenn. Þá hafa yfirmatsmenn fengið í hendur yfirlitsblað dags. 12. janúar 1997, sem talsmenn jarðanna telja að sýni hvernig hlutdeild þeirra í arðskrá hafi lækkað jafnt og þétt frá 1941-1996.


Í greinargerð eigenda jarðanna fimm er í upphafi vísað til greinargerðar eigenda Áss og Saura til undirmatsmanna 3. maí 1996 varðandi áhrif þess að gerður var fiskvegur neðst í ánni árið 1965 úr Matarpolli upp í Papa. Áður hafði veiði verið bönnuð neðan Papa, en vegna náttúrulegra hindrana í ánni safnaðist lax oft fyrir í Matarpolli. Þegar hann komst síðan upp fyrir þessar hindranir hvíldist hann gjarnan í Papa og Brúarstreng og veiddist oft vel þar. Hafi þessir tveir veiðistaðir stundum gefið um 60% af heildarveiði í ánni. Eftir framkvæmdirnar 1965 hafi fiskur gengið hindrunarlaust upp ána. Veiði í Papa og Brúarstreng hafi eftir þetta verið um 5-10% af heildarveiðinni. Hluti jarðanna tveggja í arðskrá hafi lækkað strax árið 1970. Telja þeir að fiskvegurinn hafi í reynd orðið á kostnað landeigenda að veiðistöðunum tveim, þ.e. Áss og Saura að sunnan og Fjósa að norðan. Þá hafi veiði verið leyfð að nýju í Matarpolli árið 1970, en veiði þar hafi minnkað síðari ár vegna framburðar, sem í hann sest úr árlegum uppmokstri úr nefndum fiskvegi. Við framkvæmdirnar 1965 hafi veiðihús einnig verið flutt frá Papa að Þrándargili, sem án vafa hafi einnig haft áhrif á veiðina neðst í ánni. Er þess krafist að tekið verði nú tillit til þeirra miklu breytinga, sem þarna urðu við gerð fiskvegar úr Matarpolli. Segir jafnframt, að svo virðist sem flestar aðgerðir til að auka heildarveiði í ánni hafi að langmestu leyti verið á kostnað landeigenda neðst við ána. Loks er bent á að við gerð arðskrár 1970 hafi verið reiknað með 500 metra friðunarsvæði við árósinn, sem sé nú 1.500 metrar samkvæmt lögum.


Tekið er fram, að við gerð arðskrár mætti taka tillit til þess hvernig veiði á einstökum veiðistöðum dreifist yfir sumarið þótt það sé sjaldan gert í reynd. Í ljós hafi komið, að veiðin sé mjög jöfn allt sumarið t.d. í veiðistaðnum Þegjanda (milli Hrappsstaða og Sauðhúsa) og sé veiði þar allt sumarið í svipuðu hlutfalli og heildarveiði í ánni. Þar komi einnig ávallt upp jafn stærstu fiskarnir.


Í sameiginlegri greinargerð eigenda þessara jarða er þess ennfremur getið að sú breyting hafi verið gerð nú með undirmati, að vægi landlengdar hafi verið aukið og gildi það jafnt og veiði. Hafi þetta verið gert án tillits til þess hvernig uppeldisskilyrði séu fyrir viðkomandi landi. Leiði þetta til þess að hlutur þessara fimm jarða lækki enn miðað við yfirmat 1962.


Áður er getið um talsmenn þessara jarða, sem skýrt hafa framangreind sjónarmið nánar í viðræðum við yfirmatsmenn.


Hjarðarholt:


Eigandi jarðarinnar vakti athygli á því að veiðimannavegur væri nýkominn að veiðistað fyrir landi jarðarinnar. Sókn veiðimanna í hann hafi af þeim sökum verið lítil áður, en sóknarþungi hafi aukist merkjanlega eftir það. Miklu hljóti að skipta að aðstaða sé sköpuð til að stunda einstaka veiðistaði.


Leiðólfsstaðir:


Í greinargerð eiganda jarðarinnar til yfirmatsmanna er hlutur hennar í arðskrá samkvæmt undirmati talinn of lítill. Er það einkum á því reist, að telja beri jörðinni fjórðung alls afla úr Kristnipolli, þ.e. helming á móti Þrándargili að sunnanverðu, en samkvæmt gömlum munnmælaheimildum eigi Leiðólfsstaðir þennan rétt á móti Þrándargili. Er bent á heimildarmann, sem geti staðfest þetta. Fullvíst megi hins vegar telja, að í undirmati sé hlutur jarðarinnar í þessari veiði lítill eða enginn.


Engihlíð/Svarfhóll:


Talsmaður jarðanna fylgdi yfirmatsmönnum á ferð þeirra um hluta af ofanverðu veiðisvæðinu og benti á veiðistaði.


Gillastaðir:


Eigandi jarðarinnar fór yfir veiðistaði með yfirmatsmönnum. Taldi hann gott aðgengi að veiðistöðum mikilvægt fyrir veiðiréttareigendur. Væru dæmi þess að menn settu upp ristarhlið á eigin kostnað á veiðimannavegi til að bæta þar úr.


Sámsstaðir I, II og III:


Sama athugasemd og getið er við Engihlíð/Svarfhól.


Hamrar:


Í greinargerð til undirmatsmanna er lögð þung áhersla á að landlengd skuli hafa a.m.k. 50% vægi við matið, enda sé það í raun eini áþreifanlegi mælikvarðinn af þeim atriðum, sem lögbundið sé að taka skuli tillit til við arðskrárgerð.


Þá er bent á að góð hrygningarskilyrði séu í Hamrafljóti, enda hrygni lax þar í nokkrum mæli. Ennfremur hafi seiðum verið sleppt síðustu ár í Hólmavatnsá, sem tilheyri Hömrum að hálfu, svo og í vötn á jörðinni.


Þess er getið að Laxá sé mjög viðkvæm hvað vatnsmagn varðar. Meginhluti þess vatns, sem myndi ána, komi frá Hömrum og nokkrum öðrum jörðum efst á vatnasvæði Laxár. Er rakið að jörðin Hamrar sé mikilvæg fyrir vatnsbúskap árinnar af mörgum ástæðum. Er lögð áhersla á að tekið verði tillit til vatnsframlags hennar.


Því er loks haldið fram, að við mat á arði hljóti talning lax úr ánni eðli sínu samkvæmt að vera afar ónákvæm, m.a. vegna þess að upplýsingar um veiðistaði séu nánast eingöngu reistar á frásögn veiðimanna. Sé því órökrétt að láta veiði vega þungt við niðurjöfnun arðs. Að auki hafi aðstaða til veiði á sumum stöðum verið bætt á kostnað veiðifélagsins.


Í greinargerð til yfirmatsmanna eru fyrri sjónarmið áréttuð og einkum um það atriði, sem síðast greindi. Er ekki talið sanngjarnt að eigendum veiðiréttar sé mismunað með þeim hætti að taka tillit til aukinnar veiði, þar sem veiðiaðstaðan hafi verið kostuð af veiðifélaginu sjálfu. Væri eðlilegra að aukinni veiði, sem af slíku hljótist, sé deilt milli jarðanna með sanngjörnum hætti.


Þess er loks farið á leit að tekið verði tillit til nýrra mælinga á landlengd hins laxgenga hluta Sámsstaðaár og Hólmavatnsár.


Við vettvangsgöngu yfirmatsmanna var þessum sjónarmiðum fylgt eftir af eiganda Sámsstaða, sem kom jafnframt fram sem talsmaður eigenda Hamra.


VIII.


Skipting Arðs. Almennt.


Í 1. mgr. 50. gr. laga nr. 76/1970 er að finna ákvæði um ákvörðun veiði eða arðs af veiði, sem koma skal í hlut hverrar jarðar eða jarðarhluta, sem veiðiréttur fylgir í vatni á félagssvæðinu. Þar segir: "Við niðurjöfnun veiði eða arðs af henni skal m.a. taka tillit til aðstöðu við netjaveiði og stangarveiði, landlengdar að veiðivatni, til hrygningarskilyrða og uppeldisskilyrða fisks."


Samkvæmt 8. gr. samþykktar fyrir Veiðifélag Laxdæla skal arði af sameiginlegri veiði og öðrum tekjum, svo og öllum gjöldum, sem af starfsemi félagsins leiðir, skipt niður á félagsmenn samkvæmt arðskrá. Í síðustu arðskrá hefur arði verið skipt í einingar miðað við að heildarfjöldi þeirra sé 1000. Verður sá háttur einnig hafður á nú. Hér á eftir fara niðurstöður yfirmatsmanna um, hvernig einingar skiptast milli einstakra þátta, svo sem í framangreindri lagagrein getur.


IX.


Landlengd.


Í VI. kafla að framan er getið um mælingu á landlengd að Laxá (án hliðaráa), sem gerð var á árinu 1951. Kemur þar fram lengd bakka árinnar fyrir landi hverrar jarðar.


Ekki hafa komið fram athugasemdir gagnvart yfirmatsmönnum um réttmæti mælingarinnar, og verður hún lögð til grundvallar eins og hún liggur fyrir að því er varðar hinn laxgenga hluta árinnar frá óslínu að Sólheimafossi, sbr. þó hér á eftir um mælingu utan óss. Þess ber þó að geta, að samkvæmt mælingunni er heildarlengd suðurbakka árinnar 500 metrum umfram norðurbakkann. Yfirmatsmenn beindu af þessu tilefni fyrirspurn til stjórnar veiðifélagsins í desember 1997. Svar barst 18. sama mánaðar frá stjórn veiðifélagsins þar sem fram kemur að mæling hafi verið gerð sama dag á landlengd Fjósa. Sé hún 2520 metrar frá óslínu að merkjum við Hrappsstaði. Með þessu er fram komin skýring á áðurnefndri skekkju og er hin nýja mæling lögð til grundvallar.


Landlengd Áss/Saura er samkvæmt mælingunni 1870 metrar. Sú vegalengd mun vera þannig fundin, að 1370 metrar telst vera mæld landlengd frá landamerkjum við Sauðhús vestur að óslínu í sjó. Því til viðbótar koma 500 metrar, sem svara til vegalengdar frá óslínu að ytri mörkum friðunarsvæðis, eins og stærð þess var áður mótuð með lögum. Yfirmatsmenn telja, að hvorki í þessu tilviki né endranær séu rök til þess að viðurkenna jörð bakkalengd, sem svari til stærðar friðunarsvæðis utan óslínu. Samkvæmt því verða 500 metrar dregnir frá mældri landlengd. Á það jafnt við um Ás/Saura sem Fjós, sem á land að ósnum handan árinnar. Almennt ber hins vegar að bæta veiðitjón vegna friðunarsvæðis í sjó. Það á hins vegar ekki við eins og hér háttar til, enda er ekkert fram komið um sérstök veiðihlunnindi í sjó utan ósasvæðisins.


Niðurstaða yfirmatsmanna er sú, að hæfilegt sé að 340 einingar skuli skiptast milli veiðiréttareigenda í samræmi við landlengd að Laxá frá óslínu í sjó að Sólheimafossi. Við skiptingu þessara eininga verður svæðinu frá Sólheimafossi að Laxárvatni nú engar einingar gefnar. Svæðið er ólaxgengt og ekki hefur komið fram að ráðgerðar séu neinar framkvæmdir til að breyta því ástandi. Hins vegar er seiðum sleppt þar og verður tekið tillit til þess, sbr. XIII. kafla hér á eftir.


Um landlengd að hliðarám vísast til XII. kafla matsgerðarinnar.


X


Aðstaða til stangarveiði


Að framan er í IV. kafla getið um leigusamning frá síðasta ári um Laxá, og hvernig tilhögun veiða var fyrir og eftir 1983. Í V. kafla eru taldar upp skýrslur, sem liggja fyrir yfirmatsmönnum um veiði á laxi 1982-1997 að báðum árum meðtöldum. Hafa samkvæmt því veiðst samtals 17.818 laxar á þessu tímabili. Veiðibók, sem ekki fannst við undirmat vegna veiði sumarið 1994 er komin í leitirnar. Við yfirmat nú verður höfð hliðsjón af veiði allt ofangreint tímabil.


Það sjónarmið hefur komið fram, að ekki eigi að taka mið af afla, sem fengist hafi á veiðistöðum, sem gerðir hafa verið á kostnað veiðifélagsins. A.m.k. eigi viðkomandi veiðiréttareigandi ekki að njóta arðsins af þessu í ótilgreindan fjölda ára eftir að kostnaðurinn fellur til. Hefur sérstaklega verið bent á Hornstaðastreng sem dæmi þessa, en fleiri veiðistaðir hafa verið nefndir til sögunnar.


Þótt þetta sjónarmið styðjist við viss rök eru þungvæg mótrök einnig fyrir hendi. Engin gögn hafa verið lögð fram, sem sýni hve há fjárframlög veiðifélagins hafi verið vegna framkvæmda á tilteknum stöðum og nýst hafa viðkomandi veiðiréttareiganda einum. Slík framlög geta verið vegna margs konar aðgerða, s.s. að útbúinn er nýr veiðistaður, gamall veiðistaður lagfærður, gerður er eða lagfærður veiðimannavegur að tilteknum stað o.s.frv. Er ókleift að gera mun á því í hverju sú framkvæmd felst, sem kostuð er af veiðifélagi og nýtist aðeins eiganda (eigendum) tiltekins veiðistaðar vegna aukinnar veiði þar. Ekki fæst heldur séð hvernig skyldi ákveða að hvaða marki megi rekja veiði á staðnum til framkvæmdanna, hafi þar verið veiðistaður áður. Þá liggur heldur ekki fyrir með vissu hvenær slík framlög veiðifélagsins hafa fallið til, sem skiptir þó máli ef eigandi veiðistaðarins á ekki að njóta óskerts arðs af honum fyrr en að liðum einhverjum árum þaðan í frá. Að öllu þessu virtu verða eigendur einstakra jarða í Veiðifélagi Laxdæla látnir njóta arðs af öllum þeim afla, sem fengist hefur fyrir þeirra landi á framangreindu tímabili 1982-1997. Hafa yfirmatsmenn skipt afla milli jarða eftir uppgefnum veiðistöðum.


Ágreiningur hefur reynst vera um einn veiðistað, þ.e. Kristnipoll, sbr. áður. Yfirmatsmenn hafa sérstaklega kannað aðstæður þar, m.a. í fylgd staðkunnugra. Ekki hefur komið fram að landamerki séu umdeild milli Leiðólfsstaða og Þrándargils á þessum stað. Að athuguðu máli leggja yfirmatsmenn til grundvallar niðurstöðu, að veiðistaðurinn sé að meiri hluta innan Þrándargils, en jafnframt að fiskur geti tekið agn í einhverjum tilvikum neðan landamerkjalínu, þar sem hún liggur yfir ána. Verða Leiðólfsstaðir látnir njóta arðs af veiði úr Kristnipolli vegna suðurbakka árinnar að 15% á móti 85% Þrándargils. Vísun til forns réttar Leiðólfsstaða um annað og meira krefst sönnunarfærslu á öðrum vettvangi en fyrir yfirmatsmönnum, en ljóst er að valdsvið þeirra nær ekki til þess að úrskurða um hvort sönnur hafi verið færðar á staðhæfingu um tilvist fornrar venju, sbr. einkum 1. mgr. 95. gr. laga nr. 76/1970.


Yfirmatsmenn telja hæfilegt að 450 einingar komi til úthlutunar vegna stangarveiði á öllu félagssvæðinu. Við þá úthlutun eru ekki efni til að taka tillit til þess sjónarmiðs, sem hreyft hefur verið, að veiði neðst í ánni, t.d. í veiðistaðnum Þegjanda fái sérstakt vægi fyrir það að veiði þar sé jöfn allt sumarið. Fiskur gengur tiltölulega hratt fram ána án hindrana og dreifist fljótt. Verður ekki gerður munur á einstökum veiðistöðum eða á efri eða neðri hluta árinnar að þessu leyti.


XI.


Uppeldis- og hrygningarskilyrði


Í V. kafla að framan er getið gagna um uppeldis- og hrygningarskilyrði, sem fyrir yfirmatsmönnum liggja. Ber þar einkum að nefna skýrslu tveggja fiskifræðinga frá 1992, sbr. lið nr. 10 í upptalningu gagna í V. kafla að framan.


Í skýrslunni skipta fiskifræðingarnir ánni eftir uppeldisskilyrðum seiða frá ósi að Sólheimafossi. Er einstökum köflum hennar gefið vægi á mælikvarða frá 1-5 , þar sem lökustu skilyrðin fá lægstu töluna, en hin betri hærri. Er ánni með þessum hætti skipt í 31 svæði, sem merkt eru inn á kort, sem eru hluti skýrslunnar. Stærstur hluti árinnar fær einkunn 1-3, en einungis 10,8% af lengd hennar fær einkunnina 4 eða 5.


Fram kemur það álit fiskifræðinganna, að hliðarár geti haft ágæt skilyrði til uppeldis seiða, þótt mjóar séu. Gildi lækja, sem ekkert veiðist í en eru seiðagengir, hafi hingað til verið vanmetið að þessu leyti. Er sett fram sú skoðun, að úr því þurfi að bæta. Ekki fæst hins vegar séð af skýrslunni, að skipting höfundanna með tilliti til uppeldisskilyrða nái til annars en Laxár sjálfrar.


Yfirmatsmenn telja hæfilegt að 140 einingar komi til úthlutunar vegna þessa þáttar. Er ljóst að skilyrði eru afar misjöfn eftir því til hvaða svæða í ánni er litið. Skipting þessara eininga tekur mið af því á grundvelli áðurnefndrar skýrslu, en veiðiréttareigendur hafa ekki hreyft neinum athugasemdum við hana gagnvart yfirmatsmönnum við meðferð málsins. Athygli skal þó vakin á, að samanlagðri landlengd í skýrslunni ber ekki saman við mælda bakkalengd, en hér er gert ráð fyrir að skekkjan sé alls staðar jöfn.


Skýrslan tekur hins vegar einungis til uppeldisskilyrða seiða. Verður ráðið af skýrslunni, að hvarvetna séu næg hrygningarskilyrði og hvergi takmarkanir að því leyti. Verða hrygningarskilyrði því talin jöfn alls staðar í ánni, enda ekki við haldbær gögn að styðjast um annað. Um uppeldis- og hrygningarskilyrði í hliðarám vísast til næsta kafla hér á eftir.


XII.


Hliðarár


Við meðferð málsins kom fram krafa um að tilteknar hliðarár yrðu mældar. Um það vísast til VI. kafla að framan. Niðurstöður mælinga á sex hliðarám eða lækjum liggja fyrir yfirmatsmönnum, sbr. upptalningu þeirra, sem áður er fram komin.


Við skiptingu arðskrár telja yfirmatsmenn hæfilegt að 25 einingar komi í hlut eigenda þessara vatnsfalla. Er þá bæði tekið tillit til mældrar bakkalengdar og uppeldis- og hrygningarskilyrða. Liggja nokkrar upplýsingar fyrir um hið síðarnefnda í ýmsum skýrslum Veiðimálastofnunar. Tekið er mið af því, eftir því sem málsgögn gefa kost á, að gildi lækjanna er mismikið fyrir uppeldi seiða. Lækirnir eru misjafnlega vatnsmiklir, en vægi landlengdar er metið hærra vegna meira vatnsmagns. Bæjargil og Arnargil verða mjög lítil í þurrkum, sem rýrir gildi þeirra. Í Hólkotsá, Hólmavatnsá og Sámsstaðaá hefur sést fiskur að hausti og einnig neðst í Þrándargili. Einingum vegna þessa þáttar er skipt þannig, að 15 eru vegna landlengdar en 10 vegna uppeldis- og hrygningarskilyrða.


XIII.


Aðrir þættir, sem þýðingu hafa við skiptingu arðs.


Enn er ógetið nokkurra atriða, sem gefa tilefni til að tekið sé tillit til við úthlutun arðs af veiði. Verður samtals 45 einingum varið til jarða, sem þau atriði eiga við um.


Í VII. kafla að framan eru rakin sjónarmið, sem teflt hefur verið fram af hálfu talsmanna Áss, Saura, Fjósa, Sauðhús og Hrappsstaða vegna fiskvegar, sem gerður var árið 1965 neðst í ánni. Vísast þangað um sjónarmið þeirra um áhrif framkvæmdanna á veiði fyrir landi jarðanna og lækkandi hlutdeild þeirra í arðskrá.


Alveg er ljóst að gerð fiskvegarins hefur leitt til þess að lax veiðist nú jafnt um alla ána andstætt því sem áður var, þegar mikill hluti aflans var dreginn á land neðst í ánni, þar sem fiskför var ógreið vegna náttúrulegra hindrana. Jafnljóst er, að eigendur þessara jarða fá lægri hlutdeild sína í arðskrá vegna minni veiði að minnsta kosti að hluta bætta með stórauknum heildartekjum af leigu árinnar vegna betri möguleika til stangarveiði í stærstum hluta hennar, sem beinlínis verður rakið til áðurnefndra framkvæmda. Er því ókleift með öllu að fallast á að lítill eða enginn ávinningur hafi orðið af framkvæmdunum fyrir þessar jarðir heldur einungis fyrir aðra veiðiréttareigendur, svo sem virðist felast í rökstuðningi þeirra.


Fiskvegurinn í landi Áss/Saura og Fjósa skapar öllum landeigendum við ána stórbætta aðstöðu til veiða, sbr. framangreint, en þó minnst þeim jörðum, sem lagt hafa hana til. Vegna þessarar aðstöðu, sem líta má á sem framlag þessara jarða til hags fyrir alla, verður samtals 20 einingum úthlutað að jöfnu til eigenda Áss/Saura og Fjósa.


Sérstakar hömlur eru lagðar við allri veiði í árós og að jafnaði tekið tillit til þess við skiptingu arðs. Verður svo og gert nú og samtals 6 einingum úthlutað að jöfnu til Áss/Saura og Fjósa fyrir þann þátt.


Ofan hins laxgenga hluta árinnar eru mikilvægar uppeldisstöðvar seiða, sem nýttar hafa verið með seiðasleppingum. Ber þar einkum að nefna Laxárvatn og Laxá ofan Sólheimafoss, en einnig Skeggjagil. Um þetta nýtur ýmissa heimilda í skýrslum Veiðimálastofnunar. Þykir hæfilegt að úthluta alls 19 einingum til landeigenda þar. Falla þær til Sólheima, Pálssels og Svalhöfða.


XIV.


Niðurstöður


Kröfum einstakra veiðiréttareigenda í hlutdeild í arðskrá umfram það, sem leiðir af framangreindum matsaðferðum, er hafnað. Verður þannig ekki tekin til greina krafa eigenda Hamra um aðsérstakt tillit verði tekið til mikils vatnsframlags jarðarinnar. Eru engin gögn fyrir hendi til að móta skiptingu arðskrár á nokkurn hátt með hliðsjón af þessu atriði og er kröfunni þegar af þeirri ástæðu hafnað.


Veiðifélag Laxdæla ber kostnað af mati þessu.


Mat þetta gildir frá 1. janúar 1998. Arðskrá fyrir Veiðifélag Laxdæla skal vera, svo sem greinir í XV. kafla hér á eftir.


XV.


Arðskrá fyrir Veiðifélag Laxdæla


Jarðir. einingar



Ás/Saurar 50,6


Fjósar 82,4


Sauðhús 70,1


Hrappsstaðir 53,7


Höskuldsstaðir 42,0


Hjarðarholt 31,5


Hornstaðir 19,3


Spágilsstaðir 27,0


Leiðólfsstaðir 51,1


Goddastaðir 64,3


Þrándargil 40,0


Lambastaðir 54,8


Svarfhóll/Engihlíð 54,9


Gillastaðir I-II 38,3


Gröf 23,8


Dönustaðir/Lambeyrar 110,8


Sámsstaðir I-II-III 80,3


Hamrar 36,9


Pálssel 33,7


Svalhöfði 22,0


Sólheimar 12,5



Samtals: 1000,00



Reykjavík, 30. desember 1997


_______________________


Gunnlaugur Claessen


________________________ __________________________


Þorsteinn Þorsteinsson Sveinbjörn Dagfinnsson


Yfirmatsmenn samkvæmt lögum um lax- og silungsvei›i.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum