Hoppa yfir valmynd
25. febrúar 2000 Matvælaráðuneytið

Yfirmatsgerð á arðskrá fyrir Veiðifélag Grímsár og Tunguár

YFIRMATSMENN

samkvæmt lögum um

lax- og silungsveiði nr. 76/1970

 

YFIRMATSGERÐ

á arðskrá fyrir Veiðifélag Grímsár og Tunguár

I.

Undirmat. Beiðni um yfirmat.

Hinn 5. maí 1998 luku þeir Jón Gíslason bóndi á Hálsi og Karl Ómar Jónsson verkfræðingur mati á arðskrá fyrir Veiðifélag Grímsár og Tunguár. Höfðu þeir verið dómkvaddir til starfans af Héraðsdómi Vesturlands 12. ágúst 1997.

Með bréfi Hjalta Pálssonar, eiganda Lundarhólma og Jóns Gíslasonar, eiganda Lundar, dags. 1. júní 1998 var þessu arðskrármati skotið til yfirmats. Barst erindið yfirmatsmönnum 10. sama mánaðar og er nægilega snemma fram komið, sbr. 2. mgr. 50. gr. laga nr. 76/1970. Þá hafa eigendur Oddsstaða einnig sent yfirmatsmönnum bréf og óskað endurmats á arðskrá undirmatsmanna.

II.

Upphaf matsstarfa. Vettvangsganga.

Nokkrir veiðiréttareigendur lýsa sjónarmiðum sínum.

Að ósk yfirmatsmanna boðaði stjórn Veiðifélags Grímsár og Tunguár eigendur veiðiréttar til fundar með yfirmatsmönnum 16. október 1998 í félagsheimilinu að Brautartungu. Á fundinn komu eigendur eða umboðsmenn þessara jarða: Lundar, Tungufells, Þverfells, Gullberastaða, Grafar I, Oddsstaða, Brautartungu, Múlakots, Kross og Þingness.

Á fundinum var starfstilhögun yfirmatsmanna kynnt og óskað eftir athugasemdum við formhlið málsins og hæfi yfirmatsmanna, ef einhverjar væru. Engar athugasemdir komu fram. Var fundarmönnum gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum og athugasemdum vegna undirmats og væntanlegs yfirmats. Jafnframt var því beint til þeirra að senda yfirmatsmönnum skriflegar greinargerðir, ef þeir vildu kynna sjónarmið sín nánar. Skyldu þær hafa borist 1. febrúar 1999. Eftirgreindir lýstu viðhorfum sínum til skiptingar arðskrár á fundinum eða í viðtölum við yfirmatsmenn að loknum fundi: Finnur Torfi Stefánsson vegna Tungufells, Sveinbjörn Eyjólfsson vegna Þingness, Rúnar Hálfdánarson vegna Gullberastaða og Þverfells, Jón Gíslason vegna Lundar, Guðni Eðvarðsson vegna Brautartungu, Óskar Halldórsson vegna Kross, Sigurður Ragnarsson og Kristján Davíðsson vegna Oddsstaða, Sigurður Halldórsson vegna Grafar og Gullberastaða og Baldur Björnsson vegna Múlakosts.

Sama dag og fundurinn var haldinn voru kannaðar aðstæður við Grímsá og Tunguá. Var það gert með þeim hætti að tveir leiðsögumenn, Þór Þorsteinsson og Jón Gíslason fylgdu yfirmatsmönnum um svæðið. Á fundinum var mönnum bent á að þeir gætu sjálfir sýnt yfirmatsmönnum aðstæður fyrir sínum löndum, teldu þeir ástæðu til. Nýttu nokkrir veiðiréttareigendur sér það við vettvangsgöngu.

Auk þeirra bréfa og greinargerða, sem getið er í I. kafla að framan, barst yfirmatsmönnum sameiginlegt bréf eigenda Tungufells og Hóls varðandi uppeldis- og hrygningarskilyrði, sbr. síðar. Ennfremur sameiginlegt bréf eigenda Tungufells og Brennu. Þá bárust svör allmargra veiðiréttareigenda í tilefni fyrirspurna frá yfirmatsmönnum, svo sem rakið er í VI. kafla hér á eftir. Þá hafa yfirmatsmenn leitað til Veiðimálastofnunar og formanns veiðifélagsins eftir margs kyns upplýsingum, auk þess sem þeir áttu sérstakan fund með Sigurði Má Einarssyni fiskifræðingi hjá Veiðimálastofnun í febrúar 2000.

III.

Um Veiðifélag Grímsár og Tunguár.

Félagið heitir Veiðifélag Grímsár og Tunguár og starfar samkvæmt samþykkt nr. 815/1999, sem staðfest var af landbúnaðarráðherra 29. nóvember sama árs. Kom hún í stað eldri samþykktar nr. 42/1973.

Í 2. gr. samþykktarinnar segir að félagið nái til allra jarða, sem land eiga að laxgengum hluta Grímsár og Tunguár að viðbættu svæði í Tunguá ofan Englandsfoss að Lómalæk. Jarðirnar eru ekki taldar upp í samþykktinni, en óumdeilt er að félagsaðild eigi eftirgreindir: Hvítárvellir I, Hvítárvellir II, Þingnes, Hestur, Laxfoss, Fossatún, Múlakot, Mávahlíð, Gröf I, Gröf II, Skálpastaðir, Kross, Kistufell, Arnþórsholt, Lundur, Lundarhólmi, Skarð, Snartarstaðir, Gullberastaðir, Oddsstaðir, Brautartunga, Hóll, Tungufell, Iðunnarstaðir, Brenna, England, Reykir, Þverfell og Gilstreymi. Í gildandi arðskrá er einnig að finna sérmetinn hlut fyrir annars vegar Smáfossa og Myrkhyl og hins vegar Þorbjarnarblett. Að þeim verður sérstaklega vikið síðar.

Samkvæmt 3. gr. er verkefni félagsins að viðhalda og efla góða fiskgengd á félagssvæðinu og ráðstafa veiði eftir því, sem aðalfundur ákveður hverju sinni. Tekur félagið til allrar veiði á félagssvæðinu. Þar er öllum óheimilt að veiða nema með skriflegu leyfi stjórnarinnar.

Í 8. gr. samþykktarinnar er svofellt ákvæði: „Arði af sameiginlegri veiði skal skipt niður á félagsmenn samkvæmt arðskrá. Félagsmenn greiði gjöld til félagsins í sömu hlutföllum og þeir taka arð."

Gildandi arðskrá fyrir félagið er samkvæmt yfirmatsgerð 8. febrúar 1981.

IV.

Rekstur ánna. Tekjur.

Eftir stofnun veiðifélagsins (1971) var veiði leigð Stangaveiðifélagi Reykjavíkur í nokkur ár, en 1983 hafði veiðifélagið tekið rekstur ánna að öllu leyti í eigin hendur, þ.m.t. sölu veiðileyfa. Hefur svo verið síðan. Eru reikningar félagsins síðustu árin meðal málsgagna. Samkvæmt rekstrarreikningi 1998 námu tekjur þess (veiðitekjur, seld þjónusta og vextir) samtals rúmlega 40.000.000 krónum á því ári og rúmlega 38.000.000 krónum árinu áður. Kostnað ber félagið allan af rekstrinum, en þar á meðal er hlutdeild í leigu fyrir upptöku neta.

Alls er leyft að veiða með 10 stöngum í einu í Grímsá og 2 í Tunguá þegar allt veiðisvæðið hefur verið opnað í júlí, en í byrjun og lok veiðitíma er veitt með 8 stöngum í Grímsá. Þá er ótalin veiði neðst á vatnasvæðinu, sem er leigð út sérstaklega, sbr. síðar.

V.

Gögn til afnota við matsstörfin.

Yfirmatsmenn hafa fengið eftirtalin gögn til afnota við matsstörfin:

  1. Beiðni um yfirmat (áður getið)
  2. Arðskrármat undirmatsmanna 5. maí 1998 og greinargerð með því frá apríl 1998 og 5. maí sama árs
  3. Dómkvaðning undirmatsmanna 12. ágúst 1997
  4. Bréf stjórnar veiðifélagsins til undirmatsmanna við upphaf matsstarfa með ýmsum upplýsingum, ódagsett
  5. Bréf stjórnar veiðifélagsins til veiðiréttareigenda 27. ágúst 1997
  6. Fundargerð veiðifélagsins 13. september 1997 vegna arðskrárgerðar
  7. Samþykkt fyrir Veiðifélag Grímsár og Tunguár frá 1999 (áður getið) og eldri samþykkt frá 1973
  8. Arðskrá fyrir veiðifélagið samkvæmt yfirmatsgerð 8. febrúar 1981 og arðskrá 1972
  9. Veiðimannakort af Grímsá og Tunguá með merktum veiðistöðum
  10. Skrá um landlengd jarða með Grímsá og Tunguá, byggð á mælingu Bjarna Arasonar 12. október 1971
  11. Yfirlýsing eigenda Gullberastaða, Oddsstaða, Hóls og Brautartungu 18. maí 1982 varðandi flutning ármóta Tunguár og Grímsár 1973
  12. Yfirlýsing eigenda Oddsstaða 2. júní 1975 varðandi Reyðarvatn
  13. Samantekt á veiði í Grímsá og Tunguá 1981-1999, skipt eftir veiðistöðum
  14. Samantekt á veiði framangreind ár með skýringum stjórnar veiðifélagsins
  15. Greinargerðir nokkurra veiðiréttareigenda til yfirmatsmanna (getið í II. kafla að framan)
  16. Greinargerðir nokkurra veiðiréttareigenda til undirmatsmanna vegna: Hóls, Brennu og Tungufells, Gullberastaða og Oddsstaða
  17. Greinargerð undirmatsmanna vegna enn eldra mats, apríl 1980
  18. Fundargerðir veiðifélagsins 6. og 18. mars 1973
  19. Ýmis gögn frá árunum 1959 til 1997 varðandi Þorbjarnarblett, sem áður tilheyrði Englandi
  20. Reikningar veiðifélagsins fyrir árin 1992 til 1998
  21. Veiðimálastofnun: Mat á búsvæðum fyrir lax í Grímsá og Tunguá, janúar 1998
  22. Bréf yfirmatsmanna til stjórnar veiðifélagsins 9. september 1999 varðandi frekari athugun á uppeldis- og hrygningarskilyrðum
  23. Nafnalisti eigenda að Grímsá og Tunguá 1999
  24. Bréf yfirmatsmanna til eiganda Brautartungu 22. nóv. 1999 og svarbréf 10. desember sama árs.
  25. Bréf yfirmatsmanna til eiganda Englands 22. nóv. 1999 varðandi Þorbjarnarblett
  26. Bréf landbúnaðarráðuneytis til veiðimálastjóra 11. júní 1975
  27. Bréf yfirmatsmanna til eigenda Oddsstaða 29. nóvember, 16. desember og 22. desember 1999 og svarbréf 7. desember 1999, 10. janúar 2000 og 11. sama mánaðar
  28. Bréf yfirmatsmanna til eigenda/talsmanna eigenda fjögurra jarða við Tunguá ofan Englandsfoss 1. desember 1999 og svarbréf talsmanns eigenda Reykja 12. desember, ábúanda Þverfells og eiganda Gilstreymis 10. desember sama árs og eiganda Þverfells 6. janúar 2000
  29. Samantekt Veiðimálastofnunar á afla
  30. Bréf yfirmatsmanna til eiganda Hóls 15. desember 1999 og 7. febrúar 2000 og bréf eiganda Hóls 9. desember 1999
  31. Bréf yfirmatsmanna til Gullbera ehf. 22. desember 1999 og svarbréf 25. janúar 2000 með fylgiskjölum
  32. Svarbréf Veiðimálastofnunar 20. janúar 2000 vegna tilmæla yfirmatsmanna um frekari rannsóknir
  33. Bréf eiganda Tungufells 29. janúar 2000.
  34. Fjórar rannsóknarskýrslur Veiðimálastofnunar 1991-1998

VI.

Sjónarmið nokkurra eigenda veiðiréttar.

Áður er fram komið að nokkrir eigendur veiðiréttar hafa komið sjónarmiðum sínum á framfæri við yfirmatsmenn, ýmist munnlega eða skriflega. Hér á eftir verður þeim lýst í höfuðatriðum. Verða jafnframt tilfærð eftir því sem þarf viðhorf, sem birtast í greinargerðum þeirra til undirmatsmanna.

Lundur og Lundarhólmi:

Í bréfi til yfirmatsmanna (sbr. I. kafla að framan) gera þessir veiðiréttareigendur í fyrsta lagi þá athugasemd við undirmatsgerð, að veiði fái þar einungis 30% vægi. Með því sé gengið lengra í þá átt að skerða vægi veiði en ásættanlegt sé og lengra en líklegt sé að til hafi verið ætlast með setningu laga nr. 76/1970. Arðskrá, sem byggist í svo litlum mæli á veiði hefði í för með sér verulega tekjutilfærslu frá þeim jörðum, þar sem veiði er tiltölulega mikil. Sé ókleift að fallast á þau rök undirmatsmanna fyrir lágu vægi veiði, að gerð og lagfæring veiðistaða hafi fært veiði verulega milli staða. Á fundi með yfirmatsmönnum lýsti eigandi Lundar jafnframt þeirri afstöðu sinni að uppeldisskilyrði seiða hafi fengið of hátt vægi í undirmatsgerð.

Í annan stað er bent á að í undirmati sé ólaxgengt svæði frá Englandsfossi að Lómalæk reiknað til uppeldisskilyrða að fullu sem um laxgengt svæði væri að ræða. Það hljóti að orka tvímælis, enda verði svæðið ekki nýtt til uppeldis nema með verulegum tilkostnaði í seiðakaupum. Uppeldisskilyrði á ólaxgengu svæði séu því alls ekki jafn verðmæt og á laxgengum svæðum.

Í þriðja lagi er gerð athugasemd við rannsóknarskýrslu Veiðimálstofnunar varðandi uppeldisskilyrði fyrir landi Lundarhólma, en við undirmat var tekið mið af niðurstöðum skýrslunnar um botngerð á einstökum svæðum í ánni. Fallast nefndir veiðiréttareigendur ekki á að uppeldisskilyrði á þessu svæði séu jafn léleg og ráða megi af skýrslunni. Að þessu atriði verður vikið nánar í X. kafla hér á eftir.

Oddsstaðir:

Eigendur þessarar jarðar gera athugasemdir við tvennt í undirmati. Lýtur sú fyrri að skiptingu afla úr Oddsstaðafljóti við útfall Tunguár í Grímsá. Telja þeir að jörðinni beri helmingur alls afla úr þeim veiðistað og að ekki séu efni til að láta veiðiréttareigendur við Tunguá njóta hluta aflans, sem fæst í Oddsstaðafljóti, svo sem gert hafi verið í undirmati. Í umfjöllun um þetta er gerð grein fyrir samkomulagi eigenda fjögurra jarða árið 1982 um flutning ármótanna frá Laxabakka í landi Gullberastaða í núverandi farveg Tunguár við Oddsstaðafljót. Af málsgögnum verður ráðið að legu neðsta hluta Tunguár hafi verið breytt árið 1973, þar sem hann hefur haldist síðan. Segir í skriflegri greingargerð eigenda Oddsstaða, að neðri hluti árfarvegs Tunguár sé óstöðugur og á liðnum öldum hafi ármótin verið að færast fram og aftur frá Laxabakka að þeim stað, þar sem þau eru nú. Lengst af á sjöunda áratug þessarar aldar hafi þau verið á núverandi stað, en færst að Laxabakka um 1970. Því sé þess vegna mótmælt að gengið sé út frá að ármótin séu frá náttúrunnar hendi við Laxabakka. Fiskur eigi nú greiðari leið upp í Tunguá en áður, og ávinningurinn af færslu ármótanna sé fyrst og fremst þeirra jarða, sem þar eigi hlunnindi. Óeðlilegt sé að láta veiðiréttareigendur þar einnig njóta arðs af veiði í ármótunum. Þá kom fram að þeir telji ekki að Gullberastaðir eigi rétt til alls veiðiauka, sem fylgi ármótunum og gera kröfu „í helming af því tapi, sem Gullberastaðir eru taldir hafa orðið fyrir við flutning ármótanna".

Þá er áréttað sjónarmið, sem lýst var við undirmat og tengist eignarhaldi að hólmum í Grímsá milli Jötnabrúarfoss og ármóta Grímsár og Tunguár. Eignarréttur Oddsstaða að hólmunum sé ekki vefengdur, en samt njóti jörðin einskis í arðskrá vegna þeirra. Þannig sé bakkalengd talin hin sama beggja vegna árinnar, þrátt fyrir hólmana. Sé það óeðlilegt og er krafist endurskoðunar undirmats að því leyti. Þá sé ljóst af rannsóknarskýrslu Veiðimálastofnunar að uppeldisskilyrði séu mjög góð við hólmana, sem geti skýrt þá miklu veiði, sem sé í Oddsstaðafljóti. Fjöldi seiða í hverjum fermetra árinnar á þessum kafla sé mikill og áin sé þar breið. Gildi svæðisins sé að þessu leyti mikið og vanmetið í undirmati.

Í tilefni þess að yfirmatsmenn óskuðu umsagnar um sjónarmið annarra veiðiréttareigenda um rétt til afla úr Oddsstaðafljóti barst ný greinargerð eigenda Oddsstaða. Er því þar haldið fram að ármótin hafi svo langt aftur sem bréfritari muni ætíð verið þar, sem þau eru nú, að frátöldum árunum 1970-1973. Löng hefð hafi verið fyrir veiði þar (að ráða má til heimilisnota) frá Oddsstöðum, Hóli og Brautartungu áður en veiðifélagið var stofnað. Tekið er undir margt í greinargerð eigenda Brennu og Tungufells (sbr. síðar), en lýst andstöðu við sjónarmið þeirra um að veiði verði bönnuð í Oddsstaðafljóti (Ármótum) og því jafnframt mótmælt að jarðir við Tunguá eða Gullberastaðir verði látnar njóta einhvers af afla þar við skiptingu arðskrár. Mikið seiðauppeldi sé í Grímsá rétt ofan við veiðistaðinn, sem geri hann sjálfbæran um að framleiða þann afla, sem þar fæst. Mæli það með öðru gegn því að arðurinn sé færður upp í Tunguá. Að því er varðar Gullberastaði þá hafi Laxabakki verið mjög góður veiðistaður áður en Tunguá fór að renna í Grímsá við þann stað um 1970. Eitthvað annað en flutningur ármótanna 1973 valdi því að veiðin þar datt niður. Er bent á að bestu veiðistaðirnir í efsta hluta Grímsár (Kotakvörn, Tjarnarbrekkufljót og Oddsstaðafljót) eigi það allir sammerkt að þar brotni mikið land meðan Laxabakki sé hálffullur af möl og landbrot lítið. Ástand Laxabakka sé líklega af náttúrulegum toga og verði að falla undir sveiflur í náttúrunni.

Vegna fram kominna sjónarmiða eiganda Hóls var bent á að fleira en veiði í Oddsstaðafljóti geti valdið tregri veiði í Tunguá, svo sem þurrkar og aðrar náttúrulegar ástæður. Ekki sé heldur unnt að gefa sér að veiði í Grímsá ofan Tunguáróss sé jafnan dræm, sama hvar ósinn sé. Veiðitölur frá 1972 bendi t.d. ekki til þess. Þá hafa eigendur Oddsstaða loks brugðist við ósk yfirmatsmanna um upplýsingar um veiði úr Oddsstaðafljóti 1953-1978, sbr. síðar.

Gröf I:

Talsmaður jarðarinnar lýsti því munnlega fyrir yfirmatsmönnum að sátt væri um þá niðurstöðu undirmatsmanna að veiði í Ferjupolli skuli að öllu leyti teljast til Kross vegna suðurbakka árinnar, en ekki til Grafar.

Gullberastaðir:

Talsmaður jarðarinnar skýrði munnlega fyrir yfirmatsmönnum tilgang þess að flytja ármót Grímsár og Tunguár, sem var ætlað til hags fyrir laxagengd upp í hina síðarnefndu. Sjónarmið annars talsmanns eiganda jarðarinnar koma jafnframt fram í greinargerð til undirmatsmanna. Þar segir m.a. að við stofnun veiðifélagsins 1971 hafi Tunguá runnið í Grímsá við Laxabakka. Neðst í farvegi sínum rann Tunguá á malareyrum, sem héldu illa vatni, og varð hún svo lítil í þurrkum að vart gat talist laxgengt. Var áin færð á núverandi stað með samkomulagi landeigenda. Ekki hafi þó strax orðið samkomulag um veiði í hinum nýju ármótum. Þáverandi eigandi Gullberastaða hafi sett það skilyrði fyrir framkvæmdum að ef veiði drægist saman á Gullberastöðum vegna þessa yrði það ekki til að minnka hlut jarðarinnar við arðskrárgerð og jafnframt að breytingin skyldi ekki hafa áhrif á bakkalengd hverrar jarðar.

Raunin hafi orðið sú að veiði dróst mjög saman í Laxabakkahyl og aukin veiði í landi Gullberastaða ofan hans hafi ekki vegið þar upp á móti. Ætla verði að góð veiði í Oddsstaðafljóti sé að verulegu leyti afleiðing þessarar framkvæmdar. Samþykki hafi verið veitt með hagsmuni heildarinnar fyrir augum og óeðlilegt sé að leyfisgjafinn skaðist af því. Til þess beri að taka tillit þannig, að hluti afla úr Oddsstaðafljóti verði látinn koma Gullberastöðum til góða. Í greinargerðinni kemur einnig fram að veiðitölur úr Oddsstaðafljóti fyrir breytinguna nái ekki yfir nógu langan tíma til að unnt sé að reikna út veiðiaukninguna þar með öryggi. Er því haldið fram að óeðlilegt sé að breytingar af mannavöldum ráði því hvernig arður skiptist milli jarða.

Til svars fram komnum sjónarmiðum eigenda Oddsstaða er bent á að kunnugir menn, sem leitað hafi verið til, telji ármótin hafa lengst af á 7. áratug aldarinnar og allt frá 1953 verið mun neðar en þau eru nú og allt niður að Laxabakka. Aðstæður á þessu svæði virðist einnig geta rennt stoðum undir það. Fylgja með umsagnir nokkurra kunnugra manna, en einn þeirra er fyrrum ábúandi og eigandi Gullberastaða (1966-1988). Samkvæmt frásögn hans hafi útrennsli Tunguár í Grímsá verið breytilegt frá Efstahyl að Laxabakka. Oft hafi hún runnið í kvíslum á fleiri en einum stað í Grímsá. Þó hafi hún náð að festa sig í einum farvegi ofanvert við Laxabakka 1969 frekar en 1970. Samkvæmt því fellst talsmaður eiganda Gullberastaða ekki á að ármótin hafi jafnan verið á núverandi stað milli 1960-1970. Þá telur hann yfirgnæfandi líkur benda til þess að staðsetning ármótanna við Oddsstaðafljót valdi miklu landbroti neðan þeirra. Hið mikla magn jarðefna, sem áin skolar með sér, virðist að talsverðum hluta hafa staðnæmst í Laxabakka, og bendi þannig flest til að flutningur ármótanna hafi eyðilagt veiðistaðinn. Áréttað er að þáverandi eigandi Gullberastaða hafi sett það skilyrði fyrir flutningi Tunguár að hlutdeild jarðarinnar í arði rýrnaði ekki þess vegna. Þá hefur talsmaður eiganda jarðarinnar samkvæmt ósk yfirmatsmanna sent þeim tiltækar upplýsingar um veiði í þrem veiðistöðum fyrir landi hennar fyrir og eftir flutning ármótanna, sbr. síðar.

Brautartunga:

Eigandi jarðarinnar lýsti afstöðu sinni til niðurstöðu undirmatsmanna á fundi með yfirmatsmönnum. Yrði ekki annað ráðið en að þeir hafi fylgt samkomulagi því, sem gert var 1982 um færslu ármóta Grímsár og Tunguár. Sæist það til dæmis á því að Hóll hafi átt land að eldri farvegi Tunguár á stuttum kafla, en eigi ekki land að ármótunum nú, en fái engu að síður aflahlut þar viðurkenndan í undirmati.

Í tilefni bréflegrar fyrirspurnar yfirmatsmanna til eiganda Brautartungu um nánari afstöðu hans til þess hvernig skipta bæri afla úr Oddsstaðafljóti var því svarað svo, að hann væri sáttur við að veiði þar yrði skipt milli þeirra, sem hlut fengu í undirmati, en ekki hvernig skiptingin varð. Brautartunga og Oddsstaðir eigi land að veiðistaðnum og hlutur þeirra hljóti að eiga að vera jafn. Réttur Hóls til aflahlutar úr þessum veiðistað sé mun veikari og óskýrari en réttur Brautartungu. Að því er varðar Gullberastaði verði að líta til þess að vegna flutnings Tunguár urðu nýir veiðistaðir virkir milli gömlu og nýju ármótanna. Telji yfirmatsmenn að landeigendur við Tunguá verði fyrir tjóni vegna veiði í ármótunum og eigi þess vegna rétt á hlut úr veiði þar við skiptingu arðskrár, eigi Hóll og Brautartunga einnig kröfu í þann hlut.

Brenna:

Yfirmatsmönnum hefur borist sameiginleg greinargerð eiganda Brennu og Tungufells. Eru þar í fyrsta lagi áréttuð sjónarmið í ítarlegri greinargerð, sem send var undirmatsmönnum. Verður efnis hennar getið hér á eftir er fjallað verður um sjónarmið eiganda síðarnefndu jarðarinnar.

Í annan stað er fjallað um Grímsá ofan Jötnabrúarfoss. Rök séu fyrir því að gefa ánni á því svæði gildi í arðskrá, en án vatnsmagns þar væri engin veiði neðan fossins. Þá séu ágæt uppeldisskilyrði í efri hlutum Grímsár rétt eins og í Tunguá ofan Englandsfoss, sem sé ólaxgengur eins og Jötnabrúarfoss. Við mat á laxveiðihlunnindum virðist sú tilhneiging ríkjandi að taka verulegt tillit til vistkerfisins í heild og að sama skapi minna tillit til afla á einstökum veiðistöðum.

Hóll:

Í greinargerð eiganda jarðarinnar til undirmatsmanna er fjallað um tilgang þess að færa ós Tunguár í núverandi horf. Um það hafi árið 1982 verið gert skriflegt samkomulag með eigendum fjögurra jarða, þ.e. Gullberastaða, Brautartungu, Hóls og Oddsstaða. Því miður sé samningurinn tæpast nógu skýr og ítarlegur til að vera tvímælalaus um tilgang sinn og merkingu. Ástæðan fyrir gerð hans hafi verið sú að ekki skyldi litið á færslu Tunguár á núverandi stað sem bráðabirgðafyrirkomulag, sem breyta mætti í fyrra horf ef einhver aðila yrði þess fýsandi. Af færslu árinnar hafi óhjákvæmilega leitt breytingar fyrir jarðirnar fjórar, sem nánar er gerð grein fyrir. Öllum hafi verið í mun að rýra ekki kosti jarða sinna jafnframt því að forðast að ganga á hlut annarra. Þegar ritað var undir samninginn 1982 hafi eigandi Gullberastaða lagt áherslu á að ekki yrði veitt í ármótunum. Þá ósk hafi ekki þótt fært að virða og hafi veiði jafnan verið sótt þar af miklu kappi.

Eigandi Hóls getur þess jafnframt að ljóst sé af gömlum heimildum að lax hafi einungis í litlum mæli gengið upp Grímsá ofan ármóta. Núverandi ármót lengi því í raun fiskveg Grímsár upp í Tunguá miðað við fyrri legu Tunguár. Lítið kapp hafi hins vegar verið lagt á veiðiástundun í Tunguá og veiðitími þar sé skemmri en í Grímsá. Gjaldi hin fyrrnefnda þess þegar litið sé til arðskrár.

Þá hefur eigandi þessarar jarðar sent yfirmatsmönnum sérstaka greinargerð með eiganda Tungufells um uppeldisskilyrði í Tunguá fyrir löndum jarðanna, sbr. hér á eftir um sjónarmið eiganda síðarnefndu jarðarinnar.

Vegna fyrirspurnar yfirmatsmanna til eiganda Brautartungu skýrði eigandi Hóls bréflega nánar afstöðu sína til þess hvernig skipta bæri afla úr Oddsstaðafljóti. Ráða megi að Oddsstaðir og Brautartunga eigi land að veiðistaðnum. Farvegi Tunguár hafi frá 1973 verið haldið á svipuðum stöðum um veiðitímann, en áin felld í eldri farveg ef vatn hefur vaxið. Hafi hún oft verið felld með öllu í eldri farveg að veiðitíma loknum til að draga úr landbroti á Oddsstöðum og hafi það verið gert að kröfu veiðiréttareiganda þar. Þar sem veiði í ármótum sé að jafnaði óheimil verði ekki veitt þar nema um það ríki sátt og þeim bætt tjón, sem skaða hljóti af. Veiði í Oddsstaðafljóti rýri laxgengd í Tunguá verulega. Oddsstaðafljót verði því að teljast fallvaltur veiðistaður og tilvera hans mörgum háð. Veiðistaðir í hinum gamla farvegi Tunguár fyrir landi Hóls og Gullberastaða ónýtist þegar ánni sé veitt í Oddsstaðafljót. Sanngjarna skiptingu aflans megi fá þannig: Brautartunga og Oddsstaðir fái jafnan hlut vegna sömu bakkalengdar að veiðistaðnum. Hóll og Gullberastaðir fái sérstakan skerf vegna veiðistaða í Tunguá sem ónýttust við flutning hennar. Eigendur veiðiréttar í Tunguá neðan Englandsfoss, þar á meðal Hóll og Brautartunga, fái til samans verulega hlutdeild í veiðinni til að vega á móti minni laxgengd og veiðirýrnun í Tunguá vegna veiða í ármótunum.

Múlakot:

Á fundi með yfirmatsmönnum lýsti eigandi jarðarinnar þeirri skoðun að uppeldisskilyrði séu of hátt metin í undirmatsgerð. Hann gerði grein fyrir nokkrum veiðistöðum, er fylgja jörðinni, og kvaðst sáttur við að veiðistaðurinn Lækjarfoss teldist til Fossatúns.

Tungufell:

Í skriflegri greinargerð eigenda Tungufells og Hóls til yfirmatsmanna var sérstaklega óskað endurmats á uppeldisskilyrðum í Tunguá fyrir löndum jarðanna. Hafi undirmatsmenn byggt á skýrslu Veiðimálastofnunar um uppeldisskilyrði, sbr. lið nr. 21 í upptalningu gagna í V. kafla að framan. Vefengja þeir niðurstöðu skýrslunnar um að allt að þrír fjórðu hlutar árbotnsins á þessu svæði sé klöpp. Á fundi með yfirmatsmönnum gat eigandi Tungufells þess að árbotninn á þessu svæði væri fjölbreytilegur og geti breyst á fárra metra bili. Tilviljun hafi ráðið hvar þversnið í ánni voru tekin við rannsókn Veiðimálastofnunar. Það eð langt sé á milli mælistaða hafi niðurstaðan orðið óhagstæðari en efni standi með réttu til.

Þá hefur yfirmatsmönnum borist sameiginleg greinargerð eigenda Tungufells og Brennu. Eru þar áréttuð sjónarmið sömu veiðiréttareigenda og fram koma í ítarlegri greinargerð, sem send var undirmatsmönnum. Er þar vísað til arðskrármats fyrir veiðifélagið frá 1979, en þar komi fram mikilvæg atriði, sem enn séu í fullu gildi. Beri þar hæst sérstök þýðing Tunguár fyrir laxveiði á svæðinu í heild og óréttmæti þess að leggja of mikla áherslu á veiði á einstökum veiðistöðum við skiptingu arðskrár. Um þetta segi áðurnefndir matsmenn, að Tunguá sé mjög góð klak- og uppeldisá fyrir lífríki Grímsár og að illa væri komið veiði í Grímsá ef Tunguár nyti ekki við. Rannsóknir Veiðimálstofunnar á síðari árum styrki mjög þessa skoðun matsmannanna. Að auki séu margir góðir veiðistaðir í ánni. Hins vegar standi lítið vatnsmagn og mikil veiði á árósnum veiði í Tunguá fyrir þrifum. Unnt væri að auka veiði þar með rennsli úr Reyðarvatni, en aðrir eigendur Grímsár hafi staðið gegn slíkum framkvæmdum af ótta við neikvæð áhrif á veiði í Grímsá. Þá vísi matsmennirnir frá 1979 til þess að þeim hafi virst veiði á svokölluðum útlendingatíma í Grímsá einkum vera stunduð á tveim nánar skilgreindum árköflum, en aðrir hlutar orðið að verulegu leyti útundan. Geti góður veiðistaður þannig orðið afskiptur fyrir það að erfitt sé að komast að honum á bíl. Gefi þetta enn tilefni til að leggja minna upp úr veiði, en taka aukið tillit til þeirra þátta, sem allt lífríkið sé háð. Gera eigendur Tungufells og Brennu þessi sjónarmið að sínum. Aukin þekking, sbr. upplýsingar frá Veiðimálastofnun, leiði nú til þess að fullyrða megi að laxveiði í Grímsá byggist að langstærstum hluta á Tunguárlaxi, sem sé á leið til heimkynna sinna. Þá beri einnig að líta til þess að veiðitalning í Tunguá sé mjög ófullkomin og engin trygging sé fyrir því að öllu sé þar til skila haldið. Í Grímsá megi hins vegar telja víst að hver veiddur fiskur komi fram. Samanburður á veiðitölum sé því ekki sanngjarn nema að þessu sé gætt. Þá stjórni veiðileiðsögumenn mjög hvar sé veitt og vegagerð skipti máli. Sýni þetta hve veiðistaðir og veiðitölur séu ótraust viðmiðun fyrir skiptingu hlunninda. Þá hafi veiðifélagið staðið fyrir ýmsum framkvæmdum við veiðistaði í Grímsá, en rétt sé að allir félagsmenn eigi hlutdeild í ávinningi, sem af þeim hafi hlotist. Loks er þess getið að veiðifélagið hafi ekki treyst sér til að veita vatni úr Reyðarvatni í Tunguá af fyrrnefndum ástæðum. Aukið vatnsmagn myndi án vafa stórauka veiði í Tunguá og ekki sé vitað um neitt, sem geri framkvæmdina áhættusama. Hér sé um að ræða hagsmunaárekstur, þar sem minni hluti félagsmanna hafi orðið að lúta vilja meirihlutans. Þetta misvægi eigi að koma til leiðréttingar við skiptingu arðskrár.

Í niðurlagi greinargerðarinnar er fjallað um veiði í Tunguárósi eða Oddsstaðafljóti, sem sé gjöfulasti veiðistaðurinn á félagssvæðinu. Er nánar lýst ástæðum þess að erfitt sé fyrir lax að ganga þaðan upp í Tunguá. Safnist hann því saman í ósnum, þar sem hann sé auðveld bráð, en ekki þurfi að hafa mörg orð um áhrif þessa fyrir laxveiði í Tunguá. Samkvæmt 2. tl. 16. gr. laga nr. 76/1970 megi ekki veiða í ármótum og sé laxveiði í Tunguárósnum því bæði ólögleg og skaðleg eigendum Tunguár. Er gerð krafa um að veiði í ósnum verði bönnuð eða veiði þar verði metin eigendum Tunguár til tekna á sanngjarnan hátt.

Áður eru rakin sjónarmið eigenda Brennu og Tungufells varðandi efsta hluta Grímsár ofan Jötnabrúarfoss.

Kross:

Eigandi jarðarinnar lýsti því fyrir yfirmatsmönnum að samkvæmt skýrslu Veiðimálstofnunar séu uppeldisskilyrði á svæði fyrir ofan Ferjupoll léleg. Þau séu hins vegar góð í pollinum sjálfum, þar sem Kross eigi land að. Jörðin hafi hins vegar ekki verið látin njóta þess í undirmati, sem þurfi að leiðrétta. Hann lýsti því jafnframt að landamerki Grafar I og Kross lægju um Ferjupoll og að sátt væri um það milli eigenda jarðanna að veiði skuli öll teljast til Kross vegna suðurbakka Grímsár.

Þingnes:

Talsmaður eigenda jarðarinnar skýrði á fundi með yfirmatsmönnum frá ágreiningi, sem væri fyrir hendi um eignarhald að svokölluðum Smáfossum og Myrkhyl milli Hests og Þingness. Með dómi hafi verið skorið úr um eignarrétt að Laxfossi, en niðurstaða hans náði ekki til kvíslar í ánni norðan Miðbergs, sem afmarkar Laxfoss. Í þeirri kvísl séu áðurnefndir Smáfossar og Myrkhylur. Þetta þyrfti ekki að sérmeta við arðskrármat ef lausn fyndist á ágreiningi um eignarréttinn.

Reykir, England, Gilstreymi og Þverfell:

Veiðiréttareigendur þriggja þessara jarða létu málið til sín taka eftir að yfirmatsmenn beindu þeim tilmælum til þeirra að þeir tjáðu sig sérstaklega um tvö atriði. Í fyrsta lagi þá ráðagerð yfirmatsmanna að úthluta ekki einingum vegna bakkalengdar til ólaxgengra svæða ofan Englandsfoss og í öðru lagi sjónarmið tveggja veiðiréttareigenda við Grímsá þess efnis að uppeldisskilyrði á ólaxgengu svæði séu alls ekki jafn verðmæt og á laxgengum svæðum, enda verði svæðið ekki nýtt til uppeldis nema með verulegum tilkostnaði í seiðakaupum.

Í sameiginlegu svari ábúanda Þverfells og eiganda Gilstreymis er hvoru tveggja mótmælt. Bent er á að kostur svæðisins ofan Englandsfoss felist að mati Veiðimálastofnunar einmitt í því að geta ráðið fjölda seiða og hagað sleppingum í samræmi við fæðuframboð og afkomumöguleika. Kostnaður við seiðakaup sé breytilegur eftir því hvernig til tekst hverju sinni og fullyrðingar um að ekki sé unnt að nýta svæðið nema með verulegum kostnaði séu haldlausar. Hafi veiðifélagið enda séð sér hag í að nýta svæðið frá upphafi til seiðasleppinga. Að því er varðar bakkalengd er bent á að í 50. gr. laga nr. 76/1970 segi að við niðurjöfnun arðs skuli m.a. taka tillit til landlengdar að veiðivatni. Í orðskýringum sömu laga sé veiðivatn skilgreint sem "á eða stöðuvatn sem veiði er í eða mætti í vera ef fiskur væri ræktaður þar". Ekki þurfi því að veiðast fiskur á svæði til að tekið sé tillit til bakkalengdar við úthlutun eininga. Í svari talsmanns eigenda Reykja er bent á að áður fyrr hafi góð silungsveiði verið ofan Englandsfoss, sem hafi þó minnkað mjög mikið á seinni árum. Svæðið sé því veiðivatn, þótt ekki sé þar laxveiði. Þá hafi eigendur Englands og Reykja farið stöku sinnum með ádráttarnet í Tunguá meðan það var enn leyfilegt og aflað vel. Við skiptingu arðskrár verði að líta til þessa afla, sem sé miklu meiri en sá, sem stangarveiðimenn hafi fengið þar eftir þetta. Þá sé svæðið ofan Englandsfoss mjög gott til seiðauppeldis og sennilega hvergi betra á öllu vatnasvæðinu en fyrir löndum Reykja og Englands. Loks hefur talsmaður eiganda Þverfells mótmælt áðurnefndri ráðagerð yfirmatsmanna og bent á gögn, sem hann telur styðja andmæli sín.

VII.

Skipting arðs. Almennt.

Í 1. mgr. 50. gr. laga nr. 76/1970 er að finna ákvæði um ákvörðun veiði eða arðs af veiði, sem koma skal í hlut hverrar jarðar eða jarðarhluta, sem veiðiréttur fylgir í vatni á félagssvæðinu. Þar segir: „Við niðurjöfnun veiði eða arðs af henni skal m.a. taka tillit til aðstöðu við netjaveiði og stangarveiði, landlengdar að veiðivatni, til hrygningarskilyrða og uppeldisskilyrða fisks."

Samkvæmt 8. gr. samþykktar fyrir Veiðifélag Grímsár og Tunguár skal arði af sameiginlegri veiði skipt niður á félagsmenn samkvæmt arðskrá. Kostnað af starfsemi félagsins greiða félagsmenn í sama hlutfalli.

Í gildandi arðskrá fyrir félagið er arði skipt í einingar miðað við að heildarfjöldi eininga, sem kemur til skipta milli allra rétthafa, sé 1000. Sá háttur verður einnig hafður á nú. Við skiptingu arðskrár verða notaðar heilar tölur og einn aukastafur. Hér á eftir fara niðurstöður yfirmatsmanna um hvernig allar einingarnar skuli skiptast milli einstakra þátta, sem í framangreindri lagagrein eru sérstaklega tilgreindir, og hvernig önnur atriði geta haft þar áhrif á.

VIII.

Landlengd.

Meðal málsgagna er skrá um landlengd jarða að Grímsá og Tunguá, sem unnin var samkvæmt stikumælingu af Bjarna Arasyni héraðsráðunaut, og er dagsett 12. október 1971. Engar athugasemdir hafa borist yfirmatsmönnum varðandi þessa mælingu. Verða tölur, sem skráin hefur að geyma, lagðar til grundvallar eins og þær liggja fyrir að því er varðar hinn laxgenga hluta beggja ánna.

Á einum stað hafa orðið verulegar breytingar á rennsli Tunguár eftir að mælt var, þ.e. við ármót Tunguár og Grímsár, svo sem áður er vikið að. Raska þær nokkuð mælitölum í skránni. Hins vegar liggur fyrir að samstaða er um það milli veiðiréttareigenda á þessu svæði að láta upphaflegu mælinguna gilda áfram, sbr. yfirlýsingu frá 1982 í 11. lið í upptalningu gagna við matsstörfin í V. kafla að framan. Aðrir veiðiréttareigendur hafa ekki hreyft athugasemdum um það. Verður mælingunni í samræmi við það einnig fylgt á þessu svæði.

Niðurstaða yfirmatsmanna er sú að hæfilegt sé að 300 einingar skuli skiptast milli veiðiréttareigenda i samræmi við landlengd að Grímsá og Tunguá. Við skiptingu þessara eininga verður litið til þess að vatnsmagn í Grímsá er miklum mun meira og stöðugra en í Tunguá og að hin síðarnefnda getur orðið vatnslítil í þurrkum. Hamlar það jafnframt fiskför þangað við slíkar aðstæður. Þá hefur í mörg ár ekki verið byrjað að selja veiðileyfi í Tunguá fyrr en um miðjan júlí. Er sá tími, sem áin skilar tekjum af sölu veiðileyfa, því styttri en í Grímsá, sem hefur síðustu árin verið opnuð um 17. júní. Að öllu þessu gættu verður hverri lengdareiningu bakka við Tunguá gefið 40% vægi af sömu bakkalengd við Grímsá.

Við meðferð málsins rituðu yfirmatsmenn veiðiréttareigendum ofan Englandsfoss bréf og skýrðu frá þeim ráðagerðum sínum að úthluta ekki einingum vegna bakkalengdar til þessa svæðis. Því var mótmælt af hálfu eiganda Þverfells, talsmanns eigenda Reykja og ábúanda Þverfells og eiganda Gilstreymis, en rök hinna síðasttöldu eru rakin í VI. kafla að framan. Afstaða yfirmatsmanna til þessa atriðis er óbreytt. Er þá einkum litið til þess að svæðið er ólaxgengt, en gjarnan er litið á úthlutun eininga fyrir landlengd sem endurgjald fyrir það vatnasvæði, sem markar lífsrými laxins. Ekki hafa komið fram ráðagerðir um að breyta því ástandi með gerð fiskvegar, en meðan svo standa sakir er þar ekki um sjálfbæra stofna göngufisks að ræða, sem geri svæðið að veiðivatni. Veiðifélagið hefur þar með ekki beinar tekjur af svæðinu. Fylgja yfirmatsmenn hér sem endranær þeirri matsaðferð að úthluta ekki einingum vegna bakkalengdar til ólaxgengra svæða. Hins vegar er seiðum sleppt þar og verður tekið tillit til þess, sbr. XI. kafla hér á eftir. Ekki verður úthlutað einingum vegna landlengdar til Grímsár ofan Jötnabrúarfoss, en svæðið er bæði ólaxgengt og auk þess utan félagssvæðisins.

Kröfu eigenda Oddsstaða um aukna bakkalengd vegna hólma í Grímsá er ekki unnt að taka til greina þegar af þeirri ástæðu að bakkar hólmanna hafa ekki verið mældir.

IX.

Aðstaða til stangarveiði.

Í IV. kafla að framan er getið um tilhögun við rekstur ánna og í V. kafla er getið skýrslna, sem liggja fyrir yfirmatsmönnum um veiði á laxi 1981-1999 að báðum árum meðtöldum og skipting aflans á veiðistaði. Við mat nú verður tekið mið af veiði allt þetta tímabil, en samtals hafa veiðst 24.424 laxar í Grímsá og 1.324 í Tunguá, samtals 25.748 laxar.

Þar sem veiðistaðir eru í merkjum milli jarða er afla skipt jafnt milli þeirra. Veiði úr Ferjupolli fellur til Kross vegna suðurbakkans. Ekki hefur komið fram ágreiningur um einstaka veiðistaði, sbr. þó hér á eftir um Myrkhyl og Smáfossa.

Því sjónarmiði hefur verið hreyft, að veiðifélagið hafi staðið fyrir ýmsum framkvæmdum, s.s. við einstaka veiðistaði og vegagerð að veiðistöðum, sem áhrif hafi á hvar afli sé dreginn á land. Sé eðlilegt að allir félagsmenn eigi hlutdeild í ávinningi, sem af þeim hafi hlotist. Þótt þetta sjónarmið styðjist við viss rök eru þungvæg mótrök einnig fyrir hendi. Engin gögn hafa verið lögð fram, sem sýni hve há fjárframlög veiðifélagsins hafi verið vegna framkvæmda á tilteknum stöðum og nýst hafi viðkomandi veiðiréttareiganda einum. Slík framlög geta verið vegna margs konar aðgerða, s.s. að tilbúinn er nýr veiðistaður, gamall veiðistaður lagfærður, gerður er eða lagfærður veiðimannavegur að tilteknum stað o.s.frv. Er ókleift að gera mun á því í hverju sú framkvæmd felst, sem kostuð er af veiðifélagi og nýtist aðeins eiganda (eigendum) tiltekins veiðistaðar vegna aukinnar veiði þar. Ekki fæst heldur séð hvernig skyldi ákveða að hvaða marki megi rekja veiði á staðnum til framkvæmdanna, hafi þar verið veiðistaður áður. Þá liggur heldur ekki fyrir hvenær slík framlög veiðifélagsins hafa fallið til, sem skiptir þó máli ef eigandi veiðistaðarins á engu að síður að njóta óskerts arðs af honum að liðnum einhverjum árum eftir framkvæmdirnar. Þá er þess loks að geta að kostnaði mun á liðnum árum almennt hafa verið skipt að jöfnu milli viðkomandi veiðiréttareiganda og veiðifélagsins þegar um gerð eða lagfæringu veiðistaða er að ræða, en kostnað af vegagerð mun veiðifélagið almennt hafa eitt borið. Að öllu þessu virtu verða eigendur einstakra jarða í Veiðifélagi Grímsár og Tunguár látnir njóta arðs af öllum þeim afla, sem fengist hefur fyrir þeirra landi á framangreindu tímabili 1981-1999.

Í VI. kafla að framan er getið um ráðagerðir, sem um alllangt skeið hafa verið uppi um að veita vatni úr Reyðarvatni í Tunguá. Samstaða mun ekki vera fyrir hendi um slíka breytingu á rennsli ánna og engin ákvörðun liggur fyrir um að ráðast í framkvæmdirnar á næstunni. Eru ekki haldbær rök fyrir því að þetta atriði geti haft áhrif á skiptingu arðskrár veiðifélagsins nú.

Sérstakt álitaefni tengist skiptingu afla úr Oddsstaðafljóti, en sjónarmið veiðiréttareigenda, sem þar eiga hlut að máli, eru rakin í VI. kafla að framan. Að því er varðar landlengd hafa þeir beinlínis samið um að tilfærsla neðsta hluta Tunguár 1973 og þar með ármótanna skuli engu breyta. Samkomulagið náði ekki til skiptingar á veiði og um þann þátt hefur ólíkum sjónarmiðum verið teflt fram um hvernig með skuli fara, sbr. að framan.

Eigendum veiðiréttar Oddsstaða og Gullberastaða ber alls ekki saman um hvar Tunguá rann síðustu áratugina áður en henni var veitt í núverandi farveg. Verður ekki gengið út frá að hún hafi haft stöðugan farveg frá náttúrunnar hendi. Samkomulag eigenda fjögurra jarða 1982 ber þess hins vegar skýran vott, svo langt sem það nær, að tilgangur manna var óumdeilt sá að freista þess að auka laxgengd í Tunguá, öllum til hags, án þess að það yrði á kostnað eins umfram annan. Umsagnir veiðiréttarreigenda, sem áður eru raktar, benda til hins sama. Ekki hefur heldur verið andmælt þeirri skýringu fyrrverandi eiganda Gullberastaða við undirmatsmenn að hann hafi bæði áskilið sér rétt til að fá bættan veiðimissi, sem hann kynni að verða fyrir vegna tilfærslu ármótanna, og sett skilyrði um að ekki yrði veitt í hinum nýju ármótum. Verður sú forsenda, sem að framan er getið, lögð til grundvallar við skiptingu afla úr Oddsstaðafljóti, þannig að staða Gullberastaða við skiptingu arðskrár ráðist svo sem kostur er með hliðsjón af því að ós Tunguár var við Laxabakka 1973. Eftir breytinguna datt niður veiði í Laxabakka við eldri ármótin, en jókst um leið til mikilla muna í hinum nýja ármótahyl, þ.e. Oddsstaðafljóti, sem er utan landamerkja Gullberastaða. Að einhverju leyti er jörðinni bætt það með aukinni veiði milli eldri og núverandi ármóta. Talsmaður Gullberastaða hefur hins vegar réttilega bent á að erfitt sé að ákveða nákvæmlega veiðitap jarðarinnar, sem af þessu hefur leitt, m.a. vegna þess að áður veiddist eitthvað í Oddsstaðafljóti. Hafa talsmenn beggja jarða sent yfirmatsmönnum tiltækar upplýsingar um veiði á svæðinu frá Laxabakka að Oddsstaðafljóti 1953-1978. Verulega skortir hins vegar á að þær dugi til að skýra þessa mynd þótt ákveðnar vísbendingar felist í þeim. Gullberastaðir áttu einir alla veiði í eldri ármótahyl og veiði þar var ekki stunduð svo nærri ármótunum að félli undir bann laga við veiði eða yrði einungis stunduð þar með sérstakri undanþágu frá stjórnvöldum. Eigandi Gullberastaða heimilaði breytinguna til hags fyrir félagssvæðið í heild, en þá einkum Tunguá. Breytingin færði um leið veiði til annarra, Gullberastöðum til tjóns. Að virtu öllu því, sem að framan er rakið, þykir rétt að 15% heildaraflans úr Oddsstaðafljóti skuli koma Gullberastöðum til tekna við skiptingu arðskrár.

Af hálfu eigenda Tungufells og Brennu er bent á að samkvæmt 2. mgr. 16. gr. laga nr. 76/1970 megi ekki veiða fisk í ósum í ár. Nær veiðibann laganna 100 metra upp frá slíkum ósum og 250 metra niður frá þeim. Telja þeir samkvæmt því að veiði í ós Tunguár sé bæði ólögleg og skaðleg eigendum Tunguár.

Ráða má, að veiðistaðurinn Oddsstaðafljót sé að verulegu leyti innan þeirra marka frá ósi Tunguár, sem í lagagreininni eru tilgreind. Samkvæmt upplýsingum veiðiréttareigenda og stjórnar veiðifélagsins sóttust veiðimenn strax eftir flutning ármótanna fast eftir því að fá að stunda veiði á þessum stað. Er meðal málsgagna bréf landbúnaðarráðuneytis 11. júní 1975 til veiðimálastjóra, en þar var Veiðifélagi Grímsár og Tunguár heimilað með vísan til 3. mgr. 16. gr. áðurnefndra laga að láta stunda stangarveiði í ármótunum á því sumri. Er ljóst að í reynd hefur verið litið svo á að leyfið gilti áfram og að veiði hefur verið stunduð í Oddsstaðafljóti á hverju sumri eftir það óátalið af stjórnvöldum. Mikið af fiski safnast þar oft fyrir meðan aðstæður leyfa ekki að hann gangi áfram upp í Tunguá. Má fallast á með eigendum Tungufells og Brennu að undanþága stjórnvalda til að stunda slíka veiði sé til þess fallin að skaða eigendur Tunguár. Krafa um að fá hlut af þeirri veiði við skiptingu arðskrár er réttmæt. Telja yfirmatsmenn hæfilegt að 30% heildaraflans úr Oddsstaðafljóti komi eigendum Tunguár til góða. Falla einingar vegna þessa afla til hins laxgenga hluta árinnar. Sú aðferð undirmatsmanna að skipta einingum vegna veiði í Oddsstaðafljóti jafnt milli þessara jarða (að Hóli og Brautartungu frátöldum) hefur ekki sætt andmælum. Verður þeirri aðferð einnig fylgt nú að því gættu þó að ekki eru haldbær rök fyrir því að annað gildi um síðasttöldu jarðirnar tvær en hinar. Þá verður Hóli jafnframt bætt að flutningur óss Tunguár stytti verulega þann hluta árinnar, sem rennur um land jarðarinnar, og útilokaði um leið gerð veiðistaða þar, auk þess sem fram er komið að áður hafi í reynd verið sóttur afli í Oddsstaðafljót frá Hóli til heimilisnota. Fá sex jarðir við Tunguá (Brautartunga, Tungufell, Brenna, Reykir, Iðunnarstaðir og England) 4% hver í sinn hlut, en Hóll 6%.

Sá hluti veiði úr Oddsstaðafljóti, sem enn er óráðstafað, fellur til þeirra tveggja jarða, sem land eiga að veiðistaðnum. Fá Oddsstaðir og Brautartunga samkvæmt því 27,5% hvor jörð í sinn hlut.

Við fyrri arðskrárgerðir veiðifélagsins hefur verið úthlutað einingum á sérstakan biðreikning vegna Myrkhyls og Smáfossa. Sú ráðstöfun hefur helgast af því að óljóst hefur verið með eignarrétt að umræddum veiðistað. Við umfjöllun yfirmatsmanna nú hafa þeir leitast við að fá tvímæli tekin af um þetta, svo komast megi hjá að sérmeta þennan hlut. Til þess vannst þó ekki nægur tími, og er hluturinn því áfram sérmetinn við skiptingu arðskrár nú.

Hlutdeild Hests í Laxfossi verður í arðskrá skilin frá Laxfossi og talin með í einingum jarðarinnar sjálfrar. Reykholtskirkja og Hvanneyrarkirkja eru samkvæmt því rétthafar þeirra eininga, sem úthlutað er vegna Laxfoss.

Yfirmatsmenn telja hæfilegt að 410 einingar komi til úthlutunar vegna stangarveiði á öllu félagssvæðinu. Nokkrir laxar eru ekki skráðir á ákveðinn veiðistað og hafa ekki áhrif á skiptingu þessara eininga. Óskráður afli getur heldur ekki komið landeiganda til góða við skiptingu arðskrár, og kemur ekki til álita fram komin staðhæfing um ófullkomnari veiðiskráningu í Tunguá en Grímsá. Í einu tilviki hefur verið teflt fram því sjónarmiði að ádráttarveiði, sem áður hafi verið stunduð á tilteknum stað, eigi að hafa áhrif á skiptingu arðskrár. Þessar upplýsingar eru alls ófullnægjandi og engra annarra upplýsinga nýtur í málinu um eldri réttindi til veiða í net eða með ádrætti í Tunguá eða Grímsá, sem munu þó hafa verið á nokkrum stöðum í báðum ánum. Getur þetta atriði ekki komið til álita við skiptingu arðskrár nú.

Um silungsveiði nýtur ekki haldbærra upplýsinga í málinu, en ljóst er þó að dálítið veiðist af silungi með laxinum. Silungsveiði neðst í Grímsá hefur sérstöðu fyrir það að veiðifélagið leigir hana út eina og sér. Leigutakar eru veiðiréttareigendur á þessu svæði. Hafa yfirmatsmenn leitað til Veiðimálstofnunar eftir upplýsingum um silungsafla og fengið tiltæk gögn um það. Að öllu virtu er niðurstaða yfirmatsmanna sú, að þótt skráning á silungsveiði hafi batnað nokkuð allra síðustu árin sé hún ekki svo áreiðanleg að unnt sé að taka tillit til hennar. Getur þessi veiði ekki haft áhrif á úthlutun eininga við skiptingu arðskrár nú. Hinu sama gegnir um silungsveiði, sem hermt er að sé ofan Englandsfoss, en að auki hefur veiðifélagið engar tekjur af slíkri veiði, sem veiðiréttareigendurnir nýta þá væntanlega sjálfir en án endurgjalds til félagsins.

X.

Uppeldis- og hrygningarskilyrði.

Í 21. lið í upptalningu gagna í V. kafla að framan er getið um skýrslu Veiðimálastofnunar frá janúar 1998 um rannsókn, er varðar uppeldis- og hrygningarskilyrði í Grímsá og Tunguá. Var hún gerð að ósk stjórnar veiðifélagsins í tilefni nýrrar skiptingar arðskrár. Þá liggur einnig fyrir viðbótarskýrsla sömu stofnunar frá 20. janúar 2000 um sérstaka rannsókn á sitt hvorum kaflanum í Tunguá og Grímsá, sbr. 32. lið í V. kafla. Óskuðu yfirmatsmenn eftir því að hún yrði gerð í tilefni þess að viðkomandi veiðiréttareigendur töldu uppeldisskilyrði seiða vera betri fyrir löndum sínum en skýrslan frá janúar 1998 ber með sér. Hafa yfirmatsmenn jafnframt fengið nánari upplýsingar og skýringar í viðtölum við Sigurð Má Einarsson, sérfræðing Veiðimálastofnunar.

Í skýrslu Veiðimálastofnunar frá janúar 1998 er tekið fram að hún sé gerð á grundvelli rannsóknar haustið 1997, sem hafði að markmiði að meta einstaka hluta vatnasvæðisins með tilliti til skilyrða fyrir hrygningu laxa og gæði búsvæða til framleiðslu á laxaseiðum. Sambærileg athugun hafi ekki verið gerð áður á vatnasvæðinu. Er síðan í skýrslunni almenn umfjöllun um hrygningarskilyrði og búsvæði fyrir laxaseiði í straumvatni og að helstu þættir, sem þar hafi áhrif á, séu botngerð, straumlag, dýpi og frjósemisskilyrði innan hvers vatnakerfis. Frjósemi einstakra búsvæða innan sama vatnakerfis geti verið mjög ólík, sem eigi þó ekki við að því er varðar Grímsá og Tunguá. Mat á búsvæðum innan vatnakerfis þeirra felist því fyrst og fremst í mismunandi botngerð. Sé búsvæðum beggja ánna með hliðsjón af því skipt upp í einsleit svæði og framleiðslugildi reiknað fyrir hvert um sig. Ráðist það af því að einsleitum botngerðarflokkum sé gefið ákveðið botngildi, en summa margfeldis á botngildi og botngerð myndi svo framleiðslugildi, sem sé þá um leið mat á gæðum viðkomandi búsvæðis sem hrygningar- og uppeldissvæði fyrir lax. Er Grímsá með hliðsjón af þessu skipt á tíu mislanga kafla frá ósi að Jötnabrúarfossi. Einu þessara svæða (nr. 2) er aftur skipt upp í a- og b- hluta. Mörk svæðanna eru tilgreind, en þau eru ekki dregin með tilliti til landamerkja milli jarða. Er ljóst að uppeldis- og hrygningarskilyrði eru afar misjöfn eftir því til hvaða svæða í ánni er litið. Fá einstök þeirra þá einkunn að framleiðslugildið sé 0,0 (svæði 1 og 7) upp í hæst 31,7 (svæði 10). Önnur svæði eru þar á milli. Tunguá að Englandsfossi er með sama hætti skipt í fjögur svæði, þar sem framleiðslugildi er frá 13,2 (svæði 13) upp í 48,0 (svæði 12). Tunguá ofan Englandsfoss að Lómalæk er skipt í tvö svæði með gildinu 19,6 og 40,4.

Tekið er fram í skýrslunni að Grímsá einkennist mjög af því hversu halli árfarvegarins sé lítill, sem valdi því að áin sé víða mjög lygn og botnefni mjög fíngerð á stórum svæðum. Framleiðslugildi hennar sé því víða lágt. Tunguá fái hins vegar almennt há framleiðslugildi, sem ráðist að mestu af því að halli árfarvegarins sé mun meiri en Grímsár og botnefni þar af leiðandi mun grófari.

Þeim tilmælum var beint til veiðifélagsins að frekari rannsóknir yrðu gerðar á stuttum kafla í Grímsá og öðrum í Tunguá vegna fram kominna athugasemda veiðiréttareigenda. Í svari Veiðimálastofnunar var fallist á athugasemdir eigenda Lundar og Lundarhólma, en ekki Hóls og Tungufells. Þá segir í bréfinu að til upplýsinga fyrir yfirmatsmenn þyki rétt að með fylgi útreikningar á hlutdeild einstakra búsvæða í samræmi við sambærilegar rannsóknir, sem framkvæmdar hafi verið af stofnuninni.

Yfirmatsmenn telja hæfilegt að 255 einingar komi til úthlutunar vegna þessa þáttar. Falla þær til veiðiréttareigenda í Grímsá og Tunguá að Englandsfossi. Skipting þessara eininga tekur mið af því á grundvelli áðurnefndra skýrslna að skilyrði eru mjög misjöfn eftir því til hvaða svæða í ánum er litið. Ræður botngerð og landlengd að einstökum botngerðarflokkum mestu um niðurstöður, en einnig er að nokkru litið til þess að breidd Grímsár er meiri en Tunguár. Tekið er tillit til þess að einstakar jarðir geta átt land að misgóðum svæðum. Hafa yfirmatsmenn stuðst við útreikninga undirmatsmanna við að heimfæra landlengd hvers og eins veiðiréttareiganda að einstökum svæðum í skýrslu Veiðimálastofnunar frá janúar 1998 með breytingum, sem leiðir af endurskoðun á einum kafla í Grímsá, sem skýrslan frá janúar 2000 tekur til. Þá leggja yfirmatsmenn til grundvallar að svæði nr. 10 í Grímsá sé að norðanverðu nokkru betra en skýrsla Veiðimálstofnunar ber með sér vegna sérstaks bakkaskjóls, sem seiði í uppvexti njóta þar af mörgum hólmum er tilheyra Oddsstöðum.

XI.

Aðrir þættir, sem þýðingu hafa við skiptingu arðs.

Enn er ógetið eins atriðis, sem taka verður tillit til við úthlutun arðs. Ofan hins laxgenga hluta Tunguár eru uppeldisstöðvar seiða, sem nýttar hafa verið með seiðasleppingum. Samkvæmt skýrslu Veiðimálastofnunar frá janúar 1998 er neðri hluti þessa svæðis næstbesta uppeldissvæðið á öllu vatnasvæðinu, en efri hlutinn telst einnig allgóður svo sem m.a. kemur fram í rannsóknarskýrslu 1991. Fæðuskilyrði eru góð og rannsóknir sýna að seiði þrífast vel á svæðinu. Samkvæmt skýrslum Veiðimálastofnunar hefur verið sleppt allt að 25 þúsund seiðum árlega á svæðinu og endurheimtur hafa verið allgóðar. Svæðið er því veiðifélaginu verðmætt þrátt fyrir kostnað, sem fylgir seiðakaupum, en kostnaður við þau liggur fyrir í reikningum félagsins. Þykir hæfilegt að úthluta alls 35 einingum til veiðiréttareigenda þar. Falla þær til Englands, Reykja, Gilstreymis og Þverfells. Við skiptingu þessarra eininga er litið til þess, Gilstreymi og Þverfelli til hags, að seiðum er stundum sleppt ofan við Lómalæk, sem markar félagssvæðið. Sérstök úthlutun eininga til svokallaðs Þorbjarnarbletts, sem gerð var í eldri arðskrám, er ekki gerð nú. Hefur stjórn veiðifélagsins lýst þeirri afstöðu sinni að Gilstreymi eigi réttmætt tilkall til þessara eininga, sem áður voru í arðskrármati sérstaklega merktar nefndri landspildu. Telja yfirmatsmenn engin efni til að meta þennan hlut sérstaklega, eins og áður var gert. Var sú afstaða þeirra kynnt eiganda Englands við meðferð málsins.

XII.

Niðurstöður.

Kröfum einstakra veiðiréttareigenda um hlutdeild í arðskrá umfram það, sem leiðir af framangreindum matsaðferðum, er hafnað. Eru þannig ekki efni til að taka til greina sjónarmið eigenda Brennu og Tungufells um úthlutun arðs vegna Grímsár ofan Jötnabrúarfoss eða vegna eldri ráðagerða um að veita vatni úr Reyðarvatni í Tunguá, sem þeir telja að hefði aukið veiði í Tunguá. Er fram komið að svæðið ofan Jötnabrúarfoss hefur ekki verið nýtt lengi til seiðaeldis, en skilyrði til þess munu almennt vera þar léleg.

Veiðifélag Grímsár og Tunguár ber kostnað af mati þessu.

Mat þetta gildir frá 1. janúar 2000. Arðskrá fyrir Veiðifélag Grímsár og Tunguár skal vera, svo sem greinir í XIII. kafla hér á eftir.

XIII.

Arðskrá fyrir Veiðifélag Grímsár og Tunguár.

Jarðir. einingar

1. Hvítárvellir I 25,0

2. Hvítárvellir II 8,7

3. Þingnes 91,8

4. Hestur 115,0

5. Laxfoss (Tvær kirkjur) 20,2

6. Myrkhylur og Smáfossar 2,7

7. Fossatún 21,9

8. Múlakot 47,4

9. Mávahlíð 19,1

10. Gröf I 6,2

  1. Gröf II 9,3
  2. Skálpastaðir 29,9
  3. Kross 13,9
  4. Kistufell 10,2
  5. Arnþórsholt 7,7
  6. Lundur 76,7
  7. Lundarhólmi 25,5
  8. Skarð 46,1
  9. Snartarstaðir 14,9
  10. Gullberastaðir 102,1
  11. Oddsstaðir 48,1
  12. Brautartunga 72,1
  13. Hóll 38,9
  14. Tungufell 12,2
  15. Iðunnarstaðir 32,2
  16. Brenna 36,4
  17. England 25,7
  18. Reykir 23,1
  19. Þverfell 8,0

30. Gilstreymi 9,0

Samtals: 1000,00

 

 

Reykjavík, 25. febrúar 2000

 

_______________________

Gunnlaugur Claessen

________________________ __________________________

Aðalbjörn Benediktsson Sveinbjörn Dagfinnsson

Yfirmatsmenn samkvæmt lögum um lax- og silungsveiði.

 

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum