Hoppa yfir valmynd
7. apríl 2000 Innviðaráðuneytið

Langtímaáætlun í öryggismálum sjómanna

Ráðherra hefur sett af stað vinnu við að gera langtímaáætlun í öryggismálum sjómanna. Samgönguráðuneytið sendi frá sér fréttatilkynningu þessa efnis, sem er birt hér á vefnum í heild sinni.


Langtímaáætlun í öryggismálum sjómanna
fyrsti áfangi er "Öryggisáætlun sjófarenda 2000 til 2005"

Samgönguráðherra Sturla Böðvarsson hefur sett af stað vinnu við að gera langtímaáætlun í öryggismálum sjómanna. Mikilvægt er að taka öryggismál sjómanna til heildarendurskoðunar með það að markmiði að auka vægi þeirra enn frekar og gera allt sem í mannlegu valdi stendur til að fækka slysum til sjós. Reynt verður að horfa fram í tímann til að sjá fyrir hvaða verkefni eru brýnust og hvernig er unnt að koma þeim í framkvæmd. Þriggja manna verkefnisstjórn, sem hélt sinn fyrsta fund 6. mars 2000, mun stjórna verkefninu og er hún skipuð fulltrúum frá samgönguráðuneyti, Siglingastofnun Íslands og Slysavarnafélaginu Landsbjörg.

Sérstakur starfsmaður hefur verið ráðinn til verksins til að safna gögnum, vinna úr tillögum, gera rannsóknir og greina upplýsingar. Verkefni verða metin og þeim forgangsraðað eftir mikilvægi og umfangi. Á þessum grundvelli verða markmið sett og framkvæmdaáætlun gerð til ársins 2005.

Öryggisáætlunin verður unnin í nánu samstarfi við hagsmunaaðila og mun siglinga-ráð, sem skipað er fulltrúum þeirra hagsmunaaðila sem að siglingamálum koma, leggja meginlínurnar í áætluninni. Miðað er við að þingsályktunartillaga verði lögð fram á Alþingi og eftir samþykkt hennar þar mun öryggisáætlunin koma til framkvæmda. Verkefnisstjórn mun síðan fylgjast með framgangi áætlunar, fylgja málum eftir og endurskoða áætlun ef þörf krefur.


Allir áhugasamir hvattir til að senda inn tillögur
Á heimasíðu Siglingastofnunar Íslands www.sigling.is/oryggi2000 er kynning á verkefninu og er öllum sem láta sig öryggismál sjómanna varða gefinn kostur á að koma sjónarmiðum og tillögum að. Verkefnisstjórnin óskar eftir að innsendar tillögur um áherslu- og forgangsverkefni séu flokkaðar sérstaklega eftir forskrift sem sýnd er á heimasíðunni og að þær séu sendar með tölvupósti á netfangið: [email protected]

Allir áhugasamir eru hvattir til að hugleiða og skrá niður hvernig þeir vilja sjá þróunina í öryggismálum á sjó næstu árin, ásamt því að tjá sig um viðhorf, áherslur og tillögur um vægi brýnustu verkefna sem ráðast þarf í. Stefnur og markmið í öryggismálum sem sett verða mótast af þeim svörum sem berast, ásamt annarri undirbúningsvinnu sem verkefnisstjórnin vinnur að.





Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum